Hvað er framundan á Mogganum?

Það fer fjöllunum hærra að Davíð Oddsson verði næsti ritstjóri Morgunblaðsins. Það hefur bæði sína kosti og ókosti. Davíð er einn þeirra sem hefur safnað glóðum elds að höfði sér. Hann telur sig eiga ýmislegt sökótt við marga og fjöldi fólks hugsar honum þegjandi þörfina vegna ýmissa mála sem Davíð hefur komið nærri.

Beri Davíð gæfu til að beita sér fyrir áframhaldandi viðleitni Morgunblaðsins til sjálfstæðrar fréttamennsku og greinaskrifa má vel vera að blaðið bíði ekki skaða af. Hann ætti að hafa alla burði til þess enda þaulvanur fjölmiðlamaður og leikur einatt á strengi sem flestum falla vel. Verði hins vegar áhrif hans slík að menn verði hnepptir í spennitreyju skoðanakúgunar verður vart við öðru búist en blaðið fari halloka. Þá verður það enn eitt glappaskot hans.

Á meðan Styrmir gunnarsson var ritstjóri Morgunblaðsins skirrðist hann ekki við að birta skoðanir sínar í leiðurum þess. Hann var ómyrkur í máli um kvótakerfið, studdi innrás Bandaríkjamanna í Írak og fleiri mál mætti nefna sem fóru fyrir brjóstið á mörgum. En Morgunblaðið lagði ýmsum málum lið og var dyggur liðsmaður Öryrkjabandalagsins í baráttunni við stjórnvöld um síðustu aldamót. Þessar áherslur blaðsins á félagsleg þjóðþrifamál hafa verið því til mikils sóma.

fréttaumfjöllun blaðsins var í frjálslyndara lagi á dögum Styrmis og Matthíasar og starfsmönnum ætlað að gæta hlutlægni í fréttamati. Þá eignaðist Árvakur einhvern öflugasta vefmiðil sem um getur norðan Alpafjalla.

Ólafur Þ. Stephensen hefur aldrei farið dult með áhuga sinn á því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Hann gætti þess þó jafnan að umræðan um þessi mál á síðum blaðsins væri í jafnvægi. Ólafi vil ég þakka fyrir að hann gaf mér tækifæri til að starfa á Morgunblaðinu í tvö sumur. Kynntist ég þar besta vinnustað sem ég hef nokkru sinni verið á. Vonandi bera nýir menn gæfu til að þróa þennan vinnustað með þeim mannvæna hætti sem flestir telja að Morgunblaðið sé.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband