"Hann er einstök gersemi"

Í gærkvöld var endurfluttur á rás 1 þáttur þeirra Bergljótar Baldursdóttur og Jóhönnu Harðardóttur um íslenska fjárhundinn sem útvarpað var árið 1995. Var það fjallað um einstakt eðli og eiginleika hundanna og rakin saga þess að næstum hafði tekist að útrýma þeim um miðja síðustu öld.

Þátturinn er einn hinna vel gerðu útvarpsþátta sem hafa verið fluttir að undanförnu undir nafninu „Útvarpsperlur“.

Lítið hefur borið á því að undanförnu að vandaðir þættir hafi verið gerðir fyrir Ríkisútvarpið. Þó eru þar nokkrar undantekningar á og hefur Víðsjárliðið staðið að nokkrum slíkum. Eftir að lausráðnir dagskrárgerðarmenn voru slegnir af í niðurskurðinum hefur dagskrárgerð hrakað. Það er eins og allur neisti sé horfinn úr dagskrárgerðinni og fastir þættir orðnir steingeldir. Það er sagt stafa af því að fastráðnir dagskrárgerðarmenn séu þrautpíndir til hins ítrasta og hafi lítinn tíma til að sinna öðru en daglegum störfum.

Ég hef einatt velt fyrir mér hlutverki Ríkisútvarpsins og hvernig megi spara þar á bæ. Þegar litið er á sjónvarpið kemur í ljós að það er í raun stærsta kvikmyndaleiga landsins. Munurinn á sjónvarpinu og öðrum kvikmyndaleigum er sá að menn leigja sér myndir á öðrum leigum en sjónvarpið treður upp á áhorfendur því efni sem stjórnendum þóknast.

Í öllum niðurskurðinum væri ráð að stytta dagskrá sjónvarpsins og skera við trog kvikmyndirnar sem boðnar eru áhorfendum. Í staðinn mætti talsetja meira efni eða hreinlega verja fénu til vandaðri útvarps- og sjónvarpsþáttagerðar. Þá drægi úr áreiti enskunnar sem virðist á góðri leið að ganga frá íslenskri tungu.

Með sjónvarpinu varð eitthvert mesta menningarrof í íslensku samfélagi sem um getur, jafnvel verra rof en varð með innrás erlendra herja árið 1940. Hin myndræna framsetning hefur nú tekið við í æ ríkara mæli af munnlegri frásögn og mest efni er á ensku. Enskan bylur á hlustum fólks og skaðar málvitund barna og fullorðinna. Að vísu skal viðurkennt að flest efni barnatíma sjónvarpsins er með íslensku tali.

Flestar menningarþjóðir setja tal við erlendar kvikmyndir sem sýndar eru í sjónvarpi og Íslendingar þyrftu að hafa metnað til þess að haga sér eins. Telji þeir sig ekki hafa efni á því er eins gott að viðurkenna það, stytta dagskrá sjónvarpsins og veita fjármunum í annað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

flestar menningarþjóðir segiru.. ertu þá að meina austantjaldsþjóðirnar og þýkaland ?

Óskar Þorkelsson, 22.5.2010 kl. 04:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband