Drenglyndi Árna Johnsen

Árni Johnsen, alþingismaður, ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fjallar um hlutskipti Björgvins G Sigurðssonar eftir að hinn síðarnefndi tók sér hlé frá þingmennsku. Ræðir Árni um hlut Samfylkingarinnar að því sem hann kallar rógsherferð á hendur þessum fyrrverandi ráðherra flokksins og ræðir hvernig hann var sniðgenginn á meðan hann gegndi embætti viðskiptaráðherra.

Árni er drengur góður og verður yfirleitt einna fyrstur til þess að rétta hlut þeirra sem honum þykir hallað á. Að vísu notar hann tækifærið og nýr Samfylkingunni upp úr málum Björgvins og ef til vill ekki að ósekju. Það var svo áberandi hvernig björgvin var sniðgenginn sumarið 2008 að eftir á að hyggja sætir furðu að menn skyldu ekki hafa orð á því. Miðað við þær ávirðingar sem bornar eru á ráðherra ríkisstjórnar Geirs og Ingibjargar í Sturlunga sögu hinni nýju er hlutur Björgvins ekki mikill enda virðist hann vart hafa vitað hvaðan á hann stóð veðrið.

Björgvin bauð sig fram til þingsetu sumarið 2009 þótt ýmsir hefðu talið rétt af honum að bíða átekta og fá sér annað starf. En hann hlaut glæsilega kosningu og greinilegt var að kjósendur vildu hann á þing.

Hvort sem Björgvinn G. Sigurðsson er fórnarlamb rógburðar eða verður að gjalda þess sem gerðist í ráðherra tíð hans er eitt víst. Samtök eins og stjórnmálaflokkar og jafnvel líknar- og hagsmunasamtök fleygja fólki yfirleitt út í ystu horn þóknist það ekki ráðandi forystu hverju sinni. Því verður Björgvin að sæta eins og fleiri. Honum ætti þó ekki að verða allar bjargir bannaðar því að hann kann sitthvað annað til verka en að gegna þingmennsku.

Árni Johnsen leggur með grein sinni athyglisverð rök á borð til varnar þingbróður sínum. Einhverjir kunna að hafa aðrar skoðanir á málinu. en söm er gjörð hans. Það er vel þegar menn láta samviskuna ráða og rita það sem býr þeim í brjósti, jafnvel þótt það kosti að synda þurfi gegn straumnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband