Fyrir fjörutíu árum

Sumarið 1969 vann ég ásamt móður minni við að undirbúa námsefni handa okkur bræðrum. Skrifuðum við þá á blindraletur Sýnisbók íslenskra bókmennta sem Sigurður Nordal tók saman auk Egils sögu. Var þa starf mitt þá um sumarið sem varð mitt síðasta í Vestmannaeyjum.

Þá um haustið hringdi Ásbjörn Ólafsson, stórkaupmaður, til föður míns og falaðist eftir mér til sölumennsku næsta sumar. Ætlaði hann að setja á markað ýmiss konar varning eins og margs konar matvöru og taldi tilvalið að fá mig til þess að kynna vörurnar fyrir kaupmönnum með því að hringja til þeirra. Við feðgar tókum þessu boði fagnandi og brosti framtíðin við mér.

Ég mætti í vinnuna 1. júní árið 1970. Það var mánudagur og þannig stóð á að sveitarstjórnakosningar höfðu verið daginn áður. Flest fyrirtæki landsins ljáðu þá Sjálfstæðisflokknum mannafla og bifreiðar og var Ásbjörn þar engin undantekning á. Eitthvað hafði farist fyrir að greina fóki frá því að ég væri væntanlegur í vinnu þennan dag og varð mér heldur lítið úr verki. Eftir hádegi komumst við að því hvað þyrfti að gera til þess að ég gæti hafist handa. Ég skrifaði upp símaskrá, útbjó vörulista og mér var kennt að fylla út sölueyðublöð. Gat ég því hafist handa á öðrum eða þriðja degi. Yfirmaður min var ágætur sölumaður, Sigurður Sigurðarson, og tók hann mig í eins konar sölupróf á þriðja degi til þess að vita hvort ég gæti yfirleitt unnið sem sölumaður. Benti hannn mér á það sem betur mætti fara og hófst ég svo handa.

Þá var verslunarumhverfið gjörólíkt því sem nú er. Fjöldi smáverslana var um allt höfuðborgarsvæðið og reyndar um allt land. Efnahagsástandið var erfitt og reyndist mér oft á tíðum, ungum piltinum, erfitt að takast á við þann vanda sem kaupmenn áttu við að stríða og bitnaði ótrúlega oft á okkur sölumönnunum - einkum þeim sem yngstir voru. Allt gekk þetta þó slysalaust og ég vann sem sölumaður hjá Ásbirni sumurin 1970-75 að undanteknu sumrinu 1973 þegar við tvíburarnir sáum um Eyjapistil.

Margs er að minnast frá þessum árum og flestar minningarnar góðar. Ég borðaði yfirleitt með Ásbirni í hádeginu, en hann hafði ég þekkt frá barnæsku. Fyrirtæki Ásbjörns Ólafssonar var góður vinnustaður og samvinna manna með ágætum. Margir höfðu unnið árum saman hjá Ásbirni. Þegar ég var um það bil að hætta 1975 var ég beðinn aðhalda áfram einn mánuð í viðbót og síðan boðið framtíðarstarf. Ég hafði meiri áhuga á að afla mér menntunar og hasla mér völl á ýmsum sviðum.

Líf mitt hefur orðið að mörgu leyti litríkt og mér hafa gefist ýmis tækifæri til þess að reyna kraftana. Þótt á stundum hafi blásið um mig fremur naprir vindar er þó niðurstaðan sú að ég hafi verið fremur gæfusamur.

Í haust hófst ég enn handa sem sölumaður og stunda það starf enn sem verktaki. Svo merkilegahefur viljað til að ég hef rekist á nokkra einstaklinga sem voru að hefja verslunarrekstur um það leyti sem ég hófst handa sem sölumaður fyrir 40 árum og hefur verið ánægjulegt að rifja upp gömul kynni.

Fjölbreyttur starfsferill ætti að geta orðið fólki dýrmætt veganesti síðustu starfsár þess. Ég ber enn þá von í brjósti að fá fast starf þau ár sem ég á eftir á almennum vinnumarkaði þar sem reynsla mín og þekking mætti nýtast til góðra verka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband