Fáfræði erlendra fjölmiðlamanna um Ísland

Ég hef hlustað á BBC í hálfan fimmta áratug og þótt það bera af í fréttaflutningi sínum. Að vísu verð ég að viðurkenna að einatt hefur mér þótt fréttaflutningur útvarpsins nokkuð hlutlægur á stundum, en meira bar á því framundir 1980 en upp á síðkastið.

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er athyglisverð grein um fáfræði erlendra blaðamanna um íslensk málefni og er jafnvel vitnað í norræna ráðamenn sem virðast misskilja ýmislegt. Breska útvarpið er þar engin undantekning. Fréttaflutningur þess af Icesafe-málinu var með ólíkindum. Daginn sem forsetinn synjaði lögunum um Icesave-samninginn staðfestingar var fréttakona nokkur með viðtöl við tvo Íslendinga og hafa þeim verið gerð skil á þessum síðum. Áberandi var hversu illa undirbúin fréttakonan var og setti því að mér efa um áreiðanleika útvarpsstöðvarinnar.

Ég minnist þess að í þorskastríðunum birti BBC World Service iðulega fréttir af átökum Íslendinga og breta og voru þær fréttir yfirleitt prýðilega úr garði gerðar. Icesave-málið er hins vegar flóknara og það virðist sem mistekist hafi að koma því á framfæri við erlenda fréttamenn um hvað málið snýst í raun og veru.

Sem betur fer hefur heldur hallað á betri hliðina fyrir okkur Íslendingum og fleiri en áður, jafnvel erlendir blaðamenn, virðast nú átta sig á því um hvað málið snýst. Hvort það hafi svo úrslit á lyktir málsins er svo annar handleggur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband