Algeng orðtök hverfa úr málinu

Um miðjan 7. áratug síðustu aldar stýrðu tveir ritstjórar sínu blaðinu hvor í Vestmannaeyjum. Annað var Eyjablaðið en hitt Fylkir. Annar ritstjórinn kenndi við Gagnfræðaskóla Vestmannaeyja en hinn við Barnaskóla Vestmannaeyja.

Árið 1966 ef ég man rétt tók ritstjóri fylkis sig til og birti eftir sig ljóð í blaðinu undir skáldaheitinu Örn hins kalda norðurs.

Hann hætti því hið snarasta þegar ritstjóri Eyjablaðsins birti grein í blaði sínu þar sem hann greindi frá því að nú væri ritstjóri fylkis farinn að ganga andlegra örna sinna í blaðinu.

Ég hef sagt fjölmörgum þessa sögu og þykir flestum hún jafnskemmtileg og mér. Í fyrravor sagði ég ungum manni frá Vestmannaeyjum þessa sögu. Þá brá svo við að hann hló ekki svo að ég spurði hvort hann vissi hvað "að ganga örna sinna" þýddi. Já, hann vissi að það þýddi að fá eitthvað staðfest. Ég leiðrétti piltinn og kom þá í ljós að hann hafði aldrei heyrt máltækið.

Að undanförnu hef ég hitt fólk á aldrinum frá tvítugu til fimmtugs og fáir hafa þekkt þetta orðtak.

Til eru ýmis orðtök um að ganga örna sinna svo sem að hægja sér o.fl. Langamma mín vildi vera kurteis og talaði um að kýrnar kúkuðu. Það var of gróft að tala um að þær skitu.

Sennilega þarf að leggja meira kapp en hingað til á að kenna ungu fólki ýmis orðtök sem fegra málið og gera það fjölbreyttara. Að svo mæltu hlýði ég kalli líkamans, fer á náðhúsið og geng örna minna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband