Stórkostlegir tónlneikar Björns Andors Drage, ný krækiber og ynging tengdamóður minnar

Sunnudagskvöld við orgelið hafa helgað sér sess í menningarlífi Reykjavíkur.

Í sumar hefur staðið norræn orgelhátíð í Hallgrímskirkju á orgelsumri og hefur þar margt borið fyrir eyru.

Í kvöld sóttum við Elín ásamt móður hennar og bróður tónleika Björns Andors Drage, en hann er einkum þekktur fyrir umritanir sínar á verkum Edvards Griegs.

Tónleikarnir hófust á hinu stórfenglega verki Joie et clarté des corps glorieux (Gleði og hreinleiki hinna dýrðlegu líkama) úr Les corps glorieux sem Messiaen skrifaði árið 1939. Lék Björn það af stórkostlegri innlifun og túlkunin var einstök.

Hið sama má segja um næsta verk, Partitu um sálminn Nun komm der Heiden Heiland (Nú kemur heimsins hjálparráð) eftir þýska tónskáldið Hugo Distler.

Ekki verður frekar fjallað um einstök verk þessara tónleika að öðru leyti en því að eftir hlé flutti Björn nokkur píanóverka eftir Edvard Grieg. Verður að segjast sem er að undirrituðum þóttu útsetningarnar misjafnlega góðar, en sumar voru þó undursamlegar.

Tónleikunum lauk eða átti að ljúka á Inngöngumarsi Bojarna eftir Johan Halvorsen. Það var makalaust skemmtileg og vel gerð orgelútsetning.

Steininn tók þó úr þegar Björn Andor Drage varð við óskum áheyrenda um aukalag og var það sjálfur dansinn úr höll Dofra Konungs, hið einkennilega tryllingslega verk Edvards Grieg sem túlkað hefur verið af ótal listamönnum. Hlógu áheyrendur af gleði í lokin og gengu þakklátir og glaðir út í sumarnóttina.

Tengdamóðir mín varð svo glöð að hún yngdist um 18 ár. Geri aðrir betur.

Í gær skemmti hún sér svo vel að hún yngdist um 12 ár. Hvar ætli þetta endi hjá henni, blessaðri?

Helgin var sem sagt vel heppnuð. Í gær voru það ferð um Reykjanes, ný krækiber og góður matur og í kvöld enn betri matur og síðan þessir dýrlegu tónleikar. Góðar fjölskyldusamvistir eru mikils virði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband