Ísland á iði

Eins og margur veit eigum við hjónin tveggja manna hjól af tegundinni Thorn. Hjólið fékk ég frá minni heitt elskuðu í fimmtugs afmælisgjöf og er það sérstaklega hannað handa henni. Skýringin er sú að yfirleitt hjólar sá sem er hærri vexti að framan en ég er hærri en hún og er háseti hjá henni. Hringur, eldra barnabarn okkar, hefur yfirleitt fengið að vera með í ráðum um nafngiftir á farartækjum okkar. Áður áttum við Orminn langa. Hringur vissi að það var eitt sinn herskip Ólafs Tryggvasonar og að afa þætti vænt um skipið Skaftfelling. Stakk hann þá upp á því að hjólið nýja yrði látið heita Skaftfellingur en afi vildi láta það heita Stíganda. Það þótti Hring ekki nógu gott og sagði að það skyldi þá heita Ormurinn blái.

Nú er Ísland á iði og hjólar Elín til vinnu þegar hún fær því við komið. Hún er svo almennileg að bjóða mér með þótt hún eigi sjálf prýðis DBS-hjól og þigg ég það með þökkum. Elín vinnur í Öskjuhlíðarskóla en þar hefur nokkur hópur fólks látið skrá sig í Íslandsiðið. Á þriðjudaginn verður boðið til morgunverðar suður í Hafnarfirði og mér er sérstaklega boðið sem háseta á Orminum bláa. Morgunverðurinn hefst kl. 6 árdegis og þaðan verður hjólað til vinnu. Veðurspáin er góð. Í gær fórum við með Orminn að láta setja undir hann sumarhjólbarðana. Við sóttum hann í dag. Hvílíkur munur!

Við eignuðumst fyrra tveggja manna hjólið árið 1993 og Orminn bláa árið 2002. Fyrst frétti ég af Thorn hjólum þegar ég leitaði að hjóli til leigu í Skotlandi árið 1997. Fann ég þá heimasíðu Robins Þorn þar sem greint var frá sigri tveggja manna hjóls sem hann hafði smíðað. Keppnin var haldin í Frakklandi og var hjóluð 1200 km leið og hjóluðu menn svo lengi sem þeir orkuðu. Hvíldu þeir sig á milli. Eitt sinn þegar áhöfnin á Thorn-hjólinu var á ferð eftir frönskum þjóðvegi í tunglsljósi birtist allt í einu maður á miðjum veginum. Hann sat við flygil og lék rómantíska tónlist. Stýrimaðurinn snarhemlaði til þess að rekast ekki á flygilinn og þeir, hásetinn og hann, lentu ofan í skurð. Stýrimaður hafði með öðrum orðum sofnað undir stýri og dreymt svona vel.
Í pistli mínum um daginn gaf ég upp afar athyglisverða bloggsíðu Helenu Björnsdóttur, sem lærir nú að nýta sér leiðöguhund úti í Noregi. Slóðin er
http://fonix.blog.is
Einnig skal leiðréttur titill míns góða vinar, Emils Bóassonar, en hann er lektor við Háskólann í Íþöku í Bandaríkjunu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband