Færsluflokkur: Bloggar

Aðlögunarhæfni reiðhjólsins

Í morgun hjóluðum við hjónin á Orminum bláa, tveggja manna Thorn-reiðhjólinu til fundar við Björn Ingólfsson í Hjólinu í Kópavogi. Austan strekkingsvindur var á og því erfitt að hjóla.

Erindið við Björn var að láta hækka stýrið og færa það nær. Þá getur Elín setið nær upprétt á hjólinu og þarf ekki að hallast fram á stýrið. Það hefur reynst henni erfitt í skauti, en hendurnar eru farnar að gefa sig. Vonandi verður þessi breyting á hjólinu til þess að við getum bæði notið þess að hjóla mörg ár enn.

Í sumar er á dagskrá að hjóla til vinnu vestan af Seltjarnarnesi austur í Hádegismóa. Einhver hópur Morgunblaðsmanna stundar hjólreiðar og sumir af kappi. Verður væntanlega gaman að geta fyllt þeirra flokk.

Mér hefur fundist bera nokkuð á því að undanförnu að ýmsir hjólreiðamenn hafi látið hækka hjá sér stýrið. Sennilega er álagið á hendurnar of mikið hjá flestum þegar til lengdar lætur, þegar þeir hallast fram á stýrið og hvíla þannig á höndunum. Að vísu fara menn ekki jafnhratt þegar þeir sitja uppréttir, en það skiptir meira máli að komast óskaddaður leiðar sinnar en að spretta ævinlega úr spori. Kemst þótt hægt fari, segir máltækið. Það er yndislegt að hefja daginn með hjólreiðumm.


Ég komst næstum á sakaskrá!

Þegar ég kom heim í kvöld beið mín bréf frá lögreglustjóranum í Reykjavík.

Konan mín blessuð opnaði það furðu lostin og varð stóreyg þegar hún sá að hér var um sekt að ræða fyrir hraðakstur! Brotið náðist á myndavél á Njarðargötu kl. 17:59 miðvikudaginn 9. maí síðastliðinn og var mér hótað stórmælum greiddi ég ekki sektina fyrir 8. júní.

Jamm, margt er mér til lysta lagt og lysta. En bílpróf hef ég aldrei tekið. Eftir miklar vangaveltur komumst við hjónin að því að sökudólgurinn vær hún frú Elín mín sem hafði farið heldur greitt eftir Njarðargötunni, en skrjóðurinn er skráður á mig.

Elín ekur stundum heldur greitt. Einu sinni braut hún af sér þegar hún þeysti á tveggja manna hjóli niður Bústaðaveg á 63 km hraða á klst, en þá var leyfilegur hámarkshraði einungis 50 km. Skýringin var sú að hvass austanvindur var á og Elín að flýta sér heim. Brotið náðist ekki á myndavél og er nú fyrnt.

Þetta minnir mig á atvik sem gerðist árið 1987. Þá eyðilagðist nafnskírteinið mitt ásamt öðrum skilríkjum og hélt ég til lögreglustjóra að fá mér nýtt. Vildi stúlkan, sem afgreiddi mig, vita, hvort ég ætti ekki nein önnur skilríki, en ég sagði sem var að þau hefðu flest eyðilagst og vegabréfið fyndi ég ekki. Spurði hún þá í vandræðum sínum hvort ég gæti þá ekki framvísað ökuskírteini. Ég kvað nei við því en sagðist hafa velt því fyrir mér að sækja um byssuleyfi til þess að geta skotið upp flugeldum.


Fyrsti dagurinn hjá Mogganum

Það kom fram fyrr í bloggi mínu að ég var ráðinn sem sumarstarfsmaður hjá Morgunblaðinu. Verð ég á innblaðinu.

Dagurinn hófst með námskeiði sem stendur í þrjá daga. Það var dálítið skrítið að byrja svona ásamt föngulegum hópi ungs fólks, en sumir nýliðarnir eru allt að þremur áratugum yngri en ég. Stundum finnst mér ég vera alger kynslóðarskekkja. Morgunblaðið fagnar 94 ára afmæli sínu í haust og ég þekkti, þegar ég var barn, Guðbrand Magnússon, sem vann sem prentari hjá Morgunblaðinu í árdaga þess og fann upp gælunafnið Mogginn.

Starf mitt hjá Morgunblaðinu hefur kostað nokkurn undirbúning. Umferliskennari Sjónstöðvar kenndi mér ýmsar leiðir innandyra og einn af tæknimönnum blaðsins aðstoðaði mig við að setja upp nauðsynlegan hugbúnað. Á næstu dögum kemur í ljós hvernig gengur að nýta þennan sérstaka búnað í tengslum við vinnuumhverfið. Ég er bjartsýnn og viðmót starfsmanna hreint frábært. Auðvitað villist ég dálítið en það gefur lífinu lit eins og segir í auglýsingunni gömlu.


Leitin að sófahlutanum árangurslaus

Í dag hringdi ég í allar hárgreiðslu- og snyrtistofur í Kópavogi til þess að spyrjast fyrir um sófasætið með grænleitu áklæði og útskornum örmum sem rataði fyrir slysni í Góða hirðinn og var selt þar sennilega 30. mars.

Ég hitti loks á konuna sem ég hafði heyrt að hefði keypt sófann. Hún ætlaði að gera það og langaði til þess, en eiginmaðurinn samþykkti það ekki.

Hún hafði látið merkja sér sófann og aflýsti kaupunum. Hún sá síðan að hópur kvenna, sem oft kemur í Góða hirðinn, var að skoða hann og sennilega hefur ein þeirra keypt sófann. Auglýsingar hafa ekki borið neinn árangur né heldur skrif Fréttablaðsins. Fangaráðið verður að fá að festa upp auglýsingu í Góða hirðinum og vona að kaupandinn hafi samband við mig, því að við höfum áhuga á að kaupa þennan sófahluta aftur. Hér er um hluta gamals og ómetanlegs ættargrips að ræða.


Sófahlutinn ófundinn

Í fyrradag birti ég frásögn á blogginu um baklausan, útskorinn sófa, sem fór fyrir misskilning í Góða hirðinn. Hann var seldur þaðan fyrir tæpri viku. Sófinn er með grænleitu, rósóttu áklæði og útskorinn. Hann er hluti af ættargrip, en útskorið bak hans er enn í okkar vörslu.

Mér var sagt að líklega hefði eigandi snyrtistofu í Kópavogi keypt sófann í góða hirðinum. Mikið þætti mér vænt um að þessi kona, ef rétt reynist, hefði samband við mig vegna þessa máls.


Ótrúlegt skakkafall, hluti gamals sófa týndist.

Um daginn flutti ég búslóð móður minnar í nýtt geymsluhúsnæði. Í leiðinni ákváðum við að hreinsa dálítið til, gáfum bókasafn foreldra minna bókasafni Seltjarnarness og sendum hluta búslóðarinnar í Góða hirðinn.

Ég hafði þrjá ágætismenn með mér í þessu og skoðaði ég þá hluti sem ég taldi orka tvímælis um og taldi að allt hefði komist til skila. Í dag fórum við að undirbúa búslóðina til afhendingar ættingjum. Þá kom í ljós að sófasæti og arma úr útskornum sófa vantaði. Einungis bakið var eftir.

Við stormuðum í Góða hirðinn og fengum að vita að þessi sófabekkur, með grænleitu áklæði, hefði borist í góða hirðinn á föstudaginn var og hefði verið keyptur samstundis. Nú er það einlæg von mín að hinn góði kaupandi vilji selja okkur sófahlutann aftur til þess að hann geti á ný orðið að einni heild.

Sófi þessi er hluti danskra, útskorinna húsgagna sem Ásbjörn Ólafsson keypti skömmu eftir stríð. Keypti faðir minn hluta þeirra, þrjá háa stóla, útskorið skrifborð, mikinn skáp og sófann. Á skápnum sófanum og skrifborðinu voru útskornar myndir úr leikritinu Jeppa á fjalli.


Atvinnuleysi brátt á enda í bili.

Hinn fimmtánda mars síðastliðinn, daginn sem ég átti 20 ára ástarafmæli, tók ég blaðamannapróf hjá Morgunblaðinu. Í raun hefði ég átt að taka slíkt próf um leið og ég útskrifaðist úr hagnýtri fjölmiðlum árið 1998, en þá leyfði tæknin það ekki.

Í gær var mér sagt að ég hefði staðist prófið og áðan var mér boðið starf sem blaðamaður í sumar. Þetta eru mér mikil gleðitíðindi. Vonandi leysum við ýmis tæknimál sem fylgja því að ráða mig til starfa. Það er fátt sem bendir til annars en það verði hægt.


Til heiðurs Elínu Árnadóttur, eiginkonu minni.

Konan mín á afmæli í dag og ég hef verið ástfanginn af henni í 20 ár og 14 daga. Það var einkennileg tilfinning, þegar ástin skall á mér. Ég uppgötvaði allt í einu, þar sem við stóðum og kvöddumst, að ég var orðinn ástfanginn. Þetta hafði auðvitað átt sinn aðdraganda, en þarna á þessari stundu kl. rúmlega 6 síðdegis þann 15. mars 1987 áttaði ég mig á þessu. Þetta var því merkilegra sem ég hafði rætt það við vinkonu mína austur á Stöðvarfirði þremur mánuðum áður að kosturinn við að vera kominn á miðjan fertugs aldur væri m.a. sá að maður gæti ráðið því hvort maður léti eftir sér að verða ástfanginn. Ársfjórðungi síðar vissi ég varla hvað ég hét, hugsaði einungis um Elínu. Þetta var víst svo áberandi að stjórnarmenn Öryrkjabandalagsins tóku eftir breytingunni og sögðu að ég hefði einhvern veginn mildast allur.

Og þessi ást hefur staðið í 20 ár. Hún er ekki eins og í upphafi heldur dýpri og sterkari.

Ég eignaðist ekki eingöngu góða og heiðarlega konu heldur tengdist ég einstakri fjölskyldu. Upp úr krafsinu hef ég m.a. haft tvö, góð barnabörn, góða tengdadóttur og fyrrum sambýlismann (son konu minnar), en ekki síst mína ágætu tengdaforeldra. Í kvöld safnast fjölskyldan saman og neytir góðrar máltíðar.

Fljótlega eftir að við Elín kynntumst tók mig að dreyma að hluta til í litum. Elín talaði um allt sem fyrir augu bar og lýsti því öllu. Þetta fór inn í undirmeðvitundina og eftir 17 ára hlé fór mig að dreyma á ný ýmiss konar litbrigði sem höfðu lítt eða ekki gert vart við sig síðan haustið 1970.

Á þessum degi er mér efst í huga þakklæti fyrir árin okkar saman. Megi þau verða fleiri.


Daginn eftir jarðarförina

Mér líður í dag eins og þeim sem jarðaður var í gær. Ég ímynda mér að þegar fólk deyr verði ákveðin skil eftir jarðarförina og þá fari flestir aðhorfast í augu við nýtt og betra líf.

Mín jarðarför varð aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands. Þar sló formaður að vísu á útrétta sáttarhönd þeirra sem staðið hafa í deilum um lagaleg atriði vegna ráðningar nýs framkvæmdastjóra, en mikill meirihluti fundarins samþykkti stofnun sáttanefndar. Guð einn veit hvort formaður ber gæfu til þess að sættast við þá sem vilja sáttir.

Þessum kafla lífs míns er lokið og nýtt líf framundan, líf fullt af vonum, bjartsýni, hugrekki og einhverjum hetjudáðum, því að allir vinnum vér hetjudáðir á hverjum degi. Ef enginn tekur eftir þeim gerum vér það sjálfir!

Ég fór á fund í morgun sem skipti þó nokkru máli. Áður en fundurinn hófst sat ég við að undirbúa gögn fyrir ráðstefnu um tímabil Maos Zedong í Kína, sem haldin verður 11. nóv. nk. Mundi ég þá eftir einum af þessum skemmtilegu Maosöngvum, fór fram í stofu og framkvæmdi hann á slaghörpuna. Meira hvað þessi gömlu Mao-lög koma mér ævinlega í gott skap.


Heilbrigð sál í hraustum likama og útskýring á pistli um láglaunastörf

Í vetur barst mér bréf frá stéttarfélaginu mínu þar sem mér var heimilað að sækja um styrkk úr sjúkrasjoði m.a. til líkamsþjálfunar. Ýmislegt hefur orðið til þess að þetta hefur lent í undandrætti hjá mér, ímyndaðar annir, dauflegt sálarástand o.s.frv.

Á fimmtudaginn var hristi ég af mér slenið og pantaði mér einkaþjálfun í Hreyfingu. fyrsti tíminn var í dag og lofaði góðu. Ég tók vel á á þrekhjóli þandi út brjóstkassann, teygði handleggi og fætur, spyrnti og togaði, beygði og sveigði. Ég verð að segja að mér leið óendanlega miklu betur á eftir og held þessu væntanlega áfram tvisvar í viku fyrst um sinn.

Um daginn reitti ég vinkonu mína til reiði með skrifum mínum um fiskvinnslufólk á Íslandi, en hún taldi mig ekki hafa fært næg rök fyrir þeirri skoðun minni að Íslendingar fáist varla til fiskvinnslustarfa. Skulu þau rök nú færð fram:

Það einkennir flestar ef ekki allar svo kallaðar frumvinnslugreinar nema þá helst nokkurn hluta sjómennsku hér á landi, að um er að ræða láglaunastörf. Það er sama hvert litið er í heiminum. Landbúnaður og fiskvinnsla eru láglaunastörf. Fiskvinnslan er erfitt starf og reynir mjög á líkamann. Flestum ef ekki öllum sem starfa við fiskvinnslu er sameiginlegur einn sjúkdómur, gigtin. Ég reyndi fyrir nokkrum árum að kenna konum, sem höfðu unnið í fiski alla starfsævi að lesa blindraletur, en þær voru orðnar tilfinningalitlar í fingrum og gátu ekki numið punktana. Það er í raun mikil sorgarsaga hvernig velgengni Íslendinga byggir á því að eyðileggja líkama þeirra sem afla hráefnisins og vinna úr því.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband