Færsluflokkur: Tónlist

Dagur íslenskrar tónlistar

Í dag halda menn hátíðlegan dag íslenskrar tónlistar og minnast um leið Rúnars Júlíussonar. Um hann segi ég: Hann var samkvæmur sjálfum sér og gafst aldrei upp. Blessuð sé minning hans.

Ég var óþolinmóður og fór inn á mbl.is eftir miðnætti og sótti mér tónlist frá tonlist.is. En mér reyndist ógerlegt að átta mig á því hvernig ég ætti að þiggja tónlistargjöf Smekkleysu. Ef til vill getr einhver ráðið bót á fávisku minni og vankunnáttu.


Besti slaghörpuleikari Íslendinga frá því á landnámsöld:)

Undirritaður heldur því fram að Víkingur Heiðar Ólafsson sé fremstur íslenskra slaghörpuleikara frá því að land byggðist og er þó ekki kastað rýrð á þá mörgu listamenn sem skarað hafa fram úr á liðnum árum.

Í kvöld flutti víkingur Heiðar 3. píanókonsert Bela Bartoks af stakri snilld ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eftir hjartanleg fagnaðarlæti áheyrenda lék hann tvö aukalög. Annað þeirra var útsetning hans á laginu “Litfríð og ljóshærð” eftir Emil Thoroddsen, tónskáld og píanóleikara, enn Víkingur Heiðar vinnur nú að píanóútsetningum íslenskra sönglaga. Var útsetningin þvílík snilld að sjálfur Liszt Ferens hefði verið fullsæmdur af.

Hljómsveitin lék vel í kvöld, en auk konsertsins voru á dagskrá Leónóruforleikurinn og Sinfónía nr. 8 eftir Beethoven.

Að lokum þykir rétt að vekja athygli á meðfylgjandi frétt af heimasíðu Sinfóníuhljómsveitar Íslands um leið og hljómsveit, stjórnanda og hljóðriturum eru færðar árnaðaróskir.

Sinfóníuhljómsveit Íslands og Rumon Gamba, aðalstjórnandi hljómsveitarinnar, eru tilnefnd til hinna virtu Grammy-verðlauna. Um er að ræða verðlaun sem veitt eru fyrir bestu frammistöðu

hljómsveitar og hljómsveitarstjóra á hljómplötu.

Tilnefninguna fær hljómsveitin fyrir geisladisk sinn með verkum eftir franska tónskáldið Vincent d´Indy, sem breska Chandos-útgáfan gaf út fyrr á þessu

ári.

Ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands eru Konunglega skoska hljómsveitin, Sinfóníuhljómsveit Chicagoborgar, og Holllywood Studio

sinfóníuhljómsveitin tilnefndar í þessum flokki.


Konsert Veigars Margeirssonar

Ég vaknaði í morgun fyrir kl. 6 eins og vant er flesta morgna. Saxófónkonsert Veigars Margeirssonar var fyrsta verkið sem leikið var eftir fréttirnar - konsertinn er með öðrum orðum kominn út á geisladiski. Sigurður Flosason leikur með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn guðmundar Óla Gunnarssonar.

Verkið er rómantískt og þægilegt áheyrnar - hljómgæti sem margur getur notið - mun hollara en flest sælgæti sem fólk leggur sér til munns þessa dagana og endist mun lengur.


Þjóðhressandi tónleikar

Í gær leiddu saman hesta sína í Háskólabíói Sinnfóníuhljómsveit Íslands og Kristján Jóhannsson undir stjórn Petri Sakari þess hljómsveitarstjóra sem hefur átt hvað drýgstan þátt í að gera Sinfóníuhljómsveit Íslands að þeirri gæðahljómsveit sem hún er. Á dagskránni voru aríur eftir Puccini og Leoncavallo, Karnevalforleikur eftir Dvorák, þrjú íslensk sönglög, tveir þættir úr Pétri Gaut eftir Grieg og 5. sinfónía Beethovens - engin tónlist frá óvinveittum þjóðum.

Kristján er sennilega rómsterkastur íslenskra tenora og á köflum tókst honum svo vel upp að tárin brutust fram í augnkróka sumra áheyrenda enda var honum fagnað innilega og vel. Leikur hljómsveitarinnar var yfirleitt góður og stjórnin örugg. Einhvern veginn fannst mér samt 5. sinfónían gjörsneydd allri tilfinningu.

Hljómsveitin og Kristján gera það ekki endasleppt við þjóðina um þessar mundir. Leikur hljómsveitin í verslunarmiðstöðum og á þriðjudaginn geta Akureyringar hlakkað til að fá hana og Kristján í heimsókn.

Það var dálítið skemmtilegt að láta hugann reika á meðan "Sjá dagar koma" eftir þá Davíð Stefánsson og Sigurð Þórðarson var flutt. Kristján steytti hnefana til þess að leggja áherslu á boðskap kvæðisins og sanna fyrir áheyrendum að Íslendingar væru engir aukvisar þótt á móti blési og nokkrir spreðurbassar hefðu sólundað eigum okkar út um víðan völl enda stappaði hann stálinu í áheyrendur svo að þeir bólgnuðu út og sætin þrengdu að þeim. Andrúmsloftið var rafurmagnað og ég heyrði afa minn í Skuld hvísla handan eilífðarinnar: "Eg skal!" Og ég hugsaði sem aðrir: ÉG SKAL!!!!!!!!!!!! og ÞJÓÐIN SKAL!!!!!!!!!!!!


Þjóðlegur frumkvöðull

Jón Gunnar Ásgeirsson, tónskáld, er áttræður í dag.

Þessi rómsterki fræðaþulur hefur um langan aldur sett sterkan svip á mannlífið hér á landi. Hvar sem hann fer taka menn eftir honum. Maðurinn lumar hvorki á skoðunum sínum né talar lágt. Þá heyrist hlátur hans um þétt skipaða sali hversu stórir eða fjölmennir sem þeir eru. Má vænta þess að hann geti vart hlegið í nýja tónlistarhúsinu án þess að hvert mannsbarn heyri hláturinn.

Jón hefur lengi ausið úr brunni íslenskrar sagna- og þjóðlagahefðar og hafa Íslendingar notið þess í ríkum mæli. Honum hefur betur tekist en flestum öðrum að heilla þjóðina með frumsömdum lögum og útsetningum þjóðlaga. Þá hafa tónverk hans einatt verið með þjóðlegum blæ.

Við Jón kynntumst árið 1974, en þá var óperan Þrymskviða sýnd í Þjóðleikhúsinu. Ég fór í leikhúsið með blendnum huga því að dómar um óperuna voru misjafnir. Við fyrstu tónana, einfalda og taktfasta, djúpar raddir karlakórsins og vaxandi þátttöku hljómsveitarinnar, fékk ég eins konar menningaráfall. Ég gerði mér heinlega ekki grein fyrir því hvað gerðist innra með mér. Ég varð uppnuminn og kleip félaga minn, sem sat mér á vinstri hönd, í lærið og hvíslaði: Heyrirðu að þetta er sprottið úr íslenskri þjóðarsál?

Svo fór að ég sótti þrjár eða fjórar sýningar á Þrymskviðu og bauð jafnan með mér einhverjum, helst fólki sem ég hafði ekki hitt lengi og varð á vegi mínum. Ég hefði sjálfsagt farið á síðustu sýninguna hefði kona nokkur, sem vísaði mér til sætis, ekki spurt hvort ég hefði ekki séð þessa óperu áður. Ég var og hégómlegur og ungur til þess að standast þessa spurningu.

Ég lærði óperuna næstum utan að og enn raula ég fyrir munni mér kafla úr henni eða gleð nágranna mína með því að leika eigin útsetningar á einstökum þáttum eða aríum.

Galdra-Loftur er önnur ópera Jóns sem sýnd var í Íslensku óperunni árið 1996. Hún er mjög ólík Þrymskviðu og erfitt að bera verkin saman. Þar er einnig margt ágætra laglína sem hrifu hugann.

En aftur að Þrymskviðu. Föstudag nokkurn síðla í júní árið 1974 var fremur lítið að gera í Heildverslun Ásbjörns Ólafssonar. Klukkan var 13:00 og nær vonlaust að hringja til kaupmanna að bjóða þeim vörur. Ég herti upp hugann og hringdi í Jón. Kynnti ég mig og hóf upp mikinn fyrirlestur um tilurð Þrymskviðu. Lauk honum eftir nokkra stund með því að ég hélt því fram að sköpunartími óperunnar væri ekki undir þúsund árum.

Jón hafði hlustað þolinmóður allan tímann en greip nú af mér orðið og sagði af miklum móð að í raun hefði hann ekkert gert nema að raða saman textum og semja tónlist. Eftir þetta höfum við verið kunningjar og hefur hann frætt mig um ótal margt.

Lítil menningarsvæði eins og hið íslenska, eiga oft erfitt með að miðla hugverkum listamanna til þegna sinna. Með nútímatækni ætti sá vandi að vera að nokkru leystur. Full ástæða er til að Ríkisútvarpið geri Þrymskviðu, Galdra-Loft, horna-, Celló- og trompetkonserta Jóns aðgengilega ásamt fleir verkum. Einnig er ástæða til að Þrymskviða verði nú rifjuð upp og sviðssett að nýju.

Ég hef minnst á það á síðum þessum að Þrymskviða var hljóðrituð á vegum Ríkisútvarpsins og útvarpað á sumardaginn fyrsta árið 1977. Er ekki ráð að gleðja hlustendur með því að endurflytja óperuna?


Ný tækifæri handa íslensku hljómlistar- og íþróttafólki

Að undanförnu hafa birst fréttir um að íslensk íþróttafélög hyggist flest segja upp samningum við erlenda leikmenn sem starfa hérlendis.

Í fyrradag var á morgunvakt Ríkisútvarpsins athyglisvert samtal við framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands þar sem hann lýsti þeim vandræðum sem hljómsveitin horfir fram á vegna samninga við erlenda hljómlistarmenn.

Í breyttum aðstæðum felast ný tækifæri. Nú eiga íþróttafélögin að einbeita sér að íslenskum íþróttamönnum og skila þeim árangri sem aðstæður leyfa.

Hið sama á við um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hér á landi er sveit úrvals hljóðfæraleikara sem geta jafnvel tekið að sér öll þau einleikshlutverk sem áður var ætlað að erlendir hljóðfæraleikarar sinntu. Þá eigum við einnig nokkra stjórnendur sem hafa sjaldan fengið að reyna sig.

Ef rétt verður á málum haldið getur þetta orðið til þess að efla metnað á meðal íslenskra íþrótta- og tónlistarmanna.


Hljóðmínútur

Hlaupanótan er afbragðsgóður útvarpsþáttur á rás 1. Í dag var útvarpað stuttum hljóðverkum (eða hljóðverkjum) sem samin voru á vegum Evrópusambands útvarpsstöðva.

Mörg verkanna eru hreinasta snilld. Ég hlustaði á flest þeirra með heyrnartólum en gafst upp og settist fyrir frama hátalarana í stofunni. Skora ég á hvern þann, sem hefur unun af hljóðlist, að fara inn á heimasíðu Ríkisútvarpsins, http://ruv.is, finna vefupptökur og hlusta á þáttinn.


Vefvarp Ríkisútvarpsins - betur má ef duga skal

Eftir að Ríkisútvarpið tók við umsjón eigin vefvarps af Símanum hefur þjónustan batnað nokkuð.

Þegar tækniupplýsingar eru athugaðar sést að útsendingin er einungis á 64 kb sem er ásættanlegt fyrir einómsútsendingar en ekki víðóm. Þá eru lágmarksgæði talin a.m.k. 128 k, í minnsta lagi 96k.

Fyrir vikið er vart hlustandi á tónlistarþætti sem geymdir eru á vefnum í hálfan mánuð eftir útsendingu vegna þess að högg koma fram í útsendingu þegar tónar eru langir. Á þetta bæði við um söng, fiðlur, orgel og fleiri hljóðfæri

Ef borin eru saman tóngæði íslenska og sænska útvarpsins er munurinn sláandi mikill. Væri ekki ráð að Ríkisútvarpið hressti aðeins upp á gæðin og yki bætafjöldann um helming? Einhvern tíma hljótum við að fá svipuð gæði á netinu og þegar hlustað er á útvarp gegnum sjónvarpsmóttakara Símans.


Atli Heimir Sveinsson sjötugur

Þetta er hvorki afmælis- né minningagrein um Atla.

Í dag fórum við Elín og nutum indællar stundar í Þjóðleikhúsi Íslendinga þar sem valið lið listamanna flutti leikhúsperlur Atla Heimis sem Edda Heiðrún valdi af sinni stöku smekkvísi. Flutningurinn var fágaður og verkin hreinasta hlustasælgæti. Mikil veisla er framundan þar sem menn geta gætt sér á hinum ýmsu verkum Atla og hún endar með 6. sinfóníunni í mars.

Atli Heimir kenndi okkur tónfræði í 3. bekk í menntaskólanum í Reykjavík. Í fyrsta tímanum spurði hann hvort hann ætti ekki að leika fyrir okkur vinsælasta lagið í Kína, Austrið er rautt. Ég fékk næstum hjartaáfall af hrifningu. Þetta lag hafði ég heyrt áður sem kallmerki útvarpsins í Peking og það var upphafsstef 3. þáttar kórverks sem ég átti. Atli sagði mér fyrstur nafn þess og síðan hefur það fylgt mér og mótað líf mitt.

Við tvíburarnir sóttum síðan tíma hjá honum í tónlistarsögu og tónfræði í 5. og 6. bekk. Upphaflega höfðum við skráð okkur í annað nám en komumst ekki yfir námsefnið sem þurti að lesa jafnóðum inn á segubland. Atli tók við okkur og hlutum við gott tónlistaruppeldi hjá honum.

Atli Heimir er ólíkindatól í tónsköpun sinni. Enginn veit á hverju hann á von þegar Atli er annars vegar. Eitt er víst. Afraksturinn er ævinlega þess háttar að umtal vekur.

Fyrsta verkið sem ég heyrði eftir Atla var Hlými, en það var flutt á norrænni tónlistarhátíð árið 1967. Við Jón Þorsteinsson, núverandi óperusöngvari, fórum saman á hátíðina og nutum þess til hins ítrasta að hlusta á jafnólík verk og þau sem flutt voru eftir Pál Ísólfsson og Atla Heimi. Hlými vakti hjá mér óstöðvandi hlátur því að gleðin í öllu fimbulfambinu var svo oendanlega mikil.

Ógleymanlegust er mér þó óperan Silkitromman þar sem Guðmundur Jónsson söng aðalhlutverkið og fór á kostum. Ég fékk það verkefni að hljóðrita hana á snældur fyrir Þjóðleikhúsið og iðrar þess jafnan að hafa ekki fengið leyfi til þess að taka eitt eintak handa sjálfum mér. En svona var ég nú heiðarlegur og við sem að fjölfölduninni stóðum.

Ríkisútvarpið ætti skilyrðislaust að flytja þessa óperu Atla Heimi til heiðurs, í minningu Guðmundar Jónssonar og hlustendum til ánægju og yndisauka.

Ég óska Atla heimi til hamingju með afmælið og megi honum gefast mörg og frjósöm ár.


Fréttaauki, Stjörnukíkir og Elísabet Indra

Ég hlustaði stundum á útvarpsþáttinn Stjörnukíki sem Elísabet Indra Ragnarsdóttir sá um á rás 1 í fyrra. Í dag hófst þátturinn að nýju.

Elísabet fylgdist með nokkrum börnum sem leituðuðu á vit ævintýra úti í Gróttu undir leiðsögn þeira Óskar Vilhjálmsdottur og Margrétar H. Blöndal. Efnistök hennar voru skemmtileg og hljóðumhverfið sannfærandi. Hreyfing barnanna naut sín vel enda voru þau á sífelldu iði eins og börnum er einum lagið.

Það lá við að hljóðhimnurnar dyttu úr mér þegar ég heyrði blessuð börhnin syngja lagið Fréttaauka við ljóð Ása í Bæ. Af frásögninni mátti skilja að einhvern tíma hefði verið sýndur við lagið leikþáttur eða dans þar sem efni ljóðsins var leikið. Það væri gaman að heyra meira um þetta. Þá sagði lítil hnáta, Vaka að nafni, frá því að lagi hefði einu sinni verið bannað vegna þess að það væri svo sorglegt. Þetta er einhver þjóðsaga. Það hefur aldrei verið bannað.

Lagið Fréttaauki hefur ekki komið út á hljómplötu árum saman í poppútsetningu. Árni Johnsen söng það síðast, en eitthvað mistókst honum millikaflinn. Popphljómsveit hefur hins vegar ekki flutt það í bráðum 30 ár.

Af söng barnanna að dæma virðist A-kafli lagsins vera tekinn að breytast, en hálftónana í lok hans ræður fólk yfirleitt ekki við. Merkir það víst að lagið sé orðið almenningseign.

Vilji einhver popptónlistarmaður gefa það út er honum það velkomið. Mælist ég þó til þess að farið verði rétt með laglínuna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband