Hrefna Jónsdóttir frá Hásteinsvegi 50 í Vestmannaeyjum - minning

Í gær var borin til grafar gömul vinkona og nágranni frá Vestmannaeyjum, Hrefna Jónsdóttir, en foreldrar hennar reistu sér hús við Hásteinsveg 50.
Móðir hennar, Halldóra Jónsdóttir, ævinlega kölluð Dóra Jóns, var vinnukona hjá foreldrum mínum og varð af því einlæg vinátta milli fjölskyldnanna. Þær Hrefna og Guðrún systir mín léku sér saman og við Guðrún, systir Hrefnu, vorum einnig leikfélagar, trúlofuðumst þegar hún var 7 ára og ég ári eldri.
Af því hlaust mikill þrýstingur og ótæpilega hörð stríðni sem endað á því að ég sleit trúlofuninni.:)
Hrefna bjó lengi erlendis, var langdvölum í Þýskalandi og seinni hluta ævinnar í Bandaríkjunum þar sem hún lést í janúar síðastliðinn, á 78. aldursári. Þar rak hún gallerí sem var á meðal 35 virtustu fyrirtækja þessarar tegundar þar í landi.

Þegar við tvíburarnir fæddust þóttust þær Hrefna og Guðrúnar heppnar því að þær voru tvær og við tveir.
Fyrsta minning mín er tengd Hrefnu. Ég var í barnavagni, sá birtuna fyrir utan og heyrði þær stallsystur spjalla saman. Vagninn vaggaði mjúklega, logn var á  og ilmur af sængurfötunum. Mér leið undursamlega og sveif inn í draumheima.
Þessi minning er afar skýr þótt ég hafi sennilega verið á öðru ári - ein þeirra minninga sem ylja mér um hjartaræturnar þegar ævinni vindur fram.

Ég hitti stundum Hrefnu hjá móður hennar og hún bar ætíð með sér einhvern sérstakan blæ að utan, umræðuefni, skoðanir og tónlist sem heyrðist hvergi annars staðar en hjá henni.
Blessuð sé minning hennar.


Bloggfærslur 10. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband