Nornaveiðar fréttamanna Ríkisútvarpsins á hendur öryrkjum

Fréttastofa Ríkisútvarpsins fer stundum óvarlega í fréttaflutningi sínum. Nú virðist eiga að æsa almenningsálitið gegn öryrkjum sem þiggja atvinnuleysisbætur.

Um síðustu mánaðamót fengu 16.000 manns greiddar atvinnuleysisbætur. Þar af voru um 700 öryrkjar eða tæp 4,5% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá. Ég veit ekki hversu margir öryrkjar eru nú skráðir á Íslendi en nær er mér að halda að um sé að ræða um 5% öryrkja sem fengu bæturnar. Það merkir ekki að atvinnuástand sé betra með öryrkjum en öðrum landsmönnum heldur fremur hitt að atvinnuþátttaka öryrkja sé minni en þeirra sem eru ófatlaðir. Niðurstaðan er því sú að talan 700 öryrkjar bendi í raun til þess að atvinnuleysi sé mun meira á meðal öryrkja en þeirra sem hafa óskerta vinnugetu

Þessar tölur sýna, sem er gleðilegt, að ýmsir öryrkjar hafa leitað réttar síns og sótt um atvinnuleysisbætur. Þess var að litlu getið í fréttum Ríkisútvarpsins að atvinnuleysisbætur skerði bætur almannatrygginga og að bætur almannatrygginga skerði atvinnuleysisbætur. Það er því varasamt að halda því fram að um misnotkun sé að ræða. Atvinnutekjur skerða bætur almannatrygginga eftir ákveðnum reglum sem ekki verða skýrðar hér. Hið sama á við um atvinnuleysisbætur og í greiðsluáætlun Tryggingastofnunar ríkisins er beinlínis gert ráð fyrir að öryrkjar áætli atvinnuleysisbætur sínar.

Sá munur er á atvinnuleysisbótum og bótum almannatrygginga að hinar fyrr nefndur eru stundarfyrirbæri í lífi flestra en tryggingabætur eru ævikjör margra. Ástæða þess að öryrkjar fá atvinnuleysisbætur er sú að þeir hafa leitað eftir atvinnu á almennum markaði og er það vel.

Verði öryrkjar sviptir þeim rétti að njóta réttinda vegna atvinnuleysis til jafns við þá sem eru fullvinnufærir verður enn höggvið í sama knérunn. Öryrkjar hafa þegar verið látnir afsala sér vísitölutengingu bótanna eða hafa réttara sagt verið sviptir henni. Öryrkjabandalag Íslands hefur ekki samningsrétt og stjórnvöld hafa sjaldan hlustað á röksemdir þess þegar ákveðið hefur verið að níðast á öryrkjum í þágu ófatlaðs fólks. Sú ríkisstjórn, sem nú situr, virðist því miður engin undantekning.

Flestir öryrkjar eru væntanlega stoltir af því að hafa lagt sinn skerf til þess að leysa greiðsluvanda ríkisins. En þá ber stjórnvöldum að vinna almennan rétt þeirra.

Örorku fylgir jafnan kostnaður og tími er til kominn að ráðamenn átti sig á því. Engir öryrkjar vinna á fréttastofu Ríkisútvarpsins og þar á bæ virðast menn ófróðir um þessi mál.

Ætli heyrist ekkert í þeim fáu öryrkjum sem sitja nú á alþingi? Hvernig stendur á því að enginn þeirra ræðir málefni lífeyrisþega í óundirbúnum fyrirspurnum? Er það vegna þess að einhverjir þeirra eru í stjórnarliðinu? Spyr sá sem ekki veit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

furðulegt. svo var þetta fyrsta frétt á RUV í gær. skrifaði og tók kaldhæðnisvinkilinn á málið.

vænti þess að fólk átti sig á kaldhæðninni og sjái innihaldið að baki henni.

Brjánn Guðjónsson, 10.2.2010 kl. 20:33

2 Smámynd: Ísleifur Gíslason

Þetta er mikið rétt hjá þér Arnþór, og til háborinnar skammar ef á að fara að hrófla við þessu.

Ísleifur Gíslason, 10.2.2010 kl. 23:39

3 Smámynd: Einar  Lee

Ég er ekki alveg að átta mig á því hvernig þið fáið út að fréttamenn séu að ásækja öryrkja hérna. Þetta er að sjálfsögðu ekki rétt að öryrkjar geti fengið bætur frá tveim ríkisstofnunum almannatrygginga. Þó vinnandi fólk greiði í Tryggingasjóð þa er það ekki bara vegna atvinnuleysis. Ég fylgdist með fréttinni og þetta voru ekkki nornaveiðar að mínu mati heldur þvert á móti.Hér er um óeðlilega færslur innan ríkisins og þarf að lagfæra. Má aldrei ræða mál öryrkja án þess að menn tali um fordóma og nornaveiðar. Þeir ræddu líka gæsluvarðhaldsfanga, voru þeir þá líka að fordæma þá? Eða mennina sem fengu vinnu í tónlistarhúsinu og voru erlendir iðnaðarmenn að vinna og líka á bótum, léleg laun gerðu að verkum að mennirnir héldu skráningunni hjá VS......voru það líka nornaveiðar?

Svona umræða er bara til að skapa meiri fordóma í garð öryrkja að mínu mati og menn eins skarpir í hugsun og þið ættuð að vara ykkur á að fara niður þessa braut!!!!

Einar Lee, 10.2.2010 kl. 23:55

4 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Það var með ólíkindum að þetta skyldi vera fyrsta frétt í Sjónvarpi í gærkvöldi. Eftir allt arðránið, sem þessi þjóð hefur orðið fyrir, er sem sagt loksins kominn tími til að fjalla um alvöru skúrka; öryrkja á atvinnuleysibótum.

Loksins vitum við hvert peningarnir fóru. Ekki til Tortóla, heldur í "peningahimnaríki" atvinnulausra öryrkja.

Miður smekklegt, svo ekki sé meira sagt.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 10.2.2010 kl. 23:58

5 Smámynd: Einar  Lee

Er það góð rökræða Hildur að ef öryrkjar misnota kerfið þá má ekki ræða það því að það eru stærri krimmar þarna út?   Hahahaha voða glapstig er umræða um öryrkja komin á.....jahérna

Einar Lee, 11.2.2010 kl. 00:40

6 Smámynd: Rafn Gíslason

Einar öryrkjar voru ekki að misnota kerfið þetta er lögborin réttur þeirra hvað svo sem þér kann að finnast um það, en ég tek undir með Hildi væri ekki nærtækara að amast við því fólki sem virðis komast upp með að velta skuldum sínum og það í miljarða vís yfir á almenning og sverfa að þeim í stað þess að mála öryrkja sem einhverja glæpamen, það er lítilmannlegt að mínu viti og lýsir of á tíðum lélegu innsæi í afkomu þeirra og velferð.

Rafn Gíslason, 11.2.2010 kl. 15:48

7 Smámynd: Sveinn Elías Hansson

Fer fólk ekki á örorkubætur af því að það getur ekki unnið?

Og á fólk ekki að fara af örorkubótum ef það getur unnið?

Sveinn Elías Hansson, 11.2.2010 kl. 17:50

8 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Engin sérfræðingur er ég nú í málefnum öryrkja og/eða atvinnulausra. Veit þó að sumir öryrkjar eru færir um að vinna að einhverju marki, þó að öryrkjar séu, enda örorka mismikil eftir atvikum.

Sýnist að tryggingakerfið ætti að hvetja jafnt öryrkja sem atvinnulausa til að taka þá vinnu sem þeir treysta sér til og þeim kann að bjóðast, án þess að bætur þeirra skerðist svo að það "borgi" sig að sitja frekar heima í einangrun og aðgerðarleysi.

Slíkt eða bæði ómannlegt og þjóðhagslega óhagkvæmt.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 12.2.2010 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband