Færsluflokkur: Bloggar

Flugur í fjöru

Birgir litli Þór var hjá ömmu og afa í fóstri í nótt. Við ætluðum í fjöru í dag að sýsla ýmislegt skemmtilegt. En sá stutti fór að kasta upp í morgun svo að ekkert varð af fjöruferð og faðir hans sótti hann um nónbil.

Við hjónakornin fórum út í Gróttu áðan og hlustuðum á Atlantshafið spjalla við vitann. Greina mátti þungar drunur brimsins. Stafalogn var og undursamlegt veður. Í svona veðri hefði verið gaman að hljóðrita tónbrigði sjávarins.

Við héldum göngunni áfram meðfram ströndinni og nutum blíðunnar. Ský dró fyrir sólu. Sólin gbraust fram úr skýjum þegar dró að lokum göngunnar og skreytti umhverfið. Í fjörunni voru flugur enda lýkur febrúar í dag og senn vorar. Gísli Halldórsson, leikari, notaði einungis tvær árstíðir. Sumarið hófst 1. mars og veturinn 1. nóvember. Hvorki var haust né vor í hans dagatali.


Enn eitt reiðarslagið

Huld Magnúsdóttur, fyrrum stjórnanda hjá Össuri, hefur verið boðið embætti forstjóra nýrrar Þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Ég sótti um starf sérfræðings á vegum Blindrabókasafns Íslands sem var ætlað að vinna hjá nýju stofnuninni 1. desember sl og fékk aldrei svar við þeirri umsókn.

Þegar embætti forstjóra var auglýst laust til umsóknar eftir áramótin sótti ég einnig um það enda taldi ég mig hafa ærna þekkingu og reynslu á þessu sviði.

Þeirri, sem nú tekur við starfinu án nokkurrar þekkingar á málaflokknum er óskað velfarnaðar í því sem hún tekur sér fyrir hendur.


Hrafninn flýgur og skoðar hljóðnema

Í dag eru 25 ár liðin frá því að kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar, Hrafninn flýgur, var frumsýnd. Í viðtali á Morgunvakt Rásar eitt við Kristján Sigurjónsson lýsti Hrafn því hvernig þjófnaður á Kastrup-flugvelli varð til þess að breyta tónlistinni í myndinni og er það fróðlegt áheyrnar.

Til minningar um myndina sem enn lifir góðu lífi á meal sérvitringa, eins og Hrafn sagði sjálfur, er birt hér hljóðrit frá 30. janúar síðastliðnum. Hrafn heyrist krunka. Sé grannt eftir hlustað heyrist hvar hann tyllir sér á svalahandrið. Þar virðir hann hljóðnemana fyrir sér og hverfur síðan á braut með fyrirlitningarkrunki. Þessi andskoti er sko ekki ætur!

Áhugasömum hlustendum er einkum bent á vængjasláttinn og hreyfinguna.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ástarlíf hrafna

Eins og komið hefur fram á þessum síðum hef ég reynt að hljóðrita hrafna að undanförnu.

Undanfarið hef ég komið fyrir hljóðnemum á svölunum hjá mér og náð nokkrum stuttum hljóðritum af krunki hrafnsins. Einn þeirra sá ástæðu til þess að svala forvitni sinni og settist á handriðið að skoða hljóðnemana. Hann varð þess fljótt var að þeir voru einskis virði, rak upp fyrirlitningarkrunk og flaug brott. Þar náði ég víðómshljóðriti af vængjatökum hans.

Nú fer í hönd sá tími að Hrafnar fara að leita sér að maka. Reka þeir þá upp sérstakt hljóð. Ef einhver á slíkt hljóð eða önnur hljóðrit af krunki hrafnsins væru þau þakksamlega þegin.

Þá er mér tjáð að hrafnar gisti í fjöllum eins og Esjunni og Helgafelli. Heyrist oft í þeim á leið inn til borgarinnar á morgnana. Frekari upplýsingar um hentuga staði til að hljóðrita krumma þigg ég með þökkum.


Krummi krunkar ekki fyrir hvern sem er

Að undanförnu hafa nokkrir hrafnar farið mikinn í nágrenni við mig og látið öllum illum látum. Aðstæður leyfðu ekki að ég brygðist skjótlega við og hljóðritaði þá.

Í morgun fyrir birtingu setti ég hljóðnema út á svalir og tengdi mínum góða hljóðrita. Auðvitað hefur krummi ekkið látið á sér kræla.

Sömu sögu er að segja um fyrri viðskipti mín við hann. Ævinlega hefur hann þagnað þegar ég hef beint að honum hljóðnema. Annaðhvort er krummi feiminn eða heldur að hljóðneminn sé byssa.

Fyrstu samskipti okkar krumma voru ekki jákvæð. Við tvíburarnir lágum stundum úti á palli við heimili okkar í Vestmannaeyjum. Vorum við hafðir í hengirúmum þegar við vorum á öðru ári, en við fórum seint að ganga.

Eitt sinn gerðist það að taminn hrafn réðst að okkur. Við bárum víst fyrir okkur hendurnar og sköðuðumst ekki á augum.

Ég held að eðli krummans hljóti að vera fjölbreytilegt og hann upp til hópa skynsöm skepna. Hljóðin eru margvísleg og ólík eftir því hvað hann hefst að hverju sinni. Eitthvert ljótasta dýrahljóð sem ég hef heyrt hljóðritaði Magnús Bergsson. Þar réðst hrafn á þrastahreiður og má skynja illskuna í kvikindinu.

Öðru sinni fylgdumst við Elín með því þegar tveir hrafnar ætluðu að því er virtist að ræna skúmshreiður austur á Breiðamerkursandi, en við fórum þar um hjólandi. Það skipti engum togum að skúmurinn réðst að þeim og flúðu þeir sem vængir toguðu. Þá kom í þá hræðsluhljóð.


Ófarir

Í morgun var mér bent á auglýsingu um starf við Blindrabókasafn Íslands sem var að finna á starfatorgi. Var þar m.a. gert ráð fyrir yfirfærslu prentaðs efnis á blindraletur og sitthvað fleira sem ég hefallgóða þekkingu á. Umsóknum skyldi skilað fyrir 1. desember.

Af einhverjum ástæðum hafði þessi umsókn farið framhjá mér. Annaðhvort hefur skjálesarinn skautað yfir hana eða eitthvað annað hefur valdið. En ég sótti.

Ekki stóð á svarinu. Verklagsreglur ríkisins leyfa ekki að tekið sé við umsóknum sem berast eftir auglýsta dagsetningu.

Það liggur við að mér fallist hendur. Rétt er að láta vonleysið ekki ná tökum á sér heldur fara á hátíðarsamkomu hjá Þjóðarbókhlöðunni þar sem opnaður verður nýr og endurbættur vefur www.timarit.is.

Mér hlýtur einhvern tíma að leggjast eitthvað til.


Rafmagnsleysi í norðurhlutanum

Í gærkvöld sprakk pera fremst í ganginum hjá okkur. Þegar átti að skipta um peru reyndist nær ókleift að ná ljósakúplinum niður. fóru leikar svo að eitthvað gerðist og fór allt rafmagnið af norðurhluta íbúðarinnar. Þar með varð svefnherbergið rafmagnslaust, baðið, tölvuhornið og annað sem þeim megin er. Nú er beðið eftir rafvirkja til þess að kippa þessu í liðinn.

Ágætur dagur

Í morgun fórum við Ólafur Egilsson að hitta sendinefnd frá Shanghai. Fræddi Ólafur nefndarmenn af stakri snilld um íslensk þjóðfélagsmál og hlaut góðar viðtökur fyrir.

Anna María Sveinsdóttir, opinber fylgikona mín, heimsótti okkur í morgun. Eftir hádegi renndum við hjónin okkur á Orminum bláa hring á Nesinu og héldum síðan út í Bónus að ná okkur í rjómaís og sitthvað fleira gott fyrir kvöldið, en þá var von á gestum. Einn þeirra, Birgir Þór, Árnason, varð eftir og gistir nú hjá ömmu og afa. Hann er orðinn svo stór að hann sefur nú á dýnu í stað barnarúms sem hann komst ekki sjálfur upp úr. Svona líður tíminn. Bróðir hans, unglingurinn Hringur, gisti hjá okkur í fyrri nótt. Alltaf er jafngott að vita þá bræður alla þrjá hé rí húsinu.

Það var fremur svalt að hjóla úti í dag enda sýndi mælirinn á hjólinu 3-4 stig. Gott var það þó.


Yndislegt sakleysi og trúnaðartraust

Hér er slóð á pistilinn um Birgi Þór, Kristu Sól og börnin í Tjarnarási. Njótið þessara yndislegu frásagna og söngsins.

http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4416420/4


Atvinnumál

Í gær sótti ég um stöðu símavarðar hjá opinberu fyrirtæki. Fyllti ég út eyðublað á netinu. Þar sem það var ekki að öllu leyti aðgengilegt fyllti ég ekki út alla reiti en gat þess í frekari athugasemdum hver ástæðan væri. Fróðlegt verður að vita hvort eitthvað kemur út úr þessu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband