Færsluflokkur: Spaugilegt

Litla hagyrðingamótið 9. janúar síðastliðinn

Á fundum Kvæðamannafélagsins Iðunnar er jafnan háð lítið hagyrðingamót. Ég útvarpaði síðasta móti í þættinum Vítt og breitt í dag. Pistillinn vakti nokkra athygli og er hann því birtur hér. Njótið vel.

Gleðileg velgengni fyrrum þingmanna á almennum vinnumarkaði

Það gladdi mig svo sannarlega að heyra að eftirlaunalögin virðast hafa verið ástæðulaus. Flestir, já, langflestir þeirra þingmanna, sem hætt hafa á þingi síðan lögin voru sett, hafa fengið starf við sitt hæfi.

Eins og mörgum er kunnugt var ég rekinn úr starfi framkvæmdastjóra Öryrkjabandalagsins fyrir bráðum þremur árum. Ég hef að mestu verið atvinnulaus síðan, Gagnstætt þingmönnunum var einatt tekið fram í sráðningarviðtölum, að ég hefði verið of lengi starfandi við málefni fatlaðra og væri hætt við að ég hefði takmarkaða reynslu sem nýttist á almennum markaði. Átti þetta bæði við um opinberar stofnanir og einkafyrirtæki önnur en Morgunblaðið sem hefur í tvígang ráðið mig til sumarstarfa sem blaðamann.

Þess vegna ætti ég að ráða metnaðarfullu, fötluðu fólki frá því að hasla sér völl of lengi innan samtaka fatlaðra eða stofnana sem sinna málefnum þeirra. Reynið heldur að hasla ykkur völl á Alþingi. Þá verður ykkur framinn vís:)


Tvær gullgóðar leiksýningar

Það dreifir huganum að njóta góðra leiksýninga og annarra lista. Á fimmtudaginn fórum við hjónin ásamt hópi fólks að sjá Hart í bak eftir Jökul Jakobsson. Verk þetta er margfrægt og löngu orðið ein af sígildum perlum íslenskra bókmennta. Það endist vonandi betur en Gullna hliðið. Texti verksins er svo meitlaður að engar sérstakar myndrænar tilfæringar þarf til þess að halda sýningunni uppi.Leikur Gunnars Eyjólfssonar bar af enda hlutverk hans mest. Einhverjum þótti samt Gunnar helsti unglegur og fágaður. Mér þótti hann skila hlutverkinu með stakri prýði og hugsaði til þess að gunnar hefur verið aðsem leikari á 6. áratug.

Með þessum orðum kasta ég þó engri rýrð á aðra leikara sem tóku þátt í sýningunni. Persónusköpun Jökuls er nær alfullkomin og allir skiluðu leikararnir sínum hlutverkum með stakri prýði.

Hart í bak höfðar einkar vel til samtímans sem hefur nærst á blekkingum og hjómi. Þess vegna ættu allir sem vettlingi geta valdið að sjá þessa sýningu. Hún er bæði skemmtileg og alvarleg í senn auk þess að skilja eftir ýmis álitamál í huga þeirra sem kæra sig um að láta eftir sér að brjóta heilann um efni og boðskap verksins.

Á laugardaginn slettum við úr klaufunum og fórum að sjá Fólkið í blokkinni eftir Ólaf Hauk Símonarson, sem sýnt er á stóra sviði Borgarleikhússins eða þannig. Áhorfendur sitja á sviðinu og þeim er snúið til hægri og vinstri eftir því hverju fram vindur í leikmyndinni. Leikritið gerist að mestu í kjallara fjölbýlishúss en áhorfendur fá að skyggnast inn á heimili nokkurra fjölskyldna. Eins og gengur í góðu leikerki er ein fjölskyldan í aðalhlutverki.

Ýmsir halda því vafalítið fram að hér sé um fremur ódýra ástarsögu að ræða. Svo er alls ekki. Verkið er fullt af tilvísunum í þann raunveruleika sem flestir Íslendingar þekkja. Verkið er vel skrifað, orðfærið skemmtilegt og tónlist með ágætum. Nokkrum sinnum var hún heldur hátt stillt og þá skilaði textinn sér illa.

Ég mæli eindregið með þessari sýningu og spái því að hún lengi líf nokkurra Íslendinga því að fáir komast hjá því að hlæja dátt.


Komdu nú og kroppaðu með mér ...

Þær tengdamæðgur, Elín og Elva Hrönn, tóku slátur. Var mörnn, vambirnar og innmatur annar settur út á svalir.

Elfa Hrönn fór með Birgi Þór í klippingu og kom víst hlaupandi inn með miklu írafári að tilkynna tengdamóður sinni að hrafnar væru komnir í slátrið. Voru þeir 5 sem átu í mestu makindum. Mér skilst að þeir hafi þegar verið búnir með eitthvað af mýrum og einn poka af mör þegar boðinu lauk.

Hver reynir að bjarga sér og sínum í kreppunni og er víst að samhjálp ríkir í krummheimum.


Rjómaísfíkn

Margir Vesturlandabúar eru haldnir þeirri firru að það geti verið svalandi að borða rjómaís á heitum sumardegi. Ég fór eitt sinn flatt á því.

Árið 1981 kom ég við á Möltu á siglingu minni um Miðjarðarhafið. Héldum við að skoða gamla höfuðborg eyjanna, Medínu. Fyrir utan borgarhliðið var ungur maður sem bauð rjómaís til sölu.

Þar sem ég er mikill áhugamaður um ís og tók um þetta leyti þátt í afar athyglisverðri alþjóðarannsókn á ísgæðum, keypti ég mér ís og át hann á svipstundu eins og ég var vanur.

Ég gætti þess ekki að hitinn var 38 stig og kælingin mikil. Ofkólnaði því heilinn um stundarsakir og mér lá við öngviti. Varð ég að styðja mig við borgarmúrinn á meðan ég barðist við að falla í ómegin.

Mér hefur löngum þótt góður rjómaís og margar minningar eru bundnar við sælustundir þegar ég ásamt Emil Bóassyni hesthúsaði eins lítra skammti af ís. Reyndist okkur það létt verk. Mest komumst við upp í tvo lítra hvor einn daginn, en ekki meira um það.

Einu sinni varð slíkt át með óvæntum hætti:

Dag nokkurn í desember árið 1985 hafði okkur félögunum, Emil og Ragnari Baldurssyni, verið boðið á kvikmyndasýningu. Skemmtum við okkur forkunnar vel og ákváðum að halda upp á það með því að fá okkur ís.

Héldum við í Ísbúð Vesturbæjar og keyptum okkur sinn lítrann hver af rjómaís. Bað ég um heita súkkulaðisósu út á ísinn og varð stúlkan, sem afgreiddi okkur, þrumulostin og spurði hvort ég ætlaði að borða ísinn úr ílátinu. Svaraði ég því játandi og báðum við síðan allir þrír um skeiðar.

Veðri var þannig háttað þennan dag að vindur var hvass af norðvestri og frost. Þegar við gengum út úr ísbúðinni skipti engum togum að súkkulaðisósan fauk yfir og um mig allan. Varð af því ærinn sóðaskapur.

Ég gerði ísnum góð skil og fór síðan heim. Varð ég að fara í bað og gekk heldur illa að þvo súkkulaðisósuklístrið úr hárinu.

Fór ég síðan í hrein föt innst sem yst.

Ég hef sjaldan borðað heita súkkulaðisósu síðan enda hef ég vart heilsu til þess.


Hálendisbirnir og hrossabeit

Húrra fyrir lögreglunni á Blönduósi!

Nú hefur verið upplýst að hálendisbjörninn hafi verið hross og er þetta einhver skemmtilegasta fyrirsögnin sem ég hef lengi séð á mbl.is. En nú vil ég að rannsakað verði hvort þessum hrossum eða hrossi hafi verið beitt á illa farnar gróðurlendur hálendisins.

Sumarið 1994 fórum við Árni Birgisson og Elín Árnadóttir, eiginkona mín og móðir Árna, inn í Þjófadali. Árni var þá landvörðum á Hveravöllum. Þá hafði þar daginn áður farið um hópur manna með hross. Dalurinn var nauðnagaður.

Ég er sammála lögreglunni á Blönduósi um að sjálfsagt sé að leita að bjarndýri á hálendinu ef menn grunar að það sé þar á ferli. En bjarndýr fer þó hugsanlega betur með hálendi Íslands en hrossin. Sennilega metum vér þó mannslíf og sauða meira en gróður.


Um morgunmat og góða þjónustu í Frankafurðu

Stundum er nauðsynlegt að sanna fyrir sjálfum sér að maður sé enn fær um að takast á við lífið og tilveruna og njóta þess sem að höndum ber.

Undanfarna daga hef ég öðru hverju reynt að blogga en án árangurs. Ég var í þráðlausu netsambandi á gistihúsi í Frankafurðu og þegar leikurinn stóð sem hæst í blogginu kom jafnan eitthvað fyrir.

Ég fór til Frankfurt á sýninguna Sight City þriðjudaginn 6. maí. allt gekk að óskum. Ungur Pólverji fylgdi mér út í vél og var hann bæði mæltur á íslensku og ensku, kaus þó fremur að nota enskuna.

Í Frankfurt tók á móti mér kona sem kom mér í leigubíl og á hótelið var ég kominn um kl. 13:30 að þýskum tíma. Þar tók ég til óspilltra málanna, hringdi nokkur símtöl vegna Kím og fleira og hófst síðan handa við grein sem ég vinn að.

Um 6-leytið var ég farinn að finna til svengdar og ákvað að hafast eitthvað að.

Ég reikaði fram úr herberginu og fann það sem ég taldi vera bar. Kom að mér ungur maður og spurði hvort ég væri að leita að matsalnum. Kvað ég svo vera og vísaði hann mér á borð.

Þá kom ung kona og las mér matseðilinn. Mig langaði hvorki í súpu, salaat, grænmeti né pasta svo að ég fékk mér vínarsnitsel með frönskum kartöflum og salati. Bað um vatn og brauð ásamt bjór.

Mér barst firnagott, nýbakað brauð í glerkörfu ásamt volgu og fremur vondu vatni og svo kom stór bjórkanna á borðið, mun stærri en ég hugði.

Síðan kom Vínarsnitselið og reyndist líka meiri máltíð en ég hugði.

Á eftir langaði mig í eftirrétt og fannst ísinn of sætur og búðingarnir líka. Ákvað að panta mér ostabakka og kaffi.

Fljótlega kom kaffið og kláraðist.

Þá kláraði ég bjórinn sem var ekki eins mikill og ég hugði en glasið stærra og þykkara.

Síðan kom miðaldra þýskumælandi Þjóðverji með ostabakkann, tveggja, þriggja eða góðan fjögurra manna skammt. Þetta var skár útilátið en ostabakkinn sem ég bauð Elínu hér um árið í Djúpinu þegar við vorum í tilhugalífinu enda hringdi ég til hennar til þess að segja henni þetta.

Ég réðst á ostana, jarðarberin og einhvern annan ávöxt ásamt firnum af góðu brauði, með hníf og gaffli. Dundaði mér við þetta og komst loks inn á herbergi í fylgd þjóns, stillti á íslenska útvarpið og nennti ekki að vinna meira að svo stöddu.

Gaf mér auka insúlínskammt. Eins gott að vélstjórnin sé í lagi.

Sagði þjóninum söguna af norska sendiherranum í Tsaire og handleggnum sem konan hafði ekki lyst á og sagðist ekki geta borðað meira. Hann hló reyndar þegar ég sagði honum að ostabakkinn hefði verið einum of stór.

Ætli ég þyngist ekki um 2 kg fyrir vikið?

Hvað ætti ég að fá mér í morgunmat á morgun? hugsaði ég um það leyti sem svefninn færðist yfir. Hálft kíló af brauði, tvo hrokafulla grautardiska, annan með hafragraut og hinn með jógúrt með morgunkorni? rúnstykki, kaffi, appelsínu og epli, súkkulaði köku, vínarbrauð og te?

Það ætti að nægja. Ef einhver finnur að því svara ég bara eins og Tóti í Berjanesi: "Ek má til. Fæðið er svo dýrt."

Ég var á fótum fyrir allar aldir á miðvikudagsmorgun og fór í morgunverð upp úr kl. 8. Tókst mér loks að vekja athygli þjóns sem vísaði mér á sæti. Sagðist ég vilja kaffi og rúnstykki með spægipylsu. Færði hann mér þrjú rúnstykki með osti og smábrauð að auki sem hann hafði smurt vandlega og bætt við á diskinn gúrkusneiðum og tómötum.

Ég réðst á þetta matarsafn og kom þá að mér fullorðin kona og vildi fá að vita hvaðan ég væri. Ég minnti sig svo á manninn sinn, en hann hefði verið blindur. Taldi hún að ég hefði hvergi nærri fengið nóg og spurði hvort ég vildi ekki jógúrt líka. Ég lét lítið yfir því en hún kvaðst þá útbúa handa mér dýrindis jógúrt með ávöxtum. Morgunmaturinn endaði á hrokafullum jógúrtdisk með alls kyns góðgæti.

Þessu fór fram næstu tvo morgna. Ég mætti kl. 8 í morgunmat á fimmtudag og kom þá blessuð manneskjan og sagðist hafa saknað mín. Sagði hún mér frá dauðastríði manns síns og því að hún væri sjálf komin með krabbamein og þyrfti að undirgangast aðgerð í næsta mánuði.

Í gær, föstudag, vaknaði ég seinna en ella, enda hafði ég verið á tæknisýningunni allan daginn og farið síðan í boði Papenmeiers á Jóhannesarfjall þar sem menn brugga ýmis dýrindisvín. Vorum við þar í vínsmökkun og afar fróðlegum fyrirlestri og síðan góðum kvöldverði.

Kl. 8:30 var barið að dyrum hjá mér og var þar þá þjónninn kominn og vildi vita hvort ég ætlaði ekki í morgunmat. Ég var þá að mæla blóðsykur og fór síðan með honum. Greinilegt var að hann og hin ágæta samstarfskona hans höfðu þá útbúið handa mér morgunmat, tvö rúnstykki, tómata og gúrkur og jógúrt, sem konan hafði blandað með alls kyns hnetum og vanillubúðingi. Namm!

Ég kvaddi svo þetta góða fólk og hélt af hótelinu um kl. 11:30.

Ég mun á næstunni skrifa hér á þessari bloggsíðu örlítið um tæknisýninguna eftir því sem úrvinnslu gagna vindur fram.

Mér finnst ég vera fullur af orku og þakklæti til Blindravinafélags Íslands sem styrkti mig til fararinnar og konu minnar elskulegrar sem hvatti mig eindregið.

Það er ómetanlegt að fá tækifæri til þess að ræða við fólk um ýmis álitamál sem koma upp og það gat ég gert í ríkum mæli þá daga sem ég dvaldist í Frankafurðu.


Hvenær sameinaðist Nepal Kínverska alþýðulýðveldinu

Tíbetheimskan í mörgum Íslendingum og Bandaríkjamönnum ríður vart við einteyming þessa dagana. Látum Íslendinga liggja á milli hluta í bili en snúum okkur að Bandaríkjamönnum.

Um daginn birtist athyglisvert viðtal við talsmann (kann illa við orðið formælandi) forseta Bandaríkjanna. Spurði fréttamaðurinn, sem hagaði sér hér um bil jafnilla og Helgi Seljan yngri, hvort Bush ætlaði að vera viðstaddur setningu Ólympíuleikanna í Beijing. Talsmaðurinn sagði að Bush ætlaði á leikana. Gekk fréttamaðurinn hart að viðmælandanum til þess að reyna að fá hann til þess að segja að Bush ætlaði ekki að vera viðstaddur opnunina.

Talsmaðurinn ræddi þá um hvernig Bush teldi að fjalla ætti um málefni Nepals. Ekki heyrði ég að fréttamaðurinn reyndi að leiðrétta þetta.

Hvað ætli verði næst? Kannski Grímsey?


Að grípa ekki gæsina meðan gefst

Í dag fékk ég upplýsingar um að ég hefði unnið milljón Evrur í einhverju happdrættinu og áðan fékk ég tilkynningu um að ég hefði unnið einar 800 milljónir í hollensku happdrætti og samtals hef ég unnið frá áramótum talsvert á þriðja milljarð króna í erlendum happdrættum eða sem verðlaun frá Sameinuðu þjóðnum. Ég ætti því ekki að þurfa að vera á flæðiskeri staddur.

Eini böggullinn sem fylgir skammrifi er sá að ég þarf að reiða talsvert fé af hendi til þess að greiða þann kostnað sem hlýst af því að dæla öllum þessum peningum inn í íslenska bankakerfið og því tími ég ekki. Lögreglan gæti líka komist í málið og þótt eitthvað gruggugt við þetta, jafnvel þótt ég hafi ekkert gert nema taka við því fé sem mér hefur verið borið sem vinningur. Ég efast um að konan mín leyfði mér slíka eyðslusemi sem fylgir því að greiða svo sem hálfa til heila milljón í kostnað, jafnvel þótt milljarður væri í vændum, en allar götur síðan við kynntumst hefur mér farnast best þegar ég hef hlýtt hennar ráðum.

Svona er nú það. Sjálfsagt verða minnstar áhyggjur til með því að sleppa að lesa þessar tilkynningar um alla vinningana sem mér hafa staðið til boða.

Einhver hefði einhvern tíma sagt að sjaldan launaði kálfur ofeldið! Nema hvað ég er svo sem ekki stríðalinn af milljörðum sem ég hef unnið í happdrætti sem ég hef ekki einu sinni keypt miða í!

Hvað ætli Ögmundur gamli Biskup hefði sagt? Hann hvatti menn til að fanga gæsir á skírdag. Ætti ég e.t.v. að veiða nokkra milljarða til þess að hressa dálítið upp á efnahagsástandið? Þá gæti ég e.t.v. keypt mér svo sem eina bankastjórastöðu? Munurinn á mér og hinum yrði sá að ég borgaði með mér en hingað til hafa bankarnir verið svo vitlausir að greiða há meðlög með sér til þess að fá reynda fjármálamenn til þess að taka að sér stjórn þeirra.


Páskaeggin komin!

Við hjónin skruppum út í Hagkaup áðan og viti menn! Páskaeggin eru komin.

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið, enda lengir nú daginn og óðum líður að páskum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband