Færsluflokkur: Fjármál

"Seint fyllist sálin prestanna"

DV greinir frá því í dag að prestur nokkur á Suðurnesjum fái rúma milljón í aksturspeninga á ári. Samkvæmt kjarasamningum ætti hann að fá rúm 300 þúsund.

Áður hefur verið vikið að því á þessum síðum hversu viðkvæmt starf presta sé og hversu auðvelt sé að gera þá að skotspónum. Ókostir eins og græðgi og sérgæska mega helst ekki einkenna þá sem gerast sálusorgarar.

Presturinn gæti nú farið að dæmi mannsins í þjóðsögunni og skipt þessum ofgreiddu aksturspeningum með einhverjum þeim hætti að gögnuðust fleira fólki en honum sjálfum. Hætt er við að sú ágirnd, sem þessar greiðslur fela í sér, verði seint til þess að hann verði auðmaður og skorti aldrei fé.

SEINT FYLLIST SÁLIN PRESTANNA

Einu sinni var ungur maður og efnilegur; hann lagði ástarhug á stúlku eina og bað hennar; en hún aftók um ráðahag við hann. Af því varð maðurinn mjög angraður og fór oft einförum.

Einu sinni var hann einn úti á víðavangi að rölta eitthvað; veit hann þá ekki af því, fyrr en maður kemur til hans og heilsar honum. Biðillinn tekur kveðju hans dauflega, enda þykist hann ekki þekkja manninn. Komumaðurinn er altillegur við hann og segist vita, að það liggi illa á honum og út af hverju það sé, og segist skuli sjá svo um, að stúlkan, sem ekki hafi viljað taka honum, sæki ekki minna eftir honum en hann eftir henni, ef hann vilji heita sér því að verða vinnumaður sinn að ári liðnu. Maðurinn tekur þessu boði þakksamlega, og ráða þeir nú þetta með sér. Eftir það skilja þeir, og fer biðillinn heim.

Litlu seinna finnur hann stúlkuna við kirkju, og er hún þá orðin öll önnur við hann en áður og sækir mjög eftir honum. Maðurinn fer þá heldur undan og hugsar, að þetta sér hrekkur af henni. En bráðum kemst hann að því, að henni er full alvara. Verður það nú úr, að hann fær stúlkunnar og á hana, og voru samfarir þeirra góðar.

Nú fer að líða á árið, frá því hann hitti þann, sem hafði stutt hann til konumálanna, og fer nú bóndi að fá hugsýki af því, hver þetta hafi verið. Þegar mánuður var eftir til krossmessu, fer hann á fund prestsins síns og segir honum upp alla sögu og biður hann ráða. Prestur segir, að hann hafi of seint sagt sér þetta, því þar hafi hann átt kaup við kölska sjálfan, er hann átti við þenna ókunnuga mann.

Fer þá algjörlega að fara um bónda og biður prest því ákafar ásjár.

Prestur varð vel við því og safnar þegar að sér múg og margmenni, lætur þá alla taka til starfa og grafa innan stóran hól og bera alla moldina burtu; síðast lætur hann gjöra kringlótt gat lítið upp úr miðjunni á hólnum. Þegar því var lokið, er komið að krossmessu. Tekur prestur þá sál og úr henni báða botna, en setur krossmark í annan endann og festir sálina í gatinu á hólinn, svo hún stendur þar upp sem strompur, en krossmarkið er í neðri enda sálarinnar. Síðan segir hann við bónda, að hann skuli bíða kaupanauts síns uppi á hólnum og setja honum þá kosti, að hann fylli sálina með peninga, öllum að meinfangalausu, áður en hann fari að þjóna honum; ella sé hann af kaupinu.

Síðan skilur prestur við bónda, og fer hann að öllu sem prestur hafði fyrir mælt.

Nokkru síðar kemur kaupanautur hans, og er hann nokkuð úfnari en í fyrra skiptið. Bóndi segir við hann, að sér hafi láðst eftir seinast að biðja hann bónar, sem sé lítilsverð fyrir hann, en sér ríði á svo miklu, að hann geti ekki farið til hans ellegar. Kölski spyr, hvað það sé, og segir hann, að það sé að fylla sálina þá arna með silfurpeninga, öllum að meinfangalausu.

Kölski lítur til hennar og segir, að það sé ekki meira en mannsverk, fer burtu og kemur aftur eftir litla stund með mikla drögu og lekur úr sjávarselta. Síðan lætur hann úr drögunni í sálina, en hún er jafntóm eftir sem áður. Fer hann þá í annað sinn og kemur aftur með aðra drögu miklu stærri og steypir í sálina; en hún fyllist ekki að heldur. Svo fer hann í þriðja sinn og kemur upp með drögu, og er hún mest þeirra; þeim peningum hellir hann í sálina, og fer það allt á sömu leið. Þá fer hann hið fjórða skipti og sækir enn drögu; sú var meiri en allar hinar; steypir hann þeim peningum einnig í sálina, en ekkert hækkar í henni. Verður kölski þá hvumsa við og segir, í því hann yfirgefur manninn: "Seint fyllist sálin prestanna".

Maðurinn varð, sem von var, alls hugar feginn lausn sinni frá vistráðunum hjá kölska, og af því hann þóttist eiga þar presti best upp að unna, skipti hann jafnt á milli þeirra peningunum, og vitjaði kölski hvorki þeirra né mannsins eftir það, en maðurinn varð auðmaður alla ævi og skorti aldrei fé né heldur prestinn.

Netútgáfan - mars 1997


Forsetinn á hálum ís

Ef til vill getur Ólafur Ragnar Grímsson rökstutt að íslensku bankarnir hafi starfað löglega innan evrópsks regluverks. Það er einnig rétt hjá honum að eftirlitsstofnanirnar brugðust. Forsetinn brást líka. Hann tók þátt í hrunadansinum og útrásinni af lífi og sál. Landsbankinn sveik Íslendinga. Hann sveikst undan því að koma útibúi sínum í Lundúnum undir breska lögsögu af því að það hentaði honum ekki og bankastjórarnir töldu bankann ekki hafa efni á því.

Ef til vill hefur Ólafur ákveðið að verja íslensku bankana á Bloomberg-fréttaveitunni með því að vitna til þess að þeir hafi starfað samkvæmt lögum og reglum til þess að forðast umræðuna um hið raunverulega eðli bankaþennslunnar. Það rýrir þó viðtalið að fréttaveitan skyldi stilla því upp gagnvart frásögn Gunnars Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins um þær rannsóknir sem nú standa yfir.

Um þessar mundir eru rifjuð upp kaup arabisks sjeiks á hlutabréfum í einum bankanna. Ekkert var greitt fyrir hlutina heldur lánaði bankinn fyrir þeim (Orkuveita Reykjavíkur virðist nú á svipuðu róli). Er nú hverjum manni augljós hver ástæðan var, hækkun bréfanna og e.t.v. neyðarúrræði til þess að greiða fyrir erlendum lánum. En erlendir bankamenn sáu gegnum svikavefinn.

Ég er hræddur um að forsetinn hafi nú skarað glóðir elds að höfði sér. Sennilega væri best að hann talaði sem minnst um bankana. Þetta viðtal verkar eins og hann hafi gengið í lið með einum af mestu ósannindamönnum þessa lands, Sigurði nokkrum Einarssyni.


Brennt barn forðast eldinn

Financial Times greinir frá því í dag að flestir bankar í Evrópu muni forðast að fjárfesta í íslenskum bönkum í framtíðinni.

Þetta er skiljanlegt. Eina leiðin til þess að laða hingað erlent fjármagn er að gefa erlendum bönkum kost á að hasla sér völl á íslenskum markaði. Hitt væri þó enn verra ef ekki fæst erlent fjármagn til þess að efla atvinnustarfsemi hér á landi.


Einbreittur brotavilji!

Þegar gluggað er í lánabók Kaupþings virðist sem einbeittur brotavilji hafi ráðið eftirsókn þeirra eftir lánum sem drýgstir voru. Þegar ég hóf störf sem sölumaður árið 1970 var mér sagt að gerði verslun, sem ekki væri stór í sniðum, miklar pantanir, væri gjaldþrot líklega yfirvofandi. Hið sama virðist upp á teningnum með einstaklinga og fyrirtæki-félög sem getið er um í áður nefndri lánabók. Ætlunin virðist hafa verið að draga Kaupþing niður í svaðið og það tókst.

Núverandi bankastjóri hefur vafalaust verið einhverjum þeirra til halds og trausts sem sóttust eftir þessum gríðarlegu lánum. Athafnir hans um helgina hafa orðið til þess að vafi hefur vanknað um hæfni hans sem stjórnanda nýs banka með nýjum aðferðum.

Að lokum skal vikið að Karli Wernerssyni. Hann skrifar prýðilega grein í Morgunblaðið í dag. Þar svarar hann ekki þeirri spurningu hvers vegna Milestone blóðmjólkaði Sjóvá svo að þar stendur vart steinn yfir steini. Hafi þar græðgi ekki ráðið mestu virðist flónska, fáfræði eða bíræfni hafa verið helsta ástæðan.


Vaka - suðupottur sukksins?

Svo spurði Íslendingur, sem býr ekki hér á landi, þegar við ræddumst við í gærkvöld. Benti hann mér m.a. á að augljós vina- og kunningjatengsl væru á milli helstu forkólfa útrásarinnar og fyrrum forstöðumanns fjármálaeftirlitsins, en þeir voru áður í stjórn Vöku eða fulltrúar félagsins í háskólaráði.

Forvitnum lesendum er bent á vefinn http://www.vaka.hi.is en þar er að fina upplýsingar um stjórnir félagsins.

Sá grunur læðist að mönnum við könnun þessara gagna að ´Fjármálaeftirlitið undir stjórn fyrrum forstöðumanns hefði átt óhægt með að taka á ýnsum þáttum bankaútþennslunnar vegna vináttutengsla við þá sem fóru þar fremstir í flokki.


Landráð

Ekki vantar umræðuefnin um þessar mundir. Umræðan um umsókn að Evrópusambandinu er með ólíkindum og merkilegt hvað Samfylkingin virðist einangruð í málinu.

Hitt málið sem fólk þreytist ekki að ræða er beiðni feðga nokkurra að fá afslátt af upphaflegu kaupverði Landsbankans. Segja menn með ólíkindum að peningar, sem fengust fyrir bjórverksmiðju, sem seld var í rússlandi fyrir nokkrum árum, hafi alls ekki runnið til Landsbankans heldur hafi bankakaupin verið fjármögnuð með innlendu lánsfé.


Fyrirgefum vorum skuldunautum um leið og siðblindir fá sýn

Í umrótinu sem orðið hefur hér á landi að undanförnu skolar ýmsu á land. Þar á meðal er sú staðreynd að örfáir einstaklingar gátu stofnað einkalífeyrissjóði vegna þess að ofurlaun þeirra voru slík að talið var réttmætt að þeir gætu sett á fót eigin fjármagns- og lánastofnanir.

Nú er það þekkt staðreynd að við, hinir almennu verkamenn í víngarði Drottins, eins og það er orðað í Biblíunni, höfum getað fengið lán hjá lífeyrissjóðunum sem við greiðum í. Þessi lán eru miðuð við greiðslugetu hvers og eins og eru með ákveðnum vöxtum - sum að vísu með breytilegum vöxtum.

Þeir, sem urðu svo ríkir að þeir gátu stofnað einkalífeyrissjóði með tugum eða hundruðum milljóna, jafnvel áður en menn urðu fertugir, hljóta nú að velta því fyrir sér hvort þjóðin sé reiðu búin að fyrirgefa þeim misgjörðir sínar. Þeir stofnuðu bankareikninga í Bretlandi og Hollandi, sem almenningur ber ábyrgð á og settu jafnvel heila banka og meira að segja heilt land á hausinn.

Rætt hefur verið um að frysta eignir þessara "auðmanna". Eru lífeyrisréttindin ekki þar á meðal? Þegar þetta er hugleitt virðist sem einkalán úr einkalífeyrissjóði, sem nú er fjallað um, verði því ógeðfeldara sem hugurinn hvarflar víðar. Af hverju þarf einkalífeyrisþeginn 70 milljóna kr lán til 20 ára með einni afborgun - lokagreiðslu? Bendir lánið ekki til þess að nú eigi að fjárfesta og braska í þeirri von að milljónirnar ávaxtist með betri hætti en innan einkalífeyrissjóðsins?

Fyrirgefning fæst einungis ef menn eru reiðubúnir að gjalda það sem þjóðarinnar er. Útrásarvíkingarnir eiga að réttu lagi enga lífeyrissjóði sem skipta milljónum eða milljörðum. Þjóðin á þessa sjóði og þarf á þeim að halda.

Hvenær skyldu siðblindir fá sýn?


Engin áhætta - einungis hagnaður

Það virðist ekkert lát á fréttum af siðblindu íslenskra fjárglæframanna. Kaupréttarsamningar gerðu ráð fyrir að gríðarlegar fjárhæðir yrðu fluttar til stjórnenda eða einkahlutafélaga þeirra. Ekki þurfti að standa skil á neinu og ábyrgðum aflétt þegar illa áraði. Er nema von að Teymi sé að þrotum komið? Fleiaa hlýtur að hafa verið athugavert við reksturinn en einungis þessi tvö mál.
mbl.is Teymi tók yfir skuldir stjórnenda félagsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er bankastjóri Nýja Kaupþings hæfur til starfsins?

Í Spegli Ríkisútvarpsins í kvöld greindi Sigrún Davíðsdóttir frá aðild Sparisjóðabankans og einkum Sparisjóðs Mýrarsýslu að láni til fasteignafyrirtækis á florida árið 2006. Þar virtist fæst vera í lagi. Þar var bent á að Finnur Sveinbjörnsson hefði þá verið sparisjóðsstjóri.

Nú afrekaði spariðsjóðurinn að tapa hærri upphæðum en dæmi eru til á meðal sparisjóðanna. Eru þetta meðmæli með bankastjóra Kaupþings? Urðu tengsl hans við sparisjóðina þess valdandi að Kaupþingi var treyst fyrir SPRON?


Hvað varð um arðinn?

Heimildarmaður bloggarans, aldraður fjárfestir, sem oft reynist býsna spámannlega vaxinn, rifjaði um daginn upp að ýmsir gæðingar bankanna fengu lán hjá vinnuveitendum sínum til þess að kaupa hlutafé í bönkunum. Þegar bankarnir hrundu gufaði féð upp. Haft er eftir einum ráðherra að þar með hafi lífeyrir þeirra hjónanna horfið.

Einstaklingur, sem hefur fengið að kaupa 500 milljónir í ónefndum banka, hlýtur að hafa fengið milljónatugi í arð á meðan allt lék í lindi því að ekki voru arðgreiðslur bankanna svo litlar. Vafalaust hefur hluti þessa fjár farið í að greiða af láninu en hitt hefur lent einhvers staðar, annaðhvort í nýjum hlutabréfum eða á tryggum bankabókum.

fjárfestirinn rifjaði einnig upp að aflétt hefði verið ábyrgð af þessum lánum skömmu áður en bankarnir hrundu. Því vakna eftirfarandi spurningar:

Fengu einhverjir arð af fé sem þeir höfðu aldrei greitt með öðru en arðinum af fjármunum sem þeir höfðu fengið lánaða? Hvernig var arðinum varið og hver er hin raunverulega eignarstaða þessara manna?

Er ekki sjálfsagt að þeir verði látnir sæta ábyrgð og féð verði endurheimt?

Fræg er sagan af þýska sagnamanninum Munchausen sem klifraði eitt sinn til tunglsins upp eftir háu baunagrasi. Á meðan hann var á tunglinu visnaði grasið og féll. Nú voru góð ráð dýr. Munchausen batt belti sitt fast, hnýtti síðan vasaklútnm sínum við beltið og þegar hann þraut losaði hann beltið og festi neðan í vasaklútinn. Svona hélt hann áfram þar til hann náði til jarðar.

Þannig voru fjárfestingar sumra Íslendinga sem hafa jafnvel komið stórfé undan. Þær urðu til úr engu og sumar þeirra urðu aftur að engu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband