Færsluflokkur: Bloggar

Lóa á vappi við Ægisíðuna

Í morgun leiddum við Elín Orminn bláa úr hýði sínu í bílskúrnum, en þar hefur hann staðið óhreyfður frá því um miðjan ágúst. Stigum við á bak og héldum sem leið lá upp í Ríkisútvarp. Þar skiluðum við af okkur bréfi, fórum því næst í Kringluna og þaðan heimleiðis.

Við sveigðum af Ægisíðunni inn á hjólreiðastíginn sem lagður var í vor og brunuðum í áttina að Faxaskjóli. Varð þá á vegi okkar lóga sem flpögraði um og vappaði. Skyldu hún eiga hér vetursetu?

Fleiri vorboðar voru á ferli. Við Faxaskjólið sló einn húseigandinn garðinn sinn af kappi og ilminn af nýslegnu grasi lagði á móti okkur.


Eyjan virðist í sókn

Senn verða 4 ár frá því að ég missti vinnuna og enn er ekkert fast í hendi.

Á Eyjunni er nú auglýst eftir blaðamönnum og sótti ég um. Vafalaust verða margir um hituna enda er nú fjöldi blaðamanna atvinnulaus.

Það er ánægjulegt og jafnframt tímanna tákn að íslenskur netmiðill sé nú í sókn og treysti sér til að ráða blaðamenn til starfa.


Fretir

Að undanförnu hefur sá merki fræðimaður, Jón Björnsson, sálfræðingur, hjólreiðagarpur og fyrrum félagsmálastjóri, flutt stórmerkilega pistla um furður vindanna. Í morgun var seinni pistill hans um freti.

Hljóðlistamaðurinn Michael Oster birtir á heimasíðu sinni ýmislegt um hljóðritun margvíslegra náttúrufyrirbæra. Þar á meðal er fróðleg samantekt um hljóðritun freta. Michael telur afar vandasamt að hljóðrita þá og þurfi til þess langan tíma svo að árangurinn verði viðunandi.

Í framhaldi af pistlum Jóns væri freistandi að taka saman örlitla hljóðmynd um freti. Ekki er ólíklegt að tveggja til þriggja mínútna fret-hljóðmynd krefðist talsverðrar fyrirhafnar. Það er næstum vísindalega sannað að meginfretir eru iðkaðir á morgnana þegar karlmenn fara og athafna sig á salerninu. Þess vegna þyrfti sá, sem tekur að sér þessa hljóðmyndargerð, að fara víða og fá heimild til þess að dvelja næturlangt hjá nokkrum fjölskyldum.

Síðan má velta því fyrir sér hvort það samræmdist velsæmismörkum ríkisútvarpsins að útvarpa slíkri hljóðmynd. En verkefnið er verðugt.


Guð blessi Ísland - nýtt útvarpsleikrit

Í dag frumflutti Útvarpsleikhúsið "Guð blessi Ísland", nýtt útvarpsleikrit eftir Símon Birgisson og Malte Scholz. Í kynningu leikhúsins sagði að leikritið nýtti sér aðferðir heimildaleikhússins til þess að segja ákveðna sögu. Söguþráðurinn var dálítið lauslega ofinn en leikurinn gerðist í litlum bæ þar sem skelfilegir atburðir höfðu orðið og hinir seku gengu lausir. Var m.a. unnið ú hljóðritum af samtölum sem tengja mátti við bankahrunið í fyrra og þá atburði sem á eftir fóru.

Símon leikstýrði sjálfur verki sínu en Hjörtur Svavarsson sá um hljóðvinnslu.

Hugmynd þeirra Birgis og Malta var og er góðra gjalda verð. Einhver annar, sem þekkir betur eðli útvarpsleikhús og hlustar helst eitthvað á útvarpsleikrit (sem Birgir gerir kannski) hefði þurft að leikstýra verkinu. Mér finnst einhvern veginn að hljóðtæknisnilld Hjartar Svavarssonar, sem er þaulreyndur tæknimaður, hafi ekki notið sín fyrir ráðríki leikstjórans.

Leikritið verður aftur á dagskrá fimmtudaginn 1. október kl. 22:15. Þetta verður vafalítið eitt þeirra verka sem Útvarpsleikhúsið endurtekur á næstu árum. Vonandi endurskoðar höfundur leikritið og fær einhvern annan til að leikstýra því.

Þeim, sem vilja kynna sér Símon Birgisson, er bent á bloggsíðu hans, http://blogg.visir.is/simonbirgis/


Hver bjargar sér sem best hann getur

Við nutum þeirra forréttinda að Árni, sonur Elínar, Elva Hrönn, tengdadóttir okkar og ungir synir þeirra, Birgir Þór og Kolbeinn Tumi, voru hjá okkur í tæpa viku. Í gær ákváðu þau hjónakornin að gera hreint hjá okkur áður en þau yfirgæfu okkur og settust aftur að suður í Hafnarfirði. Tókum við því piltana með okkur út að Bakkatjörn að gefa fuglunum.

Þar var talsvert mávager, nokkrar gæsir, endur og svanafjölskyldan, sem ríkir með harðri hendi yfir Bakkatjörninni. Gassinn var svo aðgangsharður að Elínu ömmu stóð vart á sama og bað fjögurra og hálfs árs snáðann að gæta sín. Svanirnir hvæstu að mannfólkinu í stað þess að þakka fyrir brauðið með svanasöng. Greinilegt var að aðrir fuglar sýndu þeim virðingu og hreyfðu engum mótbárum þótt brauðið væri hrifsað af þeim.

Nokkur lýti þóttu okkur plastpokar undan brauðmeti sem fólk virðist hafa kastað frá sér á tjarnarbakkann eftir að hafa tæmt þá. Plastið eyðist seint í náttúrunni og getur haft hættu í för með sér fyrir fiðraða íbúa Seltjarnarness.

Baráttan í mannheimum er háð af talsverðu miskunnarleysi. Ekki verður því neitað að fuglarnir hegða sér að mörgu leyti eins. Maðurinn virðist taka afstöðu með einni fuglategund annarri fremur. Þannig eru mávar illa séðir en svanir vel þokkaðir, a.m.k. á heiðarvötnum þar sem þeir kváðu syngja öðrum fuglum betur. Á Bakkatjörninni virðast þeir fremur sýna af sér ofbeldi og skefjalausa hörku í garð aðkomusvana og annarra fugla sem leyfa sér að koma sér þar fyrir. Baráttan um brauðið er hörð.


Óvænt tíðindi eftir fjóra áratugi

Um daginn skrifaði ég um ýmis leyndarmál Vestfjarða og nefndi þar á meðal Litla bæ í Skötufirði sem hlaðinn er að mestu úr flögugrjóti, en þann bæ fórum við að skoða fyrir rúmum hálfum mánuði.

Þegar við Elín áttum þar leið um föstudaginn 3. júlí hafði fáni verið dreginn að hún og á skilti stóð að heitt væri á könnunni. Þetta þýddi með öðrum orðum að einhver væri við og bærinn væri til sýnis.

Elín lagði til að við hefðum þar viðdvöl. Ég taldi það óþarft en hún vildi fyrir alla muni skoða bæinn að innanverðu. Við námum því staðar og gekk Elín inn. Hún sá hvar kona, væntanlega húsfreyjan í Hvítanesi, sat fyrir utan og naut sólskinsins. Drap Elín nokkur högg á gluggann og gerði þannig vart við okkur. Kom húsfreyjan að vörmu spori og heimilaði Elínu að skoða sig um. Við tókum tal saman og eftir dálítið spjall kynntum við okkur hvort fyrir öðru.

Sigríður Hafliðadóttir sagðist muna vel eftir því að við tvíburarnir hefðum haldið skemmtun í Króksfjarðarnesi árið 1966, en það var fermingarárið okkar Sigríðar. Tjáði hún mér að þá hefði hún í fyrsta sinn heyrt karlmannsnafnið Arnþór. Þótti henni það svo fallegt að hún hét sjálfri sér því að skíra dreng þessu nafni ef hún eignaðist einnhvern tíma son. Drengurinn fæddist árið 1972 og var skírður Arnþór Bragi.

Menn geta rétt ímyndað sér að ég varð himinlifandi yfir þessum tíðindum. Tjáði Sigríður mér að Arnþór hennar væri vel metinn og hefði hvarvetna komið sér vel. Af því að dæma sem ég hef lesið um þennan nafna minn er þessi skoðun svo sannarlega á rökum reist.


skemmtileg Kvennakirkjumessa handa höfðingjasleikjum

Dagurinn var skemmtilegur. Við fórum í leiðangur með Hring okkar og á meðan Elín mátaði skó bjó Hringur til handa mér hringitóninn "Austrið er rautt" svo að nú er þessi gamli, kínverski ástarsöngur og lofsöngur um Mao kominn á ný í farsímann minn.

Í kvöld brugðum við Elín undir okkur Orminum bláa og hjóluðum austur að gömlu þvottalaugunum að hlýða messu hjá Kvennakirkjunni. Prédíkaði séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir og var bæði skemmtileg og greind að vanda. Sagðist hún hafa komist að því að Íslendinga mesti vandi væri sá að þeir væru höfðingasleikjur.

Í ræðunni fjallaði hún einnig um flóttann frá Egyptalandi hér um árið þegar Móses leiddi Ísraelslýð um eyðimerkur Sínaí-skaga eða þar til þeir gátu hremmt Ísrael úr höndum þeirra sem ráðu því. Hún taldi að vísu að guð hefði gefið þeim landið en mér finnst ævinlega sem Gyðingar hafi stolið því.

Hún Auður rakti síðan skemmtilega hvernig skiptingin væri milli gamla testamentisins og hins nýja: Guð talaði fyrst við höfðingjana sem hefðu verið boðberar hans lýðnum. Síðar hefði guð gengið um á meðal manna sem Jesús og talað við almenning.

Enn hafði Auður Guð í kvenkyni. Þó fór hún með föðurvorið en ekki móðurvorið og var vissulega nokkur ósamkvæmni í því. Hún gleymdi samt ekki að ávarpa okkur hina fáu karlmenn sem hlýddum messunni.

Ég hef einu sinni áður hlýtt messu hjá Kvennakirkjunni. Niðurstað mín er sú að messur þeirra kvennanna vinni gegn ýmsum fordómum. Auður er hrífandi ræðumaður enda fékk hún gott hljóð.

Unnur vinkona okkar kom til móts við okkur í messuna og þar hittum við einnig Fanneyju Proppé sem bauð okkur þremur í kaffi og konfekt. Voru því andi og líkami vel nærðir eftir þennan dag.


Hinn sérstaki hljómur

Nú er leikin lúðrasveitahljómlist í Ríkisútvarpinu í tilefni sautjándans. Ég á eina skemmtilega minningu um íslenska lúðrasveit á erlendri grundu.

Árið 1974 kom ég því til leiðar að Blindrafélaginu var boðið að senda fulltrúa til vikudvalar í þorpinu Boltenhagen við Eystrasalt, en þar áttu austurþýsku blindrasamtökin skemmtilegt sumarsetur. Var þar iðulega efnt til samstarfsfunda Norðurlanda og Austur-Þýskalands, en Dr. Dr. Helmut Pilasch, formaður þeirra, var mikill áhugamaður um slíka samvinnu og eins framsýnn og nokkur kommúnisti undir járnhæl Sovétríkjanna gat leyft sér að vera.

Ég fór tvisvar á fund í Boltenhagen. Árið 1985 var ég þar með móður minni. Sunnudagsmorgun nokkurn, í 2. viku júlímánaðar vorum við á baðströndinni og í fjarska var einhver með lítið útvarpstæki. Var verið að útvarpa hátíðartónleikum á Eystrasaltsvikunni í Rostock. Allt í einu heyrði ég einhvern mars sem ég kannaðist við. En ég kannaðist við fleira og sagði við móður mína að nú mætti hundur í hausin á mér heita ef þetta væri ekki Hornaflokkur Kópavogs.

Tveimur dögum síðar fórum við með lest til Kaupmannahafnar og á Kastrup-flugvelli hittum við félaga úr Hornaflokki Kópavogs. Kom þá í ljós að þeir höfðu verið í beinni útsendingu um kl. 10:30 tveimur dögum fyrr.

Björn Guðjónsson, hinn mæti stjórnandi hornaflokksins, vildi að ég gæfi sér skýringu á því hvernig stæði á því að ég hefði þekkt hljóminn í hornaflokknum. Ég gat enga skýringu gefið aðra en þá að hann hefði sinn sérstaka hljóm.

Annars á ég ýmsar minningar um sautjándann. Eftirminnilegasta atriðið er Suðurlandsskjálftinn árið 2000. Ekki get ég sagt að það hafi beinlínis verið vel heppnað atriði hjá skaparanum. En þegar verið er að móta jafnstórt fyrirbæri og heilt land hlýtur eitthvað undan að láta.


Laun heimsins eru vanþakklæti:)

Allir vitringar þessa heims, jafnt framliðnir sem lifandi, leggja áherslu á að menn ætlist ekki til þakklætis gjöri þeir eitthvað gott. Ég hef reynt að taka mark á þessum ábendingum enda veit ég hvort eð er ekki hvort ég hai nokkru sinni látið eitthvað gott af mér leiða.

Um daginn var steiktur hryggur sem er ekki í frásögur færandi. Talsvert gekk af, einkum fita sem ég entist ekki til að borða. Fór þess á leit við húsfreyju að fá leifarnar handa hröfnum og vænti þess að fá þá í leiðinni til að krunka dálítið fyrir mig.

Vegna veðurs og annarra ástæðna lét ég ekki til skarar skríða fyrr en í gærmorgun. Upp úr kl. 6 voru hljóðnemarnir komnir út á svalir og krásirnar út í skál. Ég hljóðritaði samfleytt í þrjá tíma. Enginn krummi.

Þegar vitjað var um kræsingarnar í gær voru þær ósnertar og var þeim hent.

Nú gargar krummi sem aldrei fyrr í grenndinni enda hvorki hljóðnemar né krásir í boði.


Maður sem kann ekki blindraletur ráðinn til Þekkingarmiðstöðvar til þess að vinna að útgáfu efnis með blindraletri

Hinn fyrsta desember síðastliðinn sótti ég um starf sem síðar var flutt yfir til Þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Í janúar var mér tilkynnt að ekki gæti orðið af ráðningu í starfið. Var mér bent á að ég gæti óskað rökstuðnings. Í dag barst hann boðsendur á blindraletri frá þekkingarmiðstöðinni. Þar segir m.a.:

Í auglýsingunni kemur fram að óskað er eftir einstaklingi til að vinna að yfirfærslu af svartletri og yfir á blindraletur, stækkað letur og þreifiefni. Í því felist m.a.:

- Öflun bókar/efnis.

- Að koma efninu yfir á rafrænt lesanlegt form.

- Að yfirfæra efnið á það form sem notandinn þarf.

- Þátttaka í hönnun og útfærslu framsetningar efnis.

- Að tryggja gæði framleiðslunnar.

- Að fylgjast með nýjungum á sviðinu.

-

Fleiri atriði eru talin upp í bréfinu. Skemmst er frá því að segja að ég var ekki talinn hæfur til þess að mæta í viðtal vegna starfsins.

Einstaklingur sá, sem ráðinn var til starfsins, hefur svipaða menntun og ég nema hvað menntun hans í uppeldis- og kennslufræði er mun minni.

Það eina sem hann hefur hugsanlega fram yfir mig er að geta teiknað myndir í tölvu.

Ég hélt, þegar ég sá auglýsinguna, að menn myndu e.t.v. átta sig og endurskilgreina starfið vegna þess að nær útilokað er að maður geti sinnt öllum þessum hlutum svo að vel sé.

Ég hef lesið blindraletur í tæp 50 ár, stóð að tölvuvæðingu þess og sá um að útetga þann tækjakost sem er enn að miklu leyti notaður til prentunar blindraleturs. Þá samdi ég þann staðal sem notaður er í blindraletursskjám hér á landi og endurskoðaði blindraletrið á 9. áratugnum ásamt Hilmari Skarphéðinssyni, kerfisfræðintgi.

Úr því að ég fékk ekki að spreyta mig á þessu starfi held ég að flest sund séu lokuð.

Ég hef beðið starfsmann þekkingarmiðstöðvarinnar um afrit bréfsins á svartletri vegna áframhaldsins sem hlýtur að verða eitthvert.

Nú vinnur enginn við gerð blindraleturs hjá Þekkingarmiðstöðinni sem hefur haldgóða þekkingu á því eða er vel læs á blindraletur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband