Enn um hegðun meintra hjólreiðagarpa

Ég varð fyrir óþægilegri reynslu í gær, miðvikudaginn 13. ágúst.

Í gær gekk ég meðfram Kaplaskjólsvegi og heyrði að á móti mér kom þjótandi hjólreiðamaður. Ég taldi augljóst að hann hlyti að víkja, en það gerði hann ekki heldur lenti með framhjólið á hvíta stafnum og þeyttist út á götu. Hann datt sem betur fer ekki en sendi mér tóninn og ég svaraði því að hann þyrfti að gæta að hvar hann færi.

Þetta er enn eitt dæmið um makalausa ósvífni hjólreiðamanna á gangstéttum sem fólk hefur einnatt greint frá og ég hef nokkrum sinnum orðið fyrir.
Það virðist vera að gangandi vegfarendum, jafnt blindum sem óblindum, sé lengur varla fritt á gangstéttum og stígum höfuðborgarsvæðisins þar sem allt of margir hjólreiðamenn skeyta engu um merkingar og viðurkenndan rétt gangandi fólks.

Ég geng stundum mér til ánægju um þriggja km leið frá heimili mínu eftir Suðurmýri, norður Grænumýri, um Frostaskjól, meðfram KR-vellinum að Grandavegi út á Meistaravelli og þaðan út á Kaplaskjólsveg. Eftir honum fer ég að gatnamótum Nesvegar og enda svo við heimili mitt um 800 m fyrir vestan gatnamótin.

Þegar ég hætti mér út á Seltjarnarnes og geng hringinn þýtur hjólreiðafólk framhjá án þess að gera vart við sig. Þeir sem nota bjöllu til að gera gangandi fólki viðvart virðast í miklum minnihluta.
Hið sama er um göngu- og hjólreiðastíginn meðfram Ægisíðunni. Þar hjóla margir á göngustígnum og virða engar merkingar.
Þeir sem þannig hegða sér koma óorði á þá sem virða gildandi reglur.


Yfirgangur og skeytingarleysi í hópi hraðhjólamanna

Í fjölmiðlum hefur að undanförnu borið á kvörtunum vegna hegðunar þeirra sem stunda kappreiðar á reiðhjólum. Samkvæmt dagbókum lögreglunnar í Reykjavík berast á hverjum degi ábendingar um yfirgang þeirra gegn gangandi vegfarendum á göngu- og hjólreiðastígum.
Því miður er það reynsla undirritaðs að þessar kvartanir eigi rétt á sér. Sjálfsagt er þetta lítill hópur, en hann setur óneitanlega svartan blett á þá sem vilja njóta þess að bregða sér á bak hjólhesti sínum. Þegar vakin er athygli þeirra á yfirganginum er gjarnan svarað með skætingi og háðsyrðum
Um verslunarmannahelgina höfum við hjónin farið um höfuðborgarsvæðið á tveggja manna hjóli. Sunnudaginn 5. ágúst fóru nokkrir hjólreiðamenn fram úr okkur án þess að vara okkur við með bjöllu.
Í dag vorum við á ferð um hjólreiðastíginn við Ægisíðu og þegar við beygðum inn á suðurgötustíginn brussuðust þrír hraðhjólamenn fram úr okkur, þar af tveir á hægri hönnd. Engin bjalla notuð. Síðan bitu þeir höfuðið af skömminni með því að fara niður á göngustíginn og héldu þar áfram þrátt fyrir merkta hjólreiðaleið.
Auk þessa mættum við fjölda hjólreiðamanna sem þutu áfram á hraðhjólum sínum og enginn þeirra virtist vera með bjöllu.

Í raun er löngu kominn tími til að lögreglan fari að hafa eftirlit með umferð á hjólreiðastígum og reyni með einhverju móti að lægja þennan yfirgang hraðhjólreiðamanna.

Að lokum skal einnig bent á þá hættu sem skapast þegar foreldrar sleppa ungum börnum sínum út á hjólreiðastígana án eftirlits. Eitt sinn gerðist það að á undan okkur fór 8-9 ára drengur á hjóli. Þegar hann var beðinn að víkja svo að við kæmumst framhjá honum hófst hann handa við að hjóla á undan í krákustígum og það var ekki fyrr en eftir hvassa ábendingu að hann lét undan og sveigði til hægri.

Höfundur er áhugasamur um hjólreiðar og aðrar vistvænar samgöngur.

Í lokin skal tekið fram að mikill meirihluti hjólreiðafólks sýnir tillitssemi, en það virðist orðin len ska á meðal hraðhjólara að vaða áfram og gefa aldrei merki með bjöllu. Sagt er að bjallan þingi svo hjólin að hún dragi úr hraða þeirra!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband