Færsluflokkur: Spaugilegt

Austurríska grænmetishljómsveitin

Hanna G. Sigurðardóttir sletti skemmtilega úr klaufunum á rás 1 í morgun og fræddi hlustendur um Austurrísku grænmetishljómsveitina. Slóðin er hér:

http://www.gemueseorchester.org/

Límið þessa slóð í vafrann ykkar og njótið þess sem er á síðunni. Öll hljóðfærin eru úr grænmeti. Kokkur er meira að segja hluti hljómsveitarinnar enda er soðin súpa úr hljóðfærunum eftir tónleika og gestum gefið að bragða á góðgætinu. Halda menn svo syngjandi sælir og glaðir heim til sín.

Ég heyrði fyrst um þessa hljómsveit austur í Beijing fyrir 6 árm. Hún hélt þar tónleika og vakti fádæma athygli. Ég trúði vart eigin eyrum þegar ég heyrði fjálglegar lýsingar kínverska fréttamannsins á tónleikunum.

Ef leitað er að orðunum grænmeti, hljómseit og Austurríki (vitanlega á ensku) á netinu kemur í ljós að hljómsveitin, sem var stofnuð árið 1998, hefur orðið ýmsum fyrirmynd slíkra hljómsveita.

Nú ættu íslenskir grænmetisbændur að bjóða þessari hljómsveit hingað til lands og efna til stórtónleika. Í kjölfarið væri hægt að fara í stórátak í sölu grænmetis og kenna Íslendingum að búa til hljóðfæri úr gúrkum og gulrótum. Gulrófur hljóta að hljóma vel séu þær rétt meðhöndlaðar og á sumrin má framleiða hin unaðslegustu hljóð úr hundasúrum, hvönn og njóla. Þar sem notaðir eru hljóðnemar þegar tónlistin er flutt má hafa alls kyns skemmtan í frammi eins og að bryðja gulrófur, smjatta á sölvum, tyggja epli og hvítkál með ýmsum tónbrigðum, smjatta á hreðkum o.s.frv. Hubmyndirnar eru með öðrum orðum óþrjotandi.


Andar seldir á uppboði

Í fréttum BBC í morgun var greint frá því að í húsi nokkru á ótilgreindum stað á Nýja Sjállandi hefði fólk verið í miklum vandræðum vegna draugagangs. Andarnir létu öllum illum látum og ollu heimilisfólkinu talsverðu ónæði.

Húsmóðirin á heimilinu greip þá til sinna ráða. Hafði hún samband við miðil og kom hann á vettvang. Samdist um það milli hans og andanna, sem voru tveir, að þeir yrðu lokaðir hvor inni í sinni flöskunni.

Konan velti nú fyrir sér hvað skyldi gera við andana og setti þá á uppboð. Þeir seldust!

Hún tjáði fréttamanni BBC að nýi eigandinn hygðist leita til almennings um hvað gera skyldi við andana. Sjálf sagðist hún vilja að vel yrði farið með þá. Varla getur ákvörðunin um að loka andaskinnin inni í flösku kallast mannúðleg. Getur verið að orðið andúð sé orðið til vegna þeirrar andúðlegu aðferðar að hneppa anda í fjötra með því að loka þá inni í flöskum eða sauðarleggjum?

Það eru þá sennilega sannar sögurnar um Sæmund fróða sem kom Kölska fyrir í sauðarlegg og hinar fjölmörgu sögur í Þúsund og einni nótt af öndum í hvers konar ílátum og flöskum. Hvað þá um anda sem tengjast hringjum og lömpum?

Þótt þetta sé grafalvarlegt mál ætla ég samt að setja þetta í aukaflokkinn spaugilegt.


Spánarsnigillinn og Arionbanki

Kaupþing-banki breytti um nafn um daginn. Sjálfsagt vildu forráðamenn bankans gleyma því þegar þeir níddust á Kaupfélagi Borgfirðinga og hálfstálu frá því nafni og jafnvel merki. En nóg um það. Það hefur fennt yfir þau spor í langtímaminni flestra Íslendinga.

Ekki tók betra við. Um daginn var bankinn endurskírður og kallaður Arion-banki eftir persónu úr grískri goðafræði. Fleiri fyrirbæri bera þetta nafn, þar á meðal grískt netútvarp.

En sagan er ekki öll. Nú hefur komið í ljós af Spánarsnigillinn er af ætt Arion-snigla. Sumir töldu þetta bankanum til gildis og bentu á að nýi Arion-bankinn hygðist feta sig áfram af gætni sem samræmist hraða snigilsins, en hann fer með 5-9 metra hraða á klukkustund. Aðrir hafa þó bent á að Spánarsnigillinn skilji eftir sig auðn þar sem hann fer um.

Fjárfestir nokkur hafði á orði við höfund þessara pistla að erlendir fjárfestar hlytu að forðast bankann eins og heitan eld þegar þeir átta sig á eðli hans, verði kenningin um eðli bankans og Spánarsnigilsins ofan á. Varað hefur verið við Spánarsniglinum hér á landi enda er hann talinn hinn mesti vágestur í íslenskri náttúru.


Stórþorski fjölgar

Loksins kom góður þorskárgangur, en fréttir herma að árgangurinn frá því í fyrra sé sá stærsti sem mælst hefur síðan stofnmælingar hófust. Nú þurfa allir að leggjast á eitt við að umgangast þessa auðlind með varúð og eyðileggja ekki það sem hægt verður að byggja uppl.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að þær fréttir hafa borist úr Vestmannaeyjum að skortur sé á fólki til síldarverkunar. Hefur jafnvel verið haft á orði að láta einhver skip hætta síldveiðum þar sem ekki sé hægt að vinna allan aflann.

Flosi Ólafsson, leikari, skáld og gagnrýnandi, stundaði sjómennsku á togurum þegar hann var ungur og þekkti því vel til sjómennsku. Hann hafði einstakt lag á að laða fram hið skoplega og fétta það saman við raunveruleikann.

Árið 1963 efndi Ríkisútvarpið til sérstakrar hátíðar- og skemmtidagskrár á sjómannadaginn eins og þá var siður. Þar var Flosi með þáttinn um fyrsta íslenska síldveiðiskipið sem tók aflann inn að framan. Það hét Sigurgapi og var gamall innrásarprammi. Til þess að hægt væri að veiða síldina varð hún að vaða. Þegar komið var að torfunni var framhleranum hleypt niður, skipið fyllt af síld og sjó og vatninu dælt út að aftan. Að vísu sökk Sigurgapi ef ég man rétt í fyrstu tilraun og var því fengið annað skip, Fagurgapi.

Þar sem innrásarprammar eru flatbytnur hafði Fagurgapi þann kost að geta siglt beint upp í fjöru að síldarverksmiðjum sem stóðu og standa allnærri sjávarmáli. Fyrsta tilraunin með Fagurgapa fór auðvitað þannig að skipið brotnaði í spón með brauki og bramli.

Nú er Flosa minnst með ýmsum hætti. Jónas Jónasson útarpaði í gær ágætu samtali sínu við hann og sjónvarpið hefur sýnt brot úr nokkrum áramótaskaupum. Ríkisútvarpið ætti að endurtaka eitthvað af gamanþáttum Flosa. Þótt sumir þeirra standist e.t.v. ekki tímans tönn eru aðrir þó sígildir eins og þátturinn um fyrsta síldeiðiskipið sem tók aflann inn að framan.


Í nafni laganna

Birgir Þór Árnason, fjögurra ára, hefur verið hjá okkur síðan á mánudagskvöld. Hann er í páskafríi.

Í gærmorgun þótti honum amma eitthvað sein að bregðast við óskum sínum og kallaði: "Amma! Komdu hingað undir eins í nafni laganna!"

Í morgun hlustuðu þau amma ´á Pétur og úlfinn. Þótt úlfurinn sé hræðileg skepna hefur hann samt eitthvert aðdráttarafl.

Á sama hljómdiski eru fleiri ævintýri og eitthvað fjallað þar um gamla konu. Spurði ég Birgi þá hvort amma væri gömul kona. Kvað hann nei við því. Hið sama gilti um Gurru ömmu, Guðrúnu Þórðardóttur, húsfreyju á Höfða á Höfðaströnd. En við Friðrik afi vorum gamlir karlar.

Hann sagði þó að langamma væri gömul - hún væri 29 ára.

Í gær fórum við út í fjöruna við Seltjörn. Þar byggðu þau Birgir Þór og amma kastala. Síðan fylgdumst við með því þegar aðfallið máði hann út.

Á meðan kastalinn var byggður tók afi "viðtal við sjóinn," eins og Birgir Þór orðaði það. Er viðtalið tengt við þessa færslu og vona ég að hlustendur fái notið þess. Mælt er með að notuð séu góð heyrnartól.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Laun heimsins eru vanþakklæti:)

Allir vitringar þessa heims, jafnt framliðnir sem lifandi, leggja áherslu á að menn ætlist ekki til þakklætis gjöri þeir eitthvað gott. Ég hef reynt að taka mark á þessum ábendingum enda veit ég hvort eð er ekki hvort ég hai nokkru sinni látið eitthvað gott af mér leiða.

Um daginn var steiktur hryggur sem er ekki í frásögur færandi. Talsvert gekk af, einkum fita sem ég entist ekki til að borða. Fór þess á leit við húsfreyju að fá leifarnar handa hröfnum og vænti þess að fá þá í leiðinni til að krunka dálítið fyrir mig.

Vegna veðurs og annarra ástæðna lét ég ekki til skarar skríða fyrr en í gærmorgun. Upp úr kl. 6 voru hljóðnemarnir komnir út á svalir og krásirnar út í skál. Ég hljóðritaði samfleytt í þrjá tíma. Enginn krummi.

Þegar vitjað var um kræsingarnar í gær voru þær ósnertar og var þeim hent.

Nú gargar krummi sem aldrei fyrr í grenndinni enda hvorki hljóðnemar né krásir í boði.


Jólalag á miðjum þorra

Fyrir nokkru hóf Ríkisútvarpið að leika sígilda næturtónlist sem er ókynnt og gengur alla nóttina þar til klukkuna vantar 22 mínútur í 7 að morgni. Í morgun var síðasta lagið fyrir Morgunvaktina alþekkt jólalag. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið.

Hrafninn flýgur og skoðar hljóðnema

Í dag eru 25 ár liðin frá því að kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar, Hrafninn flýgur, var frumsýnd. Í viðtali á Morgunvakt Rásar eitt við Kristján Sigurjónsson lýsti Hrafn því hvernig þjófnaður á Kastrup-flugvelli varð til þess að breyta tónlistinni í myndinni og er það fróðlegt áheyrnar.

Til minningar um myndina sem enn lifir góðu lífi á meal sérvitringa, eins og Hrafn sagði sjálfur, er birt hér hljóðrit frá 30. janúar síðastliðnum. Hrafn heyrist krunka. Sé grannt eftir hlustað heyrist hvar hann tyllir sér á svalahandrið. Þar virðir hann hljóðnemana fyrir sér og hverfur síðan á braut með fyrirlitningarkrunki. Þessi andskoti er sko ekki ætur!

Áhugasömum hlustendum er einkum bent á vængjasláttinn og hreyfinguna.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ingvi Hrafn er reiður

Ég stilli stundum á ÍNN - Íslands nýjasta nýtt, einkasjónvarpsstöð Ingva Hrafns Jónssonar. Þar er oft tekið fremur rösklega á málunum.

Í gærkvöld var boðað að Björn Bjarnason kæmi í viðtal og talaði tæpitungulausar en nokkru sinni fyrr. Þátturinn hófst á því að Ingvi Hrafn reifaði það sem gerst hafði í stjórnmálum og taldi það með hreinum ólíkindum.Fór hann mikinn og brýndi raustina svo mjög að hann talaði jafnvel í falsettu. Fór það honum ekki vel.

Þegar samræður þeirra Björns hófust hafði Ingvi Hrafn greinilega ekki jafnað sig eftir hamaganginn og var fremur vanstilltur í spurningum og sleggjudómum. Björn var hins vegar rólyndið sjálft þótt undirniðri kraumaði nokkur ólga.

Á árum áður var Hrafn frægur fyrir röskleg viðtöl þar sem hann reifst við viðmælendur sína og dró hvergi af sér. Lenti ég eitt sinn í slíku viðtali og höfðum við allir gaman af sem að því stóðum. Í gær fannst mér honum bregðast bogalisti. Hann fór offari og eyðilagði í raun þá stemmningu sem hægt hefði verið að byggja upp í samtali við jafnþrautreyndan stjórnmálamann og Björn Bjarnason er. Veit ég ekki hvernig þeir enduðu þáttinn því að mig brast þolinmæði til að hlusta. Auðvitað getur Ingvi Hrafn látið eins og honum sýnist á einkastöðinni sini. En hálfgert garg fer illa í suma hlustendur.


Hugmyndir um nýtt framsóknarmálgagn

Í dag barst okkur, nokkrum gömlum bekkjarbræðrum úr MR, tölvupóstur frá Magnúsi Karel Hannessyni, fyrrum borgarstjóra og einvaldi á Eyrarbakka. Voru þar á ferðinni nokkur tölublöð Dreifbýlistíðinda sem hann gaf út fyrir tæpum 40 árum, en þau voru eitt fjölmargra blaða sem gefin voru út í bekknum.

Þessi sending rifjar upp ýmislegt sem gekk á og gerðist í B-bekk MR á þessum árum. Sumir hafa orðið svo glaðir að þeir telja að nauðsynlegt sé að endurvekja Dreifbýlistíðindi á vefnum og hafa meira að segja heyrst þær raddir að blaðið verði notað til að styrkja Framsóknarflokkinn:.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband