Er ástæða til bjartsýni?

Að undanförnu hafa borist fréttir sem auka mér bjartsýni um að ef til vill verði ráðist að rótum þess vanda sem nokkrir fjárglæframenn hafa komið þjóðinni í og þeir hreinlega klófestir. Skýrt hefur verið frá samstarfi íslenskra og breskra stjórnvalda og fleira hefur komið til.

Á sama tíma hafa nokkrir, sem almenningur kallar fjárglæframenn, riðið fram á ritvöllinn og kvartað undan umtali um sig. Hefur þar ýmislegt borið á góma. Ýjað hefur verið að því að heiðarleiki starfsmanna þeirra hafi verið vefengdur, einn stærði sig af að það hefði verið óeðlilegt að greiða tiltekna skuld, enn annar sagðist hafa það ágætt og hafa nóg fyrir sig og sína, þótt fyrirtæki hans skuldi hundruð milljóna og svo mætti lengi telja. Sameiginlegt einkenni þessara skrifa virðist vera firring, jafnvel alger firra.

Áhyggjur mínar jukust hins vegar nokkuð þegar ég hitti forystumann í litlu fyrirtæki sem hefur, starfa sinna vegna, átt mikil samskipti við menn sem reyndu allt til hinstu stundar að fjárfesta í fyrirtækjum sem höfðu hreinan skjöld og buðu of fjár fyrir. Þessi forráðamaður fyrirtækis, sem vildi ekki selja eign sína fyrir of fjár, hélt því fram að kunningjatengsl væru enn slík hér á landi að þeir, sem hefðu réttu samböndin innan bankanna, fengju nokkurn veginn það sem þeir vildu í bönkunum án tillits til eignastöðu eða skulda.

Sé þetta rétt blómstrar klíkuskapurinn sem aldrei fyrr og séra Jóni er gert hærra undir höfði en Jóni. Þótt séra Jón sé með allt niður um sig í fjármálum verður að halda honum og fyrirtæki hans gangandi vegna hagsmuna almennings og þess að hann þekkir einhvern sem kippir í réttu spottana á réttum tíma.

Vonandi eru þessar áhyggjur mínar ekki á rökum reistar og nýtt Ísland í augsýn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband