Færsluflokkur: Bloggar

Breytingar um áramótin

Í fyrradag var mér tjáð að væntanlega yrðu hljóðmyndir mínar teknar af dagskrá morgunþáttarins Vítt og breitt á rás eitt, en þeim hefur verið útvarpað á fimmtudagsmorgnum í haust.

Ég hóf að senda Pétri Halldórssyni stutt hljóðrit í janúar 2006 og var því fyrsta útvarpað 24. janúar. Í marsbyrjun urðu stuttir pistlar eða hljóðmyndir fastur liður í fimmtudagsþáttunum. Fyrstu hljóðmyndirnar gaf ég Ríkisútvarpinu enda fann ég fyrst og fremst upp á þessu til þess að hafa eitthvað að fást við á meðan mesta áfallið eftir atvinnumissinn reið yfir. Hljóðmyndirnar hafa nú verið á dagskrá í tæp fjögur ár. Ég get því vel við unað.

Mér skilst að það sé ekki af sparnaðarástæðum sem mér sé sagt upp heldur eru hljóðmyndir taldar of þungt efni fyrir morgunútvarpið. Sumir telja einnig að þessi tími henti illa flutningi slíks efnis. Það má svo sem til sanns vegar færa. Flestir hlusta á morgunútvarpið í litlum tækjum og á meðan þeir drekka morgunkaffið sitt, en til sumra hljóðritanna er vandað og talsverð vinna lögð í að láta þau hljóma sem best.

Hljóðmyndir eru svo skemmtilegt efni að ríkisútvarpið ætti að leggja metnað sinn í að hafa þær á dagskrá í hverri viku, jafnvel á hverjum degi. Vel mætti hugsa sér að þátturinn Víðsjá yrði vettvangur slíkra hljóðmynda sem yrðu ekki lengri en 3-5 mínútur í mesta lagi. Allnokkrir einstaklingnar hérlendir kunna vel til verka á þessu sviði og er nú hugmyndinni komið á framfæri í þeirri von að einhver lesi þennan pistil.

Vissulega læðist að mér dálítill söknuður þegar ég hætti að vinna með ágætum dagskrárgerðarmönnum víðs og breiðs og þó einkum Pétri Halldórssyni. Ég er hins vegar afar þakklátur fyrir þau tækifæri sem mér hafa gefist í þessum þáttum. Hljóðmyndagerðin hélt að vissu leyti lífinu í mér á meðan atvinnuleysið svarf hvað harðast að.


Lítið bloggað

Lítið hefur verið um blogg að undanförnu. Kemur það ekki til af góðu.

Ég hef undanfarin fjögur og hálft ár notað ágæta HP-ferðatölvu, en heilsa hennar hefur farið versnandi upp á síðkastið. Loksins gafst hún upp um helgina. Þetta kom sér afar illa. Ég hafði miklar skoðanir á ýmsu sem var í fréttum og þar að auki átti ég eftir að gera hljóðmynd fyrir Ríkisútvarpið. En eins og séra Jakob Jónsson sagði einu sinni, þá ákvað skaparinn að gera honum erfitt um vik með að skrifa því að nóg hafði komið af bulli úr penna hans. Guð hefur sjálfsagt haft þá skoðun að nú væri betra að ég þegði og slakaði ögn á. En þetta var alldýr ráðstöfun hjá Guði.

Í gær var fjárfest í nýrri tölvu af illri nauðsyn. Ég lét færa hana niður í Windows XP þar sem hún var seld með Vista og Windows XP er enn fokdýrt og ég var hræddur um að þurfa að fjárfesta í nýjum hljóðritunarforritum.

Það er í raun grábölvað að tölvur endist ekki lengur e þetta, tæp 5 ár. Vonandi verður eitthvað hægt að gera garminum til góða og þá verður hægt að nota hana sem varaskeifu.

Vinnan gengur allvel og nú er embætti skattstjórans greinilega ikomið á skrið í aðgengismálum Meira um það síðar.


Fækkar um einn á atvinnuleysiskrá

Í morgun fækkaði um einn á atvinnuleysisskrá, a.m.k. um stundarsakir, en ég afskráði mig enda er búist við að tekjur mínar nægi til þess að atvinnuleysisbætur falli niður. Þá var mér ráðlagt að afskrá mig því að nú fækkar óðum þeim dögum sem ég á rétt á sem atvinnuleysingi. Hefði vinnan hjá Morgunblaðinu ekki komið til sumurin 2007 og 2008 væri réttur minn til atvinnuleysisbóta senn á enda.


Lóukvak í nóvember

Sunnudaginn 1. nóvember fórum við Elín út í Suðurnes á Seltjarnarnesi. Við Daltjörn var hópur af lóum og öðrum fuglum. Ég tengi pistilinn sem ég útvarpaði í morgun við þessa færslu. Þar geta menn hlustað á vetrarhljóð lóunnar. Njótið vel og gerið athugasemdir. Þær verða birtar um leið og færi gefst.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sölumaður rifjar upp gömlu taktana

Í gær hóf ég störf við sölumennsku. Hún er í því fólgin að selja fólki áskriftir. Það á ágætlega við samvisku mína enda er tilboðið fýsilegt.

Samstarfsfólkið er prýðilegt og andinn virðist góður á vinnustaðnum. Það læðist þó að mér sú ónotalega tilfinning að ég sé að kasta ákveðinni þekkingu á glæ. Um það þýðir víst ekki að fást enda hefur hún að mestu verið afþökkuð undanfarin fjögur ár.

Upp úr stendur að einangrunin sem fylgir miklu iðjuleysi er rofin a.m.k. um stundarsakir og það er vel, það er í raun dásamlegt.

Ég var dálítið stirður í upphafi en þegar á daginn leið liðkaðist um málbeinið og salan gekk betur.


Indælis rigning

Ég rölti út á pósthús áðan. Úti var hellirigning. Ég dró því hettu yfir höfuð til þess að blotna ekki um of á þeim fáu hárum sem eftir eru á hvirflinum.

Þegar nær kom Eiðistorginu og ég þurfti að hlusta eftir umhverfinu tók ég af mér hettuna og blotnaði. Það stóð ekki lengi því að Eiðistorgið er yfirbyggt. Það lekur þó víða.

Ég sá mest eftir að hafa ekki haft með mér hljóðvasapelann til þess að fylla á hann með því skemmtilega hljóðumhverfi sem verður á torginu þegar rignir. Það væri ekki verra en sumt af því sem útvarpað er.


Ögmundur er góður liðsmaður

Nú lætur Ögmundur Jónasson af formennsku í BSRB eftir langan og fremur farsælan feril.

Við Ögmundur áttum afar góð samskipti á meðan við gegndum báðir forystu fjölmennra hagsmunasamtaka. Reyndust hann og Benedikt Davíðsson, forseti Alþýðusambands Íslands, Öryrkjabandalaginu jafnan haukar í horni í þeirri kjarabaráttu sem hófst í lok 9. áratugarins. Þá var talsvert samráð á milli samtakanna og stjórnvalda en eftir að Viðeyjarstjórnin tók við árið 1991 dró stórlega úr því. Ég leitaði eitt sinn ráða hjá þeim Ögmundi og Benedikt um það hvernig Öryrkjabandalagið gæti brotist út úr þeirri einangrun sen þáverandi forsætisráðherra lagði á bandalagið. Kváðust þeir ráðalausir enfa væru lítil samskipti við forsætisráðuneytið og yrðu sjálfsagt lítil þar til ríkisstjórnin yrði neydd að samningaborðinu vegna næstu kjarasamninga.

Að þessu leyti var reginmunur milli þeirra Steingríms Hermannssonar og Davíðs Oddssonar. Sá fyrrnefndi kostaði kapps um að eiga samræður og samráð við samtök almennings í landinu en hinn síðarnefndi valdi úr þau samtök sem honum voru þóknanleg og ákvað hvaða forystumenn væru þess virði að á þá væri hlustað.

Ég leyfi mér að þakka Ögmundi gott samstarf á þessum vettvangi og óska honum og fjölskyldu hans heilla.


Starfsumsókn

Undanfarnar vikur hef ég sótt um tvö störf. Við fyrri umsókninni fékk ég ekkert svar, en seinni umsókninni var svarað. Um er að ræða svo kallað árangurstengt sölumannsstarf.

Greidd verður lágmarksgrygging á hverja unna klukkustund auk sölulauna. Miðað við að sæmilega gangi ættu tekjur mínar að aukast örlítið frá því sem nemur atvinnuleysisbótum.

Nokkrar líkur benda til að ég fái starfið. Viðræður mínar og sölustjórans gengu prýðilega og geri ég ráð fyrir að verða prófaður um eða eftir helgi. Þetta er eins og að hefja störf á vinnumarkaði að nýju sem alger byrjandi. Það er í samræmi við draum sem mig dreymdi fyrir fjórum árum.


Dýrðin, dýrðin!

Í gær gengum við hjónin kringum golfvöllinn á Seltjarnarnesi. Þetta var í ljósaskiptunum og Elín naut hinna margbreytilegu litbrigða sjávarins og brimsins sem var talsvert. Stynningskaldi var og beit kuldinn í kinnar og fingur þótt hitinn væri sagður 10 stig. Gegnum vindgnauðið heyrðum við einmana lófu syngja um dýrðina. Skyldi hún hafa vetursetu hér í vetur?

Atvinnuauglýsingar ekki lengur aðgengilegar á mbl.is

Í kvöld sendi ég eftirfarandi bréf til auglýsingadeildar Morgunblaðsins:

Ágæti viðtakandi.

Ég hef meira og minna verið í atvinuleit undanfarin ár. Ég var svo heppinn að fá starf sem sumarstarfsmaður á Morgunblaðinu sumrin 2007 og 2008 og var það dýrmæt starfsreynsla.

Morgunblaðið nýttist mér framan af sem dýrmæt uppspretta við atvinnuleit. Nú bregður hins vegar svo við að einungis eru birtar myndir af auglýsingum á mbl.is. Reynist því þeim, sem eru blindir eða sjónskertir og nota skjálesara ókleift að lesa auglýsingarnar.

Vonandi verður þetta fært í fyrra horf þannig að texti birtist með myndunum.

Virðingarfyllst,

fv. formaður og framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband