Fyrsti maí og vefsíðugerð

Við hjónin fórum í kröfugönguna í dag eins og stundum áður. Þar hittum við slangur af kunningjum og fólki sem við höfðum ekki séð langalengi. Sitthvað bar á góma. Ég var með Nagra Ares-M meðferðis og hugðist gera hljóðmynd af kröfugöngunni. Eitthvað varð til þess að einungis eitt viðtal varðveittist og allt hitt fór forgörðum. Ég verð að athuga hvað veldur þessu. Ég gerði nokkrar tilraunir eftir að ég kom heim til þess að framkalla sömu aðstæður en árangurslaust.

Um kvöldmatarleytið hringdi Emil Bóasson frá Íþöku, en þar er hann aðstoðarprófessor. Rifjaði hann upp söguna af því þegar okkur tókst árið 1984 að tengja PCM blindraleturstölvu af tegundinni VersaBraille við BBC tölvu þannig að hún, þ.e. blindratölvan, svínverkaði sem tölvuskjár. Var þetta ótrúlegt. Ég gat skoðað hina frumstæðu ritvinnslu í BBC tölvunni o.fl. Var þetta talsvert afrek því að framleiðandinn hafði reynt nokkuð í þessum efnum. En viti menn! Af einhverjum ástæðum glutruðum við niður sambandinu á milli vélanna og tókst þetta aldrei framar.

Ég ræddi við Emil um atvinnumál mín og þá niðurstöðu mína að það væri mér nokkur fjötur um fót að kunna lítil skil á umsjón með vefsíðum. Emil kennir vefsíðugerð og tók sig til í framhaldi af samtalinu og sendi mér kennsluefni um vefsíðugerð. Nú er eftir að vita hvort ég geti hagnýtt mér þetta efni. Ég er með allt sem til þarf, skjálesara, talgervil og blindraletursskjá. Fer í þetta um leið og sér fyrir endann á gerð þáttarins um Sigurgeir Sigurðsson, fyrrum bæjarstjóra.

Helena Björnsdóttir, vinkona mín í Noregi, sagði mér í gær frá könnun sem gerð var þar í landi á viðhorfum atvinnuveitenda til blindra. Þar vilja menn heldur ráða dæmda sakamenn til starfa en blint, vel menntað fólk, því að þeir treysta ekki á færni hinna blindu. Á námskeiði, sem ég sótti árið 1980, var mönnum ráðlagt að sýna atvinnuveitendum fram á færni sína. Mér hefur ekki gefist kostur á því síðustu ár enda svo sem ekki þurft á því að halda. Það vekur þó furðu mína að mér skuli aldrei hafa verið treyst til að fást við meira en gerð einstakra þátta hjá Ríkisútvarpinu. Undantekning er þáttaröðin Eyjapistill og Snerting sem við bræður sáum um árin 1973 - 1974 og 1982 - 1986. En fast starf hefur aldrei komið til greina. Hið sama er með dagblöðin. Hér á árum áður fékk ég aldrei vinnu sem blaðamaður á dagblöðum þótt allar aðstæður hefðu átt að vera fyrir hendi. Árið 1998 lauk ég prófi í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands og var eini nemandinn sem fékk hvorki sumarstarf hjá útvarpi né dagblöðum. Þetta er enginn bölmóður heldur staðreyndir.
Orð hefur verið haft á að tölvutæknin hafi létt blindu fólki lífið á margan hátt. Víst er að það hefur gerst í námi og í einkalífi þess. En hér á landi virðist hún enn hafa haft lítil áhrif á atvinnumál blindrs fólks. Hjá Öryrkjabandalagi Íslands nýttist mér tölvutæknin til hins ítrasta. Ég þurfti sáralitla aðstoð ritara og nú eru ýmis gögn sem snerta stjórnsýsluna aðgengileg á tölvutæku sniði. Það var hins vegar ekki talið duga, því að rýma þurfti fyrir ófötluðum framkvæmdastjóra. Ekkert annað starf var í boði.
En einhvern tíma hlýtur Eyjólfur að hressast. Við erum ekkert gustukafólk og atvinnurekendur munu ekki tapa á því að ráða ýmis okkar til starfa. Með aukinni menntun blindra og vaxandi (vonandi) víðsýni í þjóðfélaginu hlýtur þetta að hafast.
Lífið er barátta, sagði Mao formaður. Það verða lokaorð á degi verkalýðsins og þau skrifar undirritaður með sólskin í hjarta og bros á vör.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband