Sjálfstæðismenn sagðir á flótta undan réttvísinni

Í dag birtir DV harða gagnýrni þeirra Þórólfs Matthíassonar og Þorvalds Gylfasonar á nýjar tillögur þingmanna Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum. Telur Þórólfur tillögurnar um skattlagningu á lífeyrisiðgjöld í reynd ekki skapa neinar nýjar tekjur og færir fyrir þeirri skoðun sinni ákveðin rök.

Þorvaldur gagnrýnir eða furðar sig á andstöðu sjálfstæðismanna við að eiga nokkurt samstarf við AGS og veltir fyrir sér hvort sjálfstæðismenn ætli að koma sér hjá rannsókn á þætti sínum í bankahruninu í fyrra.

Þá er einnig afar athyglisverð fréttaskýring Jóhanns Haukssonar á helmingaskiptum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks á meðan þeir Halldór og Davíð réðu ríkjum og hvaða afleiðingar hún hafði. Er þar m.a. minnst á brottrekstur forstjóra, lög um að leggja niður starfsemi Efnahagsstofnunar sem þóknaðist ekki Davíð og sitthvað fleira. Einnig er greint frá "nótt hinna löngu bréfahnífa" og uppskiptum íslenska fjármálamarkaðarins.

DV virðist hafa tekið forystuna í gagnrýnni umfjöllun um íslensk efnahags- og stjórnmál á meðan svo lítur út sem Morgunblaðið hafi beðið alvarlegan álitshnekki.

Eftir hádegi reyndi ég árangurslaust að ná í áskriftadeild DV símleiðis. Ég gafst upp eftir langa bið. Ástandið þar á bæ var svipað því sem ríkti á áskriftadeild Morgunblaðsins daginn eftir að nýju ritstjórarnir tóku við. Ástæðan hefur þó líklega verið önnur. Eigendur Árvakurs geta samt glaðst því að stækkandi upplag DV þýðir meiri tekjur fyrir Landsprent.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband