Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Hagstjórn eða spávísindi

Ýmislegt fer öfugt ofan í mig um þessar mundir. Því meira sem ég les og heyri þeim mun minna skil ég.

Bandaríkjamenn eru skuldugasta þjóð heims og lækka nú stýrivexti svo mjög að vart verður hægt að lækka þá meira.

Austan hafs og í Mið-Austurlöndum lækka menn einnig stýrivexti.

Hér á landi er stýrivöxtum haldið háum og það er sagt eiga að tryggja að gjaldeyrir, sem bankarnir hafa eytt og falinn var þeim til varðveislu, fljóti ekki út úr landinu.

Krónunni er haldið á floti með gjaldeyrishöftum og erlendir einstaklingar og fyrirtæki geta ekki nálgast aurana sína og flutt úr landi og það eitt ætti að duga.

Til hvers þarf þá svona háa stýrivexti? Hvort ráða kenningar Seðlabankans eða Alþjóða gjaldeyrissjóðsins þessu og hvort er vit í því?

?


Einstök lipurð og góð þjónusta

Um daginn gafst hraðamælirinn á Orminum bláa upp. Hann var þriðji mælirinn á 6 árum sem lifði tilveruna ekki af. Þeim fyrsta var stolið á Hofsósi, annar var gallaður og sá þriðji entist í 5 ár.

Við fórum í Örnin og keyptum þráðlausan Trek mæli. Ekki reyndist unnt að nota hann þar sem stýrið á Orminum bláa hefur verið hækkað svo að Elín stýrimaður geti setið upprétt. Var því fenginn annar mælir með þráðartengingu.

Ung stúlka afgreiddi okkur. Stillti hún mælnn eins og þurfti og hún ásamt ungum verkstæðispilti festu síðan allt heila hervirkið á og sleppti pilturinn okkur ekki fyrr en allt var eins og vera bar.

Sjálfsagt hafa þessi viðskipti tæplega borgað sig fyrir Örninn. En þau gera það að verkum að viðskiptavinir koma aftur og aftut og kaupa það sem þá vantar.

Það er margt gott fólk til í veröldinni sem veitir þeim lið sem eru ekki of laghentir. Dæmi um það eru þessi tvö ungmenni sem við áttum viðskipti við í morgun og Björn Ingólfsson í Hjólinu í Kópavogi, en hann hefur ævinlega veitt okkur afbragðs þjónustu.


Stórkostleg framför

Það er ástæða til að óska TR til hamingju með þennan nýja vef. Nafnið, Tryggur, er að vísu dálítið fyndið því að Tryggur er gamalt og gott, íslenskt hundsnafn. Vonandi verður Tryggur hlýðinn og auðsveipur þeim sem til hans leita.

Mér sýnist í fljótu bragði að auðvelt sé að fylla út tekjuáætlanir og skoða sitthvað eins og greiðsluseðla. Fagna ég því mjög. Í framtíðinni vona ég að öll bréf og skjöl, sem TR sendir fólki, komi sjálfkrafa inn á vefinn og fólk geti valið einhvers konar aðvörun þegar slík skjöl birtast. Þetta myndi leysa vanda margra sem eru sjónskertir eða blindir og jafnvel nýtast þeim sem eru lesblindir.

Ég sá einungis örfáa hnökra á hönnuninni sem sennilega hefði mátt laga hefðu menn áttað sig á þeim. Til að mynda lesa sumir skjálesarar ekki heiti dálkanna sem fylla þarf út í. En þeir eru ekki mjög margir og því einfalt að muna þá.

Nú þarf TR einungis að stíga það skref að senda fólki sem er ólæst af ýmsum ástæðum og hefur ekki aðgang að tölvum gögn á geisladiski. Það er mörgum metnaðarmál að geta skoðað gögnin sín sjálfir í stað þess að fá einhvern til að hnýsast í þau fyrir sig.


mbl.is Nýr þjónustuvefur Tryggingastofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband