Evróvíðsjón og Mari Boine - andstæður í dagskrárgerð

Í gær hlustaði ég með öðru eyranu á aðdraganda Evróvíðsjónar, sem íslenska ríkissjónvarpið skenkti áhorfendum sínum og hlustendum. Ekki ætla ég að dæma þau lög sem ég heyrði, en þetta er mér efst í huga:

Íslendingar eiga varla nokkurt erindi í þessa keppni. Þeir skammast sín fyrir þjóðtungu sína og ímynda sér að þeir komist frekar áfram í keppninni með því að syngja lélega enska texta.

Það eru mörg dæmi þess í Evróvíðsjón að söngtextar á tungum smáþjóða hafi komist áfram. Hét ekki eitthvert norskt lag Lad oss svinge? Það sungu Norðmenn á norsku og unnu.

Íslendingar hafa sent fjölmörg lög á ensku í keppnina og jafnan farið heim með sárt eða hálfsárt ennið. Getur verið að sumum finnist íslenskan ekki henta til dægurlagasöngs eins og sumir halda því fram að vart sé hægt að syngja óperuaríur nema á ítölsku? Mér finnst ýtt undir múgmennskuna með þeirri menningarstefnu að skylda ekki höfunda til þess að skila textum á íslensku við lög sín. Jafnvel Ísraelsmenn syngja á hebresku sem fáir skilja nema þeir.

Eftir að Evróvíðsjóninni lauk og kvikmynd með ensku tali skall á eyrum hlustenda, leitaði ég næðis og hlýddi á fléttuþátt frá norska útvarpinu sem Ríkisútvarpið sendi út á Hljóðbergi þar sem Viðar Eggertsson hafði klifrað upp. Af tindi Hljóðbergs gerði hann ágæta grein fyrir viðfangsefinu, Mari Boine, samískri söngkonu sem hefur leitað uppruna sins í söng og ljóðum.

Eiginlega ætti ég sem útvarpsmaður að skrifa dálítið um tæknina á bak við gerð fléttuþátta, en Norðmenn kunna þar prýðilega til verka. En hitt skiptir meira máli að stjórnandinn leiddi hlustundendur af mikilli nærfærni inn í hugarheim Mari Boine og lýsti átökunum millum hennar og foreldranna sem reyndu að þröngva henni til níðþröngrar trúar á Biblíuna.

Mari Boine slapp heil frá uppeldinu, að vísu dálítið meidd á sálinni. Hún hefur lært að vera stolt af uppruna sínum, hefðum og tungu.

Í þættinum fylgdu hlustendur Mari Boine til Parísar og þar söng hún á samísku, hvorki ensku né frönsku. Samt hylltu áheyrendur hana vel og lengi!

Mari Boine fer sínar eigin leiðir og byggir á þjóðararfi sínum. Flestir popparar íslenskir vilja fleygja þjóðararfinum og skríða fyrir múgmennskunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Ég er alveg sammála þessu með Keppnina

Einar Bragi Bragason., 29.10.2007 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband