Svarta gullið glóir ei

Í dag birtu fjölmiðlar fréttir um að eina sérleyfisumsóknin, sem lögð var fram vegna olíuleitar á Drekasvæðinu, hafi verið tekin aftur. Þar með er ljóst að ekkert verður af tilraunaborunum á næsta ári.

Þegar ég kom til starfa á sunnudagsblaði Morgunblaðsins í fyrra voru mér fengin gögn, sem borist höfðu blaðinu. Voru leiddar líkur að því að ástæða þess að ekki ætti að leita að olíu nær landi en á Drekasvæðinu væri samsæri íslenskra stjórnvalda og þó einkum Össurar Skarphéðinssonar til að tryggja hagsmuni norskra stjórnvalda. Ég las gögnin ítarlega, ræddi við helstu sérfræðinga Íslendinga um olíumál, jarðhitasvæði o.s.frv. og komst að þeirri niðurstöðu að samsæriskenningin ætti ekki við rök að styðjast. Þegar eigandi gagnanna kom og sótti þau voru greinaskrif hafin um málið og tókum við allsnarpa rispu um málið. Virtist mér sem hann væri mér sammála um að samsæriskenningin stæðist vart.

Að undanförnu hefur verið fjallað um það í fréttum að dregið hafi úr fjárfestingum í olíuiðnaði. Sérstaklega var tekið fram að minni líkur væru nú á því að hafist yrði handa að sinni við olíuleit á svæðum sem væru erfið viðureignar og kostnaðarsöm. Þá bætist nú við að fundist hafa nýjar olíulindir í Suður-Ameríku og dregur það enn úr líkum þess að ráðist verði í olíuleit að sinni á norðurslóðum.

Þótt nýjum orkugjöfum vaxi fiskur um hrygg verður olían áfram mikilvæg í ýmiss konar efnaiðnaði. Vel getur farið svo að hún hækki svo í verði að menn telji olíuvinnslu á norðurslóðum arðvæna. Eitt er þó víst. Engin ástæða er til að fá glýju í augu undir eins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband