Mál Öryrkjabandalags Íslands gegn stjórnvöldum

Sjónvarpið greindi frá því í kvöld að málflutningur hefði verið í dag í máli Öryrkjabandalags Íslands gegn stjórnvöldum. Það fór þá svo að ríkislögmaður krefðist frávísunar.

Ég hef ekki séð málatilbúnað ríkislögmanns. Mér þykir þó frávísunin benda til þess að hann treystist ekki til þess að verja svik ríkisstjórnarinnar í málinu. En um hvað snerist þetta allt saman?

Öryrkjabandalag Íslands þvingaði á sínum tíma tryggingamálaráðherra og forsætisráðherra að samningaborðinu eftir að samskiptabann hafði ríkt gagnvart stjórnvöldum í nokkurn tíma. Var þá dustað rykið af tillögu sem Garðar Sverrisson hafði flutt á aðalfundi Öryrkjabandalagsins árið 1998 þar sem gert var ráð fyrir hækkun örorkulífeyris til þeirra sem yrðu ungir öryrkjar þannig að grunnlífeyrinn hækkaði hlutfallslega mest hjá þeim. Hækkun grunnlífeyrisins fór síðan stig lækkandi eftir því sem menn voru metnir eldri og náðist þannig ákveðinn jöfnuður. Útfærðar voru síðan ákveðnar reglur sem samkomulag varð um.

Á þessari síðu mun ég ekki að sinni útlista hvernig þessar reglur voru nákvæmlega hugsaðar en bæði embættismenn og Jón Kristjánsson vissu vel um hvað málið snerist. Síðan, þegar til kastanna kom og lagafrumvarp var samið, var horfið frá því að fylgja þeim viðmiðum sem samið hafði verið um og því borið við að frumvarpið væri kostnaðarsamara en ráð hafði verið fyrir gert.

Þetta er ekki að öllu leyti rétt. Hitt mun sannara að Hvorki Jón Kristjánsson né Halldór Ásgrímsson hafi haft einurð til þess að segja sjálfstæðisráðherrunum allan sannleikann og því fór sem fór.

En það breytir þó ekki því að standa ber við gerða samninga enda hefur Jón viðurkennt á Alþingi í votta viðurvist að ekki hefði verið að fullu staðið við samkomulagið. Öll gögn um þetta hafa verið lögð fram og ekki er hægt að efast um sannleiksgildi þeirra.

Halldór yrði maður að meiri ef hann bryti odd af oflæti sínu og hyggi á þennan hnút. Ef til vill fengi hann eitthvað fleiri atkvæði í næstu kosningum. Varla gerir Öryrkjabandalagið sérstakt heiðursmannasamkomulag um að láta ríkisstjórnarflokkana í friði fyrir næstu kosningar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband