Færsluflokkur: Spaugilegt

Dauðabuxur!

Í gærkvöld hringdi til mín ung kona frá Símanum að forvitnast um hvort ég vildi ekki hefja viðskipti við fyrirtækið að nýju.

Ég sagðist hafa farið yfir til Voðafóns í sumar en horfið aftur til Símans vegna þess að ljósleiðarinn á Seltjarnarnesi verkaði ekki og ekki hefði verið staðið við þjónustuna sem lofað var.

Ógeðslega frábært, svaraði stúlkan.

Ég fann að þessu orðavali hjá henni eftir að atviksorðið ógeðslega hafði komið fyrir fjórum sinnum í samtalinu og spurði hana hvað hún segði ef ég héldi því fram að hún væri ógeðsleg. Jákvætt og neikvætt orð væru jafnan neikvæð.

Hún sagði að faðir sinn hefði margbent sér á þetta. Ég sagði henni að annað eins orðbragð í síman verkaði illa á fólk og hún næði varla miklum árangri með menn á mínum aldri og jafnvel þaðan af yngri.

Já, sagði stúlkan. Það er svo margt skrítið í málinu og þetta er eins og dauðabuxur.

Ég varð allur ein eyru og vildi vita hvað dauðabuxur væru. Það eru flottar buxur, margendurtók stúlkan.

Þá vitið þið það, lesendur góðir, dauðabuxur eru bestar!

Hvenær skyldu nábrækur komast í tísku?


Rangar auglýsingar?

Auglýsingar í Ríkisútvarpinu hafa lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Ég held upp á þær vegna þess að þær miðla mér ýmsum fróðleik og stundum hef ég álpast til að finna eitthvað sem mig hefur vantað eða ég hef talið að eiginkonuna vanti.

Að undanförnu hefur borið á afar lélegri málkennd hjá auglýsendum eða þeim sem semja auglýsingarnar. Skulu hér tekin örfá dæmi:

Þú færð jólagjöfina fyrir frúna og kúna hjá okkur. Þetta þýðir í munni flestra að einhver fái jólagjöf sem hann ætlar að kaupa fyrir frúna eða kúna og þær ætla síðan að gefa öðrum. Það er eins og forsetningin handa sé að glatast úr málinu. Getur verið að auglýsandinn hafi ætlað að auglýsa jólagjafir handa frú og kú? Sjálft Kaupfélag Borgnesinga stendur að þessari auglýsingu og ég sem hélt í einfeldni minni að bændur væru vörslumenn íslenskrar tungu!

Ný kvikmynd er auglýst með þeim orðum að hún steinliggi.

Ef einhver var laminn í mínu ungdæmi sagði sá sem lamdi iðulega að andstæðingurinn hefði steinlegið. Með öðrum orðum: Myndin er svo léleg að hún steinliggur. Ég vara fólk því við að kaupa hana.

Í vor auglýsti auglýsingadeild Ríkisútvarpsinseftir auglýsingafulltrúa til starfa og var þess óskað að hann hefði góð tök á íslenskri tungu. Ekki virðist hafa heppilega tekist til um val í starfið ef miða á við þær auglýsingar sem sloppið hafa gegnum málvöndun stofnunarinnar. Undirritaður sótti um starfið en var ekki einu sinni virtur svars!

Því segi ég eins og Kloðvík Frakkakonungur þegar hann heyrði páskaguðspjallið: Hefði ég verið þar með lið mitt hefði öðruvísi farið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband