Birgir Þór og góða veðrið

Það hefur ´víst aldrei talist góður siður að skrifa greinar um fleira en eitt atriði í einu. En bloggið er eins og gamli útvarpsþátturinn um daginn og veginn. Þar ræddu menn mörg atriði í senn.

Á föstudag kom Birgir litli Þór, barnabarn okkar Elínar, í fóstur. Hann er kominn á 15. mánuð og orkuríkur piltur. Í janúar veiktist hann mjög mikið. Þessi orkuríki piltur, sem byrjaði að ganga áður en hann varð 10 mánaða, gat hvorki gengið né skriðið. Í ljós kom að hann hafði fengið alvarlega sýkingu í bein og varð að gangast undir uppskurð til þess að hægt væri að ná beinsýni til ræktunar. Ýmislegt fleira gekk á í ævi þessa unga manns og máttum við þakka skaparanum fyrir að missa hann ekki. Hann er nú óðum að braggast en vafalaust hefur ónæmiskerfið beðið einhvern skaða a.m.k um stundarsakir vegna lyfjagjafarinnar.

Við fórum með litla stubb á Kaffi París að hitta vinafólk okkar, Guðbjörgu Hildi Kolbeins og Hilmar Bjarnason, en þau höfðu litla dóttur sína með. Einnig var í selskápnum Kristín Helgadóttir, dagskrárgerðarmaður. Hún hefur verið ráðin til þess að leysa af á morgunvakt Rásar 1 í sumar og glöddumst við öll yfir þeim fréttum.

Í dag höfum við notið góða veðursins, hjólað í tvígang og fórum með Hring, hálfbrúður Birgis Þórs að sjá Litla Kláus og stóra Kláus. Hafði piltur hina mestu skemmtan af.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband