Færsluflokkur: Bloggar

Páskar á Kirkjubæjarklaustri

Á fimmtudaginn var héldum við hjónin austur í Ölvus og nutum þar góðrar fermingarveislu. Aðalrétturinn var íslensk kjötsúpa að beiðni fermingarbarnsins. Þaðan renndum við austur á Kirkjubæjarklaustur og dvöldumst þar fjórar nætur á hóteli staðarins.

Föstudaginn langa fórum við á samkomu til minningar um Jón Steingrímsson, eldklerk og laugardeginum eyddum við að mestu í skoðunarferð um Álftaver og Skaftártungur undir leiðsögn Jóns Helgasonar. Um kvöldið nutum við tónleika Kirkjukórs Prestbakkakirkju og hlýddum síðan messu þar á Prestbakka daginn eftir.

Óhætt er að segja að við höfum notið lífsins um páskana. Bæði var andlegur viðurgerningur hinn besti og matseldin á Hótel Klaustri spillti svo sannarlega ekki fyrir. Þá nutum við kyrrðarinnar um nætur og hvenær sem næði gafst umlukti þögnin okkur, þessi dýrmæta þögn sem allt of lítið er af í samfélagi hraða og ónæðis.

Í gær, sunnudag, heimsóttum við aldinn öðling, Vilhjálm Eyjólfsson á Hnausum í Meðallandi, en þar var Elín, kona mín, í sveit sem stúlkukorn. Vilhjálmur er margfróður og hefur kynnt sér ýmislegt um staðhætti og sögu byggðarlagsins. Var hann löngum fylgdarmaður Sigurðar Þórarinssonar, jarðfræðings, þegar hann rannsakaði Eldhraunið og fleiri vísindamönum hefur hann orðið innanhandar. Fyrir nokkru færði Vilhjálmur rök fyrir því að skammt frá Hnausum megi finna mannvistarleyfar sem eru mun eldri landnáminu, jafnvel svo að nemi um 1000 árum. Miðar Vilhjálmur þetta við öskulög og hraunlag sem vitað er um aldur á. Nokkrir íslenskir fræððimenn hafa skoðað þessar mannvistarleifar og væri forvitnilegt að gerðar yrðu ráðstafanir til þess að kanna þetta frekar.


Umönnun aldraðra og öryrkja og ríkjandi viðhorf

Í gær var greint frá því að boðuðu setuverkfalli starfsfólks á heimilum aldraðra hefði verið frestað og væru nú hafnar samningaviðræður á miloli fyrirtækja í öldrunarþjónustu og Eflingar.

Það er sannast sagna að kjör almennra starfsmanna á elliheimilum hafa verið með ólíkindum og í engu samræmi við eftirspurn. Vitað er að þörf fyrir hjúkrun aldraðra fer vaxandi á næstu árum og því hlýtur að skapast eftirspurn eftir hæfu starfsfólki til þess að sinna þessum störfum. Samkvæmt röksemdum einkavæðingarsinna og þeirra sem aðhyllast óhefta markaðsvæðingu er rétt að eftirspurn ráði sem mestu um kaup og kjör. Sumar stéttir hafa haft betra lag á því en aðrar að gera sig svo mikilvægar í þjóðfélaginu að ekkert stenst kaupkröfur þeirra. Má þar m.a. nefna kerfisfræðinga. Af þeim er orðið ærið nóg í íslensku samfélagi, en aukið framboð þeirra virðist lítil áhrif hafa á verðlagningu þjónustunnar.

Þau viðhorf, sem ríkjandi eru í garð þeirra sem annast aldraða, hafa einnig verið ríkjandi í garð þeirra sem vinna að málefnum fatlaðra. Þannig er nú iðulega auglýst eftir aðstoðarfólki á sambýli og til liðveislu án þess að séð verði að auglýsingarnar beri tilætlaðan árangur.

Í því samfélagi, sem óðum hefur þróast á Vesturlöndum undanfarna áratugi og tekur mið af þjónustu, hljótum við að hugsa okkar gang og spyrja hvert við viljum stefna. Er lengur hægt að neita því að þeim, sem annast foreldra okkar vegna þess að einyrkjasamfélag nútímans veitir okkur ekki aðstöðu til þess, beri mannsæmandi laun fyrir störf sín? Enginn ráðamaður vill taka ábyrgð á þessu nema þá helst Siv, sem sýnir einhverja tilburði. Forsætisráðherra segir: Ekki Ég. Fjármálaráðherra segir: Ekki ég.

Vonandi verður samið um launahækkun handa ófaglærðu starfsfólki á elliheimilum og reynt að búa svo um hnútana að það geti bætt kjör sín með sértækri menntun á því sviði sem það starfar við.

Gleðilega páskahátíð öllum þeim sem lesa þennan pistil


Nokkur orð um aðgengi

Í gær fór eg í sund ásamt konu minni og þremur sveinum sem voru hjá okkur í fóstri. Fyrir valinu varð sundlaugin í Laugadal þar sem Seltjarnarneslaugin er lokuð vegna viðgerða.

Tvennt vakti einkum athygli mína sem snertir aðgengi. Nú fá menn í hendur kort sem lykil að fataskápum. Ekkert auðkenni er á kortinu sem sýnir hvernig kortið eigi að snúa svo að þeir, sem eru sjóndaprir eða blindir þurfa að reiða sig á aðstoð til þess að geta læst skápum sínum. Þá eru engar uppleyptar merkingar á skápunum. Hér er um tvö, afar einföld atriði að ræða sem hægt er að laga án teljandi kostnaðar.

Ég hef lengi haft áhuga á hugtakinu aðgengi í sinni víðustu merkingu. Um margra ára skeið hef ég beitt mér fyrir auknu aðgengi að upplýsingasamfélaginu. Það verður að segjast sem er að talsverðuhefur verið áorkað í þeim efnum. Er það einkum að þakka miklum áhuga vefhönnuða og bættum veftólum. Þá hafa framleiðendur hugbúnaðar fyrir blinda og sjónskerta tekið mið af ábendingum sem komið hafa frá Íslandi, en náið samband notenda hér á landi við vefhönnuði veitir okkur mikla sérstöðu í heiminum.

Víða vantar þó talsvert á aðgengi að heimasíðum. Þar með missa fyrirtæki og stofnanir að viðskiptum við ákveðinn hóp fólks og þessum hópi er jafnframt gert erfitt um vik að fóta sig í samfélaginu. Auðvitað á stefnan að vera AÐGENGI FYRIR ALLA EN EKKI SUMA.

Lifi baráttan!


Fyrsta færslan

Ég ákvað að skrá mig sem bloggara hjá Morgunblaðinu til þess að kanna hvort þessi tækni væri aðgengileg blindu fólki. Eftir nokkrar hremmingar virðist svo sem þetta ætli að takast. Ég hef að vísu engar tilraunir gert til þess að stjórna útlitinu. Ég valdi liðinn stjórnmál og þjóðfélagsmál því að þar rúmast flest sem ég hef áhuga á. Kannski ætti ég að stofna aðra síðu um tölvumál.

Í gær barst mér glaðningur frá Tryggingastofnun ríkisins. Ég sótti um starf þjónustufulltrúa í þjónustuveri stofnunarinnar en var hafnað, eftir því sem sagt var, að undangengnu mati á umsækjendum. Mér var hvorki boðið í atvinnuviðtal né leitað upplýsinga um hæfni mína. Mér þótti þetta leitt og íhuga nú að leita réttar míns gagnvart stofnuninni á grundvelli laga um málefni fatlaðra. Velti því fyrir mér hvort það sé ekki rétt hópsins vegna.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband