Færsluflokkur: Bloggar

Atvinnuleysisfréttir

Í dag barst mér bréf frá opinberri stofnun sem ég hafði sótt um starf hjá. Vitanlega fékk ég ekki starfið, hafði þó hálfpartinn gert mér veika von um úrlausn.

Það er því nærri víst að ég hefji þriðja atvinnuleysisárið eftir áramótin. Í fréttum Ríkisútvarpsins kom fram í kvöld að atvinnuleysi á landinu væri nú miklu minna en nokkru sinni áður en mælingar hófust. Það væri einkum fólk sem komið er yfir fimmtugt sem væri atvinnulaust. Greint var frá því að skipuð hafi verið 7 manna nefnd til þess að bæta ímynd þessa aldurshóps. Fróðlegt verður að sjá hvort það tekst.

Í morgun hitti ég atvinnuráðgjafa og spjölluðum við margt. Sagði hann að á sínum snærum væru nokkrir háskólamenntaðir atvinnuleysingjar sem erfitt virtist að hjálpa. Nefndar voru ýmsar ástæður og þar á meðal einelti sem fólk hefði orðið fyrir á vinnustað. Taldi þessi góði maður að dæmi væru þess að eineltið bitnaði jafnvel á meðmælum með fólki.

Nú á einungis eftir að syrta í álinn í 5 daga í viðbót. Þá fer sólin að hækka á himni á ný. Skelfing verð ég feginn. Skammdegið er ekki skemmtilegt.


Vel heppnað vetrarfrí og hversdagsleikinn

Þá erum við komin aftur heim á tjarnarból eftir einstaklega vel heppnað vetrarorlof.

Á föstudag spókuðum við okkur um í Borgarnesi. Þaðan fórum við og skoðuðum ullarsetrið á Hvanneyri. Þar hitti ég Ásthildi thorsteinsson, fornvinkonu mína, sem ég hafði ekki hitt í rúm 30 ár. Einhvern veginn er það svo að vináttuþráður, sem eitt sinn var spunninn, slitnar ekki svo trauðlega þótt langt líði á milli funda.

Við litum aðeinsvið í Reykholti, fórum þaðan að Deildartunguhver og hljóðrituðum hann. Notaði ég lítinn víðómshljóðnema sem festur er ofan á Nagra Ares-M hljóðpelann.

Um kvöldið borðuðum við kvöldverð ásatm Sigurjóni eyjólfssyni, doktor í guðfræði og konu hans, Martinu Brogmus, en þær Elín kenna saman. Dýrindismatur var á boðstólnum: unaðslegur forréttur (hunangsgljáður silungur minnir mig), saltfiskur soðinn á ítalska vísu (himneskt lostæti) og ís á eftir. Matsveinn Hótels Hamars fær fullt hús stiga.

Laugardagurinn var ekki síðri. Við hjónakornin tókum okkur göngu um nágrenni hótelsins fyrir hádegi og í hádeginu ræddi ég við húsfreyju um hótelhald og kveðskap. Að því búnu héldum við að Reykholti og hlýddum tónleikum Kammerkórs Vesturlands. Honum stýrði Gunnsteinn Ólafsson og undirleikarar voru ýmsir afbragðslistamenn. Einsöng frömdu þeir feðgar, Bergþór Pálsson og Bragi. Þá söng einnig ungur drengur, Daníel Einarsson, sem er um þessarmundir sópran. Flutt voru verkin sálumessa eftir Gabriel Fauré og Missa Creola eftir Ramires. Kórinn var stundum dálítið hikandi í innkomum. Annars voru tónleikarnir öllum flytjendum til hins mesta sóma enda gerðu menn góðan róm að flutningi þeirra og vildu heyra meira.

Það vakti sérstaka athygli mína að kórinn hélt tónhæð vel þótt oft væri sungið án undirleiks annarra hljóðfæra en slagverks. Er það í sjálfu sér afrek sem sumir atvinnukórar geta vart státað af. Hér með eru listamönnunum fluttar þakkir og hamingjuóskir með prýðilegan flutning og áheyrilegan.

Um kvöldið var snætt í þriðja sinn á Hótel Hamri. Í þetta skipti var það humarsúpa, lambakjöt og eftirréttur. Við sigurjón fengum okkur ís en frýrnar eplaköku. Rauðvínið var í boði hússins.

Ég mæli hiklaust með Hótel Hamri við Borgarnes vilji folk njóta góðrar þjónustu og afbragðs eldamennsku á sanngjörnu verði.

Þegar heim kom biðu gluggaumslög og þar á meðal enn ein höfnunin á starfi, í þetta sinn á vegum Háskóla Íslands. Virtist ég í þetta sinn ekki einu sinni hæfur til viðtals hvað þá meira. Það virðist ætla að teygjast úr þessu atvinnuleysi.


Vansæmd og vansæld

Um þessar mundir les Hjalti Rögnvaldsson framhaldssögu í útvarpið sem kallast Vansæmd. Sagan greinir frá háskólakennara sem þjáist af girnd til kvenna. Honum verður það á að eiga of náin kynni við einn nemanda sinn og verður að hverfa frá starfi.

Sagan lýsir á átakanlegan hátt hvernig háskólakennarinn verður vansæmdinni að bráð með athæfi sínu og ekki síður vegna ýmissa aðstæðna sem hann ræður ekki við. Hvað sem hann tekur sér fyrir hendur verður honum til vansæmdar. Hann reynir þó að bea höfuðið hátt.

Það er ýmislegt sem veldur bæði vansæld og vansæmd fólks. Atvinnuleysi fylgir vansæld og ekki síður vansæmd. Það er vansæmd að vera rekinn fyrirvaralaust úr starfi án nokkurra saka. Það er vansæmd í því fólgin að fá ekki að beita kröftum sínum í þágu þess málstaðar sem menn hafa helgað sig. Það er í því fólgin vansæmd og vansæld að fá ekki notið þekkingar sinnar og orðið öðrum að einhverju liði.

Þótt við háskólakennarinn í sögunni eigum fátt sameiginlegt finn ég til viss skyldleika við hann. Mér finnst þessa dagana eins og hægt og hægt molni undan fótunum á mér. Þetta eru hættulegar hugrenningar. En ég skrifa þær til þess að stappa í sjálfan mig stálinu. Það er einnig hverjum þeim vansæmd sem níðist á náunga sínum.

Fyrr eða síðar hlýtur að birta til. Að minnsta kosti fer daginn aftur að lengja eftir rúma tvo mánuði.


Fákunnáttan og atvinnuleysið

Í dag leit ég yfir atvinnuauglýsingarnar sem birtust um helgina og treystist ekki til að sækja um neitt. Nokkrar atvinnuumsóknir bíða afgreiðslu og ætti að fást úr því skorið í þessari eða næstu viku hvað verður.

Ég tók eftir því að eitthvert símasvörunarfyrirtæki, Skúlason, vantar ævinlega símaverði. Þetta fyrirtæki treysti sér ekki til að ráða mig í vetur, eins og stóð í bréfinu frá þeim. Og þess vegna treysti ég mér ekki til að sækja um símsvarastarf hjá fyrirtækinu. Þar af leiðir að fyrirtækið fer á mis við góðan og hæfileikaríkan starfsmann, umburðarlyndan, geðgóðan og tæknifróðan, svo að fátt eitt sé nefnt.

Það er samt greinilegt að allir þessir kostir og miklu fleiri duga ekki til að afla mér fastrar atvinnu við hæfi. Já, hvað ætli sé við hæfi?


Atvinnuleysisskráning

Vinur minn hringdi til mín um daginn. Hann er rúmlega sjötugur og kominn á eftirlaun. Við spjölluðum um heima og geima og atvinnuleysi var eitt af því sem bar á góma. Honum fannst of mikið af útlendingum á Íslandi og taldi að þeir tækju vinnu frá Íslendingum. Ég sagði honum sem var að næg eftirspurn virtist eftir vinnuafli og atvinnuleysi væri minna nú um stundir en oftast áður.

Það breytir þó ekki því að í morgun lét ég enn skrá mig atvinnulausan.

Í gær sótti ég um þrjú störf og verður fróðlegt að vita hvort umsóknirnar skili einhverjum árangri. Ein umsóknin var með þeim hætti að menn þurftu að fylla út tiltekið eyðublað á heimasíðu fyrirtækisins. Það verður að segja sem er að heimasíðan var afar aðgengileg og fyrirtækinu til sóma, enda vottaði ég heimasíðuna á sínum tíma. Það væri óskandi að allar heimasíður væru jafnvel úr garði gerðar.


Vetrardagskrá Ríkisútvarpsins, rásar eitt

Í gær hélt ég að ég væri orðinn ruglaður. Útvarpssagan hófst kl. 15:03 en á útvarpssögutímanum skall á tæplega klukkustundar langur tónlistarþáttur.

Ekki bætti úr skák að guðmundur Benediktsson tilkynnti á eftir útvarpssögunni að klukkan væri hálfþrjú og nú hæfist nýr þáttu, Doktor Rúv. Þá áttaði ég mig á að Guðmundur væri ruglaður en ekki ég.

Ég fór inn á vef Ríkisútvarpsins og sá að talsverðar breytingar verða á dagskrá rásar eitt í vetur. Í fljótu bragði finnast mér þær flestar til bóta. Nokkuð er um nýja þætti, en samkvæmt kynningarþætti rásar eitt frá í gærkvöld stendur til að útvarpa ýmsu úr safni stofnunarinnar.

Ég minnist þess að í gamla daga varð breyting á dagskrá Ríkisútvarpsins kringum vetrardaginn fyrsta. Í minningunni er síðdegisútvarpið, með barnatímanum og tómstundaþættinum á laugardögum, tengt rökkrinu. Nú hefur veturinn sest að fyrr en áður hjá ríkisútvarpinu og virðast árstíðaskiptin bundin við júní og september. Er það nær því að vera í tengslum við þann veruleika sem við lifum nú í.

Ég hlakka til að njóta þess sem verður á boðstólnum í vetur. Vonandi þarf ég ekki að eyða vinnutíma mínum í að hlusta á útvarp í stað þess að njóta efnisins á kvöldin. Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér. Sem stendur eru horfurnar ekki of bjartar og kvíðinn sækir að.


Næstum því flottræfilsháttur

Mönnum dettur sitthvað í hug í atvinnuleysinu, einkum þegar það virðist syrta í álinn og hver höfnunin berst á fætur annarri. Við hjónin höfum haft áhuga á að eignast sjálfskipta rennireið og liggja til þess ýmsar ástæður. Okkur langaði í Ford Focus C-Max. Þetta eru fremur litlar rennireiðar, en fólk situr heldur hærra í þeim en venjulegum Focus-bílum. Við hugðumst kaupa eins árs bíl, en takmarkað úrval var af þeim á markaðinum og varð ekkert af því.

Þegar við komum í deild nýrra bíla hjá Brimborg rákumst við á Ford Focus S-Max, rennilegan glæsivagn, sem var þar á tilboði, leðurklæddur og firna skemmtilegur. Við létum festa okkur hann og síðan fór Elín með okkar bíl í söluskoðun daginn eftir. Henni var lánaður sams konar S-Max og við höfðum fest okkur en ekki leðurklæddur. Þá kom í ljós að bíllinn var beinskiptur og kostuðu sjálfskipir skutbílar tæpar fjórar milljónir. Þetta þótti okkur heldur dýr biti að kyngja.

Niðurstaðan varð því sú að kaupa Ford Focus Trend Collection, sjálfskiptan. Ég er tiltölulega ánægður með uppítökuverðið sem við fengum fyrir þann gamla. Nú er einungis eftir að láta taka úr honum handfrjálsa símabúnaðinn og útvarpstæki sem ræður við MP3-geisladiska.


Minningargreinar

Í morgun las ég að Mogginn hafi ákveðið að fólk fái birtar minningargreinar á netinu og geta menn þá farið um víðan völl í löngum greinum.

Ég hef skrifað nokkrarminningargreinar um ævina, misgóðar eins og gengur. Eftir að Morgunblaðið tók að sníða höfundum greinanna þrengri stakk virðist mér sem skemmtilegasti hluti greinanna hafi oft farið forgörðum og þannig finnst mér sjálfum mér farið. Þegar skrifa þarf í hálfgerðum skeytastíl detta einatt skemmtilegustu sögurnar uppfyrir og heildarmyndin af hinum látna verður ekki jafnsönn og áður. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig minningagreinahöfundar bregðast við þessari nýjung.


Synt í Seltjörninni

Þegar ég kom heim úr vinnu í gær biðu þau Elín og Hringur tilbúin og við skelltum okkur út að Seltjörn. Stynningsgola var á af suðvestri, en veðrið annars yndislegt, sólskin og hlýtt. Nýttu sér margir blíðviðrið og hjóluðu, skokkuðu, hlupu eða gengu um stíginn sem liggur meðfram ströndinni.

Við Hringur og Elín óðum út í og verður að segjast sem er að sjórinn var kaldur. Eftir að hafa sopið nokkrum sinnum hveljur lét ég mig hafa það og lagðist til sunds. Fór ég ekki langt enda er mér nauðsynlegt að heyra hvar landið liggur.

Það var dálítil bára á Seltjörninni og því sóttist sundið fremur seint enda sundkappinn svo sem ekki jafnoki Grettis Ásmundssonar. En gaman var að beita sér gegn öldunni og láta síðan báruna bera sig að landi.

Það er ótrúlegt hve hressandi sjósundið er. Það er sem orkulindir líkama og sálar endurnýist.


Hjólreiðar, brúðkaupsafmæli og dýrlegar kræsingar

Á laugardag fórum við hjóni austur í Reykholt í Biskupstungum að heimsækja vinahjón okkar. Sviptum við Orminum bláa upp á festinguna á þaki bílsins og tókum að auki reiðhjól annars hjónanna með okkur.

Við hjóluðum síðan að Geysi með þessum heiðurshjónum og aftur að heimili þetta, samtals um 40 km. Hraðamælirinn gleymdist á Seltjarnarnesi og fannst okkur það óþægilegt. Um kvöldið voru síðan framreiddar dýrlegar krásir. Þetta voru fyrstu hjólreiðar okkar hjóna eftir að stýrið á Orminum var hækkað og fært nær stýrimanni. Lét Elín vel af þessum breytingum.

Í gær varð ég mér alvarlega til skammar. Þegar ég vaknaði blundaði ´í mér einhver minning um 10. júní, sem vildi ekki koma upp á yfirborðið. Seinni part dags hringdi síðan tengdadóttir okkar og óskaði Elínu til hamingju með daginn. Já, það var brúðkaupsdagurinn okkar og 18 ár liðin frá því að brúðkaupið stóð. Þar var borið fram rautt kampavín og héldu flestir veislugestir að það væri kínverskt eða rússneskt. En tengdafaðir minn valdið það af sinni alkunnu smekkvísi og var það bandarískt.

Ekki varð af því að ég byði Elínu út af borða því að okkar beið dýrlegur málsverður hjá kunningjum okkar, sem vissu ekkert um þennan dag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband