Færsluflokkur: Menning og listir

Silfurtappinn - skemmdarverk

Undanfarið hefur verið útvarpað stuttum leikþáttum eftir leikdómara dagblaðanna frá árinu 1973 og í dag var komið að þeim þætti sem hlaut Silfurtappann, þætti Halldórs Þorsteinssonar. Halldór fékk að vísu aldrei afhentan Silfurtappann en vonandi fær hann í sárabætur ómengað hljóðrit þáttar síns. Minna má það nú varla vera.

Viðar Eggertsson bjó þættina til flutnings í þættinum Vítt og breitt og flutti skýringar. Í dag setti hann tónlist undir seinnihluta þáttarins, svo háa, að hún kæfði textann.

Nú gerir Viðar margt vel í útvarpi en í dag mistókst honum. Tónlistin var svo há undir þættinum að fólk, sem er farið að tapa heyrn, hefur vart greint textann.

Sá grunur læðist að mér að sumir dagskrárgerðarmenn Ríkisútvarpsins hlusti sjaldan eða aldrei á útvarp.


40 ára Kínaafmæli

Tíminn flýgur áfram.

Á morgun verða 40 ár liðin síðan ég keypti fyrir slysni mína fyrstu kínversku hljómplötu með kórverkinu FRELSUNIN eftir Le Meng. Ekki vissi ég fyrr en löngu síðar hvað tónverkið hét, enda var allt á kínversku sem prentað var á umslag plötunnar. Þriðji þáttur tónverksins hófst á laginu AUSTRIÐ ER RAUTT sem hefur fylgt mér æ síðan og gerir sjálfsagt til hinstu stundar.

Mér þykir rétt að miða við þennan atburð þótt ég hefði fengið nokkurn áhuga á kínverskri tónlist og menningu áður. Ég minnist t.d. útvarpsþátta Dr. Jakobs Benediktssonar og makalausra erinda Stefáns Jónssonar sen hann flutti í Ríkisútvarpið þegar hann kom frá Kína haustið 1966. En eftir 15. september 1967 varð ekki aftur snúið. Ég hef verið hugfanginn af kínverskri sögu og menningu síðan þá og stundum kallað Kína eilífðarkærstuna mína.

Það er víst svo að ýmsir verða hrifnir af ýmsum löndum. Því fylgir oft aukin ást á eigin landi og þjóð. Vegna starfa minna að menningartengslum Kína og Íslands hef ég skynjað betur en áður að smáþjóðir þurfa að halda reisn sinni gagnvart sér fjölmennari þjóðum og gagnkvæmar viðræður um álitaefni skila mun meiri árangri en upphrópanir og gífuryrði.

Ekki ætla ég að halda upp á fertugsafmælið með neinni flugeldasýningu. En við hjónin förum á Kínahofið á morgun að gæða okkur á kínverskum mat. Ætli ég taki ekki geisladisk með byltingartónlist með og biðji veitingamanninn að setja í geislaspilarann. Verst að úrvalið er ekki nægilega mikið. En sjáum hvað setur.


Er risessa ekki skessa?

Nú er hátíð í bæ, kosningar á morgun og listahátíð hafin.

Um þessar mundir setur franskt götuleikhús svip sinn á Reykjavíkurborg og fara þar m.a. risavaxnar leikbrúður. Þar á meðal er eitthvað sem kallað er risessa! Mér er sagt að þetta sé hljóðlíking orðsins prinsessa!

Ýmsum, sem aldir eru upp við íslenskar þjóðsögur, blöskrar fáfræði þeirra sem fundu þetta orð upp. Vanalega kölluðust dætur risa eða þursa skessur eða tröllskessur.

Hvað ætti bóndadóttir þá að heita? Bændessa, skólastjóradóttir skólessa? eða skælessa? Forstjóradóttir forstjóressa? Væri þá ekki nýjasta orðið yfir stúlku mannessa?

Nei, góðir hálsar! Það hlýtur að vera skessa sem kemur vitinu fyrir risann, föður sinn.

Stöndum vörð um tunguna og þjóðararfinn og sýnum tröllunum þá virðingu að kalla þau réttum nöfnum.


Tónleikar og hjólreiðar

Í dag brugðum við hjónin undir okkur Orminum bláa og hjóluðum sem leið lá vestan af Seltjarnarnesi austur í Lauganeskirkju að hlusta á Söngfélag Skaftfellinga undir stjórn Violetu Schmid sem hefur stjórnað þessu söngfélagi í 25 ár. Þetta er notalegur kór áhugafólks. Lagavalið var skemmtilegt og kórinn söng allvel.

Eftir tónleikana var haldið kaffisamsæti gestum kórsins til heiðurs, en þeir voru flestir Skaftfellingar. Þar stýrði gunnþóra Gunnarsdóttir skemmtilegri dagskrá um ferðafélagið Breiðumörk og sungu tvær stúlkur ferðabrag eftir Andrés Valberg, sem kvæntur var konu austan úr Öræfum.

Við hjónin sátum hjá þessari ágætu blaðakonu, Gunnþóru Gunnarsdóttur á meðan á tónleikunum stóð. Rifjaði ég upp við hana að í næsta mánuði væru 40 ár síðan fundum okkar bar fyrst saman og hlytum við því að vera 40árum eldri en þá, þótt mér fyndist við enn allung. Rifjaði hún þá upp skemmtun okkar tvíburanna að Hofi í Öræfum þann 7. júní 1967, einkum lok hennar, en þau voru eftirfarandi:

Þegar við höfðum framið tónleik okkarn var klappað að vanda og síðan brast á grafarþögn. Sátu Öræfingar sem fastast í sætum sínum. Vissum við ekki hvaðan á okkur stóð veðrið þar til Þorsteinn Jóhannsson á Svínafelli hvíslaði því að Magnúsi Sigurssyni, skólastjóra, að fólkið vildi heyra meira. Öræfingar voru svo hógværir og skemtunarfólk svo fáséð að menn kunnu ekki að klappa skemmtikraftana upp. Mig minnir reyndar að Þorsteinn hafi flutt okkur þakkir og hrósað Magnúsi Sigurðssyni, skólastjóra, fyrir hið óeigingjarna starf sem hann vann í þágu íslenskra barna, en Magnús stofnaði Hjálparsjóð æskufólks.

Oft hugsa ég til þessarar ferðar austur í Öræfiþegar við hjónin ökum þar um á leið okkar austur eða að austan og ekki síst rifjuðust upp fyrir mér ýmis atvik og orðaskipti við fólk þennan eina sólarhring sem við dvöldumst þar árið 1967, þegar við hjónin hjóluðum þar um á leið okkar austur á Stöðvarfjörð árið 1996. Þá voru liðin 29 ár frá fyrstu komu minni þangað og allt gerbreytt. Allar ár brúaðar og vegir rennisléttir, einangrunin rofin og þessi fallegi framburður, þar sem fólk sagði rn í nöfnum eins og Árni án þess að slétta t-hljóði inn í, eins og við gerum flest, að mestu horfinn.


Brottnámið úr kvennabúrinu, frábær sýning

Á föstudaginn fórum við hjónin ásamt mági mínum í óperuna að sjá Brottnámið úr kvennabúrinu. Þegar ég var í mentaskóla hafði ég einhverja fordóma gegn Mozart, fannst hann eiginlega hálfgert dægurtónskáld. Þetta var afar heimskulega hugsað því að meintar dægurperlur hafa flestar staðist tímans tönn og eru enn á meðal þess vinsælasta sem samið hefur verið af tónlist frá upphafi vega.

Renata Kristjánsdóttir, sem stundaði nám í sögu við Háskóla Íslands um leið og ég, kom mér í skilning um að Mozart væri hið merkasta tónskáld og fékk mig til þess að endurskoða afstöðu mína til hans. Fór svo að ég fékk mætur á ýmsum verkum þessa mæta tónskálds þótt ég viðurkenni að mér finnist sumt í verkum hans dálítið klisjukennt. En öll tónskáld koma sér upp vissum klisjum eða frösum og er það sjálfsagt eðli tónsköpunarinnar.

Við komum í óperuna um 7-leytið á föstudagskvöld og settumst að hlýða á kynningu Árna Heimis Ingólfssonar, einstaklega vel gerða og skemmtilega og varð hún til þess að við nutum óperunnar í mun ríkara mæli en verið hefði. Ég hef að vísu heyrt áður fjallað um tyrknesk áhrif í Brottnáminu, en Árni Heimir útskýrði þau betur en ég hef áður heyrt. Ekki er einungis um áhrif frá tyrkneskum trymblum að ræða heldur bera einstakar laglínur þess merki að Mozart hafi þekkt nokkuð til tyrkneskrar tónlistar. Að vísu þótti ekki góð latína að herma um of eftir tyrkneskri tónlist einkum egna þess að tónstigar þeir sem algengastiir oru á meðal tyrkja þóttu minna um of á villutrú.

En í stuttu máli sagt stóðu einsöngvarar, hljómsveit, kór, leikarar og aðrir, sem að sýningunni komu, sig með ágætum. Flutningurinn var prýðilegur og áferðin öll hin besta. Ekki verður gert hér upp á milli einstaklinga í sýningunni. Þeir mynduðu allir órofaheild og ekki spillti hinn skemmtilegi hljómur Gamlabíós.


Glætan - Herdísarvík - frábær þáttur

Í gær hlustaði ég á útvarpsþáttinn Glætuna á Rás 1 í umsjón Hauks Ingvarssonar. Þar sveimaði þáttarstjórnandinn kringum Herdísarvík þar sem Einar Benediktsson, skáld, bjó síðustu ár sín ásamt Hlín Johnson.

Í þættinum var afar skemmtilegt og athyglisvert viðtal við Guðrúnu Ásmundsdóttur, leikkonu, þar sem hún sagði frá heimsókn sinni í Herdísarvík. Einnig var birt viðtal þeirra Björns Th Björnssonar og Gests Þorgrímssonar við Hlín sem hljóðritað var í október 1956. Þar mátti heyra að þeir félagar vökvuðu lífsblómið eins og stundum tíðkaðist hér áður fyrr ef fjörga þurfti viðmælendur. Stundum gekk þetta svo langt að viðmælendur urðu fullir og skulu ekki tíunduð dæmi slíks hér.

Það mátti heyra á Hlín að henni féll ekki allskosta sú athygli sem hún naut eftir að Einar lést og ég hafði á tilfinningunni að henni hefði hún stundum vera ginningarfífl almennings. Þessa skoðun mína staðfesta frásagnir föður míns og Ásbjörns Ólafssonar, en þeir komu báðir að Herdísarvík. Hlín var enda afar sérstæð í tilsvörum og gat verið beinskeytt eins og hún sagði sjálf um Einar.

Þátturinn var snilldarvel gerður og verður vafalítið litið á hann þegar aldir líða sem eina af perlunum í safni Ríkisútvarpsins. Viðtalið við Guðrúnu var hreinasta afbragð enda er hún snjall sögumaður og spyrillinn lét hana njóta sín. Til hamingju, Haukur Ingvarsson.


Útvarpsleikhúsið: Hér er kominn maður

Í kvöld flutti Útvarpsleikhúsið leikrit Jónínu Leósdóttur, Hér er kominn maður. Fjallaði það um ekkju sem leitaði til miðils vegna draugagangs. Hún hafði drepið eiginmann sinn sem hafði beitt hana andlegri kúgun og gekk hann óþyrmilega aftur.

Leikritið var um margt skondið og ágætlega saman sett. Einhver smámistök urðu þó í samsetningu þess því að smákafli var endurtekinn.

Leikstjóri var Ásdís Thoroddsen og tæknimaður, Björn Eysteinsson. Ásdís hefur leikstýrt ýmsum verkum fyrir Útvarpsleikhúsið og gert það firnavel. Björn Eysteinsson er og snilldar tæknimaður og hefur unnið margt hljóðverkið með fádæmum vel.

Eitt sinn ákvað ég að gera þátt sem hét Leikur að vatni. Hélt ég að mér dygði svona hálfur annar tími í þetta, en Björn var allt annarrar skoðunar um samsetningu þáttarins. Það endaði með því að við fórum í hljóðritunartölvu Ríkisútvarpsins og tókst með naumindum að ljúka okkur af kl. 16:30 daginn eftir. Það var föstudagur og þáttinn átti að senda út daginn eftir. En vegna afskipta Björns varð þátturinn eins og hvert annað útvarpslistaverk.

Skyldu margir hlusta á Útvarpsleikhúsið núorðið? Það er yfirleitt með leikrit á dagskrá á fimmtudagskvöldum eftir veðurfregnir og í vetur hafa leikritin verið endurtekin viku síðar. Einnig hafa verið fjölskylduleikrit svo kölluð á dagskrá á sunnudögum kl. 13:00.

Heldur hefur lítið farið fyrir nýrri framleiðslu leikins efnis. Ef rétt væri á málum haldið er ég viss um að hægt væri að auka áhuga ungra hlustenda á útvarpsleikritum. Við hónin tökum stundum með okkur leikrit í ferðalög til að hlusta á og þegar Hringur, barnabarn, er með, nýtur hann þess mjög að hlusta á gömul útvarpsleikrit.

Nú eru leikritin varðveitt á vef Ríkisútvarpsins í tvær vikur eftir að þeim hefur verið útvarpað og því hægur vandi útvarpshlustendum að njóta þeirra þar. Svo er einnig um ýmsa aðra þætti sem sendir eru út. Er vefurinn kærkomin viðbót við þjónustu Ríkisútvarpsis.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband