Færsluflokkur: Bloggar

Að níðast á náunga sínum - kveðja til einhverra Akurnesinga

 

Fyrir nokkrum árum sótti daufblind kona á Akranesi um leiðsöguhund. Hún fékk samþykki allra eigenda fjölbýlishússins þar sem hún býr og má ætla að stjórn húsfélagsins hafi bókað það í fundargerðabækur sínar.

Konan fékk ekki úthlutað hundi í það skipti en fyrir skömmu fékk hún leiðsöguhund. Voru þau þjálfuð til að vinna saman og virtist flest ganga að óskum.

En þá kom babb í bátinn. Einhver eða einhverjir settu sig upp á móti því að leiðsöguhundur kæmi í húsið, nauðsynlegt hjálpartæki til þess að létta mjög sjóndapurri konu og heyrnarskertri lífsbaráttuna. Stjórn húsfélagsins neitar að standa við gerða samninga og konunni hefur verið tjáð að hún hefði átt að þinglýsa samningnum. Henni er jafnframt gert að flytja úr húsinu fyrir 1. nóvember.

Það einkennilegasta í málinu er þó að enginn vill tjá sig um hvers vegna konan fái ekki að hafa hundinn í húsinu. Hvort er réttur hennar meiri en þeirra sem neita að samþykkja tilvist hundsins í þessu húsi? Hvers vegna greinir fólk ekki frá ástæðum þess að það vilji ekki leiðsöguhund í húsinu, skepnu sem er betur tamin en flestir íbúra hér á landi?

Og miskunnarleysið er enn meira. Fyrir skömmu var þessari sömu konu boðið út að borða og hafði hún hundinn með sér. Henni var vísað á dyr. Hvarvetna í Evrópu er blindu fólki heimilt að hafa með sér leiðsöguhunda á veitingastaði og í opinber samgöngutæki. Íslendingar eru mörgum áratugum á eftir í þessu sem ýmsu öðru sem snertir almenn mannréttindi. Hér gildir að hver traðki á öðrum svo fremi sem það sé ekki bannað. Réttur hins sterka ræður ríkjum.

Er þetta samfélagið á Akranesi í raun?


Fyrir fjörutíu árum

Sumarið 1969 vann ég ásamt móður minni við að undirbúa námsefni handa okkur bræðrum. Skrifuðum við þá á blindraletur Sýnisbók íslenskra bókmennta sem Sigurður Nordal tók saman auk Egils sögu. Var þa starf mitt þá um sumarið sem varð mitt síðasta í Vestmannaeyjum.

Þá um haustið hringdi Ásbjörn Ólafsson, stórkaupmaður, til föður míns og falaðist eftir mér til sölumennsku næsta sumar. Ætlaði hann að setja á markað ýmiss konar varning eins og margs konar matvöru og taldi tilvalið að fá mig til þess að kynna vörurnar fyrir kaupmönnum með því að hringja til þeirra. Við feðgar tókum þessu boði fagnandi og brosti framtíðin við mér.

Ég mætti í vinnuna 1. júní árið 1970. Það var mánudagur og þannig stóð á að sveitarstjórnakosningar höfðu verið daginn áður. Flest fyrirtæki landsins ljáðu þá Sjálfstæðisflokknum mannafla og bifreiðar og var Ásbjörn þar engin undantekning á. Eitthvað hafði farist fyrir að greina fóki frá því að ég væri væntanlegur í vinnu þennan dag og varð mér heldur lítið úr verki. Eftir hádegi komumst við að því hvað þyrfti að gera til þess að ég gæti hafist handa. Ég skrifaði upp símaskrá, útbjó vörulista og mér var kennt að fylla út sölueyðublöð. Gat ég því hafist handa á öðrum eða þriðja degi. Yfirmaður min var ágætur sölumaður, Sigurður Sigurðarson, og tók hann mig í eins konar sölupróf á þriðja degi til þess að vita hvort ég gæti yfirleitt unnið sem sölumaður. Benti hannn mér á það sem betur mætti fara og hófst ég svo handa.

Þá var verslunarumhverfið gjörólíkt því sem nú er. Fjöldi smáverslana var um allt höfuðborgarsvæðið og reyndar um allt land. Efnahagsástandið var erfitt og reyndist mér oft á tíðum, ungum piltinum, erfitt að takast á við þann vanda sem kaupmenn áttu við að stríða og bitnaði ótrúlega oft á okkur sölumönnunum - einkum þeim sem yngstir voru. Allt gekk þetta þó slysalaust og ég vann sem sölumaður hjá Ásbirni sumurin 1970-75 að undanteknu sumrinu 1973 þegar við tvíburarnir sáum um Eyjapistil.

Margs er að minnast frá þessum árum og flestar minningarnar góðar. Ég borðaði yfirleitt með Ásbirni í hádeginu, en hann hafði ég þekkt frá barnæsku. Fyrirtæki Ásbjörns Ólafssonar var góður vinnustaður og samvinna manna með ágætum. Margir höfðu unnið árum saman hjá Ásbirni. Þegar ég var um það bil að hætta 1975 var ég beðinn aðhalda áfram einn mánuð í viðbót og síðan boðið framtíðarstarf. Ég hafði meiri áhuga á að afla mér menntunar og hasla mér völl á ýmsum sviðum.

Líf mitt hefur orðið að mörgu leyti litríkt og mér hafa gefist ýmis tækifæri til þess að reyna kraftana. Þótt á stundum hafi blásið um mig fremur naprir vindar er þó niðurstaðan sú að ég hafi verið fremur gæfusamur.

Í haust hófst ég enn handa sem sölumaður og stunda það starf enn sem verktaki. Svo merkilegahefur viljað til að ég hef rekist á nokkra einstaklinga sem voru að hefja verslunarrekstur um það leyti sem ég hófst handa sem sölumaður fyrir 40 árum og hefur verið ánægjulegt að rifja upp gömul kynni.

Fjölbreyttur starfsferill ætti að geta orðið fólki dýrmætt veganesti síðustu starfsár þess. Ég ber enn þá von í brjósti að fá fast starf þau ár sem ég á eftir á almennum vinnumarkaði þar sem reynsla mín og þekking mætti nýtast til góðra verka.


Nætur stund í Heiðmörk og góð kona gulli betri

Upp úr miðnætti aðfaranótt 15. maí á því herrans ári 2010 fórum við Elín í hljóðritunarleiðangur. Fyrst var haldið út á Seltjarnarnes. Þar var hvasst, fáir fuglar komnir á kreik og tilgangslaust að reyna að hljóðrita með þeim búnaði sem ég hafði meðferðis.

Eftir að hafa komið við í Fossvogsdalnum og áttað okkur á því að hávaðinn var of mikill frá borginni, sem svaf ekki, var haldið upp í Heiðmörk og staðnæmst við Vígsluflöt. Þar stillti ég upp hljóðnemum og hófst handa.

Fuglasöngurinn var fremur lágvær. Þrestir sungu og hrossagaukur framdi a.m.k. þrenns konar hljóð.Í lok hljóðritsins létu lóa, himbrimi og fleiri fuglar til sín taka. Væri fróðlegt að lesendur þessarar síðu hlustuðu á hljóðritið, nytu söngsins, andardráttar náttúrunnar og ómsins frá næturlátum borgarinnar. Um leið geta þeir reynt að greina þá fugla sem ekki eru nefndir í þessumpistli. Slóðin er

http://hljod.blog.is

Eftir rúmlega 20 mínútna hljóðritun tók Nagra-tækið að láta vita af því að senn væru rafhlöðurnar tómar. Ef til vill hefur það eytt meira rafmagni vegna þess að hitinn var einungis 4 stig á Celsíus samkvæmt hitamæli bifreiðarinnar og rafhlöðurnar tæpra þriggja ára gamlar.

Ég hætti því hljóðritun og ákvað að hafa samband við Elínu sem beið í bílnum nokkur hundruð metra frá. En það var fleira sem hafði orðið kuldanum að bráð. Farsíminn var ekki í lagi. Ég náði engu sambandi með honum og greip því til þess ráðs að anda djúpt og kalla svo á Elínu. Fyrsta svarið var endurómur nærstaddra trjáa og e.t.v. einhverra hæða. Ég kallaði því enn og svaraði þá Elín. Skömmu síðar kom hún og vitjaði mín.

Góð kona er gulli betri.


Að treysta tölvupósti

Að undanförnu hef ég notað jöfnum höndum Outlook Express og Microsoft Outlook 2007. Stundum sendi ég póst beint af vefnum en finnst það að ýmsu leyti meira umhendis.

Á meðan ég notaði Outlook 2003 varð ég var við að nokkrir einstaklingar fengu ekki póst frá mér. Hann virtist annaðhvort lenda í póstsíu eða hreinlega ekki skila sér. Ekki bar á þessu þegar ég notaði Outlook Express.

Nú virðist sama sagan endurtaka sig. Póstur, sem skrifaður er í Outlook 2007 skilar sér ekki til allra. Þannig lenti ég í talsverðum vandræðum vegna samskipta minna við Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og þau leystust ekki fyrr en ég fór að nota Outlook Express. Leikur mér jafnvel grunur á að starfsumsókn, sem ég sendi í tölvupósti, hafi ekki komið fram.

Mér hefur verið bent á thunderbird frá Mosilla sem örugga leið til póstsamskipta. Það póstforrit hefur ekki verið aðgengilegt til þessa en sennilega hefur nú verið ráðin bót á.

Ókosturinn við Outlook Express er sá að það fer yfirleitt fram á að þjappa póstinum saman og tefur þannig fyrir manni. Hins vegar eru allar leitaraðgerðir og sitthvað annað mun einfaldara þar en í Microsoft Outlook.


Endasleppar hjólreiðar

Við hjónin fórum hjólandi með Unni vinkonu okkar Alfréðsdóttur upp í Hlíðar í kvöld, en hún hjólaði til okkar eftir kvöldmat. Þegar við komum upp úr göngunum undir Bústaðaveginn fóru að heyrast högg einhvers staðar í Orminum bláa og varð brátt ljóst að þau komu úr afturhjólinu. Hófust miklar vangaveltur um hvað þetta gæti verið, gírarnir, því að slátturinn var mildur, hemlaklossarnir eða gjörðin væri farin að skekkjast.

Þegar við komum heim til Unnar voru höggin orðin háværari svo að nokkru nam. Þegar hjólinu var lyft sást að dekkið rakst á einum stað utan í hemlaklossana.

Við renndum okkur heim á leið og fann ég þá fyrir skekkju í afturhjólinu. Grunaði mig ekki að það sama endurtæki sig og fyrir tveimur árum. Þegar við áttum skammt ófarið að Tanngarði hvellsprakk.

Mér er óskiljanlegt hvers vegna dekk endast ekki lengur en þetta 700 km hjá okkur á tveggja manna hjólinu. Það er eins og þau nuddist í sundur eða eitthvað gerist þannig að þau byrja að gúlpa út. Við héldum að þetta væru vanstilltir hemlaklossar og fóru þeir viðgerðarmenn hjá Erninum ítarlega yfir þetta í fyrra.

Okkur brá við þennan hvell og snarhemluðum svo snögglega að Elín meiddist í hné, en hún hefur átt við óþægindi að stríða i því öðru hverju.

Hófst nú næsti þáttur ferðalagsns - sá að leita að sendibíl til að flytja Orminn bláa og okkur heim í háttinn. Engir sendibílstjórar voru á vakt eftir kl. 22 en klukkan var að nálgast miðnætti. Fangaráðið varð að hringja í Hreyfil og var okkur sendur stór farþegabíll. Með því að leggja niður aftursætin tókst að koma tveggja manna hjólinu þar fyrir.

Nú verður skipt um dekk á Orminum eftir helgi og sjálfsagt reynt að velja eitthvað gott og vandað. Annars eigum við Schwalbe hjólbarða sem er nær óslitinn og e.t.v. ráð að nota hann.


Tveir nýir orðskviðir

Vésteinn Ólason, fyrrum forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, er orðhagur maður. Í fyrra datt hann ofan úr stiga og meiddist illa. Eftir það varð þessi orðskviður til:

Stiganum kennir stirður málari.

einhverju sinni var hann í gönguferð um hálendið. Að erfiði dagsins loknu varð þessi til:

Betra er að kasta mæðinni en geispa golunni.


Glæpsamlegt athæfi

Á vef mbl.is í gær var vitnað til fréttar á heimasíðu Spalar. Þar var greint frá glæfralegum akstri drukkins ökumanns á jeppa, sem braut niður grindverk við Hvalfjarðargöngin og hefði getað valdið stórslysi. Var sá hinn sami heppinn að drepa hvorki sjálfan sig né ðra.

Áður hefur verið vikið að því á þessum síðum að Íslendingar skilji fátt annað en ströng viðurlög. Atburðir sem orðið hafa í umferðinni að undanförnu sýna og sanna að til einhverra ráða verður að grípa gagnvart þeim sem stofna lífi og limum í hættu með gálausum akstri vegna neyslu áfengis og eiturlyfja, en hvorugt fer saman ásamt akstri. Ég hef verið fylgjandi háum sektum og jafnvel því að bifreiðar verði gerðar upptækar og fólk svipt ökuréttindum a.m.k. jafnlengi og þeir sem eru dæmdir í ævilangt fangelsi. Þetta kunna að vera hörð sjónarmið en aðrar leiðir eru færar.

Í raun þarf að stofna til endurhæfingar einstaklinga sem hegða sér með svipuðum hætti og maðurinn í Hvalfjarðargöngunum. Yrði þátttakendum í slíkri endurhæfingu gert að greiða allan kostnað sjálfir og kæmi hann til frádráttar sektum sem þarf að stórhækka.


Askan úr Heklu og og gróskusumarið 1947

Sigtryggur bróðir kemur stundum til okkar hjóna og eru þá háðar skemmtilegar orðræður. Ýmislegt er þá rifjað upp.

Í kvöld bar öskufallið úr eyjafjallajökli á góma og þær búsifjar sem af því hafa hlotist og munu hljótast. Rifjaði þá Sigtryggur upp að sumarið 1947 hefði verið óvenjumikil gróska í túnum í Vestmannaeyjum, en hann sló þá um sumarið öðru sinni með dráttarvél. Nokkur aska féll í Vestmannaeyjum, en Hekla tók að gjósa í marslok það ár. Þökkuðu ýmsir öskunni þá miklu grósku sem varð.

Vafalaust verður lítið heyjað í sumar á þeim jörðum í námunda Eyjafjallajökuls sem verst urðu úti. En reynslan af Hekluöskunni fyrir 63 árum gæti þó bent til þess að sums staðar yrði hún til góðs.

di. Hef ég sagt sem er og gætt þess að ýkja ekkert.


Enn af afmæli

Mér varð á að eiga afmæli í gær. Helst vil ég sem minnst um það tala og lít í raun á það sem einkamál hvers og eins hvort hann eigi þennan eða hinn afmælisdaginn. Sumir hafa gaman af því að eiga afmæli og er rétt að láta þá njóta þess. Öðrum leiðast afmælin og er því rétt að láta þá hina sömu í friði með kenndir sínar og leiðindin sem vaxa því meira sem talað er um afmælið.

Allmargir minntust mín í gær og þar á meðal rituðu allmargir á fésbókarvegginn. Þeim hinum sömu þakka ég meinta hugulsemi sem mér þykir vissulega vænt um. En afmælismaður er ég lítill og bið menn því að hafa ekki fyrir því að minnast á þetta í framtíðinni.


Aðventulóur

Í gær barst mér skemmtilegur tölvupóstur frá vinkonu minni á Áfltanesi, Sigurbjörgu Ólafsdóttur. Hún býr á sjávarbakkanum og fylgist vel með fuglalífinu þar. Hún sagði mér að lóur hefðu verið á kreiki þar allt fram að jólum.

Eins og lesendur þessarar síðu muna hljóðritaði ég vetrarkvak lóunnar vestur á Seltjarnarnesi 1. nóvember sl. og útvarpaði því þann 5. Var það sennilega í fyrsta sinn sem vetrarljóðum lóunnar hefur verið útvarpað hér á landi, en þau eru heldur dauflegri en sumarsöngurinn.

Hafi lóurnar sem voru á vappi hjá Sigurbjörgu haldið til Bretlands fóru þær svo sannarlega úr öskunni í eldinn. Hver veit nema einhverjar lóur haldi sig enn hér á landi og verði hér í allan vetur.

Gaman væri að frétta frá lesendum hvort þeir hafi orðið varir við lóuna eftir áramót.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband