Færsluflokkur: Bloggar
Á bloggi þessu eru ómetanlegar upplýsingar um þjálfun hunds og manns og ýmsar sögur af skynsemi og fundvísi hundsins.
Helena hefur einstakt lag á að lýsa aðstæðum og gera úr frásögninni spennandi rás atburða sem áhrifaríkt og ánægjulegt er að lesa enda ritar hún eðlilegt, íslenskt talmál sem vefst ekki fyrir neinum.
Ég vissi að vísu að hún væri hætt að blogga og að hún hefði hug á að læsa blogginu.
Þegar því hefur nú verið læst læðist að mér söknuður. Það er nefnilega með sumt blogg eins og góðar bókmenntir að mig langar til að glugga í það endrum og eins.
Ég hef stundum ýjað að því við Helenu að hún ætti að gefa út bók um samstarf þeirra fönix. Hún gæti orðið ágæt kennslubók um leiðsöguhunda og betri kynning fyrir almennan markað en margur hyggur.
Ef til vill væri þó betra að setja valda kafla úr frásögn Helenu á netið og hafa vísanir víða svo að þær væru auðfundnar.
Vonandi sjáum við Helenu aftur í bloggheimum og fáum að njóta skarpskyggni hennar, kímigáfu og góðvildar.
Bloggar | 20.6.2008 | 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Elín er einstaklega nösk á að koma hljóðnema fyrir þannig að hann fangi viðfangsefnið eins og best verður á kosið. Sparar hún mér oft tíma og fyrirhöfn og tryggir um leið betri árangur. Hún hefur reyndar mjög næmt auga fyrir viðfangsefni ljósmyndarans og skynjar því vel afstöðu linsunnar og hljóðnemans.
Kórinn söng rúmlega 20 lög sem verða væntanlega gefin út á geisladiski þegar fram líða stundir. Ætli það verði ekki metsöludiskurinn í haust?
Á meðan ég hljóðritaði fór Elín ásamt bróður sínum og sótti Birgi litla Þór. Síðan var haldið í hádegismat sem var í boði Hrafnistu.
Að því búnu slóst tengdamóðir mín í för með okkur og héldum við á víkingahátíðina. Þar var margt á seiði. Ýmiss konar handverk var sýnt og fannst mér mikið til um þungar keðjur úr silfri sem voru notaðar sem skraut við fornlega víkingabúninga.
Stemmningin var mjög alþjóðleg. Þarna var dansaður magadans og maður nokkur, sem mælti á norsku, kyrjaði eins og tíbetskur munkur. Hann náði ótrúlega djúpum tónum. Barðar voru bumbur og barkasöngvari var þarna prýðilegur.
Ég fékk leyfi til að hljóðrita sýnishorn af því sem þarna var í boði. Nokkurn tíma tók að sækja búnaðinn og tengja. Því miður missti ég af barkasöngnum og tóninu. En ágæta hljóðmynd fékk ég af umhverfi og andrúmslofti hátíðarinnar.
Það er ef til vill dálítil fordild að ganga um með Nagra Ares BB+ og stóran víðómshljóðnema í stað þess að vera með minna tæki eða einn einómsnema. En hljóðgæðin eru vart sambærileg.
Bloggar | 15.6.2008 | 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég fékk sömu tölvu og í fyrra og þar var enn fyrir hendi íslenskur talgervill svo að ekki þurfti að hafa áhyggjur af því máli.
Þegar uppsetningu skjálesara var lokið var haldið í matsal Morgunblaðsins þar sem Styrmir Gunnarsson, ritstjóri, lét af störfum og afhenti Ólafi Þ. Stephensen ritstjórn Morgunblaðsins.
Styrmir flutti snjalla ræðu þar sem hann fór í stórum dráttum yfir feril sinn sem ritstjóra. Hann gerði upp af hreinskilni feril sinn og skoðanir.
Eftir að þeir Styrmir og Matthías losuðu Morgunblaðið undan flokksviðjum má segja að grundvöllurinn undir pólitískum daglböðum á Íslandi hafi brostið. Umræðan á síðum blaðanna hefur gerbreyst og er nú þannig að vart vill nokkur kalla yfir sig fyrri tíma.
Flestir hljóta að vera sammála um að í gær hafi orðið kaflaskil í íslenskri fjölmiðlun. Það er ánægjulegt að fá að takast á við þær áskoranir sem bíða blaðamanna undir stjórn nýs ritstjóra. En um leið vil ég þakka Styrmi fyrir ánægjulegt og gefandi samstarf og fyrir þann mikla stuðning semhann veitti samtökum eins og Öryrkjabandalagi Íslands á örlagatímum.
Bloggar | 3.6.2008 | 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag hlustaði ég á hádegisfréttirnar en kveikti áður á Nagranum og tengdi Shure VP88. Síðan lygndi ég aftur augunum í slípihávaðanum. Ég hrökk upp við brothljóð. Svei mér ef sumt af glerinu fór ekki inn í stað þess að sogast út. Eitthvað hruflaðist gluggakistan. Hljóðsýni fylgir með.
Bloggar | 21.5.2008 | 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um daginn var húsið háþrýstiþvegið og innan skamms verður hafist handa við að gera við það sem eftir er af sprungum og húsið síðan málað.
Þetta er 4. meiriháttar viðgerðin á 20 árum. Árið 1990 var húsið málað og gert við þakið.
Árið 1998 var gert við sprungur og ýmislegt annað lagfært.
Árið 2002 var enn gert við sprungur sem komið höfðu í ljós, en haustið 2001 hófst mikill leki á efstu hæðinni og einnig lak niður í íbúðir á næstefstu hæð. Um leið var húsið málað.
Baráttan við lekann stóð fram á síðasta ár en þá var enn ráðist í sprunguviðgerðir. Ekki var gert ráð fyrir að þær yrðu mjög miklar. En þegar farið var að kanna málið voru síðustu múrviðgerðir nær ónýtar og hefði því húsið allt orðið flekkótt. Var því talið réttast að mála það í sumar.
Vonandi verður húsið í sæmilegu lagi næstu árin. Ég held að íbúðareigendur þurfi alvarlega að velta því fyrir sér að mynda framkvæmdasjóð vegna væntanlegs viðhalds. Sá misskilningur virðist ríkja að óheimilt sé að mynda slíka sjóði, en gera má ráð fyrir að sameiginlegur viðhaldskostnaður nemi a.m.k. 1-2,5% af brunabótamati íbúða (erfitt að ákvarða þetta vegna verðhækkana á húsnæði) og mála þarf hús ekki sjaldnar en á 6-8 ára fresti auk sprunguviðgerða sem endast jafnvel skemur. Sumir halda því fram að þeir séu á móti því að mynda slíka sjóði þar sem þeir flytjist þá með íbúðum til nýrra eigenda. Hinir sömu skilja ekki að með slíkum ráðstöfunum eru þeir ekki eingöngu að tryggja sjálfa sig heldur eru þeir að gera íbúðirnar seljanlegri um leið og verðmæti þeirra er í raun aukið.
Steinsteypa er hvarfgjarnt efni. Ekki verður á móti því mælt. Hún endist ekki eins vel og fólk hélt áður fyrr.
Bloggar | 20.5.2008 | 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lint var orðið í dekkjunum og var því haldið út á smurstöð við Norðurströnd og dælt í þau lofti. Síðan fórum við hring á Nesinu, þaðan út að göngustígnum við Ægisíðu og snerum heim á leið. Hjóluðum við 9 km.
Eftir það syntum við í sundlaug Seltjarnarness, Elín einhver ósköp en ég 200 metra.
Nú liggja 16 þrep upp að aðalinngangi sundlaugarinnar og heilsuræktarstöðvarinnar. Við skoðuðum aðstæður á bak við mannvirkið, en þar á að hleypa fólki í hjólastólum inn í bygginguna. Ég eit ekki hvernig á að ganga þannig frá þeirri aðkomu að hún verði hentug fólki í hjólastólum.
Ég ítreka það sem ég hef sagt í þessum færslum, að aðalinngangur mannvirkis á að vera ætlaður öllum en ekki sumum. Mér þykir bygginganefnd Seltjarnarness hafa staðið sig illa í þessu máli, arkitektar og aðrir aðstandendur. Einnig þykir mér miður að ekkert hafi heyrst frá ferlinefnd Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðisins.
Mannvirki þetta, sem eitt sinn var rómað fyrir aðgengi, er nú orðið okkur Seltirningum til skammar.
Bloggar | 15.3.2008 | 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það gladdi mig því meira en orð fá lýst þegar ég fékk tölvupóst í morgun frá starfsmannastjóra Morgunblaðsins þar sem mér og fleira fólki var boðið sumarstarf hjá blaðinu.
Auðvitað þá ég starfið enda naut ég þess að vinna þar í fyrra. Það er því full ástæða til að líta björtum augum til sumarsins á þessum sólríka degi. Með öðrum orðum er ég í sólskinsskapi!
Bloggar | 21.2.2008 | 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Í gær keypti Elín handa mér Yaktrax hálkubúnað og þóttist ég því vel skæddur. Gangstéttin var sæmilega mokuð út að Skerjabraut. Þegar yfir götuna kom voru þar háir snjóhaugar og þurfti ég að leita að færri leið vestur eftir gangstéttinni meðfram Nesveginum. Maður nokkur sá til mín og leiðbeindi mér.
Mér heppnaðist að finna gönguljósin og steðjaði yfir Nesveginn. Hann var marauður. Gangstéttin að Eiðistorginu var ekki auð, samfrosta hálka mestalla leiðina. En við Eiðistorgið sjálft var ágætlega mokað.
Ég komst klakklaust frá þessu og hafði gaman af að fást við þessa erfiðleika. En mikið mættu bæjaryfirvöld hugsa sinn gang og gera gangandi vegfarendum jafnhátt undir höfðu og þeim sem ferðast um akandi.
Ýmsar þjóðsögur eru sagðar um mig og þar á meðal sú að ég eigi hjónaband mitt því að þakka að til mín sást veturinn 1987 þar sem ég klofaðist yfir djúpan skafl. En hálkan og ófærðin sem nú er á götum höfuðborgarsvæðisins er varla þess virði að hætta á annað hjónaband enda get ég vart verið betur giftur en raun ber vitni. Skaparanum sé þökk.
Bloggar | 13.2.2008 | 12:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í vor auglýsti ég fyrir hönd fjölskyldu minnar í Fréttablaðinu, Ríkisútvarpinu, Morgunblaðinu og á Útvarpi Sögu eftir sófabekk, útskornum, sem fyrir slysni hafði lent í Góða hirðinum og var seldur þaðan fyrir 15.000 kr. Vildi ég fá að kaupa þennan bekk aftur enda sófi þessi dýrmætur fjölskyldugripur og bakið, allt útskorið, í okkar höndum.
Ég komst svo langt að eiga tal við fólk sem sá þegar sófinn var seldur, en kaupandinn taldi ekki ástæðu til að eiga við okkur nein viðskipti, þótt ég sé handviss um að hann/hún hafi séð fréttir um þetta mál. Óttast ég nú að gripurinn hafi endanlega verið eyðilagður. En ef einhver, sem les þetta, þekkir til kaupandans, þætti mér vænt um að hann eða hún yrði fengin til að hafa samband við mig. Ég þykist nær viss um aðkona keypti þennan útskorna sófabekk.
Bloggar | 18.1.2008 | 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
lifna allar dróttir.
Frá mér Drottinn fær nú hrós,
fyrnast kvíðasóttir.
Bloggar | 23.12.2007 | 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
-
alla
-
axelthor
-
arnibirgisson
-
ormurormur
-
astafeb
-
bjarnihardar
-
gattin
-
dora61
-
saxi
-
jaherna
-
jovinsson
-
fjarki
-
gislisigurdur
-
gudni-is
-
gelin
-
gummigisla
-
heidistrand
-
helgigunnars
-
hildurhelgas
-
himmalingur
-
hoskibui
-
isleifur
-
jakobk
-
fun
-
jonhalldor
-
jon-o-vilhjalmsson
-
nonniblogg
-
juliusvalsson
-
kje
-
kristbjorggisla
-
methusalem
-
mortenl
-
moguleikhusid
-
skari60
-
rafng
-
ragnar73
-
fullvalda
-
duddi9
-
siggisig
-
saemi7
-
vefritid
-
thorirj
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.4.): 2
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 14
- Frá upphafi: 319968
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar