Drög að sögu íslensks tölvutals

 

Drög að sögu talgervils á Íslandi

 

Árið 1984 barst hingað til lands hljóðrit þar sem sænskur talgervill var látinn lesa kvæðið "Fyrr var oft í koti kátt". Framburðurinn var allskýr þótt vitanlega læsi hann með sænskum hreim.

 

Um svipað leyti var farið að nota tölvutækni við framleiðslu blindraleturs á vegum Blindrabókasafns Íslands og skrifuðum við Hilmar Skarphéðinsson fyrirtækinu Infovox til þess að forvitnast um hvort unnt væri að þýða talgervilinn á íslensku. Var erindi okkar tekið allvel.

 

Skömmu síðar kom til mín ungur nemandi í tölvunarfræði, Kjartan Guðmundsson að nafni, en hann vann þá að smíði talgervils. Ætlaði hann röddina fyrst og fremst til símanota. Ég sannfærði hann um að kanna málið nánar og voru þá hafnar tilraunir á vegum Reiknistofnunar Háskólans. Þá kom í ljós að sá hugbúnaður, sem til var, réð ekki við íslensk hljóð eins og ó og varð því tilraunum sjálfhætt.

 

Ýmsir veittu þessu tilraunastarfi brautargengi. Vorið eða sumarið 1986 boðaði Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóri í Reykjavík, til fundar þar sem m.a. var rætt um nýjar hugmyndir í atvinnumálum fatlaðra. Minntist ég þá á tilraunir með þróun íslensks talgervils og orðaði það einhvern veginn svo að með því að veita málinu stuðning væri fjármunum vel varið. Nokkru síðar barst mér umslag frá skrifstofu borgarstjóra. Í því var ávísun að upphæð 50.000 kr og fylgdi sú skýring með að upphæðinni skyldi varið til þróunar talgervils.

 

Við bræður fórum á tæknisýningu sem haldin var í Þórshöfn í Færeyjum haustið 1986 og tókum með okkur VersaBraille blindraleturstölvur, en það voru bandarísk tæki sem byggðu á PCM-stýrikerfinu. Svíar, sem einnig stóðu að sýningunni, lánuðu okkur Infovox 230 talgervil sem við tengdum VersaBraille-tækinu  og umrituðum við bæði sænska og færeyska texta svo að þeir urðu skiljanlegir. Vakti þetta gríðarlega athygli, reyndar svo mikla að talgervillinn var látinn lesa færeyskan texta í útvarp Færeyja.

 

Málið lá síðan í nokkrum dvala eða til ársins 1988 að við Páll Jensson, prófessor,  tókum okkur til og sóttum um styrk til Norrænu nefndarinnar um málefni fatlaðra til þess að þróa talgervil. Var þetta samstarfsverkefni milli Íslendinga og Konunglega tækniháskólans í Stokkhólmi. Björn Önundarson, tryggingayfirlæknir, var sá íslenskur embættismaður sem veitti málinu brautargengi á norrænum vettvangi.

 

Háskóli Íslands varð samstarfsaðili hér á landi og gegndu þeir Eiríkur Rögnvaldsson og Höskuldur Þráinsson þar lykilhlutverki auk Páls Jenssonar. Ungur fræðimaður, Pétur Helgason, var fenginn til að þýða talgervilinn og vann hann þetta verk ásamt sænska verkfræðingnum Björn Granström.

 

Árið 1990 var talgervillinn prófaður mjög ítarlega og síðan sleppt lausum í framleiðsluferlið. Þar urðu þau mistök hjá Infovox að eitthvað af frönskum hljóðreglum lenti saman við þær íslensku og segir talgervillinn því du í stað de. Einnig laumuðu háskólamenn inn skammstöfunum þátt fyrir aðvaranir undirritaðs. Þannig hljóðaði setningin:

Varan kostar 100 kr

Varan kostar 100 karlakór Reykjavíkur.

Höfn í Hornafirði varð

Höfunduröfn í Hornafirði.

 

Þegar Windows 95 kom til sögunnar varð ljóst að gera þyrfti breytingar á talgervlinum og var stofnaður stýrihópur um það verkefni undir forystu Guðrúnar Hannesdóttur, forstöðumanns Starfsþjálfunar fatlaðra. Tekið skal fram að Öryrkjabandalag Íslands hafði veg og vanda af þessu verkefni fyrir hönd Íslendinga.

 

Þessi vélræni talgervill reyndist vel, bilaði sjaldan og var fremur áheyrilegur svo fremi sem notuð voru góð heyrnartól eða hátalarar.

 

Eftir aldamótin, sennilega árið 2002, setti sænska fyrirtækið Infovox nýjan talgervil fyrir íslensku á markaðinn og nefndist hann Snorri. Nokkrir hnökrar voru á framburði hans, en þó var hann fremur áheyrilegur og auðvelt að stjórna hraða hans og hæð raddarinnar. Fyrirtækið hafði engin samskipti við Íslendinga um þróun þessa talgervils. Að öðrum kosti hefði verið unnt að sníða af ýmsa agnúa sem voru og eru á honum auk þess sem hægt hefði verið að  lagfæra villurnar sem voru í fyrirrennara hans. Snorri varð fremur vinsæll og er einnig notaður í farsímum.

 

Nokkru síðar heyrðist af smíði íslensks talgervils sem Síminn og fleiri fyrirtæki kostuðu. Þrátt fyrir að Öryrkjabandalagið hefði stofnað til funda með ýmsum aðilum um þróun og endurbætur íslenskra talgervla og ætti samstarf við tungutækni-átakið, var ekki haft samband við neytendur. Smiðir talgervilsins fengu Ragnheiði Clausen til þess að ljá rödd sína og þótti lesturinn takast vel. Þegar lýsingar smiðanna eru lesnar kemur í ljós að þeir héldu að þeir væru að vinna tímamótastarf. Það er einhvern veginn svo að Íslendingar fara iðulega offari þegar sjálfsálitið er annars vegar og hlusta sjaldan á varnaðarorð þeirra sem reynsluna hafa. Þess vegna fór sem fór.

 

Vegna þekkingar- og reynsluleysis íslensku talgervilssmiðanna varð afraksturinn heldur nöturlegur. Röddin reyndist brostin og hafa litlar breytingar orðið þar á. Ýmsar framburðarreglur voru ekki virtar, ekki reyndist unnt að stjórna hæð raddarinnar, högg heyrast þegar orð hefjast á hljóðum eins og a, æ o.s.frv. sem veldur því að erfitt er að hlýða á langan texta í senn. Fleir atriði mætti nefna sem hefði auðveldlega verið hægt að lagfæra hefðu neytendur verið hafðir með í ráðum.

 

Pistill þessi er einungis byggður á minni undirritaðs og ber að skoða sem drög að sögu talgervilsins á Íslandi. Stiklað er á stóru og ýmsu sleppt sem vert hefði verið að geta um.

 

Í fórum Öryrkjabandalags Íslands, Blindrabókasafns Íslands og Starfsþjálfunar fatlaðra eru væntanlega gögn sem geta varpað skýrara ljósi á þessa sögu.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Halldór Einarsson

Þetta er athyglisverð yfirferð Arnþór og hafðu þakkir fyrir að draga þetta saman. Samanborðið við erlenda talþjóna þá finnst mér að íslensku talþjónarnir standa langt að baki því sem verið er að gera í dag. Þessi staða er ekki til marks um metnað gagnvart töluðu íslensku máli í stöðugt stækkandi umhverfi þar sem taljþónar eru notaðir. Vonandi gefst okkur tækifæri á að breyta þessu áður en og' langt um líðu

Kristinn

Kristinn Halldór Einarsson, 23.1.2010 kl. 00:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband