Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Tölvuraunir

Á fimmtudaginn ætla ég að útvarpa hluta yndislegrar hljóðritunar sem Magnús Bergsson gerði í fjörunni við Gróttu á Seltjarnarnesi aðfaranótt 25. júní árið 2000, en þá háðu fuglar á Seltjarnarnesi málþing. Niðurstöðum þingsins verður útvarpað í þættinum Vítt og breitt á Rás eitt kl. 13:45 31. þessa mánaðar.

ég átti þetta hljóðrit á minidiski og hugðist afrita diskinn á fartövluna. Notaði ég USB-tengt hljóðkort. Vélin fraus og hætti hvað eftir annað að hljóðrita eftir 8 - 20 mínútur. Það var sama hvað ég reyndi. Soundforge-forritið fraus.

Ég reyndi að aftengja talgervilsforritið, en ekkert gekk. Þrautaráðið varð að aftengja USB-lyklaborðið sem ég nota og hafa eingöngu hljóðkortið í sambandi. Þá loksins gekk þetta.

Erfiðleikarnir eru til þess ætlaðir að menn njóti þess að vinna bug á þeim.


Gráglettni tölvuforrita

Ég hef notað tölvur í 24 ár og get ekki nægilega dásamað mytsemi þeirra og þá gleði sem þær hafa veitt mér.

Eitt besta tólið sem ég nýti mér er leiðréttingarforritið Málfar sem er að finna á slóðinni www.ordabok.is en þar er einnig ensk-íslensk og íslensk-ensk orðabók. Matthías Magnússon, höfundur þessara forrita, gerði í upphafi starfs síns smávægilegar breytingar á hönnun orðabókarinnar til þess að bæta aðgengi að henni og á hann þakkir skildar fyrir. Kosturinn við Ísland á þessu sviði er sá að þjóðin er fámenn og flestir geta komið skoðunum sínum og athugasemdum á framfæri við þá sem þeir óska.

Þegar Málfar er beðið að lesa yfir texta koma stundum fram neyðarlegar tillögur. Sem dæmi má nefna að forritið þekkti ekki orðið bautastein. Stakk það upp á orðinu fautastein í staðinn.

Fleiri, neyðarlegar orðmyndir mætti nefna, en þessi þótti mér sýna dæmi um gráglettni tölvunnar. Sennilega ætti Matthías að huga að þessu og gera Málfar dálitlu jákvæðara. Hver vildi láta reisa sér fautastein?


Óaðgengilegar upplýsingar á heimasíðu Vinnumálastofnunar

Ég óska lesendum þessara pistla árs og friðar. Megi þeim farnast vel á þessu ári.

Í morgun fór ég að láta skrá mig atvinnulausan og var vel tekið af starfsfólki vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins. Ég hafði ætlað að undirbúa jarðveginn með því að afla mér upplýsinga á netinu, en þar var þá ekki allt sem sýndist. Sendi ég því Gissuri Á. Péturssyni, forstjóra Vin´numálastofnunar, meðfylgjandi bréf:

Sæll, Gissur og gleðilegt ár.

Í morgun urðu þau tímamót í lífi mínu að ég þurfti að láta skrá mig atvinnulausan og sækja um atvinnuleysisbætur. Sótti ég því á fund starfsfólks Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins að Engjateigi 11. Ekki get ég kvartað yfir móttökunum.

Undanfarna daga skoðaði ég vef Vinnumálastofnunar dálítið því að ég vildi flýta fyrir mér. Komst ég þá að því að upplýsingar á vefnum eru ekki nægilega aðgengilegar þeim sem eru það sjónskertir að þeir þurfa að nota sérstaka skjálesara með blindraletri eða talgervli. Hönnun vefsins virðist með öðrum orðum talsvert ábótavant í mörgum efnum. Þetta er einkar bagalegt, sérstaklega þegar tekið er mið af því að Vinnumálastofnun á m.a. að annast atvinnuleit fyrir fatlaða. Ég vil nefna nokkur dæmi:

1. Vefurinn er þannig upp settur að erfitt er að átta sig á því í sjónhending hvar ýmsar upplýsingar eru.

2. Bæklingar Vinnumálastofnunar eru vissulega á vefnum á pdf-sniði, en ekki sem texti, heldur sem myndir. Þeir virðast hreinlega hafa verið skimaðir inn og þar af leiðandi eru þeir algerlega ólæsilegir mönnum eins og mér.

3. Eyðublöðin eru á pdf-sniði. Ekki er þannig frá þeim gengið að hægt sé að fylla þau út með tölvu. Þar mætti Vinnumálastofnun taka Tryggingamiðstööina sér til fyrirmyndar.

Starfsmenn þínir voru allir af vilja gerðir að aðstoða mig í þessu sambandi en sáu fljótt að slíkt tjáði ekki þar sem um myndir var að ræða en ekki texta. Var mér lofað að reynt skyldi að útvega mér bæklingana á tölvutæku og læsilegu sniði. Ég var svo heppinn að kona mín fylgdi mér þessi þungu spor, en mörgum þykir þungt að þurfa að láta skrá sig atvinnulausa eftir að hafa verið á almennum vinnumarkaði í þrjá áratugi. Mér finnst að starsmenn Vinnumálastofnunar eigi skilyrðislaust að aðstoða umsækjendur um atvinnuleysisbætur við að fylla út eyðublöð sem eru algerlega óaðgengileg.

Þrátt fyrir að nokkurrar viðleitni hafi gætt til þess að gera vef Vinnumálastofnunar aðgengilegan sjónskertum (sérstakur hamur fyrir sjónskerta) er flest það, sem máli skiptir, algerlega óaðgengilegt á heimasíðu stofnunarinnar. Slíkt er í raun andstætt við upplýsingastefnu stjórnvalda. Er hugsanlegt að ein skýringin sé sú að ekki starfi fatlað fólk eða einstaklingar með sérþekkingu á málefnum fatlaðra hjá stofnuninni?

Ég þykist að vísu vita að þetta sé ekki af ásetningi gert heldur vanþekkingu. Það er hins vegar grafalvarlegt að stofnunin skuli leggja stein í götu fólks, sem hefur sérþjálfað sig til starfa á almennum vinnumarkaði, með því að koma því þannig fyrir að hindranir séu þess eðlis að fólk fái ekki yfirstigið þær af sjálfsdáðum.

Ég vona að þú takir þessum ábendingum vel, sem eru sendar þér í fyllstu vinsemd.

Bestu kveðjur,

Arnþór Helgason

***************************

Arnþór Helgason,

tjarnarbóli 14,

170 Seltjarnarnesi.

S´mar: 5611703, 8973766

Netfang: arnthor.helgason@simnet.is


Af hverju velur fólk snertiskjái?

Í morgun fór ég að hitta Lúðvík E. Gústafsson, deildarstjóra mengunarvarna umhverfissviðs Reykjavíkurborgar til þess að forvitnast um þær ráðstafanir sem Reykjavíkurborg ætlar að ráðast í til þess að draga úr notkun negldra hljólbarða. Nánar um það síðar.

Umhverfissvið er til húsa á 3. hæð Skúlagötu 19, sem er annaðhvort nýlegt eða nýuppgert hús. Þar er lyfta, heldur smá í sniðum og í henni eru engir hnappar heldur snertiskjár. Ég ætlaði að forvitnast um hvort einhverjar uppleyptar merkingar væru á hnöppunum, en stillti lyftuna þess í stað á allar þær hæðir sem hún gat komið við á. Hefur hún vafalítið dansað stríðsdans af gleði þegar hún hafði losað sig við mig og leigubílstjórann og gat farið frjáls ferða sinna um allar hæðir hússins.

Eftir að ég hafði hljóðritað viðtalið við Lúðvík, sem útvarpað verður á fimmtudag á Rás 1, rás hins hugsandi manns, vísaðí hann mér á dyr eins og góðum gestgjafa sæmir og snertiskjárinn í lyftunni barst í tal. Sagði ég honum að Evrópusamtök fatlaðra vilji banna þessa skjái.

Ýmislegt getur hindrað aðgengi fólks. Snertiskjáir hindra aðgengi þeirra sem ekki sjá því að lítill sem enginn munur er á fleti þeirra og þess sem er þar í kring. Ég spyr því: Af hverju velja íslensk fyrirtæki og stofnanir snertiskjáir? Hvers vegna í ósköpunum velja borgarfyrirtæki og stofnanir húsnæði með lyftum sem eru með snertiskjái? Ef lyftur eru skilyrði þess að opinberar stofnanir taki sér bólfestu í einkahúsnæði, ætti það einnig að vera skylirt að ekki séu snertiskjáir í lyftunum. Ég sé lítinn mun á því og að þær séu ekki færar fólki í hjólastól.

Í fyrra var mér gefinn DVD-diskur með stórskemmtilegri kynningarmynd sem bresk samtök fatlaðra gáfu út til þess að vekja athygli á ýmsum hindrunum. Í myndinni er sögð saga manns sem ætlaði að sækja um starf. Hann hélt af stað og kom í móttöku fyrirtækisins sem hann vildi sækja um atvinnu hjá. Þá þurfti hann að fylla út pappíra, en þeir voru með blindraletri.

Í lyftunni var lyftuvörðurinn heyrnarlaus og skildi ekki ensku og umsækjandinn ekki táknmál.

Ekki tók betra við þegar hann kom í atvinnuviðtalið. Hann var hvorki blindur, heyrnarlaus né í hjólastól og uppfyllti því ekki þær kröfur sem gerðar voru til umsækjandans.

Hann hélt öskureiður út úr byggingunni og lenti í úrhellisrigningu. Hann var því feginn þegar hann sá strætisvagn koma og hugðist taka hann til þess að stytta sér leið. En bílstjórinn gerði honum skiljanlegt að vagninn tæki eingöngu farþega sem væru blindir eða notuðu hjólastóla.

Mannauminginn hrökklaðist því inn á næstu krá. Þar var afgreiðslufólkið blint eða öðruvísi fatlað, en hann drakk sig nú samt fullan og fór inn í danssalinn. Þar var þá ball fólks í hjólastólum og sagan endaði á því að hann fór heim með einni þeirra kvenna sem þar voru.

Þessi saga segir í hnotskurn sögu margs, fatlaðs fólks sem þarf að glíma við alls konar hindranir í samfélaginu, hindranir sem eru tilbúnar vegna þess að þeir, sem búa þær til, vita ekki hvað þeir gjöra, eins og maðurinn sagði hér um árið skömmu áður en hann lést á krossinum og fyrirgaf kvölurum sínum.


Frábær heimasíða Tryggingamiðstöðvarinnar

Þriðjudaginn 6. desember síðastliðinn tók ég þátt í því ásamt fulltrúum frá fyrirtækinu Sjá ehf að votta aðgengi heimasíðu Tryggingamiðstöðvarinnar, en fyrirtækið hafði lagt metnað sinn í að gera hana sem aðgengilegasta. Morgunblaðið birti frétt um þessa vottun mánudaginn 9. janúar eða rúmum mánuði síðar, daginn sem ég var rekinn úr vinnu, en það er önnur saga.

Um helgina skoðaði ég á ný heimasíðu TM og flestar undirsíður. Verður að segja sem er að síðurnar eru frábærlega vel hannaðar og aðgengið að þeim hreint til fyrirmyndar. Heimasíður íslenskra fyrirtækja eru mjög misjafnar hvað þetta varðar. Víðast hvar skortir nokkuð á um aðgengi þótt notast megi við uppsetningu margra viðskiptasíðna. En heimasíða Tryggingamiðstöðvarinnar ber af eins og gull af eiri.


Dálítið um tölvuaðgengi

Umsjónarmenn bloggsíðu Morgunblaðsins eru iðnir við að bæta ýmsum skemmtilegum möguleikum við bloggið. Síðasta nýjungin er tónlistarspilarinn.

Í leiðbeiningum, sem eru á síðunni, er greint frá því hvernig beri að setja upp spilarann. Forritunin virðist vera óþarflega flókin. Dragaþarf spilarann til á síðunni í stað þess að smella hreinlega á hnapp og þá væri uppsetningu lokið.

Þá skilst mér, ef ég er ekki þeim mun vitlausari, að spilarinn sé fyrst og fremst ætlaður til þess að maður geti sjálfur hlustað á það sem maður hefur gaman af. Ég verð að viðurkenna að ég vildi mjög gjarnan geta sett inn hljóðefni á síðuna sem aðrir gætu hlustað á. Hér með er þessum ábendingum komið á framfæri með von um að umsjónarmenn taki þær til góðfúslegrar athugunar og gangi svo frá að aðgerðirnar verði aðgengilegar og einfaldar.


Dálítið meira um tölvur

Í svar fékk ég svar frá Auðkenni. Þar kemur fram að fyrirtækið viti af búnaði sem nýtist blindu og sjónskertu fólki og þar með lesblindu eða með öðrum orðum þeim sem ekki geta nýtt sér venjulega öryggislykla. Verður slíkur búnaður væntanlega fenginn hingað til lands í vetur og reyndur. Þá boðar fyrirtækið breytingar á heimasíðu sinni.

Um daginn var ég að undirbúa bréfaskrif mín til fulltrúa á aðalfundi Öryrkjabandalagsins, samanber bréf mitt í Morgunblaðinu í dag. Hrund þá sambandið við internetið. Þetta gerist ævinlega þegar síst skyldi.

Ég hringdi í Símann og voru 16 á undan mér. Þeim fækkaði svo ört að ég var viss um að netsamband Símans væri bilað. Brátt kom að mér og varð ungur tæknimaður fyrir svörum. Bað hann mig að skoða ýmis ljós á beininum en ég sagði hvers kyns var og þótti honum það svo merkilegt að hann spurði ítarlega út í þann búnað sem ég notaði.

Saman þreifuðum við okkur áfram og á endanum komst allt í stakasta lag. Sagðist pilturinn hafa nægan tíma og við skyldum ekki hætta fyrr en málið leystist.

Mkið var ég ánægður með þennan prýðispilt í 8007000. Ég gleymdi að spyrja hann að nafni. Þjónustulund hans var einstök og honum og Símanum til sóma.


Öryggislyklar Auðkennis eru tilræði við sjálfstæði fjölda fólks.

Í dag fékk Kínversk-íslenska menningarfélagið sendan öryggislykil ásamt útskýringum.

Ég hef verið formaður þessa félags í 22 ár og er nú varaformaður þess. Hingað til hef ég haft umboð til að skoða færslur á bankareinking þess. Sjálfur er ég með aðgang að heimabanka og nota hann talsvert.

Mér falla illa þær hömlur sem starfsemi ykkar hefur í för með sér fyrir fjölmarga.

1. Heimasíða ykkar er gersamlega óaðgengileg öllum þeim sem nota sjálesara og fylgir í engu þeim stöðlum sem menn hafa orðið sammála um á alþjóðavettvangi. Geri ég ráð fyrir að ykkur hafi nú þegar verið bent á það.

2. Öryggislyklar ykkar koma algerlega í veg fyrir að þeir sem eru með skerta sjón eða blindir/lesblindir, geti nýtt sér þá.

Það er miður að jafnframsækið fyrirtæki og Auðkenni skuli ekki þjóna hagsmunum allra heldur einungis sumra og leggja með tiltækjum sínum stein í götu fólks sem vill og á rétt á að annast mál sín sjálft.

Ég lýsi mig reiðubúinn til þess að leggja ykkur lið í þeirri viðleitni að gera öryggislykla ykkar og annan búnað aðgengilegan. Jafnframt óska ég eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

Hvað hyggst Auðkynni gera til þess að tryggja aðgang allra að þeirri þjónustu sem öryggislyklarnir eiga að veita aðgang að?

Verður heimasíða fyrirtækisins aðlöguð að þeim kröfum sem nú er farið að gera um aðgengi í æ ríkara mæli?

Virðingarfyllst,

Arnþór Helgason

************************************************************

Arnþór Helgason

Tjarnarbóli 14

170 Seltjarnarnesi.

Símar: 5611703, 8973766

Netfang: arnthor.helgason@simnet.is

Pistlar: www.arnthorhelgason.blog.is


Tölvusíminn - ófullburða hugbúnaður sem lofar góðu

Um daginn las ég grein um samanburð á gjöldum fyrir símanotkun hér á landi. Meðal annars var þar fjallað um Tölvusímann, sem Síminn býður nú fólki. Opnaði ég heimasíðu Símans og las mér til um forritið. Ákvað ég að gerast áskrifandi að tölvusímanum vegna þess að hægt er að hringja ótakmarkað í heimasíma innan lands fyrir 990 kr. á mánuði og hentar það mér einkar vel þar sem ég vinn nú að mestu leyti heima og hringi talsvert.

Eftir að ég hafði sett upp forritið og skráð mig sem notanda ákvað ég að sækja mér leiðarvísi forritsins á netinu. Þá vandaðist heldur málið því að hér virtist um pdf-skjal að ræða sem forritin mín gátu ekki breytt í texta. Hafði ég samband við þjónustuver Símans og óskaði eftir handbókinni á tölvutæku sniði. Hefur hún enn ekki borist.

Þótt Tölvusíminn sé afar auðveldur í notkun virðast ýmsir annmarkar á forritinu. Ég virðist ekki geta svarað í símann nema ég sé staddur í forritinu þegar síminn hringir og hafist ekkert annað að. Sé ég t.d. í ritvinnslu og síminn hringir virðist ég ekki geta svarað í símann með neinni aðgerð því að blindraletursskjálesarinn minn sýnir enga hnappa sem ég get stutt á.

Þá virðist ég ekki geta notað ýmsa möguleika símans svo sem símaskrá o.fl, sennilega vegna þess að hnapparnir eru myndrænir og ekki er nema að litlu leyti gert ráð fyrir að menn geti notað lyklaborð tölvunnar.

Ef þetta er rétt hjá mér er Tölvusíminn ekki fullþróaður hugbúnaður og vantar nokkuð á að honum sé lokið. Forritið hefur alla burði til þess að geta orðið aðgengilegt svo fremi sem fylgt er þeim stöðlum sem menn hafa orðið ássáttir um í tölvuheiminum.

Mjög einfalt er að hringja úr tölvusímanum. Forritið geymir þau númer sem hringt hefur verið í. Forritið virðist raða þeim eftir töluglildum en ekki eftir því hvenær hringt hefur verið í þau. Ákjósanlegt væri að menn gætu valið hvernig númerunum væri raðað.


Freedom Box - Frelsiskassinn bætir aðgengi blindra og sjónskertra að uplýsingum

Öðru hverju berast okkur greinar um margvíslegar nýjungar í tölvumálum blindra. Í gær rakst ég á grein um Freedom Box (frelsiskassa) í rafritinu AFB Access World sem gerir blindu fólki kleift að vinna með pc-tölvum. Tekið er fram í auglýsingum framleiðanda að frelsiskassinn marki byltingu í tölvumálum blindra. Má það til sanns vegar færa einkum fyrir byrjendur. Við nánari yfirsýn er þó ekki hægt að bera Frelsiskassann saman við hefðbundna skjálesara sem gera blindu fólki kleift að vinna við ólíkan hugbúnað frá mismunandi framleiðendum.

Ég hef nú rennt yfir greinina um Freedom Box sem er á margan hátt yndislegt fyrirbæri. Hér að neðan er aðeins fjallað um það helsta:

Freedom box (Frelsiskassinn) er fyrst og fremst hugsaður sem aðgangur að upplýsingum. Í fyrstu útgáfum Frelsiskassans var gert ráð fyrir aðgengi að margvíslegum upplýsingum svo sem margs konar afþreyingu, fræðslu, rafbókum, kvikmyndum með lesnum lýsingum, efnisveitum frá flestum löndum heims o.s.frv. Kerfið vinnur m.a. þannig að fólk getur sett upp ýmiss konar stillingar sem henta hverjum og einum. Hægt er að hlusta á yfir 2000 rafbækur, aðgangur er að orðasöfnum, Biblíunni og fleiri uppsláttarritum og menn geta sett inn bókarmerki þar sem þeir hætta að hlusta. Þegar næst er sest við tölvuna geta menn síðan haldið áfram þar sem hætt var.

Hægt er að fá hugbúnaðinn settan í tölvuna eða nota minnislykil til þess að setja upp hugbúnaðinn. Ekki þarf að gera neinar ráðstafanir til uppsetningar. Hann tengir sig sjálfur um leið og kubbnum er stungið í USB-gátt vélarinnar og þess vegna er hægt að nota hugbúnaðinn við hvaða pc-vél sem er. Með Frelsiskassanum fylgja nokkrir enskir talgervlar og er sérstaklega tekið fram að þeir séu mjög skýrmæltir.

Sem skjálesari er Freedom Box ekki sambærilegur við Jaws og Dolphin hugbúnaðinn, en samt veitir Freedom Box aðgang að forritum eins og Microsoft Word, Outlook, Exel og Powerpoint. Greinarhöfundur tekur fram að stundum hafi hugbúnaðurinn frosið og endurræst tölvuna. Tekið er fram að þessi hugbúnaður sé í stöðugri þróun. Það vakti sérstaka athygli greinarhöfundar hversu auðvelt var að fylla út ýmis eyðublöð svo sem hótelpantanir o.fl með notkun þessa hugbúnaðar. Að lokum skal tekið fram að ég hef fengið staðfest að Freedom box vinnur með flestum talgervlum sem eru á markaðinum og þar með ætti að vera hægt að ferðast um íslenskar heimasíður. Því ætti að vera hægt að hlusta á íslenskar rafbækur. Gallinn er hins vegar sá að þær eru ekki á netinu enn sem komið er.

Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér þessa grein nánar er bent á krækjuna

http://www.afb.org/aw/main.asp


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband