Færsluflokkur: Tónlist

Píanóverk Þorkels Sigurbjörnssonar

Tíbráin í Salnum hófst í gær með tónleikum til heiðurs Þorkatli Sigurbjörnssyni, tónskáldi, en hann varð sjötugur fyrir nokkru. Kristín Jónína Taylor flutti á tónleikunum öll píanóverk Þorkels.

Nokkur þessara verka hafði ég heyrt áður. Flutningurinn var nær óaðfinnanlegur og var greinilegt að Kristín naut þess að flytja verk Þorkels.

Greina mátti nokkra þróun í gerð verkanna. Eftir því sem á leið urðu þau lagrænni. Verkin eru ekki stór í sniðum en krefjast sum mikillar færni og jafnvel einbeitingar þess sem hlustar eins og góð verk gera iðulega enda eru þetta tónverk en ekki tónverkir

Mörg verkanna eru hreinar perlur sem eiga vafalítið eftir að endast út þessa öld og lengur.


Stórkostlegt afmæli og Flístríóið

Rósa Þorsteinsdóttir, sem ræður miklu á Árnastofnun, varð fimmtug í gær og hélt upp á það með fjölmeni og mikilli reisn. Var það hin mesta skemmtan.

Eftir að menn höfðu notið góðrar dagskrár brast á dans með Flístríóinu og Sigtryggi Baldurssyni eða Magnasyni, man aldrei hvor er hvor. Ég spurði Elínu, þar sem við dönsuðum af lyst, hvort mér heyrðist rétt að Davíð Þór Jónsson léki á Farfísa-orgel. Reyndist það vera rétt, Farfisa Compact, eins og mér fannst ég hafa heyrt.

Leikin voru gömul og góð lög frá síðustu öld, misöldruð. Dálítill glamurtónn var í Farfísunni og hefur hann ef til vill átt að vera þannig. Sem gamall Farfísueigandi veit ég að hljóðin úr þessum orgelum gátu verið mun fegurri. En mikið skrambi var þetta skemmtilegt.

Samt sem áður sé ég ekki eftir að hafa gefið Jóni Ólafssyni Farfísuna mína en hún var frá árinu 1974 en ekki 1966 eins og mín fyrsta.


Stórkostlegir tónlneikar Björns Andors Drage, ný krækiber og ynging tengdamóður minnar

Sunnudagskvöld við orgelið hafa helgað sér sess í menningarlífi Reykjavíkur.

Í sumar hefur staðið norræn orgelhátíð í Hallgrímskirkju á orgelsumri og hefur þar margt borið fyrir eyru.

Í kvöld sóttum við Elín ásamt móður hennar og bróður tónleika Björns Andors Drage, en hann er einkum þekktur fyrir umritanir sínar á verkum Edvards Griegs.

Tónleikarnir hófust á hinu stórfenglega verki Joie et clarté des corps glorieux (Gleði og hreinleiki hinna dýrðlegu líkama) úr Les corps glorieux sem Messiaen skrifaði árið 1939. Lék Björn það af stórkostlegri innlifun og túlkunin var einstök.

Hið sama má segja um næsta verk, Partitu um sálminn Nun komm der Heiden Heiland (Nú kemur heimsins hjálparráð) eftir þýska tónskáldið Hugo Distler.

Ekki verður frekar fjallað um einstök verk þessara tónleika að öðru leyti en því að eftir hlé flutti Björn nokkur píanóverka eftir Edvard Grieg. Verður að segjast sem er að undirrituðum þóttu útsetningarnar misjafnlega góðar, en sumar voru þó undursamlegar.

Tónleikunum lauk eða átti að ljúka á Inngöngumarsi Bojarna eftir Johan Halvorsen. Það var makalaust skemmtileg og vel gerð orgelútsetning.

Steininn tók þó úr þegar Björn Andor Drage varð við óskum áheyrenda um aukalag og var það sjálfur dansinn úr höll Dofra Konungs, hið einkennilega tryllingslega verk Edvards Grieg sem túlkað hefur verið af ótal listamönnum. Hlógu áheyrendur af gleði í lokin og gengu þakklátir og glaðir út í sumarnóttina.

Tengdamóðir mín varð svo glöð að hún yngdist um 18 ár. Geri aðrir betur.

Í gær skemmti hún sér svo vel að hún yngdist um 12 ár. Hvar ætli þetta endi hjá henni, blessaðri?

Helgin var sem sagt vel heppnuð. Í gær voru það ferð um Reykjanes, ný krækiber og góður matur og í kvöld enn betri matur og síðan þessir dýrlegu tónleikar. Góðar fjölskyldusamvistir eru mikils virði.


Missa brevis eftir Svein Lúðvík Björnsson - ný perla íslenskra tónbókmennta

Í dag brugðum við Elín okkur austur að Skálholti á sumartónleika. Þar frumflutti Hljómeyki Missa Brevis f. blandaðan kór, víólu og selló eftir Svein Lúðvík Björnsson, tónskáld. Magnús Ragnarsson stjórnaði. Á hljóðfæri léku Þóra Margrét Sveinsdóttir á víólu og Sigurður Halldórsson selló.

Auk messunnar flutti ISHUM-kvartettinn Ego is emptiness (1996), Og í augum blik minninga f. strengjakvartett (2007), Egophonia I fyrir selló og tónband (2002), einnig eftir Svein.

Tónlist Sveins Björnssonar er áhrifamikil og andrík.

Á seinni tónleikunum flutti kvartettinn verk eftir Boccherini, Mozart og Giovanni Solloma. Verk hins síðastnefnda var snilldarvel flutt og ofurskemmtilegt.

Auk tónleikanna áttum við samræður við ýmsa merkismenn og konur á staðnum, þar á meðal Bjarna Harðarson, þingmann Sunnlendinga. Básúnaði hann það um allt að hann hefði munstrað mig í Framsóknarflokkinn. Taldi ég hætti við að gíróseðlar yrðu endursendir ef þeir bærust. Ætli ekki yrði dýr Hafliði allur ef ég gengi í flokkinn?

Ýmislegt bar fleira á góma sem ég rita um á öðrum vettvangi enda er það svo fréttnæmt að ég verð að fá frekari staðfestingu á sögunni áður en hún flakkar. Fylgist því með Mogganum á næstunni og reynið að átta ykkur á því hvar og hvenær fréttin birtist.


Eyjastund í Seljakirkju

Við hjónin hittum gamlan nágranna minn, Grétar Guðmundsson Kristjánssonar, í sundi í dag, en Grétar átti heima á Faxastígnum í Vestmannaeyjum fram til 1962. Hann benti okkur á þakkarstund í Seljakirkju, en þar ætluðu Vestmannaeyingar á höfuðborgarsvæðinu að koma saman og þakka giftusamleg goslok fyrir 35 árum. Grétar er í sönghópi ÁTVR (Átthagafélags Vestmannaeyinga á Reykjavíkursvæðinu).

Við hjónin fórum þangað í kvöld. Á dagskrá voru lög eftir Oddgeir Kristjánsson og sálmar. Hlakkaði ég til að heyra fallegar kór- og orgelútsetningar laga Oddgeirs og vissi að þá yrði lagið "Ég veit þú kemur" ef til vill sungið á réttan hátt.

Þegar messan hófst reyndist tónlistarflutningurinn í höndum Þorvalds Halldórssonar. Hann bjó í eyjum um 10 ára skeið og er giftur eyjapæju eins og hann orðar það. Þau hjónin eru heittrúuð og hann fremur tónlistina af miklum innileik.

Þorvaldur hefur komið sér upp óþarflega miklu einkamessusniði og þekktu kirkjugestir ekki þau lög sem hann söng við messusvör o.fl. En í heildina var þetta notaleg stund.

Ég varð þó að gæta þess að hrista ekki höfuðið þegar "Ég veit þú kemur" var sungið. Það var nú meira leiðindaskemmdarverkið sem framið var á því fyrir 40 árum.


Skemmtilegir tónleikar á þjóðlagahátíð á Siglufirði

Að undanförnu hef ég heyrt í auglýsingum ríkisútvarpsins að útvarpað sé beint á Netinu frá þjóðlagahátíðinni á Siglufirði. Þar sem ég komst ekki norður ákvað ég að nýta mér þessa þjónustu.

Í kvöld, þegar heim kom eftir rúmlega 30 km hjólreiðar, kveikti ég á farvélinni, stillti á www.siglo.is/festival og fann beina útsendingu frá tónleikum Ragnheiðar Gröndal og félaga. Voru þeir hinir skemmtlegustu. Ekki get ég sagt að ég hafi verið hrifinn af öllu sem ég heyrði. Þótt sumt hafi ekki hrifið mig var flutningurinn samt afbragðsgóður, rödd Ragnheiðar ómþýð og útsetningarnar´góðar. Það er þó vandfarið með rafmagnsgítara og þjóðlög og stundum ískraði óþæglega í tækjunum. En ískrið er víst hluti hljóðheimsins. Hrifningin mótast helst af smekk og fordómum.

Ég undraðist mjög gæði útsendingarinnar á netinu og óskaði þess að tóngæði ríkisútvarpsins væru svona góð. Hljóðblöndunin var hrint með ágætum. Ég hætti að verða hissa þegar ég heyrði í lokin að Sveinn Kjartansson hefði stjórnað útsendingunni.


Tónlist á bloggsíðunni

Nú hef ég sett inn á síðuna þau 6 lög sem eru eftir mig og birtust á hljómplötunni Í bróðerni árið 1981. Helgi E. Kristjánsson útsetti þau. Guðmundur Benediktsson söng og Gísli Helgason lék á blokkflautur. Fleiri hljóðfæraraleikarar komu þar nærri.

Einnig er að finna lagið Austrið er rautt í tveimur útsetningum. Vonandi nýtur fólk þessa efnis.

Ég hefði gaman af að heyra hvort sjónskertir notendur síðunnar geti hlustað á tónlistina. Ef menn kjósa að gera athugasemdir við þssa færslu eða skrifa í gestabókina eru þeir vinsamlega beðnir að tilgreina hvaða forrit þeir nota til þess að lesa bloggsíður.


Tónlistarspilarinn

Emil Bóasson og Hringur Árnason hjálpuðu mér að setja upp tónlistarspilarann í gær.

Nú geta menn hlustað á öndvegislag allra tíma, Austrið er rautt, lofsöng um Mao formann.

Einnig má nú hlýða á Brúðarmars Mendelsons með laginu Austrið er rautt sem forleik, e þetta var upphaflega ástarsöngur svo að vissulega átti vel við að leika brúðarmarsinn svona í brúðkaupi okkar Elínar. Brúðkaupi var vissulega sólarupprásin í lífi mínu. Guðni Þ. Guðmundsson, orgelleikari og vinur minn frá Vestmannaeyjum, sá um útsetningu og flutti þetta. Ekki þurfti að endurvígja orgelið enda öll tónlist án trúarlegra landamæra.

Tónlistarspilarinn er ekki aðgengilegur sjónskertu eða blindu fólki um stundarsakir. Vonandi verður bætt úr því innan skamms. Ég hef hugsað mér að bæta einhverju af tónlist inn á spilarann. Fólki er velkomið að hafa samband viðmig og leggja fram óskir sínar.


Jólakveðja

Ég óska lesendum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Um leið færi ég ykkur hljóðmyndina Aðventuleiftur sem ég vona að þið njótið.


Nýjasta jólalagið - Austrið er rautt

Gleður nokkuð augað meira en árroðinn í suðaustri á frostkyrrum morgni á aðventunni? Inn um gluggan berst ylur sólarinnar á heiðskírum dögum og því varð þetta erindi til sem upphaf væntanlegs jólasálms:

Austrið er rautt,

upp rennur sól.

Ennþá nálgast þessi blessuðu jól.

Svanni fátækur son Guðs ól.

Halelúja!

Hann vér tignum heims um ból.

Svanni er kona eins og flestir vita.

Hringur Árnason söng þetta vers í dag við undirleik aðventustormsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband