Færsluflokkur: Löggæsla

Hættulegt ferli bílstjóra

Í Morgunblaðinu birtist þessi frétt í dag:

Allt of algengt er að ökumenn noti farsímann undir stýri, samkvæmt nýlegri könnun sem Zenter rannsóknir framkvæmdu fyrir VÍS. Þar kemur fram að 46% aðspurðra tala einhvern tímann í farsímann, án handfrjáls búnaðar, á meðan akstur stendur yfir.
36% þeirra, sem tóku þátt í könnuninni, skrifa einhvern tímann skilaboð í farsímann á meðan akstur stendur yfir ─ en töluverður munur var milli aldurshópa hvað þetta varðar.
Þannig segjast 73% ökumanna á aldrinum 18-24 ára skrifa skilaboð sjaldan, stundum, oft eða alltaf. 53% þeirra á aldrinum 25-34 ára skrifa skilaboð sjaldan, stundum, oft eða alltaf ─ og 55% þeirra á aldrinum 35-44 ára gera það sjaldan, stundum, oft eða alltaf.
57% þeirra sem tóku þátt í könnuninni segjast lesa á símann undir stýri. Langflestir eru á aldrinum 18-24 ára eða 85%. Lítill munur er á aldurshópnum 25-34 ára og 35-44 ára ─ eða 78% og 74%.
Samkvæmt rannsóknum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (e. WHO) eru þeir ökumenn, sem verða fyrir truflun vegna farsíma, fjórum sinnum líklegri til þess að valda umferðarslysum (þar á meðal aftanákeyrslu, útafakstri og árekstri).
Bent er á að notkun farsíma skerðir athygli við akstur. Farsímanotkun bitnar á skynjun ökumanna á umhverfinu og viðbragðstíma, t.d. að hemla eða beygja frá hættu.

Þessi hegðan hefur þegar valdið stórslysum sem leitt hafa til örorku. Í raun hafa íslensk stjórnvöld aldrei tekið á þessu atferli svo að bragð sé að.

 


Grímulaus birting heimsvaldastefnunnar

Heimsókn varaforseta Bandaríkjanna áréttar betur en orð fá lýst að Bandaríki Norður-ameríku eru grímulaust heimsvaldasinnað stórveldi.
Bandaríkin hugsa ekki um hag annarra en sjálfra sín. Eigingirni, drottnunarárátta, tortryggni í garð annarra þjóða og tortryggni gagnvart öllu því sem forysta þeirra trúir ekki, lýsa af hverju orði sem hrýtur af munni fulltrúa þeirra.

Bandaríkjamenn vara við áleitni rússa á norðurslóðum. Það mætti halda að þeir vissu ekki hversu löng strandlengja Rússlands er á þessu svæði.

Bandaríkin vara við Kínverjum sem hafa áhuga á því sem er að gerast á Norðurslóðum. Trump og félagar virðast ekki vita að kínversk stjórnvöld gera sér nú æ betri grein fyrir áhrifum hlýnunarinnar á veðurfarið í Kína og sjá þess merki að samhengi er á milli ástandsins við norður-heimskautið og aukinnar bráðnunar hálendisjökla Asíu.
Það eru nokkur ár síðan kínverskir vísindamenn settu fram þá kenningu að í raun væru heimskautin þrjú: Suðurskautið, norðurskautið og Himalayjafjallgarðurinn, en þar horfir nú til vandræða vegna bráðnandi jökla.

Varaforseti Bandaríkjanna er varasamur sendiboði. Hann er jafnhættulegur trúarofstækismaður og hryðjuverkamenn sem skipa sér í fylkingar með meintar kenningar spámannsins að vopni. Mörgum þessara hryðjuverkamanna er það sameiginlegt að þeir eru ólæsir á Kóraninn og lepja upp ýmiss konar fullyrðingar sem tuggðar hafa verið ofan í þá.

Hið sama er um fjölda fólks í Bandaríkjunum. Þeir beita trúarbrögðunum til hryðjuverka á heims vísu og fylgja ótrauðir leiðbeiningum trúarleiðtoga sem eiga sér einga stoð í veruleikanum.

Heimsóknin, sem nú er lokið, sýnir betur en flest annað hið raunverulega eðli bandarískra heimsvaldasinna.


Yfirgangur og skeytingarleysi í hópi hraðhjólamanna

Í fjölmiðlum hefur að undanförnu borið á kvörtunum vegna hegðunar þeirra sem stunda kappreiðar á reiðhjólum. Samkvæmt dagbókum lögreglunnar í Reykjavík berast á hverjum degi ábendingar um yfirgang þeirra gegn gangandi vegfarendum á göngu- og hjólreiðastígum.
Því miður er það reynsla undirritaðs að þessar kvartanir eigi rétt á sér. Sjálfsagt er þetta lítill hópur, en hann setur óneitanlega svartan blett á þá sem vilja njóta þess að bregða sér á bak hjólhesti sínum. Þegar vakin er athygli þeirra á yfirganginum er gjarnan svarað með skætingi og háðsyrðum
Um verslunarmannahelgina höfum við hjónin farið um höfuðborgarsvæðið á tveggja manna hjóli. Sunnudaginn 5. ágúst fóru nokkrir hjólreiðamenn fram úr okkur án þess að vara okkur við með bjöllu.
Í dag vorum við á ferð um hjólreiðastíginn við Ægisíðu og þegar við beygðum inn á suðurgötustíginn brussuðust þrír hraðhjólamenn fram úr okkur, þar af tveir á hægri hönnd. Engin bjalla notuð. Síðan bitu þeir höfuðið af skömminni með því að fara niður á göngustíginn og héldu þar áfram þrátt fyrir merkta hjólreiðaleið.
Auk þessa mættum við fjölda hjólreiðamanna sem þutu áfram á hraðhjólum sínum og enginn þeirra virtist vera með bjöllu.

Í raun er löngu kominn tími til að lögreglan fari að hafa eftirlit með umferð á hjólreiðastígum og reyni með einhverju móti að lægja þennan yfirgang hraðhjólreiðamanna.

Að lokum skal einnig bent á þá hættu sem skapast þegar foreldrar sleppa ungum börnum sínum út á hjólreiðastígana án eftirlits. Eitt sinn gerðist það að á undan okkur fór 8-9 ára drengur á hjóli. Þegar hann var beðinn að víkja svo að við kæmumst framhjá honum hófst hann handa við að hjóla á undan í krákustígum og það var ekki fyrr en eftir hvassa ábendingu að hann lét undan og sveigði til hægri.

Höfundur er áhugasamur um hjólreiðar og aðrar vistvænar samgöngur.

Í lokin skal tekið fram að mikill meirihluti hjólreiðafólks sýnir tillitssemi, en það virðist orðin len ska á meðal hraðhjólara að vaða áfram og gefa aldrei merki með bjöllu. Sagt er að bjallan þingi svo hjólin að hún dragi úr hraða þeirra!


Glæpsamlegt athæfi

Á vef mbl.is í gær var vitnað til fréttar á heimasíðu Spalar. Þar var greint frá glæfralegum akstri drukkins ökumanns á jeppa, sem braut niður grindverk við Hvalfjarðargöngin og hefði getað valdið stórslysi. Var sá hinn sami heppinn að drepa hvorki sjálfan sig né ðra.

Áður hefur verið vikið að því á þessum síðum að Íslendingar skilji fátt annað en ströng viðurlög. Atburðir sem orðið hafa í umferðinni að undanförnu sýna og sanna að til einhverra ráða verður að grípa gagnvart þeim sem stofna lífi og limum í hættu með gálausum akstri vegna neyslu áfengis og eiturlyfja, en hvorugt fer saman ásamt akstri. Ég hef verið fylgjandi háum sektum og jafnvel því að bifreiðar verði gerðar upptækar og fólk svipt ökuréttindum a.m.k. jafnlengi og þeir sem eru dæmdir í ævilangt fangelsi. Þetta kunna að vera hörð sjónarmið en aðrar leiðir eru færar.

Í raun þarf að stofna til endurhæfingar einstaklinga sem hegða sér með svipuðum hætti og maðurinn í Hvalfjarðargöngunum. Yrði þátttakendum í slíkri endurhæfingu gert að greiða allan kostnað sjálfir og kæmi hann til frádráttar sektum sem þarf að stórhækka.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband