Færsluflokkur: Fjármál
Hefði fólk fengið í hendurnar ávísun á erlendan gjaldeyri og selt hana til þess að greiða með húsnæðis- eða bílalán, hefði þetta sama fólk þurft að kaupa gjaldeyri í hvert skipti og greitt var af lánunum. Þá hefði skuldabyrðin vaxið talsvert þegar gengið féll, en launin voru víst ekki gengistryggð.
Þótt ljóst sé að dómur Hæstaréttar komi ýmsum vel en auki um leið misréttið í garð annarra verður á það að líta að þeir sem tóku myntkörfulánið lifðu í þeirri trú að vextir af þeim yrðu lægri en innlendir vextir og jafnvel reiknaði starfsfólk bankanna út fyrir lántakendur hversu mikið krónan mætti falla til þess að erlendu lánin yrðu óhagstæðari.
Um miðja síðustu öld tók Slippurinn í Vestmannaeyjum erlent lán og hækkaði það jafnt og þétt eftir því sem gengi krónunnar lækkaði. Enginn talaði þá um gengistryggt lán heldur sættu menn sig við gengisfellingarnar og þær afleiðingar sem þær höfðu.
En rétt skal vera rétt. Erlend lán skulu vera í erlendum gjaldeyri og reiknast samkvæmt því. Innlend lán verði þá innlend lán og reiknist í íslenskum krónum án gengistryggingar. Svo einfalt er það. Er það einhver goðgá þótt lágstéttirnar græði? Svo spurði Styrmir Gunnarsson og er sú spurning endurtekin hér.
Gallinn er bara sá að sumir úr lágstéttunum tóku innlend lán og sitja eftir í súpunni. Einhverjir verða einhvern tíma að taka afleiðingum gjörða sinna.
350 milljarða tilfærsla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | 8.7.2010 | 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þá vakti athygli mína prýðilegt viðtal Einars Fals Ingólfssonar, ljósmyndara og blaðamanns, við Ólaf Elíasson, myndlistarmann, þar sem þeir félagar fjalla um glerhjúpinn utan um Hörpu og sjónarleik þann sem framinn verður allt árið um kring. Var ævintýralegt að lesa lýsingarnar og gera sér í hugarlund hvernig byggingin njóti sín í framtíðinni og setji svip á umhverfi Reykjavíkur. Ólafur er frumkvöðull en apar ekki eftir öðrum. Fleiri frumkvöðlar hefðu þurft að koma að sköpujn Reykjavíkur. Þá væri hún e.t.v. skárri yfirferðar en nú.
Nú vænti ég þess að Sunnudagsmogginn fjalli næst um hljóðfræðina sem tónleikasalurinn í Hörpu byggir á. Til þess var nú leikurinn gerður að við eignuðumst gott tónleikahús. Ljósadýrðin verður síðan kærkomin viðbót sem lýsir upp skammdegið í Reykjavík og ljær því ævintýrablæ.
Fjármál | 4.7.2010 | 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frásögn Egils Ólafssonar minnir átakanlega á þá staðreynd að ekki er sama hver á í hlut þegar um rekstur fyrirtækja er að ræða. Bankarnir halda hlífiskildi yfir eigendum Baugs en hóta að gera bændur gjaldþrota þótt líkur séu til að þeir geti náð sér ef bankarnir eru reiðubúnir til samstarfs. Þá er með ólíkindum að jarðir séu seldar án samninga og gjaldþrotahótunum beitt til þess að flæma bændur af jörðum sínum. Þá bætist við að allur mjólkurkvói verður fluttur af jörðinni og hún leggst því með einum eða öðrum hætti í eyði. Fróðlegt væri að vita hverkaupandinn er og hvaðan honum koma fjármunirnir.
Eitt sinn hitti faðir minn Herluf Clausen á götu, sennilega var það árið 1962. Herluf sagðist þá hafa samið grafskrift sína: "Hér hvílir Herluf Clausen, drepinn af bankastjórum og lögfræðingum.
Ýmis ráð sölumanna bankanna hafa orðið fjölmörgum næstum banvæn. Við lá að allar eignir móður minnar lentu í bankahruninu, en í janúar 2008, nánar til tekið þann 15., var ítrekað reynt í löngu samtali að fá mig til að festa fé hennar í hlutabréfum eða peningabréfasjóðum. Tók starfsmaður Glitnis fram að hann vildi eingöngu gera fjölskyldunni greiða því að ævinlega hefðu verið góð samskipti millum mín og föður síns.
Þannig er nú það. Hefði ég farið að ráðum þessa góðhjartaða bankamanns hefði móðir mín tæplega átt fyrir útför sinni. Hið sama er upp á teningnum með bóndann sem Egill Ólafsson skrifaði um í Morgunblaðinu í gær. Hann fór að ráðum bankamanna og uppskar upptöku eigna sinna.
Hver er ábyrgur?
Fjármál | 30.4.2010 | 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Athyglisverðastur er lokakafli greinarinnar þar sem lýst er hvernig baugsveldið tugtaði fjármálaeftirlitið til svo að afturkallaðar voru tilmæli um skil ársskýrslna og hámarkshlut svokallaðra venslafyrirtækja.
Eftir þennan lestur hljóta menn að spyrja hvorir höfðu eftirlit með hvorum, fjármálaeftirlitið eða Baugur!
Áhugasamir menn um fjármál, sem kaupa ekki Morgunblaðið, eru hvattir til að verða sér úti um eintak sunnudagsmoggans og kynna sér grein þessa. Hún er ágætur aðdragandi væntanlegrar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
Fjármál | 7.3.2010 | 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í Fjarðabyggð hafa ýmsir afþakkað hlutastörf vegna þess að langt er að sækja á vinnustað, kaupið lágt og bensínverðið hátt. Samgöngur eru strjálar og því ekki hægt að reiða sig á þær.
Á höfuðborgarsvæðinu er svipað upp á teningnum. Fólk býr sjaldan í grennd við vinnustað sinn og eftir hrunið á fasteignamarkaðinum eru búferlaflutningar takmarkaðir. Þá er ekki víst að hjón fái vinnu í sama bæjarhluta.
Við hjónin búum á Seltjarnarnesi. Konan vinnur suður í Hafnarfirði og ég vestur á Fiskislóð. Samgöngum er þannig háttað að vagnar standast illa á og ferð suður í Hafnarfjörð getur tekið allt að hálfum öðrum tíma á morgnana. Hún færi þessa leið á skemmri tíma á reiðhjóli.
Hið sama gildir um undirritaðan. Vegna þess hvernig samgöngum er háttað milli Seltjarnarness og Fiskislóðar tekur það álíka langan tíma að fara til vinnu gangandi og með strætisvagni. Gönguleiðin er hins vegar hættuleg þeim sem sér ekki fótum sínum forráð.
Því var spáð í uphhafi þessarar aldar að bensínverð færi hækkandi og lægju til þess ýmsar ástæður sem ekki verða raktar hér. Sú spá gengur nú eftir. Samgönguyfirvöld verða að íhuga breytingar á almenningssamgöngum og komast að niðurstöðu um breytingar sem bætt gætu nýtingu vagnanna.
Þá er ekki seinna vænna en yfirvöld undirbúi nú þegar rafvæðingu bifreiðaflotans og reyndar ættu olíufélögin að ganga þar á undan með góðu fordæmi. Innan 10 ára verða bensínbílar komnir á útsölu og meðhöndlaðir sem hvert annað gamaldags fyrirbæri sem fáir vilja eiga og flestir losna við.
Fjármál | 24.2.2010 | 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Síðan segir: Nú hefur Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, lagt fram á Alþingi nýtt lagafrumvarp um fjármálafyrirtæki. Fyrsta umræða um það fór fram á Alþingi hinn 29. janúar sl. Áður hafði ráðherrann kynnt efni þess á opnum fundi sem almenningur átti aðgang að og er það til fyrirmyndar.
Frumvarp þetta er gott innlegg í umræður um endurreisn bankanna. Styrkleiki þess er sá að þar er tekið á ýmiss konar innri vandamálum í rekstri bankanna sem hrun þeirra afhjúpaði. Rík viðleitni er til þess að efla lagaheimildir Fjármálaeftirlitsins og er það af hinu góða.
Styrmir segir að frumvarpinu sé ætlað að fylgja eftir ýmsum ábendingum Finnans Kaarlo Jännäri sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde fékk til þess að taka saman skýrslu um íslensku bankana og gera tillögur um úrbætur. Veikleiki frumvarps Gylfa Magnússonar sé hins vegar sá að þar sé ekki tekið á grundvallaratriði þessa máls. Þar er ekki lagt til að skilja að starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.
Eini þingmaðurinn sem vakti athygli á þessu við fyrstu umræðu var Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingar, sem spurði ráðherrann hvort hann telji ástæðu til að löggjöfin kveði skýrar á um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi.
Svar ráðherrans var þetta: Að mörgu leyti eru þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu mjög í þessum anda þótt ekki sé formlega gengið svo langt að skilja þar á milli.
Styrmir bendir á að víða um heim hafi geisað miklar umræður frá haustinu 2008 um starfsemi banka og nauðsyn þess að koma upp nýju regluverki í kringum þá. Lykilatriði í þeim umræðum hafi verið hvort setja eigi á ný löggjöf um aðskilnað á þessum tveimur tegundum bankastarfsemi.
Hvers vegna? Vegna þess að mönnum er orðið ljóst að sú starfsemi að taka við sparifé almennings og ávaxta það með sem minnstri áhættu fer ekki saman við þá gífurlegu áhættu sem er samfara svonefndri fjárfestingarbankastarfsemi. Engum ætti að vera þetta betur ljóst en okkur Íslendingum vegna þess að hrun hefðbundinnar bankastarfsemi á Íslandi byggðist á því að bankarnir voru fyrst og fremst orðnir fjárfestingarbankar.
Þrátt fyrir það hafa engar umræður orðið um þetta grundvallaratriði á Alþingi frá bankahruni sem er umhugsunarvert í ljósi þess að Alþingi ræddi nánast ekkert stöðu íslenzku bankanna veturinn 2006, haustið 2007 eða árið 2008.
Það er ekki hægt að skilja þetta á annan veg en þann að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafi komizt að þeirri niðurstöðu í umræðum innan flokkanna að ekki bæri að skilja á milli viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi.
Áður en ráðherra í ríkisstjórn leggur fram frumvarp í hennar nafni er frumvarpið kynnt í þingflokkum stjórnarflokkanna. Þar hljóta að hafa farið fram umræður um þetta grundvallaratriði málsins. Það er sjálfsögð krafa að báðir stjórnarflokkarnir geri grein fyrir því með hvaða rökum þeir hafa komizt að þessari niðurstöðu.
Þá minnir Styrmir á að efnahagsmálaráðherra hafi lagt fram annað frumvarp á Alþingi um innistæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta. Í athugasemdum við það segir:
Rétt er að nefna að ekki er gerð sérstök tillaga um að lántökur tryggingasjóðs njóti ríkisábyrgðar eða að ríkissjóði sé skylt að veita sjóðnum lán þótt gera megi ráð fyrir því að lántaka sjóðsins verði erfiðleikum bundin án bakábyrgðar ríkissjóðs eða annarar aðkomu hans að lántöku.
Greinilegt er að greinarhöfundi er ekki skemmt. Hvað eru ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir að gefa í skyn? skrifar hann. Að hefji Arionbanki og Íslandsbanki, sem báðir eru í eigu erlendra banka og vogunarsjóða, nýja útþenslu í krafti EES-samninganna í öðrum löndum verði til staðar bakábyrgð íslenzka ríkisins á slíku nýju ævintýri?!
Styrmir bendir á að þetta frumvarp hljóti líka að hafa verið kynnt í þingflokkum stjórnarflokkanna.
Þessi stefnumörkun snýst um grundvallaratriði, skrifar hann. Þar hljóta að hafa farið fram umræður um þetta mál og þingflokkarnir hljóta að hafa lagt blessun sína yfir þessa stefnumörkun. Er þingmönnum stjórnarflokkanna ekki sjálfrátt?
Í athugasemdum við frumvarp Gylfa Magnússonar um fjármálafyrirtækin segir: Mikilvægt er t.d. að móðurfélag sem á dótturfélög, annars vegar vátryggingafélag og hins vegar fjármálafyrirtæki, gæti þess að sömu stjórnarmenn séu ekki tilnefndir til stjórnarsetu í fjármálafyrirtækinu og vátryggingafélaginu.
Getur það verið að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafi ekki komið til hugar að banna að sömu aðilar eigi bæði banka og tryggingafélag? Og koma þar með í veg fyrir að nýjar fjármálasamsteypur rísi upp á borð við þær sem féllu í október 2008?
Hvers konar umræður fara fram í þessum flokkum um meginmál?
Ég skora á fólk með heilbrigða skynsemi í báðum stjórnarflokkunum að taka þessi málefni og önnur til umræðu og rétta af þessa alvarlegu veikleika sem við blasa í frumvörpum ríkisstjórnarinnar. Og ekki skaðar að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi skoðun á málinu sem þeir hafa ekki lýst til þessa dags.
Fjármál | 15.2.2010 | 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áður hefur verið greint frá því á þessum síðum að í júlí 2008 hafi verið svo komið að erlendir bankar svo sem royal bank of Scotland og Deutsche Bank hafi neitað að taka veð íslensku bankanna gild. Þess var getið að veðin hefðu þótt of veik enda uppbygging bankanna vafasöm.
Nú þarf að rifja upp hver sat í stóli formanns stjórnar Seðlabankans sumarið 2008 og hvernig þessar upplýsingar samræmast málflutningi hans fyrir og eftir bankaránið. Þá þarf einnig að grandskoða hvort gagnrýni Morgunblaðsins á núverandi ríkisstjórn sé marktæk eða hvort um skítabombur sé að ræða eins og Lára Hanna Einarsdóttir hefur kallað skrif annars ritstjórans.
Eitt má þó telja víst trúverðugleiki leiðaranna hefur beðið alvarlegan hnekki.
Fjármál | 15.12.2009 | 07:31 (breytt kl. 07:42) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki tók betra við. Um daginn var bankinn endurskírður og kallaður Arion-banki eftir persónu úr grískri goðafræði. Fleiri fyrirbæri bera þetta nafn, þar á meðal grískt netútvarp.
En sagan er ekki öll. Nú hefur komið í ljós af Spánarsnigillinn er af ætt Arion-snigla. Sumir töldu þetta bankanum til gildis og bentu á að nýi Arion-bankinn hygðist feta sig áfram af gætni sem samræmist hraða snigilsins, en hann fer með 5-9 metra hraða á klukkustund. Aðrir hafa þó bent á að Spánarsnigillinn skilji eftir sig auðn þar sem hann fer um.
Fjárfestir nokkur hafði á orði við höfund þessara pistla að erlendir fjárfestar hlytu að forðast bankann eins og heitan eld þegar þeir átta sig á eðli hans, verði kenningin um eðli bankans og Spánarsnigilsins ofan á. Varað hefur verið við Spánarsniglinum hér á landi enda er hann talinn hinn mesti vágestur í íslenskri náttúru.
Fjármál | 27.11.2009 | 18:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ágúst Valfells segir í viðtali við Morgunblaðið að með hertum reglum Seðlabankans séu Íslendingar að grafa sér enn dýpri haftagröf. Athugasemdir hans valda því að almennir lesendur hljóta að velta því fyrir sér hvers vegna mál eins og þetta séu ekki brotin til mergjar í stað þess að birta stuttorða yfirlýsingu sérfræðings í fjármálum um neikvæð áhrif aðgerða stjórnvalda.
Almenningur ætlast í æ ríkara mæli en áður til þess að lagðir séu fram kostir og gallar þeirra ráðstafana sem gripið er til svo að hægt verði að verja samneysluna og bæta hag þjóðarbúsins. Í raun eru viðskipti eins og þau, sem fjallað er um í fréttinni og grein Morgunblaðsins, ekkert annað en undanskot og þjófnaður.
Eins brauð er annars dauði.
Aflandskrónur ónothæfar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | 16.11.2009 | 08:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Síðsumars átti ég vinsamlegt samtal við Skúla Eggert Þórðarson, sem kvartaði undan fjárskorti sem væri væntanlega vaxandi innan embættisins. Hann hét þó að taka málið föstum tökum.
enn hefur ekkert gerst. Það munu nú sennilega tvö ár síðan ég vakti athygli umsjónarmanna rsk.is á þessu ófremdarástandi og það hafa fleiri gert. Ég hef því skrifað ríkisskattstjóra eftirfarandi tölvuskeyti.
Sennilega er kominn tími til að stofna ný samtök fatlaðra, Aðgengisfélagið og sækja um aðild að Öryrkjabandalagi Íslands.
Ágæti Skúli Eggert.
Ég þakka þér ánægjulegt samtal og fróðlegt sem við áttum um aðgengi að vef embættis þíns nú síðsumars.
Málum mínum er enn þannig komið að ég hef ekki fengið starf sem launamaður. Ég sótti því um sölu áskrifta hjá viðskiptablaðinu og er þar nú sem verktaki. Að vísu finnst mér ég kasta sérþekkingu minni á glæ með því að vinna með algerum byrjendum á vinnumarkaði, en hvað gera menn ekki þegar engra annarra kosta er völ. Viðmótið á þessum vinnustað er gott og mér líður þar prýðilega innan um það unga fólk sem leggur sig allt fram við sölumennskuna.
Nú þarf ég að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og enn hefur ekkert gerst í bættu aðgengi þess hluta vefsins sem ætlaður er til þessara nota.
Ég sé mér ekki annað fært úr þessu en vekja athygli umboðsmanns Alþingis á því hvernig ríkisskattstjóri leggur í raun stein í götu þeirra sjónskertu einstaklinga sem vilja og þurfa að bjarga sér sjálfir. Ég vildi mjög gjarnan láta reyna á það, jafn vel fyrir dómstólum, hvor okkar yrði ábyrgur ef ég stæði ekki skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna þess að vefurinn er ekki aðgengilegur.
Ég vænti skjótra svara og aðgerða frá þér og embætti þínu.
Með vinsemd og virðingu,
Arnþór Helgason ***************************************************** Arnþór Helgason, Tjarnarbóli 14, 170 Seltjarnarnesi. Símar: 5611703, 8973766 Netfang: arnthor.helgason@simnet.is Pistlar: http://arnthor.helgason.blog.is
Fjármál | 9.11.2009 | 21:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tónlistarspilari
Tenglar
Fonix.blog.is
Helena Björnsdóttir þjálfuð til þess að nýta sér blindrahund
Bloggvinir
- alla
- axelthor
- arnibirgisson
- ormurormur
- astafeb
- bjarnihardar
- gattin
- dora61
- saxi
- jaherna
- jovinsson
- fjarki
- gislisigurdur
- gudni-is
- gelin
- gummigisla
- heidistrand
- helgigunnars
- hildurhelgas
- himmalingur
- hoskibui
- isleifur
- jakobk
- fun
- jonhalldor
- jon-o-vilhjalmsson
- nonniblogg
- juliusvalsson
- kje
- kristbjorggisla
- methusalem
- mortenl
- moguleikhusid
- skari60
- rafng
- ragnar73
- fullvalda
- duddi9
- siggisig
- saemi7
- vefritid
- thorirj
Feb. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | ||||||
2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 |
9 | 10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 |
16 | 17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 |
23 | 24 | 25 | 26 | 27 | 28 |
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kínversk málefni og menning
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar