Drepinn af bankastjórum og lögfræðingum

Frásögn Morgunblaðsins í gær um aðfarir eins af bönkunum gegn bónda, sem hafði tekið myntkörfulán og hagað sér í einu og öllu eftir ráðleggingum bankans, var áhrifamikil og bar því vitni að Mogginn tekur enn á þárr fyrir ritstjóraskiptin. Því er þetta borið saman að almennt þykir Morgunblaðið hafa staðið sig fremur illa í umfjöllun um Sturlungu hina nýju enda málið of skylt helsta höfundi þess ástands sem leiddi til hrunsins.

Frásögn Egils Ólafssonar minnir átakanlega á þá staðreynd að ekki er sama hver á í hlut þegar um rekstur fyrirtækja er að ræða. Bankarnir halda hlífiskildi yfir eigendum Baugs en hóta að gera bændur gjaldþrota þótt líkur séu til að þeir geti náð sér ef bankarnir eru reiðubúnir til samstarfs. Þá er með ólíkindum að jarðir séu seldar án samninga og gjaldþrotahótunum beitt til þess að flæma bændur af jörðum sínum. Þá bætist við að allur mjólkurkvói verður fluttur af jörðinni og hún leggst því með einum eða öðrum hætti í eyði. Fróðlegt væri að vita hverkaupandinn er og hvaðan honum koma fjármunirnir.

Eitt sinn hitti faðir minn Herluf Clausen á götu, sennilega var það árið 1962. Herluf sagðist þá hafa samið grafskrift sína: "Hér hvílir Herluf Clausen, drepinn af bankastjórum og lögfræðingum.

Ýmis ráð sölumanna bankanna hafa orðið fjölmörgum næstum banvæn. Við lá að allar eignir móður minnar lentu í bankahruninu, en í janúar 2008, nánar til tekið þann 15., var ítrekað reynt í löngu samtali að fá mig til að festa fé hennar í hlutabréfum eða peningabréfasjóðum. Tók starfsmaður Glitnis fram að hann vildi eingöngu gera fjölskyldunni greiða því að ævinlega hefðu verið góð samskipti millum mín og föður síns.

Þannig er nú það. Hefði ég farið að ráðum þessa góðhjartaða bankamanns hefði móðir mín tæplega átt fyrir útför sinni. Hið sama er upp á teningnum með bóndann sem Egill Ólafsson skrifaði um í Morgunblaðinu í gær. Hann fór að ráðum bankamanna og uppskar upptöku eigna sinna.

Hver er ábyrgur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband