Færsluflokkur: Bloggar
Í dag var ég boðaður í atvinnuviðtal hjá Hagvangi. Bjóst ég við um 15 mínútna viðtali en samtalið stóð tæpa klukkustund.
Spurt var ýmissa almennra spurninga og ýmislegt vildu þau forvitnast um sem snerti sjálfan mig. M.a. lék þeim forvitni á að vita hvernig ég læsi af netinu, tölvupóst o.s.frv. Ég hafði meðferðis fartölvu og gat sýnt þeim hvernig talgervill nýtist.
Fulltrúar Hagvangs verkuðu fremur vel á mig og þessi ungmenni voru með afar alúðlegt viðmót. Ef til vill hef ég farið óþarflega geist í sakirnar stundum, en það er nú einu sinni mitt eðli.
Ég var beðinn um álit á sjálfum mér og sagðist ég hafa heyrt að ég væri álitið mikið hörkutól. Tók fulltrúi Hagvangs undir það og taldi mig hafa skapað þessa ímynd af mér í fjölmiðlum. Mér sem hefur alltaf fundist ég svo mildur maður!. En sitt sýnist hverjum og enginn ætti að dæma um sjálfan sig.
Nú er bara að bíða og biðja.
Bloggar | 11.5.2006 | 14:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 9.5.2006 | 19:12 (breytt kl. 19:16) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í gær síðdegis fórum við hjólandi út í Nauthólsvík og fengum okkur kaffi á Nauthóli. Okkur þykir gott að koma þangað og veitingar yfirleitt góðar. Í gær var þar margt um manninn og gekk afgreiðsla afar seint. Við pöntuðum okkur sína ristuðu brauðsneiðina hvort og eina tertusneið sem við skiptum á milli okkar. Drukkum við sinn bollann af kaffi hvort.
Þegar við skoðuðum reikninginn í kvöld kom í ljós að herlegheitin höfðu kostað 2100 kr eða 1050 kr á mann.
Alveg blöskrar mér verðlagning sumra íslenskra veitingamanna. Jafnvel Noregur, sem hefur þó verið talið dýrasta land Evrópu, kemst ekki í samjöfnuðð við okkur. Í gær var framleiðslan öll í skötulíki á Nauthóli vegna fólksfjöldann. Engin undirskál var undir bollanum og ristaða brauðið var borið fram á einum diski handa okkur. Fleira hefði mátt finna að framreiðslunni.
Ég vona að einhver veki athygli veitingamannsins, sem ég hélt að væri sannkristinn heiðursmaður, á þessu okri og hvet fólk til þess að gæta vel að verðlaginu áður en fjárfest er í veitingum á þessum stað.
Í dag buðum við sonarsyni Elínar, Hring Árnasyni, föður hans og eiginkonu ásamt tveimur frændsystkinum Hrings í Borgarleikhúsið að sjá ronju ræningjadóttur. Skemmtu börn og fullorðnir sér konunglega. Aldrei þessu vant sofnaði ég ekki fyrir hlé eins og vant er þegar ég fer á leiksýningar. Textinn er svo samfelldur í sýningunni að ég naut hennar og leikmyndin og allt sem fylgir nútíma leiksýningum truflaði mig ekki.
Fyrir nokkrum árum hlustaði ég einu sinni sem oftar á leiklistargagnrýni í þættinum víðsjá í Ríkisútvarpinu. Þar var því blákalt haldið fram að leikhúsið væri ekki lengur eingöngu miðill orðsins heldur hefði orðið að hluta gengið sér til húðar og laða þyrfti fólk að með myndrænum tilþrifum. Þótti mér þetta afleit fullyrðing þótt varalítið hafi höfundur pistilsins haft nokkuð til síns máls. Eitt er víst að menn hafa gripið til ýmissa örþrifaráða til þess að túlka boðskap leikrita með sjónrænum hætti. Eru mér sérstaklega minnisstæðar sýningar á leikritum Tsékovs, en hann finnst mér hafa skrifað einna leiðinlegust leikrit allra leikskálda sem ég hef kynnst. Mávurinn er þó einna skástur. Það er sameiginlegt flestum persónum í leikritum hans að þeim leiðist og það svo mikið að boðskapurinn kemst vart til skila. En það er í tísku að halda upp á Gsjekov og þess vegna hafa fáir orð á þessu. Það gladdi því mitt gamla hjarta þegar ónefndur vinur minn, sem er áberandi sjálfstæðismaður og þjóðþekktur, sagðist hafa laumað sér út af einni frumsýningunni á leikverki eftir Tsjekov vegna þess að honum leiddist svo. Konan neitaði að koma með honum og neyddist hann til að hýma á tröppum Þjóðleikhússins í kulda og trekki þar til sýningunni lauk. Þessi gáfumaður telst þó einn af listamönnum þjóðarinnar.
Eftir leikhúsið fórum við suður í Hafnarfjörð hjólandi til sonar Elínar og eiginkonu, Árna Birgissonar og Elfu Hrannar Friðriksdóttur. Vorum við 52 mínútur að hjóla þessa rúma 15 km. Við fórum sem leið lá eftir göngustígnum meðfram Ægisíðunni út í Nauthólsvík, beygðum niður fyrir kirkjugarð og suður eftir meðfram Kringlumýrarbraut. Við fórum ýmsar krókaleiðir upp að Gerðarsafni og síðan niður með Kópavogshæli. Þar er enn verið að ganga frá göngustíg og er undirlagið svo ójafnt að vart er vinnandi vegur að hjóla þetta heldur verður að leiða reiðhjólið. Við hefðum getað sloppið við þessar ógöngur hefðum við farið fyrir Kársnesið, en það er þremur km lengri leið. Þarna liggja göngustígar í krákustígum og víða krappar beygjur. Oft hef ég velt því fyrir mér hvort þeir sem hanna göngu- og hjólaleiðir hér á höfuðborgarsvæðinu, gangi eða hjóli sjálfir. Þótt margt hafi verið vel gert er sumt með þeim ólíkindum að hvern mann undrar sem nýtir sér þessi samgöngumannvirki. Þá silast framkvæmdir áfram á hraða snigilsins og þurfa menn lengi að bíða eftir hverri úrbót.
Suður í Hafnarfirði átum við heilsteikt lamb og gerði ég það fyrir tengdadóttur mína að borða meira en ég hafði gott af. Birgir litli Þór var dálítið uppivöðslusamurn en foreldrar hans tóku í taumana. Þessi tæplega 15 mánaða gamli snáði er orkuríkur og fylginn sér. Honum fer ört fram og á fimmtudaginn var sagði hann í fyrsta skiptið Afi! og margendurtók þetta orð.
Bloggar | 7.5.2006 | 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eins og margur veit eigum við hjónin tveggja manna hjól af tegundinni Thorn. Hjólið fékk ég frá minni heitt elskuðu í fimmtugs afmælisgjöf og er það sérstaklega hannað handa henni. Skýringin er sú að yfirleitt hjólar sá sem er hærri vexti að framan en ég er hærri en hún og er háseti hjá henni. Hringur, eldra barnabarn okkar, hefur yfirleitt fengið að vera með í ráðum um nafngiftir á farartækjum okkar. Áður áttum við Orminn langa. Hringur vissi að það var eitt sinn herskip Ólafs Tryggvasonar og að afa þætti vænt um skipið Skaftfelling. Stakk hann þá upp á því að hjólið nýja yrði látið heita Skaftfellingur en afi vildi láta það heita Stíganda. Það þótti Hring ekki nógu gott og sagði að það skyldi þá heita Ormurinn blái.
Nú er Ísland á iði og hjólar Elín til vinnu þegar hún fær því við komið. Hún er svo almennileg að bjóða mér með þótt hún eigi sjálf prýðis DBS-hjól og þigg ég það með þökkum. Elín vinnur í Öskjuhlíðarskóla en þar hefur nokkur hópur fólks látið skrá sig í Íslandsiðið. Á þriðjudaginn verður boðið til morgunverðar suður í Hafnarfirði og mér er sérstaklega boðið sem háseta á Orminum bláa. Morgunverðurinn hefst kl. 6 árdegis og þaðan verður hjólað til vinnu. Veðurspáin er góð. Í gær fórum við með Orminn að láta setja undir hann sumarhjólbarðana. Við sóttum hann í dag. Hvílíkur munur!
Við eignuðumst fyrra tveggja manna hjólið árið 1993 og Orminn bláa árið 2002. Fyrst frétti ég af Thorn hjólum þegar ég leitaði að hjóli til leigu í Skotlandi árið 1997. Fann ég þá heimasíðu Robins Þorn þar sem greint var frá sigri tveggja manna hjóls sem hann hafði smíðað. Keppnin var haldin í Frakklandi og var hjóluð 1200 km leið og hjóluðu menn svo lengi sem þeir orkuðu. Hvíldu þeir sig á milli. Eitt sinn þegar áhöfnin á Thorn-hjólinu var á ferð eftir frönskum þjóðvegi í tunglsljósi birtist allt í einu maður á miðjum veginum. Hann sat við flygil og lék rómantíska tónlist. Stýrimaðurinn snarhemlaði til þess að rekast ekki á flygilinn og þeir, hásetinn og hann, lentu ofan í skurð. Stýrimaður hafði með öðrum orðum sofnað undir stýri og dreymt svona vel.
Í pistli mínum um daginn gaf ég upp afar athyglisverða bloggsíðu Helenu Björnsdóttur, sem lærir nú að nýta sér leiðöguhund úti í Noregi. Slóðin er
http://fonix.blog.is
Einnig skal leiðréttur titill míns góða vinar, Emils Bóassonar, en hann er lektor við Háskólann í Íþöku í Bandaríkjunu.
Bloggar | 3.5.2006 | 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við hjónin fórum í kröfugönguna í dag eins og stundum áður. Þar hittum við slangur af kunningjum og fólki sem við höfðum ekki séð langalengi. Sitthvað bar á góma. Ég var með Nagra Ares-M meðferðis og hugðist gera hljóðmynd af kröfugöngunni. Eitthvað varð til þess að einungis eitt viðtal varðveittist og allt hitt fór forgörðum. Ég verð að athuga hvað veldur þessu. Ég gerði nokkrar tilraunir eftir að ég kom heim til þess að framkalla sömu aðstæður en árangurslaust.
Um kvöldmatarleytið hringdi Emil Bóasson frá Íþöku, en þar er hann aðstoðarprófessor. Rifjaði hann upp söguna af því þegar okkur tókst árið 1984 að tengja PCM blindraleturstölvu af tegundinni VersaBraille við BBC tölvu þannig að hún, þ.e. blindratölvan, svínverkaði sem tölvuskjár. Var þetta ótrúlegt. Ég gat skoðað hina frumstæðu ritvinnslu í BBC tölvunni o.fl. Var þetta talsvert afrek því að framleiðandinn hafði reynt nokkuð í þessum efnum. En viti menn! Af einhverjum ástæðum glutruðum við niður sambandinu á milli vélanna og tókst þetta aldrei framar.
Ég ræddi við Emil um atvinnumál mín og þá niðurstöðu mína að það væri mér nokkur fjötur um fót að kunna lítil skil á umsjón með vefsíðum. Emil kennir vefsíðugerð og tók sig til í framhaldi af samtalinu og sendi mér kennsluefni um vefsíðugerð. Nú er eftir að vita hvort ég geti hagnýtt mér þetta efni. Ég er með allt sem til þarf, skjálesara, talgervil og blindraletursskjá. Fer í þetta um leið og sér fyrir endann á gerð þáttarins um Sigurgeir Sigurðsson, fyrrum bæjarstjóra.
Helena Björnsdóttir, vinkona mín í Noregi, sagði mér í gær frá könnun sem gerð var þar í landi á viðhorfum atvinnuveitenda til blindra. Þar vilja menn heldur ráða dæmda sakamenn til starfa en blint, vel menntað fólk, því að þeir treysta ekki á færni hinna blindu. Á námskeiði, sem ég sótti árið 1980, var mönnum ráðlagt að sýna atvinnuveitendum fram á færni sína. Mér hefur ekki gefist kostur á því síðustu ár enda svo sem ekki þurft á því að halda. Það vekur þó furðu mína að mér skuli aldrei hafa verið treyst til að fást við meira en gerð einstakra þátta hjá Ríkisútvarpinu. Undantekning er þáttaröðin Eyjapistill og Snerting sem við bræður sáum um árin 1973 - 1974 og 1982 - 1986. En fast starf hefur aldrei komið til greina. Hið sama er með dagblöðin. Hér á árum áður fékk ég aldrei vinnu sem blaðamaður á dagblöðum þótt allar aðstæður hefðu átt að vera fyrir hendi. Árið 1998 lauk ég prófi í hagnýtri fjölmiðlun frá Háskóla Íslands og var eini nemandinn sem fékk hvorki sumarstarf hjá útvarpi né dagblöðum. Þetta er enginn bölmóður heldur staðreyndir.
Orð hefur verið haft á að tölvutæknin hafi létt blindu fólki lífið á margan hátt. Víst er að það hefur gerst í námi og í einkalífi þess. En hér á landi virðist hún enn hafa haft lítil áhrif á atvinnumál blindrs fólks. Hjá Öryrkjabandalagi Íslands nýttist mér tölvutæknin til hins ítrasta. Ég þurfti sáralitla aðstoð ritara og nú eru ýmis gögn sem snerta stjórnsýsluna aðgengileg á tölvutæku sniði. Það var hins vegar ekki talið duga, því að rýma þurfti fyrir ófötluðum framkvæmdastjóra. Ekkert annað starf var í boði.
En einhvern tíma hlýtur Eyjólfur að hressast. Við erum ekkert gustukafólk og atvinnurekendur munu ekki tapa á því að ráða ýmis okkar til starfa. Með aukinni menntun blindra og vaxandi (vonandi) víðsýni í þjóðfélaginu hlýtur þetta að hafast.
Lífið er barátta, sagði Mao formaður. Það verða lokaorð á degi verkalýðsins og þau skrifar undirritaður með sólskin í hjarta og bros á vör.
Bloggar | 1.5.2006 | 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það hefur ´víst aldrei talist góður siður að skrifa greinar um fleira en eitt atriði í einu. En bloggið er eins og gamli útvarpsþátturinn um daginn og veginn. Þar ræddu menn mörg atriði í senn.
Á föstudag kom Birgir litli Þór, barnabarn okkar Elínar, í fóstur. Hann er kominn á 15. mánuð og orkuríkur piltur. Í janúar veiktist hann mjög mikið. Þessi orkuríki piltur, sem byrjaði að ganga áður en hann varð 10 mánaða, gat hvorki gengið né skriðið. Í ljós kom að hann hafði fengið alvarlega sýkingu í bein og varð að gangast undir uppskurð til þess að hægt væri að ná beinsýni til ræktunar. Ýmislegt fleira gekk á í ævi þessa unga manns og máttum við þakka skaparanum fyrir að missa hann ekki. Hann er nú óðum að braggast en vafalaust hefur ónæmiskerfið beðið einhvern skaða a.m.k um stundarsakir vegna lyfjagjafarinnar.
Við fórum með litla stubb á Kaffi París að hitta vinafólk okkar, Guðbjörgu Hildi Kolbeins og Hilmar Bjarnason, en þau höfðu litla dóttur sína með. Einnig var í selskápnum Kristín Helgadóttir, dagskrárgerðarmaður. Hún hefur verið ráðin til þess að leysa af á morgunvakt Rásar 1 í sumar og glöddumst við öll yfir þeim fréttum.
Í dag höfum við notið góða veðursins, hjólað í tvígang og fórum með Hring, hálfbrúður Birgis Þórs að sjá Litla Kláus og stóra Kláus. Hafði piltur hina mestu skemmtan af.
Bloggar | 30.4.2006 | 19:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í morgun raðaði ég 14 útvarpsþáttum á geisladisk til þess að senda Helenu Björnsdóttur, íslenskri konu sem býr í Noregi. Eftirtaldir þættir fóru á diskinn:
1. Helgaslysið við Faxasker 7. janúar 1950.
2. Fiskurinn hefur fögur hljóð (um síldarleit o.fl.)
3. Mengunarslysið um borð í Röðli 1963.
4. Skaftfellingur, aldna skip, aldrei verður sigling háð.
5. Kópur, fyrsta selveiðiskip Íslendinga (sennilega áttu Íslendingar annað skip áður)
6. Íslendingur afvopnar bandarískan lögreglumann (sjávarsaga).
7. Guðrúnarslysið 1953.
8. Faxasker, fjallar um þrjú skip sem fórust við skerið á síðustu öld.
9. Eplaskipið og fleiri sögur af sjó.
10. Suð fyrir eyra.
11. Leikur að vatni.
12. Erró og Friðgeir, þáttur um leiðsöguhund og eiganda hans.
13. Kínavinkill, hljóðmynd af ferðalagi um Kína árið 2000.
14. Vængjaðir Seltirningar. Þáttur um fugla á nesinu.
einnig setti ég 5 stuttar hljóðmyndir á diskinn. Þetta er hægt að gera með MP3-tækninni og alveg í sæmilegum hljóðgæðum.
Þessa þætti hef ég unnið fyrir ríkisútvarpið og voru þeir gerðir á árunum 1998 - 2000. Ég klippti þá að mestu leyti sjálfur með því að nota minidiska. varð meira að segja svo frægur að fá birta eftir mig grein á www.minidisc.org um not mín af þessum diskum. Nú hafa tölvurnar að mestu leyti leyst minidiska f hólmi. Það er yndislegt að vinna hljóð í tölvum og auðveldara en margur hyggur. Í raun er það jafnvel auðveldara en að vinna venjulegan texta ef menn hafa réttan hugbúnað.
Mér hefur meira en dottið í hug að selja þennan disk við sanngjörnu verði og væri fróðlegt að vita hvort einhver eftirspurn væri eftir slíku efni. Hóflegt verð væri um 5.000 kr. fyrir um 14´tíma efni.
Helena þessi Björnsdóttir, sem ég minntist á í upphafi pistilsins, missti sjón fyrir nokkru. Nú er verið að þjálfa hana til þess að nota blindrahund og er afar athyglisvert að lesa frásagnir hennar á slóðinni http://fonic.blog.is. Spái ég því að frásagnir hennar geti orðið góður grunnur að athyglisverðri bók.
Bloggar | 26.4.2006 | 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag sendi ég hljóðmynd upp í útvarp og fór síðan út. Veðrið var hlýrra en ég hélt og er ég nú sannfærður um að komið sé vor.
Ég hélt sem leið liggur út á Suðurströnd og meðfram henni þar til ég komst niður að sjó. Ég var með víðómshljóðnema í farteskinu, góð heyrnartól og Nagra-hljóðritunartæki. Nam ég staðar öðru hverju til þess að hlusta eftir fuglum og náði tveimur, prýðilegum hljóðritum. Meðal annars held ég að mér hafi tekist að hljóðrita margæs fremur en helsingja, en þessir fuglar koma við hér á landi á leið sinni til Grænlands. Bakkatjörnin og svæðið þar um kring eru áningarstaðir þeirra og ber því margt fyrir augu og eyru þegar gengið er meðfram Bakkatjörninni. Ég þarf að gera út annan leiðangur og hafa þá með mér tvo, sjálfstæða hljóðnema til þess að fá minna suð. Einhvern veginn verða náttúruhljóðahljóðritanir hálfgerð ástríða á sama hátt og sumir eru ástríðuljósmyndarar fugla.
Ég hef tekið mér göngu nokkrum sinnum um Seltjarnarnes í vetur því að ekkert dreifir betur huganum en gönguferðir þegar tilgangsleysið virðist yfirþyrmandi. fyrir nokkru var ég á ferð og heyrðist þá sem hundur gelti skammt frá mér. Eitthvað var þetta hljóð þó ankannalegt. Ég áttaði mig loksins á því að gassinn á Bakkatjörn var þarna á ferð í vígaham. Þetta er kosturinn við að hjóla og ganga. Maður nýtur náttúrunnar sem maður gerir ekki þegar þeyst er um í yfirbyggðum, vélknúnum bifreiðum. Sem dæmi get ég nefnt að þegar við hjónin hjóluðum norður til Akureyrar fyrir 11 árum heyrðum við tófu gagga á Miðfjarðarhálsi og komumst að því að stelkurinn er þjóðvegafugl á Íslandi. Einnig urðum við vitni að því þegar lóan, þessi saklausi yndisfugl, sem öllum þykir vænt um, hrakti sér minni fugl af óðali sínu. Á leiðinni yfir Breiðamerkursand sáum við skúm veitast að tveimur hröfnum sem flýðu í ofboði. Kvað við hræðslukrúnk. Í þeirri hjólreið var athyglisvert að hjóla meðfram Vatnajökli og finna jökulkuldann hvert sinn sem við hjóluðum ramhjá einhverju skarðinu eða skriðjökli.
Bloggar | 25.4.2006 | 14:36 (breytt kl. 14:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gleðilegt sumar.
Sumar boðar sælutíð,
söng og grasafjöld.
Kætast einkum börnin blíð
og basla fram á kvöld.
(Húsgangur af Seltjarnarnesi)
Í morgun hafði ég andvara á mér því að mig langaði til þess að hljóðrita hrafn sem hefur krúnkað fyrir okkur undanfarna morgna. En krummi rak bara upp eitt krúnk einhvers staðar í fjarska svo að ekkert varð af því að ég réðist til atlögu gegn krumma með hljóðnemann að vopni. Í stað þess hljóðreit ég söng og skvaldur þrasta sem byggja tré nokkurt í nágrenninu.
Í gær hafði ég um ýmislegt að hugsa í atvinnuleysinu. Hingað kom ung kona sem er að skrifa BA-ritgerð um hersetuna í Vestmannaeyjum á stríðsárunum, ég garfaði dálítið í málefnum Kínversk-íslenska menningarfélagsins, hugaði að gerð næstu hljóðmyndar fyrir Ríkisútvarpið og afritaði eitthvað af geisladiskum sem ég dreifði víða. Þá hóf ég undirbúning að því að safna sögum um samskipti fólks við framliðnar verur, anda, huldufólk og drauga, en ég hef afarmikinn áhuga á að halda slíkum heimildum til haga. Hlýtur það að verða hluti af þjóðlegu eðli Íslendinga að forsmá ekki slík fyrirbrigði.
Hægriöfgaflokkurinn.
Þá las ég um fyrirhugaða stofnun nýja hægriöfgaflokksins hans Ásgeirs Hannesar Eiríkssonar, sem ætlað er að hamla gegn fjölgun fólks af erlendu kyni hér á landi. Hvaða kyn skyldi Ásgeiri Hannesi hugnast? Skyldi hann hafa jafnmikla andstyggð á Tælendingum og Norðmönnum, eða skyldi hann vilja hingað fremur Breta en Kínverja. Allt þetta tal um einangrun landsins og útilokun fólks frá því að setjast hér að er dapurlegt á að hlýða. Hvort sem okkur er ljúft eða leitt hefur innflutt vinnuafl haldið uppi hagvextinum að nokkru leyti, en Íslendingar eru eins og Tíbetar voru áður en Kínverjar tóku til í fylkinu eftir 1950. Í Tíbet fengust menn ekki til að vinna ýmis störf eins og slátrun búfjár. Það verk unnu innfluttir múslímar. Nú vilja Íslendingar helst ekki vinna í fiski! En hvernig skyldu Íslendingar líta út ef þeir væru hreinn og einangraður kynstofn? Skyldi Ásgeir Hannes ekki vita að forfeður okkar voru germanskir, keltneskir og Samar og vafalaust hefur ýmislegt annað flotið með. Skyldi Dönum ekki detta í hug bráðum að stofna sérstakan stjórnmálaflokk sem hamlaði gegn offjölgun Íslendinga í danska velferðarkerfinu?
Gengishrapið.
Nú hrapar gengi krónunnar sem aldrei fyrr og velta ýmsir því fyrir sér hversu langt krónan hrapi. Þetta setur þá sem sinna m.a. ferðamálum í nokkurn vanda. Kínversk-íslenska menningarfélagið er að undirbúa ferð til Tíbets í ágúst, en væntanlega hækkar hún um tugi þúsunda ef heldur fram sem horfir. Sennilega dregur þetta eitthvað úr eyðslu okkar almennings í landina a.m.k. um stundarsakir.
Málaferli gegn Tryggingastofnun?
Í fyrstu skrifum mínum á þessari síðu gat ég um glaðning frá Tryggingastofnun ríkisins, en umsókn minni um starf var hafnað. Ég hef nú ákveðið að gera eitthvað í málinu og því var eftirfarandi bréf sent í gær:
Seltjarnarnesi, 19. apríl 2006.
Til þess er málið varðar.
Í síðastliðnum mánuði var starf upplýsingafulltrúa í þjónustuveri Tryggingastofnunar ríkisins auglýst laust til umsóknar og rann umsóknarfrestur út 2. þessa mánaðar. Ég sótti um starfið og skilaði umbeðnum upplýsingum.
Hinn 10. apríl síðastliðinn barst mér bréf undirritað af starfsmannastjóra stofnunarinnar þar sem mér var tjáð að ráðið hefði verið í starfið á grundvelli mats sem farið hefði fram.
Með vísan til upplýsingalaga nr. 50/1996, 4. gr. 4. töluliðar, óska ég hér með eftir upplýsingum um nafn þess sem ráðinn var í starfið og hvaða ástæður lágu til þess að sá, er starfið hlaut, var valinn umfram aðra umsækjendur.
Virðingarfyllst,
Arnþór Helgason
Kt. 0504522209
****************************
Arnþór Helgason
Tjarnarbóli 14
170 Seltjarnarnesi.
Símar: 5611703, 8973766
Netfang: arnthor.helgason@simnet.is
Bloggar | 20.4.2006 | 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í morgun heyrði ég í fyrsta sinn á þessu vori dýrðarsöng lóunnar. Við hjónin fórum hjólandi á vinnustað Elínar. Hitinn var við frostmark, sólskin og logn. Það tók okkur 26 mínútur að hjóla héðan að heiman upp í Öskjuhlíðarskóla. Hvort tveggja er að við erum ekki nógu vel á okkur komin eftir veturinn og hjólið er enn á nagladekkjum og því þyngra að stíga það. Mér virðist sem naglarnir dragi úr hraða sem nemur um ¼ og verður því að segjast sem er að naglar þýða mun meiri orkueyðslu. Hins vegar tryggja þeir betur öryggi hjólreiðamanna.
Í gærkvöld hjóluðum við hjónin hinn svokallaða Loftleiðahring, en samgöngumannvirki eru nú sem óðast að færast í viðunandi horf eftir miklar framkvæmdir við Hringbrautina. Þó skýtur afar skökku við að á einum stað skuli þurfa að fara niður tvö þrep til þess að komast á nothæfan reiðhjólastíg. Þótt hrósa megi Reykjavíkurborg fyrir úrbætur í málefnum hjólreiðamanna verður að segja hverja sögu sem er. Víða vantar úrtökur í gangstéttir, sem nýtast jafnt fólki í hjólastólk hjólreiðamönnum og fólki með barnavagna. Þá liggja ýmsir stígar í alls konar krákustígum og lítið gert til þess að draga úr bröttum brekkum sem eru mörgum hjólreiðamanninum til mikils trafala. Má þar sem dæmi nefna stíginn á milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar, en langflestir hjólreiðamenn forðast hann.
Þá er sá meginmiskilningur ríkjandi á meðal umferðarfræðinga að umferð gangandi og hjólandi vegfarenda fari ssaman, en svo er ekki. Hjólreiðamenn eru víðast hvar réttlausir og merkt rein á göngustífunum allt of mjó.
Þar sem umferð hjólreiðamanna er sem mest ætti hiklaust að aðskilja umferð þeirra frá gangandi vegfarendum. Það yrði öllum til hagsbóta.
Íslendingar! Förum nú að ráðum Halldórs Ásgrímssonar og byrjum að spara. Hjólið eða gangið í vinnuna. Ef þið getið það ekki, nýtið ykkur ´þá almenningssamgöngur þar sem þær eru fyrir hendi! Styrkjum nú Framsóknarflokkinn í þeirri viðleitni að heimilin nái endum saman:)
Bloggar | 19.4.2006 | 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
-
alla
-
axelthor
-
arnibirgisson
-
ormurormur
-
astafeb
-
bjarnihardar
-
gattin
-
dora61
-
saxi
-
jaherna
-
jovinsson
-
fjarki
-
gislisigurdur
-
gudni-is
-
gelin
-
gummigisla
-
heidistrand
-
helgigunnars
-
hildurhelgas
-
himmalingur
-
hoskibui
-
isleifur
-
jakobk
-
fun
-
jonhalldor
-
jon-o-vilhjalmsson
-
nonniblogg
-
juliusvalsson
-
kje
-
kristbjorggisla
-
methusalem
-
mortenl
-
moguleikhusid
-
skari60
-
rafng
-
ragnar73
-
fullvalda
-
duddi9
-
siggisig
-
saemi7
-
vefritid
-
thorirj
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 12
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 24
- Frá upphafi: 319984
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 17
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar