Enn um GPS og aðgengi blindra

Adam var ekki lengi í Paradís.

Þegar ég kveikti á GPS-tækinu í Nokia 6710 í gærkvöld var fátt eins og það átti að vera. Ég gat fundið með tilfæringum uppáhaldsleiðir, farnar slóðir og leit, en annað eins og staðir, sem silgreindir eru eftir flokkum, fannst ekki nema með höppum og glöppum.

Því renndi ég mér á foraðið í dag og skráði hjá mér allar tilraunir mínar til þess að nálgast hina ýmsu kosti GPS-tækninnar. Þær báru lítinn árangur.

Það virðist skorta nokkuð á að ég hafi grætt á þessari uppfærslu kortsins. Þá virðist einnig sem aðgangur að GPS-búnaðinum sé fremur takmarkaður hjá framleiðanda talgervils-forritsins. Hef ég því gert vopnahlé í bili þar til ég fæ einhvern sem er sólginn í tæknifikt til þss að skoða með mér hvort ekki sé hægt að finna aðgengilega leið að tækniundrum símans. Þó komst ég að því að ég get skráð inn einstaka staði með lítilli fyrirhöfn og er það nokkur bót í máli.

Í eigingirni minni þykir mér sem öll tæki, farsímar, tölvur og önnur tæki sem létta fólki lífið, jafnvel bifreiðar, ættu að vera aðgengileg öllum. Ef til vill upplifi ég það fyrir nírætt að geta lagt af stað á hjóli að heiman með sjáfstýringu á og farið þangað sem ég vil. Sérstakir skynjarar þyrftu þá að vera á hjólinu til þess að vara við gangstéttum og öðrum hindrunum, holum og öðrum hættum. Þegar slíkt hjól verður fundið upp og flutt til landsins býð ég mig fram þótt búast megi við að ég sleppi vart frá slíkri tilraun í tölu lifenda. Þá geng ég aftur og sýni mig svífandi yfir umferðinni á hjóli, helst á háannatíma. Það verður skemmtilegt að verða reiðhjólsdraugur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband