Á ævinlega að fyrirgefa þeim sem þykjast ekki vita hvað þeir gjöra?

Í dag greinir Morgunblaðið frá því að eftir nokkra daga verði undirritað samkomulag um að færa málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna. Miðað sé við að ekki færri en 7.000 manns verði á hverju svæði. Þannig verði Vestfirðir eitt þjónustusvæði svo að dæmi sé tekið.

Fullyrt er að þjónusta við fatlað fólk batni við þessa breytingu og hún færist á eina hendi. Er þá vafalaust átt við félagsþjónustu sveitarfélaganna. Ýmis þjónusta hlýtur þó að verða áfram á landsgrundvelli, svo sem úthlutun hjálpartækja o.fl., en það kemur ekki fram í greininni þar sem m.a. er vitnað í Halldór Halldórsson, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga og blaðamaðurinn virðist ekki hafa haft þekkingu til þess að inna nánar eftir smáatriðum. Þá vekur athygli að ekki skuli rætt við forystumenn samtaka fatlaðra um málið.

Árni Páll Árnason telur að nokkurt hagræði muni verða af þessari breytingu. Ekki er ljóst af orðum hans hvort hann hugsi þá fremur um hag ríkissjóðs en fatlaðs fólks. Miðað við reynsluna sem orðið hefur á þessu sviði á Norðurlöndum, setur að mörgum kvíða. Þar er þjónusta við fatlað fólk afar mismunandi eftir því hvar fólk býr. Dæmi eru þess að fólk flytji milli sveitarfélaga til þess að fá betri þjónustu. Í Danmörku neita sum þjónustusvæðin blindu fólki um nauðsynleg hjálpartæki á meðan önnur eru sveigjanlegri í afstöðu sinni. Þá hefur einnig verið kvartað undan því m.a. í Noregi að lítil þekking sé á einstökum málaflokkum fatlaðra hjá sveitarfélögunum og valdi það skjólstæðingum (neytendum) miklum óþægindum.

Nú veit ég ekki hvort samtök fatlaðra hafi verið höfð með í ráðum þegar þessi ákvörðun var tekin. Sveitarfélögin og stjórnvöld hafa hyllst til að fara sínu fram í þessum málaflokki án teljandi samráðs enda er yfirfærslan nánast eins og trúarbrögð í æðstu stjórn félagsmálaráðuneytisins og síðan bætist Samfylkingin við sem algert forræðishyggjuafl á þessu sviði.

Sjálfsagt verður ekkiauðvelt að vinda ofan af þessari vitleysu. En hræddur er ég um að erfitt verði að fyrirgefa þeim sem vita ekki hvað þeir gjöra, þótt Jesús hafi beðið Guð að fyrirgefa illgerðamönnum sínum hér um árið því að þeir vissu ekki hvað þeir gerðu. Ætla menn að taka hann sér til fyrirmyndar og láta hvað sem er yfir sig ganga? Hvað segir Öryrkjabandalagið?

Höfundur er fyrrum formaður Öryrkjabandalags Íslands og síðar framkvæmdastjóri þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband