Færsluflokkur: Tónlist
Hann er sami vel menntaði, elskulegi og alvöruþrungni grallarinn og fyrir 39 árum þegar ég hitti hann fyrst, hann spilaði fyrir okkur vinsælasta lagið í Kína, Austrið er rautt sem ég þekkti mætavel en vissi ekki hvað hét, og fékk næstum taugaáfall af hrifningu.
Í kvöld hyllti hann Mozart á sinn sérstæða hátt. Hann fékk lánuð nokkur stef enkum úr Tyrkneska marsinum og skeytti síðan þessum bráðfyndnu athugasemdum frá sjálfum sér inn í miðhluta verksins. Hrein snilld! Dálítið skylt Hlýma, en unaðslega skemmtilegt! Ég táraðist af hlátri þegar verkinu lauk!
Ég held að fyrstu þrír tónarnir hafi fallið framan af verkinu í útsendingu Ríkisútvarpsins. Það hendir oft á Rás 1 að lágir tónar falli brátt, en svo er eins og útsendingin rífi sig upp og allt verði eins og ráð er fyrir gert.
Ekki verður um tónleika Sinfóníuhljómsveitar skrifað án þess að minnast á frábæra frammistöðu þeirra Einars Jóhannessonar og Ara Vilhjálmssonar, listamanna á heims mælikvarða. Gott þríeiki, þeir og Atli Heimir, sem eitt sinn var kallaður þorpstónskáldið í Flatey.
Til hamingju, öll þið sem stóðuð að þessum tónleikum.
Tónlist | 6.9.2007 | 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég átti ekki von á alveg jafnmiklum hávaða og raun varð á og syngur nú og ískrar í vinstra eyranu, en þar er móttökubúnaðurinn eitthvað bilaður. Ástandið lagaðist aðeins þegar við færðum okkur fjær sviðinu. Vissulega var gaman að hlýða á þennan hljóðfæraslátt og söng. Verst var þó að geta ekki fylgst með textanum.
Ég er ekki vanur afrískri tónlist. Þegar ég var í Nairóbí fyrir rúmum 14 árum heyrði ég talsvert af trumbuslætti og skemmtilegri popptónlist. Hér var fyrst og fremst um að ræða í kvöld trumbuslátt með söng og þumalpíanói sem var með 6 tóna. Náði hljóðfærið yfir níund og myndaði eins konar hljómhverfu við trumbusláttinn. Stundum var söngurinn samhljóma, þ.e. nálgaðist að vera D-dúr, en annað veifið sungu listamennirir í A-dúr.
Eingöngu var sungið i D- og A-dúr ef hægt er að tala um þessar tóntegundir, en þetta voru hinir undirliggjandi tónar. Takturinn var eins konar samba, ævinlega sami takturinn. Fyrra lagið, sem við hlustuðum á, var fremur stutt eða um 45 mín., í lítt breytilegum sömbutakti. Seinna lagið var næstum eins en nokkru styttra. Ef ég væri ekki svona laglaus hefði ég haldið því fram að sama lagið væri endurtekið örlítið stytt. En hvað sem um tónleikana má segja, komu þeir fólki í fádæmagott skap. Fólk iðaði í skinninu og dillaði sér og ég hafði næstum boðið minni heitt elskuðu eiginkonu upp í sömbu. En minnugur þess að ég er næstversti dansari Íslands ákvað ég að hlífa henni við.
Ég skil vel að BBC skyldi veita þessari hljómsveit verðlaun enda fylgir henni einhver frumkraftur.
Eftir að ég sskrifaði þennan pistil í nótt hlustaði ég á nokkur dæmi af geisladiski sem Elín keypti. Þar kannaðist ég við tóninn í hljómsveitinni og þumalpíanóið var þar öðruvísi notað. Þar nutu reyndar einnig hin ýmsu ásláttarhljóðfæri sín betur en í Listasni Reykjavíkur.
Ef til vill var tónlistin ógætilega mögnuð eða glymjandinn í Listasafninu er of mikill. En kynnið ykkur endilega þessa frumkraftstónlist austan og sunnan úr Blálandi.
Tónlist | 12.5.2007 | 00:20 (breytt kl. 09:57) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verkið er samið við vers úr Passíusálmum séra Hallgríms Péturssonar. Verkið einkenna stuttar og einfaldar laglínur, oft á tíðum undurfagrar, svo sem upphafs- og lokastefin, sem enn óma fyrir eyrum mér.
Hljómsetning og áferð verksins var öll hin besta og tónmálið auðskilið. Sigurði Sævarssyni hefur tekist betur en flestum öðrum að nýta sér hina einstæðu hrynjandi Passíusálmanna. Ýmsir hafa gagnrýnt flutning þeirra að undanförnu og bent á að þeim hæfi fremur óregluleg hrynjandi vegna þess hvernig ljóðstöfum er háttað. Sigurður nýtti sér hins vegar hrynjandina til þess að skapa heilstætt listaverk íslenskrar tungu og tóna, sem hrein unun var að hlýða.
Leikur hljómsveitarinnar var fágaður og kór og einsöngvarar óaðfinnanlegir. Nokkurt misvægi var á millum kórs og hljómsveitar og sumir einsöngvararnir heyrðust ekki nægilega vel. Er þar ef til vill um að kenna hljómburði Hallgrímskirkju. Annars hentaði verkið vel til flutnings í þessu dýrðarinnar hljómhýsi trúarlegrar tónlistar.
Ástæða er að óska flytjendum og stjórnanda til hamingju með flutninginn. Tónskáldinu eru færðar hjartanlegarhamingjuóskir með óratóríuna og fluttar alúðarþakkir.
Tónlist | 7.4.2007 | 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sannast sagna eru Fóstbræðradiskarnir hreinasta afbragð. Um er að ræða hljóðrit frá 4. áratugnum fram til þessa tíma. Flest lögin eru sungin á íslensku. Má þar m.a. nefna gersemar eins og upphaf og endi Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson. Því miður hefur þessu verki einungis verið útvarpað einu sinni í heild og það einungis sett á svið árið 1974. Það þyrfti svo sannarlega að fara að dusta af því rykið. Ég held þó að Óperukórinn hafi gefið út forleikinn að Galdra-Lofti eftir Jón og lokaþátt Þrymskviðu í einni heild. Virðist Jón þar hafa breytt útsetningu lokaþáttarins nokkuð og að mér finnst til hins verra.
Diskurinn með Lang Lang er með kvikmynd um ferðalag hans til Kína í fyrra, en þá ákvað hann að setja heimsmet og hélt 250 tónleika á einu ári. Á diskinum er hljóðrit tónleika þar sem hann flutti píanókonsertinn Gula fljótið ásamt fjórum sinfóníuhljómsveitum og 100 stúlkum sem léku á píanó. Hafa því a.m.k. 400 manns tekið þátt í þessum flutningi. Segja verður hverja sögu eins og er, að flutningurinn er hálfgert sull og hljóðritunin ekki góð. Samt er einhver stemmning yfir þessari hljóðritun, það er feiknalega gaman að heyra allar 100 slaghörpurnar taka undir með hljómsveitinni. Lang Lang virðist hins vegar dálítið einmana þegar hann leikur einn með öllum hljómsveitunum eða einleiksþættina í konsertinum. Það er talsvert ójafnvægi í hljóðrituninni enda er það sjálfsagt ekkert áhlaupaverk að hljóðrita 300 manna sinfóníuhljómsveit og 101 slaghörpuleikara.
Ég held að til sé önnur hljóðritun með Lang Lang þar sem hann leikur konsertinn og þarf ég endilega að komast yfir hana. Þótt flutningurinn gæti e.t.v. verið betri er geislandi lífsorka í flutningum. Kínverja munar sjálfsagt ekkert um að útvega 100 góða píanóleikara til flutningsins þar sem 20 milljónir nemenda leggja stund á píanóleik í þvísa landi. Þetta tónverk hefur nú fylgt mér í bráðum 40 ár. Ég hélt að ég fengi hjartaáfall af hrifningu þegar ég heyrði á stuttbylgjum lokaþátt konsertsins í september 1970 og hann endaði á Austrið er rautt og Nallanum. Ég skrifaði alþjóðaútvarpinu í Beijing og þeir sendu mér segulbandsspólu með konsertinum. Hvílík hamingja. Ég spilaði jafnan þriðja eða fjórða þátt þessa verks ef ég þurfti að koma mér í baráttuham fyrir próf og enn kem ég mér í ham með þessu verki.
Í kvöld rifjaði Emil Bóasson upp með mér að fyrir rúmum 20 árum falaðist Björn Emilsson eftir því að kínverskt tónskáld semdi óperu sennilega fyrir Íslensku hljómsveitina. Eitt tónskáld var reiðubúið að taka þetta verk að sér, Tan Dun, sem var þá að ljúka námi við tónlistarháskólann í Beijing. Birni þótti hann ekki nógu þekktur. Skyldi Björn ekki naga sig í handabökin fyrir að hafa ekki þegið þetta boð? Einu launin sem farið var fram á voru þau að Tan Dun yrði boðið hingað að vera viðstaddur frumflutninginn. Nú er Tan Dun orðinn eitt virtasta tónskáld heims og hefur aldrei komið til Íslands!
Tónlist | 6.4.2007 | 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eftir að við Árni lukum samtalinu ákvað ég að forvitnast á netinu um það hvort ég fyndi eitthvað um ljóðið. Á síðu nokkurri, þar sem fjallað er um nokkur, meint þjóðhátíðarlög Vestmannaeyja, er ljóð Ása birt með þeim orðum að það hefði hlotið þann heiður að verða bannað í ríkisútvarpinu. Hér er um mikinn misskilning að ræða og þykir mér því rétt að segja sköpunarsögu lagsins:
Haustið 1966 kom Helgi Hermannsson, söngvari hljómsveitarinnar Loga í Vestmannaeyjum, að máli við mig og spurði hvort ég vildi semja handa hljómsveitinni lag, en Logar hugðust gefa út hljómplötu þá um sumarið. Einn þeirra hafði samið nokkur, ágæt danslög og hafa þau vafalítið átt að prýða hljómplötuna. Var ákveðið að ég tæki þetta að mér og Ási í Bæ, þjóðskáld Vestmannaeyinga, yrði fenginn til að semja textann.
Mér þótti óumræðilega vænt um að hafa verið beðinn þessarar bónar og hófst þegar handa við að móta stef í huga mér. Ég átti upphaf að lagi, sem ég hafði sett saman á leið til vinnu minnar í Reykjavík haustið 1965 og í febrúarbyrjun 1967 kom b-kaflinn. Við tvíburarnir æfðum lagið og fórum síðan á fund þeirra Loga og urðu þeir undir eins ánægðir með lagið. Fóru þeir með það til Ása.
Síðan leið og beið og engar fréttir komu af laginu. Mig minnir að vísu að ég hafi samið handa þeim tvö lög og völdu þeir annað þeirra enda verður að segja sem er að hitt lagið var vonlaust.
Einhvern tíma um vorið hittum við Helga Hermannsson á götu og innti ég hann eftir því hvort eitthvað væri að frétta. Sagði hann þá að Ási hefði ort texta um "einhvern helvítis draum" sem þeir gætu ekki og vildu ekki syngja. Reyndar varð ekkert af útgáfunni og Logar gáfu ekki út hljómplötu fyrr en árið 1973 og þar var lagið ekki.
Vonbrigðn urðu mikil. Við tvíburarnir mönnuðum okkur þó upp og fórum á fund Ása. Kynnti hann fyrir okkur ljóðið sem hann kallaði Fréttaauka. Áttaði ég mig undir eins á því að hér var um meistarasmíð að ræða. Við vorum á leið í tónleikaferð um Austurland, Norðurland og Vestfirði á vegum Hjálparsjóðs æskufólks og ákváðum að taka lagið, textalaust, til flutnings undir heitinu Stúlkan frá Víetnam, þar sem við sungum aldrei á þessum tónleikum. Ég lék á þessum árum á orgel og Gísli á blokkflautu. Skemmst er frá því að segja að laginu var vel tekið.
Við lékum lagið í útvarp árið 1968 og skömmu síðar bauð ég lag og texta fram til flutnings á Hótel Sögu. Ragnar Bjarnason spurði hvort ég væri genginn af göflunum. Allt þetta íhaldspakk, sem sækti dansleiki (ég held að Ragnar hafi þarna gert að gamni sínu) myndi ganga út ef það heyrði þennan texta. En Ragnar lét útsetja lagið fyrir flautu og var það flutt í hálfgerðri jazz-útsetningu.
Í fyrsta skipti var lag og texti um hana litlu Ló sem bjó í Dong Sing Dó flutt opinberlega á dansleik á vegum háskólanema árið 1976, er hljómsveitin Wulfilins Orchestra var upp á sitt besta og vakti það firnamikla hrifningu, einkum ljóðið. Þegar ákveðið var að gefa út hljómplötuna Í bróðerni með lögum okkar tvíburanna árið 1981 þótti sjálfsagt að lagið yrði þar á meðal.
Þegar farið var að undirbúa sjötugsafmæli Ása í Bæ árið 1984 óskaði hann sérstaklega eftir að lagið yrði sungið. Fékk ég Guðrúnu Hólmgeirsdóttur til þess og útsetti það sem söhnglag við píanóundirleik. Síðar gerði Bára Grímsdóttir af því kórútsetningu sem Samkór Vestmannaeyja flutti nokkrum sinum.
Í sumar hringdi Árni Johnsen til mín og bað mig að leika undir með sér, en hann langaði til þess að syngja lagið inn á hljómplötu. Enn settist ég nður og gerði af því nýja útsetningu. Ég komst hins vegar að því að píanóleik mínum hafði hrakað svo að ég treystist ekki til þess að leika undir hjá honum og styrktist þessi skoðun mín enn frekar þegar ég heyrði að Óskar Einarsson, tónlistarstjóri hvítasunnumanna, væri aðalundirleikari hans á plötunni.
Í raun er ljóðið Fréttaauki mikið sorgarljóð og ef til vill kemur hin ágæta útsetning Helga Kristjánssonar frá 1981 því ekki nægilega vel til skila.
Þegar ég var í Vestmannaeyjum með nemendum í hagnýtri fjölmiðlun árið 1997 komst ég að því að lagið væri vinsælt sönglag þar. Ekki veit ég hvort Vestmannaeyingar ráða við alla hálftónana í laginu og ekki veit ég heldur hvernig Árna mínum Johnsen hefur reitt af í glímunni við þá. Sigurður rúnar Jónsson stjórnaði hljóðritun hljómdisks Árna og hann stýrði líka hljóðritun lagsins árið 1981 og hefur því væntanlega haft hönd í bagga eins og Árni sagði mér reyndar sjálfur.
Mér þykir vænt um að Frétaaukinn skyldi ekki gleymast þegar ákveðið var að gefa út heildarútgáfu laga og texta Ása í Bæ. Sjálfur minnist ég þess stundum í hálfkæringi, að þegar ég samdi lagið var ég skotinn í stelpu og fól nafn hennar í hrynjandi lagsins. Af tillitssemi við hana birti ég nafn hennar ekki hér en hún hefur heyrt alla sólarsöguna.
Tónlist | 16.11.2006 | 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hinn 15. maí og dagurinn eftir, 16. maí 1966 eru mér minnisstæðir.
Að kvöldi þess 15. heimsóttu okkur úti í Vestmannaeyjum nokkrir sjónvarpsmenn, en þeir voru þar til þess að safna efni fyrir væntanlegt ríkissjónvarp. Sjómannadaginn bar að því sinni upp á þennan dag, 15. maí og var Ríkisútvarpið með sérstaka dagskrá um kvöldið eins og vant var. Við bræður vorum miklir áhugamenn um slíka þætti og hljóðrituðum því dagskrá útvarpsins á meðan sjónvarpsmenn luku sér af.
Daginn eftir hlustuðum við á þáttinn. Prófum var lokið og við höfðum nægan tíma. Um þetta leyti æfðum við okkur talsvert því að í bígerð var að við færum í tónleikaferð á vegum Hjálparsjóðs æskufólks að safna fé í sjóðinn. Í útvarpsþættinum, sem Karl Einarsson sá um, las Þorsteinn Ö. Stephensen kvæði Kristins Bjarnasonar, Vestmannaeyjar og hreifst ég mjög af því. Ákvað ég samstundis að semja við það lag.
Ég bjóst segulbandstæki og hélt niður í stofu. Settist ég þar við hljóðfærið og lék nokkur tilbrigði sem ég taldi henta kvæðinu. Festi ég eitt þeirra í huga mér og fór síðan upp í herbergi okkar til þess að bera saman kvæðið og lagið. Hvílík vonbrigði! Lagið gekk ekki upp! Ég fór aftur niður í stofu og hafði nú lært eitt erindi kvæðisins. Spilaði ég nú og söng hástöfum og allt í einu kom það. Enn bar ég ljóðið og lagið saman, gerði örlitlar breytingar og spilaði síðan endanlega útgáfu inn á segulband til þess að gleyma því ekki. Um þetta leyti var ég afar hrifinn af arabiskri tónlist og þess vegna ákvað ég að hafa arabiskt forspil í laginu. Ég hugsaði einnig fyrir því að gera það þannig úr garði að hægt yrði að útsetja það til kórsöngs. Við fluttum þetta lag í fyrsta sinn opinberlega á Selfossi þann 6. júní þá um sumarið og hvar sem við lékum það var því gríðarlega vel tekið. Af einhverjum ástæðum, sem ég hirði ekki um að ræða hér, var lagið hins vegar aldrei flutt í Vestmannaeyjum, a.m.k. var það aldrei sungið. Þegar útvarpsþættirnir Eyjapistill hófust fengum við Guðmund Jónsson til þess að syngja það fyrir okkur sem eins konar hvatningarsöng og Eyjapistlarnir enduðu einnig á þessu lagi rúmu ári síðar. Árið 1973 gáfum við lagið út á hljómplötu Eyjaliðsins. Síðan kom það í nýrri útsetningu á Bróðernisplötunni 1981 og árið 1985 eða 86 gaf Gísli Helgason það út á Ástarjátningarplötunnni. Síðasta útgáfa þess var gefin út árið 2002. Magnús Ingimarsson útsetti lagið fyrir blandaðan kór árið 1970 og flutti Samkór Vestmannaeyja það í Færeyjum árið 1972. Nanna Egils Björnsson lék það sem forspil við messu í Landakirkju þá um vorið og dauðlangaði mig að vera viðstaddur. Ég hafði hins vegar orðið skotinn í stelpu sem þar var um þær mundir og lagði ekki á mig ferðalag til Eyja þess vegna. Fjárhagurinn var heldur ekki upp á marga fiska og ég hafði fengið frí fyrr um vorið til þess að fara til Eyja. Þá var ég einnig í miðjum prófum. Fyrst heyrði ég lagið Vestmannaeyjar flutt af kór við jarðarför vinar míns Eyþórs Þórðarsonar árið 1998 eða 1999, en þá gerði Elías Davíðsson nýja útsetingu. Með einhverjum hætti komst lagið til Kína og varð vinsælt í flutningi barnakórs kínverska útvarpsins árið 1983 eða 1984. Fyrir nokkrum árum kom hingað kínversk hljómsveit og lék lagið á tónleikum og enn berast fréttir austan úr Kína um unga poppstjörnu, sem tekið hefur lagið upp á sína arma. Ekki tel ég þetta lag merka tónsmíð enda er hún æskuverk og ég hef aldrei komist upp úr því að vera annað en alþýðutónskáld. Er það vel. Ókosturinn við lagið er að það nær yfir mikið tónsvið og er því nokkuð erfitt til söngs.
Tónlist | 16.5.2006 | 11:15 (breytt 19.5.2006 kl. 17:39) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í gærkvöld hlustaði ég á hljóðrit frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands síðastliðinn fimmtudag þar sem leiknar voru dægur perlur eftir Jón Múla Árnason, Jón Kerulf, Freymóð Jóhannsson, Magnús Blöndal Jóhannsson, Sigfús Halldórsson, Theódór Einarsson og Alfreð Clausen. Einsöngvarar með hljómsveitinni voru þær Eyvör Pálsdóttir og Ragnheiður Grön dal. Hljómsveitarstjórn var í höndum Davíðs Pobe.
Hrafn Orri Egilsson setti tónlistina út. Sannleikurinn var sá að hér var um afbragðs hljómleik að ræða að flestu leyti. Útsetningarnar voru yfirleitt prýðilega vel gerðar. Þó fannst mér einstaka sinnum bóla á að ekki væri rétt farið með laglinur. Kann að vera að útsetjarinn hafi farið eftir nótum og upphaflega hafi lögin ekki verið sungin réttilega.
Þá sungu þær stöllur einkar vel og verður að hafa það fyrir satt að undirritaður hafi allt of takmarkaðan áhuga á tónlist, því að ég hef sannast sagna nær ekkert heyrt af sönglist þeirra fyrr en þarna.
Eyvör virðist upprennandi stórsöngvari. Gaman var að heyra hana beita röddinni. Stundum, þegar hún söng lægri tónana, fannst mér sem brygði fyrir færeyskum hreim eins og hún væri skyld Anniku Hojdal (afsakið stafsetninguna) sem var í Harkaliðinu í gamla daga. Ragnheiður er einnig upprennandi söngstjarna á heimsmælikvarða eins og reyndar þær báðar.
Ekki spillti fyrir að Ragnheiður Ásta Pétursdóttir kynnti tónleikinn á einstæðan hátt og varpaði bæði kímilegu og fræðandi ljósi á allt hljómverkið.
Ekki veit ég hversu margir hlusta á utsendingar frá Sinfóníutónleikum. Þeir sem misstu af tónleikunum og útsendingunni ættu að fara inn á vef ríkisútvarpsins, leita að vefupptökum og finna þar 27. apríl. Njótið vel.
Tónlist | 30.4.2006 | 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í gær vorum við hjónin viðstödd útskriftarhljómleika Birnu Hallgrímsdóttur, píanóleikara, en þeir voru haldnir í Salnum í Kópavogi. Á efnisskrá voru verk eftir Haydn, Janazék, Liszt og Debussy.
Ég hef verið svo heppinn að fá að fylgjast með Birnu undanfarin ár og heyra, oftastnær í dálítilli fjarlægð, hvernig henni hefur stöðugt farið fram, en við Birna búum í sama húsi. Á tónleikum hennar í gær var augljóst að hér er upprennandi stórlistamaður á ferðinni sem á eftir að þroskast og ná mun betri árangri, ef aðstæður leyfa.
Birna hóf tónleika sína með glæsilegri túlkun og lét greinilega tilfinningar ráða túlkun verkanna. Lokahnikkurinn var síðan Gleðieyja Debussys sem hún túlkaði glæsilega og má tvímælalaust halda því fram að þá hafi tónleikarnir náð hámarki.
(Í þessu verð ég fyrir nokkurri truflun, því að org mikil berast ofan af næstu hæð. Mér er þó rótt því að faðir Birnu er að fylgjast með fótbolta í sjónvarpinu og engin hætta á ferðum).
Mist Þorkelsdóttir, kennari og tónskáld, sagði að menn hefðu lengi vitað af hæfileikum Birnu Hallgrímsdóttur. Það væri hinsvegar mikils virði að fá að fylgjast með henni í tónleikaumhverfi og njóta þeirrar útgeislunar sem stafaði frá henni. Undir þetta skal tekið og hinni ungu tónlistarkonu fluttar hjartanlegar hamingjuóskir.
Tónlist | 22.4.2006 | 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar