Færsluflokkur: Tónlist

Vestmannaeyjar sem Guðmundur Jónsson söng

Miðvikudaginn 14. þessa mánaðar verður okkar ástsæli söngvari, Guðmundur Jónsson, borinn til grafar.

Í góðum útvarpsþætti, sem Guðmundur Andri Thorsson flutti um hann á sunnudaginn var, birti hann kafla úr viðtali Ævars Kjartanssonar við guðmund. Þar greindi Guðmundur frá því að hann hefði sungið hvað sem var enda hefðu yfirleitt ekki aðrir fengist til að syngja ýmislegt sem hann söng.

Það var nú einhvern veginn þannig að flesta, sem höfðu samið eitthvert sönglag, langaði til að Guðmundur syngi það. Þegar við bræðurnir enduðum Eyjapistla Ríkisútvarpsins 25. mars 1974 eftir að hafa haldið þeim úti í rúmt ár, fannst okkur tilvalið að biðja Guðmund að syngja þrjú erindi kvæðisins Vestmannaeyja eftir Kristin Bjarnason. Var þetta einhvers konar hvatningaróður til Eyjamanna.

Guðmundur söng ýmis héraðslög og þar á meðal Sumarmorgun á Heimaey eftir þá Brynjólf Sigfússon og Sigurbjörn Sveinsson. Mér er það hljóðrit ekki handbært enda efast ég um að ég fengi leyfi til að birta það á síðu þessari.

En hér kemur lagið við kvæðið um Vestmannaeyjar sem Guðmundur Jónsson söng.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bláir skuggar, myljandi góður djassþáttur

Ég hlustaði á djassþátt Kolbrúnar Lönu Eddudóttur í Ríkisútvarpinu, á rás 1, í fyrrakvöld. Þar kynnti hún m.a. nýja hljómplötu Sigurðar Flosasonar, saxófónleikara, en með honum leika þeir Jón Páll Bjarnason, Þórir Baldursson og Pétur Östlund.

Ég þekki allvel til leiks Sigurðar, Þóris og Jóns Páls. En ég hafði ekki áttað mig á því hversu hrífandi slagverksleikari Pétur Östlund er. Þessi hljómplata, sem Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson gefur út, er hreint listaverk og tónlist Sigurðar Flosasonar afbragðsgóð. Mér finnst eins og þetta sé í fyrsta sinn sem ég heyri íslenskan djass sem stenst samanburð við það fremsta sem gert hefur verið á þessu sviði. Hér er engin stæling á ferðinni heldur frumleg sköpun byggð á næmni og þekkingu.

Lana Kolbrún hefur einstaklt lag á að kynna djassinn þannig að hann veki áhuga hlustenda. Hún er verðugur arftaki Jóns Múla Árnasonar sem kynnti þessa tónlistarstefnu öðrum mönnum betur.


Evróvíðsjón og Mari Boine - andstæður í dagskrárgerð

Í gær hlustaði ég með öðru eyranu á aðdraganda Evróvíðsjónar, sem íslenska ríkissjónvarpið skenkti áhorfendum sínum og hlustendum. Ekki ætla ég að dæma þau lög sem ég heyrði, en þetta er mér efst í huga:

Íslendingar eiga varla nokkurt erindi í þessa keppni. Þeir skammast sín fyrir þjóðtungu sína og ímynda sér að þeir komist frekar áfram í keppninni með því að syngja lélega enska texta.

Það eru mörg dæmi þess í Evróvíðsjón að söngtextar á tungum smáþjóða hafi komist áfram. Hét ekki eitthvert norskt lag Lad oss svinge? Það sungu Norðmenn á norsku og unnu.

Íslendingar hafa sent fjölmörg lög á ensku í keppnina og jafnan farið heim með sárt eða hálfsárt ennið. Getur verið að sumum finnist íslenskan ekki henta til dægurlagasöngs eins og sumir halda því fram að vart sé hægt að syngja óperuaríur nema á ítölsku? Mér finnst ýtt undir múgmennskuna með þeirri menningarstefnu að skylda ekki höfunda til þess að skila textum á íslensku við lög sín. Jafnvel Ísraelsmenn syngja á hebresku sem fáir skilja nema þeir.

Eftir að Evróvíðsjóninni lauk og kvikmynd með ensku tali skall á eyrum hlustenda, leitaði ég næðis og hlýddi á fléttuþátt frá norska útvarpinu sem Ríkisútvarpið sendi út á Hljóðbergi þar sem Viðar Eggertsson hafði klifrað upp. Af tindi Hljóðbergs gerði hann ágæta grein fyrir viðfangsefinu, Mari Boine, samískri söngkonu sem hefur leitað uppruna sins í söng og ljóðum.

Eiginlega ætti ég sem útvarpsmaður að skrifa dálítið um tæknina á bak við gerð fléttuþátta, en Norðmenn kunna þar prýðilega til verka. En hitt skiptir meira máli að stjórnandinn leiddi hlustundendur af mikilli nærfærni inn í hugarheim Mari Boine og lýsti átökunum millum hennar og foreldranna sem reyndu að þröngva henni til níðþröngrar trúar á Biblíuna.

Mari Boine slapp heil frá uppeldinu, að vísu dálítið meidd á sálinni. Hún hefur lært að vera stolt af uppruna sínum, hefðum og tungu.

Í þættinum fylgdu hlustendur Mari Boine til Parísar og þar söng hún á samísku, hvorki ensku né frönsku. Samt hylltu áheyrendur hana vel og lengi!

Mari Boine fer sínar eigin leiðir og byggir á þjóðararfi sínum. Flestir popparar íslenskir vilja fleygja þjóðararfinum og skríða fyrir múgmennskunni.


Einhverjir fjölmennustu einsöngstónleikar Íslandssögunnar

Áðan sóttum við Elín einhverja fjölmennustu einsöngstónleika Íslandssögunnar ef ekki þá fjölmennustu frá upphafi alda. Til þeirra efndu Hörður Áskelsson, orgelleikari og Jón Þorsteinsson, tenorsöngvari og Ólafsfirðingur. Fluttu þeir trúarlega tónlist, einkum íslenska sálma við ýmis lög sem er að finna á hljómdiski þeirra.

Hallgrímskirkja var þétt setin áheyrendum. Við sátum á næstfremsta bekk en Jón stóð aftast í kirkjunni við hljómborð orgelsins. Rómur hans barst ótrúlega vel fram eftir kirkjuskipinu og Hörður sá til þess að orgelið kæfði ekki raust Jóns. Flutningur þeirra var einstaklega vel samstilltur.

Á meðan ég hlýddi tónlistinni liðu mér fyrir hugskotssjónir ýmsar myndir frá ánægjulegum kynnum okkar Jóns, eins og þegar við tvíburarnir og Jón fórum galandi eftir allri Heimaey á sumarbjartri nótt árið 1968 og sungum við raust ólafsfirskan leir sem Jón hafði kennt okkur og ég gert lag við:

Heilsa ég þér Drottning kær,

þú hampa munt mér oft á spretti, spretti.

Lífið löngum við oss hlær,

ljúfa, blíða skepna, skepna.

Heilsa ég þér Laugi kær,

ég hampa mun þér oft á spretti, spretti.

Lífið löngum við oss hlær

þegar þú í þig landadropa slettir, slettir.

Jón hitti ég fyrst norður á Ólafsfirði í júlí 1967. Um haustið var ég fyrir sunnan að skrifa námsefni á blindraletur og kom Jón til Reykjavíkur. Við fórum saman á tónleika.

Síðan urðu samskiptin allmikil næstu árin. En síðustu tvo áratugi hafa þau verið allt of stopul.

Það kom mér ekki á óvart að Jón skyldi næstum fylla Hallgrímskirkju. Hann þekkir a.m.k. annan hvern Íslending, engum er í nöp við hann, mörgum þykir vænt um hann og hann er góður listamaður. Áheyrendum gekk enda seint að komast út úr kirkjunni því að hver einasti gestur þakkaði Jóni fyrir frábæra tónleika með handabandi, kossi, faðmlögum eð öllu þessu þrennu.

Þá spillti ekki að einn fremsti orgelleikari vorra tíma hér á landi skyldi ljá honum undirleik sinn. Þáttur Harðar Áskelssonar verður seint fullþakkaður.

Hreinasta unun var að njóta tónleika þessara þroskuðu listamanna.


Alþýðutónlist í Maastricht 25.6.2007

Þótt undirtektir hafi verið mjög litlar við blogvarpinu heldur það samt áfram.

Í dag gæði ég ykkur á heldur skemmtilegri tónlist frá Maastricht. Við Elín Árnadóttir, konan mín og Hringur Árnason, barnabarn okkar, vorum á ferð í Maastricht í júní 2005. Ég sótti þar námskeið um Evrópurétt fatlaðra. Því miður var þeim fjármunum kastað á glæ, en námskeiðið var athyglisvert og dvölin góð.

Eftir að námskeiðinu lauk fórum við á flakk um borgina. Ég var með hljóðpela og fyllti öðru hverju á hann. Við rákumst m.a. inn á lítið torg þar sem fólk dansaði af hjartans lyst. Uppi á sviði stóðu tveir menn. Annar lék á trommur og söng og hinn lék á harmoniku. Ég hljóðritaði þetta yndislega lag sem minnti mig á barnaböllin í Vestmannaeyjum í gamla daga.

Hluta lagsins verður útvarpað í pistli mínum í þættinum Vítt og breitt kl. 13:45 á fimmtudaginn kemur. Þar verða einnig birtar athygliserðar hljóðmyndir. Missið ekki af þessum einstæða viðburði!!!!!!!!


Eindæll saxófónkonsert Veigars Margeirssonar

Þá hefur konsertinn Rætur verið frumfluttur við mikinn fögnuð áheyrenda.

Konsertinn er í fjórum þáttum. Fyrsti þátturinn er smíðaður um stef sem Veigar hefur sjálfur samið en hinir þrír þættirnir hverfast um íslensk þjóðlög. Ég hélt eitt augnablik að hann ætlaði að enda með látum þegar Sigurður Flosason fór í hæðir í Sofðu unga ástin mín, en Veigar er of mikill smekkmaður til þess að láta slíkt henda sig.

Hljómsetningin minnti dálítið á kvikmyndatónlist og þarf það alls ekki að vera til vansa. Ég minnist þess að vestrænir gagnrýnendur hæddust að kínverskri nefnd sem samdi píanókonsertinn gula fljótið árið 1970, kölluðu hann Kínverskan eyrnamerg og þaðan af verri nöfnum. Þetta er nú samt langvinsælasta tónverk sem Kínverjar hafa samið og endar á Austrið er rautt og Nallanum.

Sem betur fer er ég ekki tónskáld. Annars hefði ég notað tækifærið og búið til 5 þátta konsert. Fimmti þátturinn hefði hverfst um lagið Ísland farsældarfrón og það hefði ég ofið saman við lofsöng Sveinbjörns Sveinbjörnssonar (hann var reyndar Þórðarson). Kannski hefði Geir Haarde þá höfðað mál gegn mér vegna lögbrots og þá hefði ég breytt tónverkinu þannig að Ísland ögrum skorið hefði komið í stað Lofsöngsins.

Svona blaðra ég vegna þess að ég er svo hamingjusamur eftir að hafa hlustað á þetta tónverk Veigars Margeirssonar í ágætum flutningi Sigurðar Flosasonar og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Vonandi verður konsertinn gefinn út.

Væri ekki upplagt að gefa út rætur Veigars og t.d. hornkonsert Jóns Ásgeirssonar? Hvort tveggja er þjóðlegt verk.

Til hamingju, Veigar!


Myljandi skemmtilegur saxófón-konsert

Það má mikið vera ef ég reyni ekki að komast á sinfóníuhljómleika í kvöld. Að minnsta kosti ætlaég að hlusta á þá í útvarpi.

Nú er verið að leika í Hlaupanótunni brot úr nýjum konsert eftir Veigar Margeirsson. Svei mér ef þetta er ekki verk á heimsmælikvarða og afar íslenskt. Ég hlakka til kvöldsins.

Og svo er annað. Farið er að senda í víðómi út á netinu. Gott hjá Ríkisútvarpinu. Lengi lifi útvarp allra landsmanna!


Unaðslegir tónleikar kínverskra listamanna

Í gærkvöld sóttum við hjónin tónleika Þjóðlagasveitar Söngleikjastofnunar Wuhan-borgar, vinaborgar Kópavogs, sem haldnir voru í Salnum.

Tónleikarnir voru um flest hinir ágætustu. Nokkuð var þar af gamalkunnum verkum, svo sem Máninn speglast í tveimur lindum (einnig þýtt: Máninn speglast í tjörninni) eftir Hua Yanchun og fleira gott sem hér hefur heyrst á tónleikum áður. Mörg verkanna voru frá því um og eftir miðja síðustu öld en þó nokkur ný verk voru flutt.

Það var ánægjulegt að heyra dans Yaomanna flutt hér í fyrsta sinn á tónleikum. Ég hefði kosið að hljómsveitarútsetning verksins hefði verið flutt.

Í hljómsveitinni eru 14 hljóðfæraleikarar og 4 söngvarar. Er þetta sennilega fjölmennasti flokkur tónlistarmanna sem komið hefur hingað frá Kína. Tókst hljómsveitin á við nokkrar hljómsveitarútsetningar sem eru í raun ætlaðar stærri hljómsveitum, en allt gekk þetta vel.

Áheyrendur virtust verða einna hrifnastir af íslensku lögunum, en þau voru Á Sprengisandi eftir Sigvalda Kaldalóns, Litla flugan og Dagný eftir Sigfús Halldórsson. Það átti vel við því að Sigfús var heiðursborgari Kópavogsbæjar sem bráðum hlýtur að breytast í Kópavogsborg. Gunnar Birgisson hlýtur að sjá til þess.

Að lokum: Unnendur kínverskrar tónlistar auk þeirra sem unna góðri tónlist, eru hvattir til að láta ekki þessa tónleika kínversku hljómsveitarinnar fara framhjá sér.


Austrið er rautt á vefnum

Besta lag sem samið var á síðustu öld, Austrið er rautt, er nú á þessari bloggsíðu. Það er tengt færslunni 40 ára menningarafmæli hér að neðan. Góða hlustun!

Lagið um Vestmannaeyjar verður ekki gefið út í sinni fyrstu útsetningu

Fyrir helgi frétti ég að fyrirtækið Sena ætlaði að gefa út þau lög sem komu út á hljómplötum hér á landi árið 1973, eða a.m.k. úrval þeirra.

Nefnd voru tvö lög sem ég hafði komið nálægt: Heimaslóð eftir Alfreð Washington Þórðarson (Vosa) og Vestmannaeyjar, sem er mín afurð. Í dag hafði ég samban við fyrirtækið og ræddi þessi mál ítarlega við ungan, kurteisan mann sem hefur umsjón með útgáfunni. Urðum við ásáttir um að lagið Vestmannaeyjar verði ekki gefið út í sinni upprunalegu mynd. Spilamennsku minni var þar í ýmsu áfátt og aðrar skemmtilegri útsetningar eru til sem ástæða væri að gefa út á geisladiski.

Sá misskilningur var uppi að þetta lag hefði verið einkennislag Eyjapistlanna sem við tvíburar önnuðumst frá febrúar 1973 - mars 1974. Svo var alls ekki. Við notuðum a.m.k. þrjú mismunandi kynningarlög og tvö þeirra voru eftir Oddgeir Kristjánsson.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband