Færsluflokkur: Bloggar
Enn hef ég ekki áttað mig á því hvað veldur þessari miklu aðsókn. Það hefur öðru hverju hvarflað að mér að ef til vill væri þetta blogg eintóm endaleysa. Sé svo verður að hafa það. En svali það fróðleiksást einhvers eða skemmti öðrum er best að halda því áfram.
Bloggar | 2.10.2008 | 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Við höfðum lokið landsprófi þá um vorið og vorum af einhverjum ástæðum ákveðnir í að stunda nám við MR. Faðir okkar, Helgi Benediktsson, hafði samband við Einar Magnússon, rektor, og tókst með þeim góð vinátta, svo góð reyndar að Einar hringdi til hans eitt sinn heitvondur vegna þess að ungur piltur frá Vestmannaeyjum hafði skrifað honum og tjáð honum að hann gæti því miður ekki hafið nám við MR sökum fátæktar. Sagðist pabbi undrast þetta mjög, þegar hann heyrði hver pilturinn var, því að hann vissi ekki betur en hann hefði skráð sig í annan skóla. Varð Einar þá æfur og sagðist hafa farið í menntamálaráðuneytið og farið mikinn yfir því að ekki skyldu vera til úrræði til að styrkja fátæka námsmenn utan af landi.
Einar Magnússon velti því fyrir sér hvort hag okkar væri e.t.v. betur borgið í Menntaskólanum v. Hamrahlíð og bauðst til að hafa samband við Guðmund Arnlaugsson, rektor. En úr varð að við völdum MR og sátum þar við okkar keip.
Einar var rektor fyrri tvö ár okkar í skólanum en síðan tók Guðni Guðmundsson við. Var samband okkar við þá rektorana jafnan gott og Einar reyndist okkur sannast sagna hinn mesti haukur í horni.
Það olli okkur talsverðum vandræðum að kennarar áttu erfitt með að ákveða þá námsskrá sem farið skyldi eftir um veturinn. Var þetta mjög bagalegt því að skrifa þurfti það allt á blindraletur eða lesa inn á segulband. Þá var einungis einn blindrakennari starfandi hér á landi, Einar Halldórsson. Tók hann að sér að skrifa það sem skrifa þurfti af sérhæfðu námsefni, en ég sá um það sem vinna mátti af segulböndum. Þegar skólinn hófst um haustið kom í ljós að við einar höfðum unnið sumt fyrir gýg og má nærri geta hver óþægindi það hafði í för með sér. En gott fólk brást við og las sumt af því inn á segulband. Mér er enn minnisstæður fundur í Framtíðinni, málfundafélagi MR, þar sem þessi mál bar á góma. Kom til snarpra orðaskipta milli okkar tvíburanna og nemenda annars vegar og einhverra kennara hins vegar sem hreinlega skildu ekki um hvað málið snerist. En upp úr því færðust hlutir heldur til betri vegar.
Við bræður urðum fyrir miklu áfalli í nóvember þá um haustið þegar Einar Halldórsson lést. Enn brást gott fólk við og kom okkur til aðstoðar. Kristín Jónsdóttir, eiginkona Björns Sigfússonar, háskólabókavarðar, hafði skrifað námsefni handa blindu fólki 20 árum áður og rifjaði nú upp kunnáttu sína. Skrifaði hún þá þýsku sem við þurftum á að halda á meðan á menntaskólanámi stóð.
sumarið 1969 var keypt hingað til lands IBM-rafmagnsritvél með blindraletursstöfum í stað venjulegra bókastafa. Var henni breytt fyrir íslenskt blindraletur. Tók Helga Eysteinsdóttir, núverandi formaður Blindravinafélags Íslands, að sér að skrifa námsefni með vélinni. Tókst það ótrúlega vel. Skrifaði hún eftir það mestallt efni sem við þurftum: frönsku, latínu, ensku að mestu leyti, stærðfræði o.s.frv. Var Helga ótrúlega afkastamikil enda skrifa menn mun hraðar með rafmagnsritvél en gamaldags blindraletursritvél sem hafði lítið breyst frá því á 4. áratugnum. Kristín hélt áfram að skrifa þýskuna og Jolee Crane ensku. Rétt er að geta þess að Björn Sigfússon, eiginmaður hennar, las einnig gríðarlega mikið fyrir okkur auk systur okkar og mágs.
Þetta var í fyrsta sinn sem blindir eða verulega sjónskertir nemendur hófu nám á menntaskólastigi hér á landi. Kennarar við MR brugðust afar vel við og vildu í raun allt fyrir okkur gera. Held ég, þegar horft er aftur til þessara ára, að við höfum í raun þegið miklu minni aðstoð en ástæða var til.
Allt blessaðist þetta og við lukum stúdentsprófi fjórum árum síðar ásamt jafnöldrum okkar.
Óþarflega oft heyrði ég okkur bræðrum hrósað á þessum tímum fyrir eitthvað sem okkur þótti óþarft og einatt ollu viðhorf og aðdáun okkur óþægindum. Það gladdi mig því mjög þegar gamall heimilisvinur, Oddtsteinn Friðriksson, sagðist oft hafa heyrt fólk dást að því hvernig ég færi að. “En segðu mér eitt, Arnþór minn. Er þetta nokkuð erfiðara hjá þér en öðrum?”
Svaraði ég því til að hann hefði svo sannarlega hitt naglann á höfuðið.
Á þessum 40 árum sem liðin eru hefur heimurinn tekið stakkaskiptum. Tölvur eru komnar til sögunnar sem leysa margan vanda en þó ekki allan. Blindrabókasafn Íslands er orðin öflug Námsgagnastofnun og allur stuðningur meiri en áður.
Viðhorfin hafa einnig breyst. Þó finnst mér ríkja ótrúlega mikil vanþekking á raunverulegri getu blindra. Vanþekkingin veldur og því að fötlun fólks er aukin með ýmsum aðgerðum sem framdar eru í hugsunarleysi og valda því að hindranir eru lagðar í götu þeirra sem eru fatlaðir. Skortir mjög á að á þeim málum sé tekið í íslenskri löggjöf.
Ég lít til þessara ára í MR með mikilli ánægju og þakklæti fyrir samskipti við skólafélaga og kennara.
Bloggar | 27.9.2008 | 17:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sitthvað gerist hjá mér sem er ekki til eftirbreytni. Þannig var vakin athygli mín á meinlegri stafsetningarvillu í síðasta pistli og þakka ég þá ábendingu.
Það er nú svo um okkur þessa vitru að við komum ekki auga á bjálkann í auga okkar en sjáum flísina í auga bróðurins.
Baldur á Ófeigsstöðum orti einu sinni skemmtilega vísu um vin sinn, Steingrím í Nesi, en þeir ortust einatt á, vinirnir:
Steingrími er voðinn vís.
Vel ég manninn þekki.
Breikkar hann síns bróður flís,
en bjálkann sér hann ekki.
Bloggar | 24.9.2008 | 08:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Páll skrifaði konu sinni löng bréf frá þessari ferð sem stóð í um 6 vikur með lestarferðinni á milli Kaupmannahafnar og Peking. Eyddum við 15 nóttum í lest og vorum 23 daga í Kína. Bréf Páls voru skrifuð á meðan atburðirnir gerðust og skipta síðurnar hundruðum. Eru þau áreiðanlega merkisheimild um þjóðfélag það sem ríkti við lok menningarbyltingarinnar.
Bloggar | 17.9.2008 | 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Alltaf líður samt tíminn og í gær og í dag hef ég verið að undirbúa væntanlega útvarpspistla mína í haust. Þeir verða einu sinni í viku. Ætla ég m.a. að leyfa hlustendum að heyra ýmis hljóðrit sem hafa verið gerð á vettvangi og með einföldum tækjabúnaði. Eigi einhver eitthvað skemmtilegt í fórum sínum sem hann langar til að útvarpa getur hann haft samband við mig og sjáum við þá hvað setur.
Það eru einkum snældur sem ég hef skoðað að undanförnu og minidiskar. Ég fann m.a. stórskemmtilegt hljóðrit frá æskulýðsmóti blindra á Langeland í Danmörku árið 1983, kínverska messu, gamlan útvarpsþátt frá BBC um Eyjagosið og sitthvað fleira. Verður rannsóknum á snældusafninu haldið áfram næstu daga.
Þetta æskulýðsmót var á margan hátt merkilegt og margt bar þar á góma. Til okkar kom kynlífsfræðingur og flutti erindi um kynlíf blindra og það hvernig þeir færu að því að komast í samband við hitt kynið. Var sú lýsing ekki alls kostar geðfelld.
Hann hélt því fram að svo virtist sem þeir römbuðu á þann fyrsta sem yrði á vegi þeirra, þegar þeir væru orðnir nógu drukknir og réðist framhaldið af því. Sagði hann að gæði skyndikynna og kynlífs blindra væru ekki hin sömu og á meðal hinna sjáandi.
Mörgum gramdist þessi málflutningur. syntu flestir þátttakendur út að stauragirðingu sem var skammt frá landi og héldu þar áfram umræðum í heitum sjónum og sjóðandi sólskini. Ekki veit ég hvort menn reyndu mikið fyrir sér á þessu æskulýðsmóti. Að minnsta kosti varð ég ekki var við það.
Bloggar | 16.9.2008 | 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í gamla daga var jafnan sagt frá síldveiðum í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins. Síðan kom þátturinn Auðlindin en nú er varla minnst á fiskveiðar.
Barnsfæðingar eru skemmtilegar fréttir. Ég legg því til að þær verði fastur liður hjá ríkisútvarpinu.
Í morgun fór ég að láta skrá mig atvinnulausan. Var þar slangur af fólki. Einhver hafði dreypt á kaupstaðardropum til þess að örva kjarkinn og lagði ilminn af íslensku brennivíni um allan salinn. Dapurlegt.
Ung kona, sem mér var vísað til, spurði mig í þaula um hitt og þetta. Benti hún mér á að skrá mig í upplýsingagrunn Vinnumálastofnunar og sagði mér hvernig mér bæri að standa að því. Þegar heim kom fann ég ekki krækjuna á heimasíðu Vinnumálastofnunar sem vísar á gagnagrunninn (skráningareyðublað held ég að hann heiti) og velti því fyrir mér hvort verið geti að krækjan sé mynd án alt-texta. Hef ég lagt fram fyrirspurn um þetta mál eftir að hafa leitað af mér allan grun.
Í janúar 2007 skrifaði ég Gissuri Péturssyni, forstjóra stofnunarinnar, og benti honum á að eitthvað þyrfti að gera til að bæta aðgengið. Mér sýnist næsta lítið hafa gerst síðan. Talsvert margar krækjur eru á síðunni sem skjálesarinn les eingöngu sem "link".
Ég hef áðursagt á þessum síðum að óaðgengilegt efni sé í raun mesta hindrun fólks í nútíma samfélagi til þess að njóta jafnréttis. Í raun fela óaðgengilegar heimasíður í sér mismunun. Sú mismunun er engu skárri en mismunun kynjanna.
Bloggar | 11.9.2008 | 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þegar litið er yfir atvinnuauglýsingar um helgina kemur í ljós að talsvert framboð er af atvinnu. Þó er varla nokkurt starf sem ég þori að sækja um. Mér hefur einna helst flogið í hug starf sáttasemjara ríkisins. Ætli næsti sáttasemjari verði ekki kona?
Ekkert starf virðist nú laust við fjölmiðlun, en þar ímynda ég mér að ég kunni einna best til verka, a.m.k. á sumum sviðum. Myndvinnslan vefst einnahelst fyrir mér.
Bloggar | 8.9.2008 | 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þessi björgun var einstakt afrek og bar vott um mannúð þá sem íslenskir sjómenn sýndu ávallt og hafa sýnt. Ekki skipti máli hverrar þjóðar mennirnir voru. Þeim skyldi bjargað.
Margt var skrýtið við þann atburð, til að mynda það að einn úr áhöfninni skyldi tala íslensku og biðja kokkinn fyrir kveðju til Guðrúnar Gísladóttur á Smiðjustíg 11. Annar vélstjórinn, Jón Hjálmarsson, heyrði orðaskiptin og greindi mér frá þeim árið 1999. Ég fór á fund gömlu konunnar sem hafði þá aldrei fengið kveðjuna og áttaði sig hreint ekki á því hver þetta gæti hafa verið.
Hún sagði mér þó skemmtilega sögu frá árinu 1934 þegar hún fór ásamt vinkonu sinni í skemmtigöngu með tveimur ungum mönnum í skemmtigarði í Leipzig. Hún og annar ungi maðurinn drógust aftur úr.
Hvernig heldurðu, spurði hann, að börnin okkar yrðu, við sem erum svona ljós yfirlitum og hánorræn.
Hún kvaðst hafa neitað að svara spurningunni enda hefðu þau aðeins þekkst í hálftíma. Firrtist þá ungi maðurinn við. Guðrún sagðist ekki hafa haft neinn áhuga á einhvers konar kynbótastarfsemi.
Bloggar | 20.8.2008 | 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jóhannes var einn snjallasti hagyrðingur landsins og hraðkvæður svo að af bar. Hann var einn þeirra manna er settu sterkan svip á tilveruna, hógvær maður og lítillátur og svaraði gjarnan spurningu með vísu.
Þegar ég var yngri en nú stofnuðum við kunningjarnir fyrirtæki sem átti að eiga viðskipti við Kína. Rákum við það í smáum stíl fram að árin8 1980, en þá lagði það upp laupana. Ekki verða ástæðður þess raktar hér, en fyrirtækið fékk ekki það liðsinni sem það hefði átt skilið. Bankastjórar 8. áratugarins höfðu lítinn skilning á að Kína væri upprennandi efnahagsstórveldi.
Við félagarnir fluttum m.a. til landsins harmonikur frá Kína af tegundinni Parrot (páfagaukur). Jóhannes keypti eina þeirra árið 1974 og notaði hana áratugum saman þegar hann lék jólasvein á Lækjartorgi og víðar.
Ýmsar hnyttnar vísur eru eftir Jóhannes. Yngri tvíburabróðir minn trúlofaði sig í tvígang um miðjan 8. áratuginn og þótti Jóhannesi hann gerast óþarflega fjölþreifinn til kvenna. Hann orti þessa vísu:
Fjári er hann fjörugur,
fljóðin við hann sýsla.
Það er árviss atburður
opinberun Gísla.
Við Jóhannes áttum um nokkurt skeið samleið innan Kvæðamannafélagsins Iðunnar og ævinlega var skemmtilegt að hitta hann.
Nú hefur góður drengur kvatt.
Bloggar | 11.7.2008 | 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Húsið sem við skoðuðum í dag var að mörgu leyti skemmtilegt. Sá galli var þó á gjöf Njarðar að miðhluti hæðarinnar var hækkaður upp um 20 cm eða þarum bil. Stofan var lægri og einnig var skot meðfram pallinum sem gerði það að verkum að húsrýmið nýttist illa. Þá skapar þessi pallur stórhættu fyrir sjónskert fólk.
Skyldmenni fyrri eiganda stundaði nám í arkitektúr þegar húsið var í smíðum og fékk að spreyta sig með snilligáfu sinni. Ég held a því miður hafi neminn fremur spillt húsnæðinu en bætt það.
Við hugsum okkur sjálfsagt vandlega um áður en við bjóðum í húsið.
Bloggar | 7.7.2008 | 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
-
alla
-
axelthor
-
arnibirgisson
-
ormurormur
-
astafeb
-
bjarnihardar
-
gattin
-
dora61
-
saxi
-
jaherna
-
jovinsson
-
fjarki
-
gislisigurdur
-
gudni-is
-
gelin
-
gummigisla
-
heidistrand
-
helgigunnars
-
hildurhelgas
-
himmalingur
-
hoskibui
-
isleifur
-
jakobk
-
fun
-
jonhalldor
-
jon-o-vilhjalmsson
-
nonniblogg
-
juliusvalsson
-
kje
-
kristbjorggisla
-
methusalem
-
mortenl
-
moguleikhusid
-
skari60
-
rafng
-
ragnar73
-
fullvalda
-
duddi9
-
siggisig
-
saemi7
-
vefritid
-
thorirj
Apríl 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | 5 | ||
6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 | 12 |
13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 | 19 |
20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 | 26 |
27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.4.): 7
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 21
- Frá upphafi: 319952
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 15
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar