Færsluflokkur: Vefurinn

Sjónvarp mbl.is, langfremsta vefmiðils landsins

Loksins fann ég sjónvarpsfréttir Morgunblaðsins og reyndust þær prýðilega aðgengilegar.

Framsetning fréttanna er afar hnitmiðuð og skýr. Hljóðið er gott og þarna fæst á svipstundu gott yfirlit yfir það sem helst er á baugi.

Ástæða er til að óska þeim mbl-mönnum til hamingju með árangurinn. Mbl.is er ennþá langfremsti vefmiðill landsins.


Nýtt netvarp!

Rétt í þessu var vakin athygli mín á nýju netvarpi sem kallast Valdar greinar.

Valdar greinar eru hljóðtímarit Blindrafélagsins sem komið hefur út frá árinu 1976. Fyrst var það gefið út á segulböndum, síðan á geisladiskum og nú hefur blindrafélagið hafið útgáfu þess á netinu.

Með þeirri ákvörðun að hefja útgáfu hljóðtímaritsins á netinu hefur blindrafélagið stigið merkilegt skref og í raun opnað þessa hljóðgátt öllu fólki, sem mælir á íslensku, hvar sem er í veröldinni. Tímaritið virðist enn ekki hafa tekið neinum breytingum. Enn eru þar viðtöl við félagsmenn og aðra sem að hagsmunamálum blindra koma og enn er lesið úr íslenskum dagblöðum og tímaritum.

Verði rétt á spöðunum haldið getur þetta netvarp Blindrafélagsins orðið þv í notadrjúgur miðill sem getur varpað nýju ljósi á ýmislegt sem félagið vill vekja athygli á. Mér kemur reyndar á óvart að tengillinn inn á netvarpið skuli ekki vera auðfundnari, en hann er að finna á síðunni www.blind.is undir heitinu Hljóðskrár.


Ekki hefur einkavæðingin bætt þjónustu Símans við Ríkisútvarpið

Landsíminn hefur að meira eða minna leyti séð um dreifikerfi Ríkisútvarpsins svo að áratuum skiptir. Í gamla daga höfðu ýmsir starfsmenn útvarpsins allt á hornum sér vegna þessa fyrirkomulags og töldu heppilegra að Ríkisútvarpið sæi sjálft um sín mál.

Þegar internetið kom til sögunnar tóku ýmsar útvarpsstöðvar að senda út dagskrá sína á netinu og fljótlega tileinkaði Ríkisútvarpið sér þessa tækni. Er nú svo komið að fjöldi fólks nýtir sér þessa bráðgóðu þjónustu og hlustar á einstaka dagskrárliði þegar því hentar. Sjálfur hef ég reynt að ýmsir Íslendingar, sem búa erlendis, hafa hlustað á þætti mína og pistla og sent mér um það skýrslur.

Í vetur tók ég eftir því að Ríkisútvarpið hætti að senda út í víðómi (stereó) á vefnum og þótti mér það undarlegt. Áður hafði verið sent út í víðómi en rásunum snúið við þannig að vinstri rás komí hægra eyra og öfugt. Eftir margra mánaða þras tókst mér að fá Símann til að breyta þessu, en þá hafði m.a. fyrrum vefstjóri útvarpsins borið brigður á þessa fullyrðingu mína. En skömmu eftir að þessi mistök höfðu verið leiðrétt brast sem sagt á einóm.

Í dag skrifaði ég vefstjóra Ríkisútvarpsins og spurði hverju þetta sætti að einungis væri sent út í einómi. Skýringin var þessi: Síminn annast þessa þjónustu og í vetur bilaði hjá þeim leiðslan sem tengir saman vefinn og Ríkisútvarpið. Þjónustuviljinn er sem sé ekki meiri en svo að starfsmenn Símans hafa ekki séð ástæðu til að lagfæra snúruna. Þetta hefði varla gerst nema því að eins að einkafyrirtæki ríkisins, Síminn, hefur einokað þessa þjónustu. En brátt heyri hún víst sögunni til því að ríkisútvarpið ætlar sjálft að sjá um þennan þátt starfseminnar.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband