Færsluflokkur: Fjármál

Vanburða og veikt bankakerfi

Skrípaleikurinn í kringum sölu SPRON er með ólíkindum. Margeir Pétursson vildi kaupa útibúin á 800 milljónir og taldi sig hafa gert hagkvæman samning. Kaupþing hið nýja óttast að flestir fyrrverandi viðskiptamenn SPRON flykkist þangað á ný og leysi út innistæður sínar sem nema um 83 milljörðum. Það þolir Kaupþing hið nýja ekki.

Þetta sýnir í hnotskurn hvað íslensku bankarnir standa á veikum grunni. Lausnin er sögð sú að Kaupþing láti Margeir hafa innistæðurnar en hann láni síðan Kaupþingi þær aftur og þannig fari ekkert fé út úr bankanum. Kaupþing greiði s´ðan vexti af þessu öllu saman.

Ef þetta er ekki áframhald loftbóluhagfræðinnar, hvað er það þá? Froðuhagfræði?


Hvað er vinátta fjármálastofnana?

Halldór Þorsteinsson, góðvinur minn og velgjörðamaður til margra ára, birtir skorinorða grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann veltir fyrir sér vinarhugtakinu þegar fjármálastofnanir landsins eiga í hlut. Sé ég ástæðu til að birta hana hér.

EKKI ber á öðru en íslenskir bankar hafi æði frumstæða og þversagnarkennda hugmynd um vináttu eftir framkomu þeirra að dæma við það fólk sem við þá skiptir. Vinur er sá sem í raun reynist, stendur einhvers staðar. Að mínu viti væri með öllu óhugsandi að hafa slík orð um þessar merkilegu fjármálastofnanir okkar. Getur það t.a.m. með nokkru mögulegu móti flokkast undir vinahót af hálfu Glitnisliðsins að skerða stöðugt innistæður manna í Sjóði einum og reyndar ekki aðeins skerða þær heldur líka frysta um ótiltekinn tíma?

Var það ekki sömuleiðis dáfallegt vinarbragð af Stoðum og það víst með Jón Ásgeir Jóhannesson í fararbroddi að láta greipar sópa um alla vextina af innistæðum okkar viðskiptavinanna í Sjóði níu? Í augum hans og bankamanna á borð við Bjarna „Fjármagnsson“, afsakið ég meinti Ármannsson, liggjum við svo vel við höggi við þessir auðféflettanlegu hrekkleysingjar, alveg tilvaldir til brúks fyrir eigendur bankans þegar mikið liggur á. En nú er mér alveg nóg boðið og set ég því hnefann beint í borðið og heimta mína áunnu vexti til baka frá þessum síðbrengluðu rummungum.

Áður en ég slæ botninn í þennan stutta pistil leikur mér forvitni á að fá að vita hver var eiginlega hlutur Illuga Gunnarssonar í Sjóði níu. Var honum ætlað þar það stóra hlutverk að vera einskonar guðfaðir sjóðsins eða skrautfjöður, nema vera skyldi hvort tveggja í senn? Þáði hann stórrausnarlega þóknun fyrir það eitt að láta gjörsamlega undir höfuð leggjast að fylgjast grannt með fjárfestingum sjóðsins? Lagði fjöldi títtnefndra viðskiptavina fé sitt í Sjóð níu fyrir hans orð og undirmanna hans, þ.e. þjónustufulltrúanna?

Það er áreiðanlega ekki ofmælt að þessi fyrrverandi aðstoðarmaður fyrrverandi forsætisráðherra vors, Davíðs Oddssonar, hafi ekki staðið í stykkinu, heldur líka leikið illa af sér með aðgerðaleysinu einu saman. Eftir þennan herfilega afleik eða réttar sagt fingurbrjót finnst mér flest benda til þess að hann eigi sér ekki miklar framavonir á hverfulu skákborði íslenskra stjórnmála. Við viljum geta borið fullt traust til þeirra þingmanna sem við kjósum.

Að lokum þetta. Það er raunalegt til þess að vita hversu margir þingmenn hér á landi eru rúnir öllu trausti almennings.

Höfundur er skólastjóri Málaskóla Halldórs.


Ólíkt hafast þeir að

Í gær birtist í Fréttablaðinu grein og viðtal við Sigurð Einarsson, fyrrum stjórnarformann Kaupþings, þar sem hann fór fram með ótrúlegum dylgjum. Kvartar hann um að bankaleynd hafi verið rofin og upplýsingar látnar fjölmiðlum í té. Hafi þær síðan verið nýttar til þess að hóta mönnum. Ýjar hann m.a. að hlut Davíðs Oddssonar.

Hvað sem um Sigurð má segja verður hann að kannast við að hafa átt þátt í að koma eignum manna undan í svokölluð skattaskjól sem betur væru kölluð þjófahreiður. Flest af því aðhafðist hann í skjóli bankaleyndar. Þótt vissulega verði að gæta trúnaðar um ákveðin mál sem snerta hagi einstaklinga verður ekki þagað yfir því sem varðar jafnvel við lög og hagsmuni íslensks þjóðfélags. Ætli Sverrir Hermannsson hefði ekki orðað þetta svo að Sigurður hefði í gær reynt að klóra yfir eigin skít. Verði Davíð Oddsson til þess að koma upp um sviksamlegt athæfi manna eins og stjórnenda bankanna hlýtur hann vafalítið þakkir fyrir hjá almenningi sem situr nú eftir með sárt ennið.

Þá birtist í morgun grein eftir Björgvin Sigurðsson, fyrrum viðskiptaráðherra, þar sem hann sver af sér sögur um einkahlutafélag og 100 milljóna króna afskriftir. Ég held að augljóst sé hvernig þessi saga komst á kreik.

Eftir bankahrunið í haust krafðist fjöldi fólks þess að Björgvin segði af sér sem ráðherra.Ástæðurnar voru nægar. Hann var í raun ráðherra bankamála þótt hann væri lítt eða ekki hafður með í ráðum og olli ekki því verkefni. Skýringin var sögð sú að hann skuldaði tvö lán vegna húsnæðiskaupa og hefði því ekki efni á að hætta sem ráðherra. Þannig heyrði ég söguna um mánuði eftir að bankarnir hrundu.

Það er ekkert nýtt að ein fjöður verði að heilu hænsnabúi. Í þessu tiltekna máli getur Björgvin, sem er vafalaust hinn vandaðasti maður, kennt sér að nokkru um hvernig fór. Hann neitaði að axla ábyrgð og sagði ekki af sér fyrr en ákveðið hafði verið að slíta stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.

Hvernig sem Björgvin fer að verður erfitt fyrir hann að komast hjá því að svara þeirri spurningu hvers vegna hann axlaði ekki pokann sinn og fór úr viðskiptaráðuneytinu þegar allt var hrunið. Hver veit nema það hefði dregið þann dilk á eftir sér að fleiri hefðu orðið að gera slíkt hið sama.


Samviskulausir fjármálaaulabárðar

Eva Joly telur hugsanlegt að ráðamenn íslenskra banka hafi gerst sekir um lögbrot með undanskoti fjár til skattaparadísa og að féð verði vart endurheimt vegna vanhugsaðra fjárfestinga.

Sparisjóðurinn Byr tapaði 29 milljörðum króna á síðasta ári, en þá greiddi sjóðurinn eigendum sínum 13,5 milljarða í arð. Þó hafði stofnféð aukist vegna þess að menn vildu styrkja sparisjóðinn.

Okkur var talin trú um að bönkunum stjórnuðu vel menntaðir og ungir menn. Voru þeir kannski fáfróðir aulabárðar?

Sparisjóðsstjóri Byrs sagði í fréttum Ríkisútvarpsins að í apríl hefðu menn ekki séð hvað væri á næsta leiti. Og nú hugsa menn sér að sækja í ríkissjóð um svokallað eiginfjárstyrk eða hvað það kallast og taldi sparisjóðsstjórinn að um gæti verið að ræða allt að 10 milljörðum króna frá almenningi.

Hvað segir almenningsálitið um það?

Hvað segir almenningsálitið um fjárhagslega heilsu Byrs?

Er þeim sem hafa spillt fjárhagslegri heilsu sinni ætlandi að efla fjárhagsheilsu annarra?

Hvað er fjárhagsleg heilsa?

Varða kannski auglýsingar Byrs um fjárhagsheilsuræktina við lög?


Íslendingar rétta úr kútnum - Steingrími og Gylfa hrósað

Þá kom loksins ein góð frétt í kvöld. Íslendingum gengur vel að rétta úr kútnum, sagði formaður sendinefndar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Síðan heyrist því hvíslað manna á meðal að gjaldeyrissjóðssérfræðingarnir hafi verið harla ánægðir með Steingrím, fjármálaráherra, og Gylfa, viðskiptaráðherra. Sjálfsagt hafa þeir orðið hissa á því að sá sem Kanar kalla gjarnan kommúnista skuli hafa vit á fjármálum og bæði glaðir og hissa að hitta hagfræðing á stóli viðskiptaráðherra. Eitt er víst. Það virtist létt brúnin á talsmanni sjóðsins í morgun.

Síðan er hin gleðisagan að Jón Gerald ætli að stofna lágvöruverðsverslun og sé þegar kominn nokkur hópur fólks sem hefur hug á að leggja fé í fyrirtækið. Haft er eftir Jóni Gerald að ekki verði stefnt að einhverju stórgróðafyrirtæki. Eitt erum við Jón Gerald sammála um. Íslendingar þurfa að venja sig af því að vera vaxtafíklar. Það gerist einungis með því að lækka stýrivextina um leið og verðbólgan hjaðnar.

Sem sagt gott.


Aldraðir og öryrkjar reyna að koma sparnaði sínum undan

Á þessari síðu hefur verið vakin athygli á þeirri ofursköttun sem viðgengst á aldraða og öryrkja með því að veita engan afslátt af fjármagnstekjur en rýra um leið bætur almannatrygginga um þriðjung teknanna.

Þrátt fyrir viðleitni ríkisstjórna Samfylkingarinnar til að rétta hlut þessa hóps virðist þarna hafa verið framið alvarlegt glappaskot. Í leiðara Morgunblaðsins er m.a. vakin athygli á því í dag að jafnvel verðbæturnar teljist til fjármagnstekna eins og fram kom í blaðinu í gær. Þannig er þessi hópur hundeltur með íþyngjandi ráðstöfunum umfram aðra borgara þessa lands.

Vitað er til þess að nokkur hópur aldraðra og öryrkja hefur gert sérstakar ráðstafanir til þess að koma meginhluta sparnaðar síns undan. Hér verður ekki upplýst hvaða aðferðum er beitt. Haft var samband við mig í gær og mér greint frá því að með þessum hætti kæmist fólk væntanlega hjá skerðingum á bótum sínum.

Landsamband eldri borgara hefur aðeins látið í sér heyra vegna þeirra breytinga sem tóku gildi á lögum um almannatryggingar um áramótin og afnámu þann afslátt sem áður var á fjármagnstekjum. Hins vegar hefur ekkert heyrst frá samtöku fatlaðra. Það er sem forystumenn þeirra séu málstola.


Gamall Parísarbrandari um Íslendinga, mestu þjófa heims

Einar Magnússon, rektor Menntaskólans í Reykjavík, sagði mér einu sinni í munnlegu prófi í sögu að um aldamótin 1900 hefði gengið brandari í París um einkenni þjóða. Þar voru Íslendingar taldir mestu þjófar heims. Það kemur því vel á vonda að sérstakur rannsóknadómari, sem hefur reynslu af frönskum fjárglæframönnum, aðstoði íslensk yfirvöld við að hafa upp á íslenskum peningaþjófum.


mbl.is Joly: Viss um að menn misnotuðu aðstöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþjóðlegu matsfyrirtækin og efnahagshrunið

Í þættinum Assignment sem útvarpað er um þessar mundir á BBC, var eftir miðnætti umfjöllun um alþjóðlegu matsfyrirtækin Moodies og fleiri slík. Þar var því haldið fram að fyrirtækin ættu sinn þátt í því að bankahrunið mikla sem enginn sér fyrir endann á hófst.

Greint var frá því hvernig sölumenn þessara fyrirtækja hefðu verið þjálfaðir sérstaklega til þess að koma sér í mjúkinn hjá bankastofnunum og selja þeim einkunnagjöf. Þetta hefði gengið svo langt að þjóðríki hefðu jafnvel ánetjast þessum fyrirtækjum.

Moodies komst m.a. í þá stöðu að bankar og ríkisstjórnir óttuðust einkunnagjöf þess. Voru stærstu fjárfestingasjóðir og bankar Bandaríkjanna og fleiri ríkja reiðubúnir að greiða milljónir Bandaríkjadala fyrir hækkun einkunna fyrirtækisins enda voru hagsmunir milljóna manna í húfi. Þannig átti Moodies m.a. þátt í því að bankar og fjárfestingasjóðir, sem höfðu með höndum lán til húsnæðiskaupa, fengu iðulega hæstu einkunn þótt sitthvað væri bogið við starfsemi þeirra. Nefnd voru dæmi um að fólk hefði verið látið undirrita lánssamninga þar sem niðurstaðan væri helmingi hærri afborganir á mánuði en laun þess. Einstæð móðir lýsti því einhvern veginn þannig að samningar þessir væru tugir blaðsíðna. Sölufulltrúinn hefði blaðað hratt gegnum samninginn og sagt: "Skrifaðu hér, skrifaðu þarna undir, settu nafnið þitt þarna" o.s.frv.

Fulltrúi Moodies hélt því fram í þættinum að fyrirtækinu bæri ekki að meta hvað lægi að baki þeim gögnum sem kaupendur þjónustunnar legðu fram. Aðrir viðmælendur bentu á að vegna þjónustu matsfyrirtækjanna hefðu stjórnendur fjármálastofnana slakað á innra eftirliti og því hefði farið sem fór.

Matsfyrirtækin hafa haft örlög fjármálastofnana og heilla ríkja í höndum sér. Nú er mér spurn hvaða áhrif lánshæfiseinkunn Moodies og annarra fyrirtækja hafi haft á Ísland og stöðu þess. Getur verið að fyrirtækinu hafi einhvern tíma verið mútað eða það keypt til að lækka lánshæfiseinkunn landsins? Hver er trúverðugleiki slíkra lánshæfiseinkunna? Þá skal að vísu einnig rifjað upp að sumir Íslendingar báru brigður á trúverðugleika einkunanna.

Varð þjónusta fyrirtækjanna til þess að Íslendingar, svo sem viðskiptaráðherra fyrrverandi, sem enn er kominn í framboð, fjármálaráðherra, seðlabankastjórar og fjármálaeftirlitið sofnuðu á verðinum.

Spyr sá sem ekki veit.


Verðbólgan hjaðnar

Loksins virðist draga úr verðbólgunni. Þá ættu að skapast forsendur til að draga úr stýrivöxtum Seðlabankans. Eitt af meginmarkmiðum stjórnvaldar og þjóðarinnar allrar hlýtur að verða að skapa hér eðlilegt vaxtasamfélag sem byggir á öðru en vaxtafíkn. Íslendingar hafa verið vaxtafíklar og þess vegna fór sem fór. Um þetta erum við Vilhjálmur Bjarnason sammála.


Slæmt aðgengi að sumum undirsíðum ríkisskattstjóra

Nokkuð hefur verið unnið að því að bæta aðgengi að heimasíðum ríkisskattstjóra, www.rsk.is. Þar má geta að erfitt er að fylla út eyðublöð og í vefskilum vantar talsvert á að þeir, sem nýta sér vefskil, geti innt þau af hendi. Þess vegna var meðfylgjandi bréf sent í morgun.

Ég undirritaður er að reyna að basla dálítið sem verktaki. Ég hef því virkjað aftur vsk-númer og hugðist standa skil á staðgreiðslu gegnum netið. Talsvert vantar á að þjónustusíðurnar á vefskilum séu að öllu leyti aðgengilegar blindu eða sjónskertu fólki sem reiðir sig á sérstaka skjálesara. Það gengur fremur vel að greiða virðisaukaskattinn enda er það form heldur einfalt. Þegar kemur að útfyllingu vegna staðgreiðslu skatta vandast heldur málið því að erfitt er að finna íhvaða reit upplýsingar eiga að lenda. Ég vænti þess að bót verði ráðin á þessum ágöllum hið fyrsta. Óaðgengilegar heimasíður eru heimatilbúinn vandi sem hindra nokkurn hóp fólks í að njóta almennra mannréttinda og hasla sér völl í nútímasamfélagi sem byggir á upplýsingatækni. Virðingarfyllst, Arnþór Helgason ***************************************************** Arnþór Helgason, Tjarnarbóli 14, 170 Seltjarnarnesi. Símar: 5611703, 8973766 Netfang: arnthor.helgason@simnet.is Pistlar: http://arnthor.helgason.blog.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband