Hvað varð um arðinn?

Heimildarmaður bloggarans, aldraður fjárfestir, sem oft reynist býsna spámannlega vaxinn, rifjaði um daginn upp að ýmsir gæðingar bankanna fengu lán hjá vinnuveitendum sínum til þess að kaupa hlutafé í bönkunum. Þegar bankarnir hrundu gufaði féð upp. Haft er eftir einum ráðherra að þar með hafi lífeyrir þeirra hjónanna horfið.

Einstaklingur, sem hefur fengið að kaupa 500 milljónir í ónefndum banka, hlýtur að hafa fengið milljónatugi í arð á meðan allt lék í lindi því að ekki voru arðgreiðslur bankanna svo litlar. Vafalaust hefur hluti þessa fjár farið í að greiða af láninu en hitt hefur lent einhvers staðar, annaðhvort í nýjum hlutabréfum eða á tryggum bankabókum.

fjárfestirinn rifjaði einnig upp að aflétt hefði verið ábyrgð af þessum lánum skömmu áður en bankarnir hrundu. Því vakna eftirfarandi spurningar:

Fengu einhverjir arð af fé sem þeir höfðu aldrei greitt með öðru en arðinum af fjármunum sem þeir höfðu fengið lánaða? Hvernig var arðinum varið og hver er hin raunverulega eignarstaða þessara manna?

Er ekki sjálfsagt að þeir verði látnir sæta ábyrgð og féð verði endurheimt?

Fræg er sagan af þýska sagnamanninum Munchausen sem klifraði eitt sinn til tunglsins upp eftir háu baunagrasi. Á meðan hann var á tunglinu visnaði grasið og féll. Nú voru góð ráð dýr. Munchausen batt belti sitt fast, hnýtti síðan vasaklútnm sínum við beltið og þegar hann þraut losaði hann beltið og festi neðan í vasaklútinn. Svona hélt hann áfram þar til hann náði til jarðar.

Þannig voru fjárfestingar sumra Íslendinga sem hafa jafnvel komið stórfé undan. Þær urðu til úr engu og sumar þeirra urðu aftur að engu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband