Færsluflokkur: Fjármál

Hrægammar græðginnar

Það vakti furðu margra þegar þeir spurðu í septembermánuði að sjeik nokkur frá Sameinuðu furstadæmunum hefði keypt hlut í Kaupþingi fyrir 26 milljarða ef ég man rétt. Þá, sem höfðu fylgst með þróun fjármálamarkaða grunaði hvað framundan væri og urðu þeir því enn meira hissa á þessu uppátæki sjeiksins. Þá heyrðist hvíslað að þetta væru sennilega íslenskir fjárglæfrar. Bankinn hefði vafalítið lánað sjeiknum þetta fé og hann lagt fram einhverjar ábyrgðir. Nú virðist komið í ljós að svo er. Peningarnir voru einungis rafstraumur sem fór á milli tölvukerfa og engin innistæða fyrir kaupunum. Tilgangurinn hefur vafalítið verið sá að auka verðmæti bankans.

Annað sem hefur vakið athygli eru kröfur Kjalars á hendur gamla Kaupþingi. Þar virðist hafa verið um hreint fjárhættuspil að ræða. Í mínum huga hefur Kaupþing þarna verkað sem spilavíti.

Í dag er fjallað um hlut fjármögnunarfyrirtækja við að svipta fólk bifreiðum sem það hefur ekki getað greitt af. Dæmi eru nefnd um hvernig bílarnir hafa verið verðfelldir, ógnarlegar upphæðir teknar fyrir að verðmeta þá og skuldararnir sitja uppi með sárt ennið og enn hærri skuldir en áður. Hér á landi hafa bankar eða fjármögnunarfyrirtæki, eins og sum þeirra kallast, farið fram með ógnarlegu valdi gagnvart lánþegum sínum. Það sem nú á sér stað þegar bifreiðar eru verðfelldar, ótrúlegum upphæðum smurt á þær vegna matskostnaðar og annað sem lýst hefur verið, jaðrað við líkrán. Með einhverjum ráðum verður að stöðva þessar athafnir og koma í veg fyrir að hrægammar græðginnar nærist á eymd annarra.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband