Aðalinngangur sundlaugar Seltjarnarness til skammar

Í morgun drógum við Orminn bláa úr hýði sínu, en svo nefnist tveggja manna hjól okkar hjónanna. Ormurinn á 6 ára afmæli um þessar mundir sem þýðir að ég verð 56 ára um miðjan einmánuð.

Lint var orðið í dekkjunum og var því haldið út á smurstöð við Norðurströnd og dælt í þau lofti. Síðan fórum við hring á Nesinu, þaðan út að göngustígnum við Ægisíðu og snerum heim á leið. Hjóluðum við 9 km.

Eftir það syntum við í sundlaug Seltjarnarness, Elín einhver ósköp en ég 200 metra.

Nú liggja 16 þrep upp að aðalinngangi sundlaugarinnar og heilsuræktarstöðvarinnar. Við skoðuðum aðstæður á bak við mannvirkið, en þar á að hleypa fólki í hjólastólum inn í bygginguna. Ég eit ekki hvernig á að ganga þannig frá þeirri aðkomu að hún verði hentug fólki í hjólastólum.

Ég ítreka það sem ég hef sagt í þessum færslum, að aðalinngangur mannvirkis á að vera ætlaður öllum en ekki sumum. Mér þykir bygginganefnd Seltjarnarness hafa staðið sig illa í þessu máli, arkitektar og aðrir aðstandendur. Einnig þykir mér miður að ekkert hafi heyrst frá ferlinefnd Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðisins.

Mannvirki þetta, sem eitt sinn var rómað fyrir aðgengi, er nú orðið okkur Seltirningum til skammar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband